30.09.2018 07:35

S. k. Þórir RE 194. LBFD.

Skonnortan Þórir RE 194 var smíðaður af N.P. Petersen í Thurö í Danmörku árið 1886 fyrir Geir Zoega kaupmann og útgerðarmann í Reykjavík, hét fyrst Geir (gamli Geir). Eik 35 brl. Fékk síðar skráningarnúmerið RE 194. Geir var seldur, sennilega árið 1908, þegar Geir Zoega hætti útgerð, Bergi Rósinkranssyni kaupmanni á Flateyri við Önundarfjörð, hét Geir ÍS 114. Árið 1916 er Geir gerður út af Hannesi B Stephensen & Co á Bíldudal. Árið 1917 er Geir kominn í eigu hf Kveldúlfs í Reykjavík, heitir þá Þórir RE 194. Margir frægir aflaskipstjórar voru með Þórir á þessum árum, s.s. Snæbjörn Stefánsson, Guðmundur Jónsson, Sigurður Guðbrandsson og fl. Sama ár var sett 50 ha. Bolinder vél í bátinn. Báturinn var seldur 1933, Jóni Sveinssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Torfi Halldórsson var þar skipstjóri um tíma. Ný vél (1934) 90 ha. June Munktell vél. Þórir strandaði á Kerlingarskeri í Skerjafirði 7 mars árið 1941. Áhöfninni, 13 mönnum var bjargað um borð í dráttarbátinn Magna. Þórir náðist út, en ekki þótti svara kostnaði að gera við hann.


Vélbáturinn Þórir RE 194. Hét áður Geir og jafnan kallaður "gamli" Geir.       Ljósmyndari óþekktur.

              Skonnortan "Geir"

Kaupmaður Geir Zoéga eignaðist í haust nýtt þilskip í viðbót til fiskiveiða, skonnert, sem heitir Geir, 35 smálestir að stærð, er hann hefir látið smíða fyrir sig í sumar í Thurö í Danmörku. Smiðurinn heitir N. P. Petersen. Skip þetta er mjög vandað í alla staði, að efni, lagi og öðrum frágangi, og sjerlega traust. Það kvað hafa kostað með öllum útbúnaði velvönduðum um 9. 1/2 þús. kr., þar sem það var smíðað. Þilskip til fiskiveiða hjer við land þurfa að vera vel traust, og vönduð að öllum útbúnaði, en það hlýtur að koma fram í verðinu, enda mun í fáum tilfellum jafn-viðsjált eða óhyggilegt að gangast mest eða nær eingöngu fyrir lágu verði, eins og í þilskipakaupum.

Ísafold. 17 nóvember 1886.


             V.b. Þórir strandar

Um miðnætti í nótt barst Slysavarnafjelaginu tilkynning frá skipstjóranum á v.b. Þórir, um að skipið væri strandað einhversstaðar í nánd við Skerjafjörð, en svarta þoka var og vissu skipverjar ekki hvar þeir voru staddir. Slysavarnafjelagið fjekk dráttarbátinn Magna til að fara og leita Þóris í nótt. V.b. Þórir er rúmlega 30 smálestir og er gerður út hjeðan frá Reykjavík.

Morgunblaðið. 8 mars 1941.


Flettingar í dag: 507
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 708
Gestir í gær: 231
Samtals flettingar: 1922885
Samtals gestir: 487669
Tölur uppfærðar: 13.7.2020 20:44:02