21.10.2018 09:14

Skógafoss GK 280.

Vélbáturinn Skógafoss GK 280 var smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1929 fyrir Valdimar Kristmundsson útgerðarmann í Keflavík. Fura. 20 brl. 45 ha. Rapp vél. Ný vél (1933) 65 ha. June Munktell vél. Seldur 6 janúar 1937, Gunnari Guðjónssyni og Gísla Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Víðir VE 326. Báturinn fórst í róðri með allri áhöfn, 5 mönnum 6 febrúar árið 1938. Stuttu síðar fannst brak úr honum rekið á Álfhólsfjöru í Vestur Landeyjum.

 
Skógafoss GK 280 í bóli sínu í Keflavík.                                                   (C) Gestur Oddleifsson.

          Nýr bátur til Keflavíkur

"Skógafoss" heitir 20 smálesta vélbátur, nýkominn frá Noregi, er liggur hér við Steinbryggjuna. Báturinn er nýr og smíðaður fyrir Valdimar Kristmundsson formann og útgerðarmann í Keflavík. Umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar og vélarinnar, O. Ellingsen, bauð blaðamönnum og ýmsum fleirum að skoða bátinn í gær. Var farið á bátnum út fyrir Engey, svo að gestunum gæfist kostur á að sjá ganghraða hans. Báturinn er smíðaður í Rosendal í Noregi. Viðir bátsins eru að mestu leyti úr furu. Stærð hans er eins og áöur er sagt rúmlega 20 smálestir. Vélin hefir 45 hestöfl og heitir "Rap". En af þeirri vélategund er mikið notað í norska fiskibáta. Mannaíbúð er aðeins í framstafni og er þar vistleg íbúð fyrir 6,menn. Vélin knýr bátinn 8 1/2 mílu á vöku í sæmilegu veðri. Báturinn verður raflýstur hér. Hingað kominn mun hann kosta um 30 þúsundir ísl. kr., og er það mun ódýrara en hægt mun að smíða báta fyrir hér líkrar stærðar. Báturinn var 4 sólarhringa og 6 klst. frá Björgvin til Keflavíkur, er það óvenjulega fljót ferð á smáskipi að vetrarlagi þessa leið. Skipstjórinn var Kristján Kristjánsson, sá er stýrði "Gottu" í sumar í Grænlandsleiðangrinum.

Alþýðublaðið. 9 desember 1929.

                      Átakanlegt slys 

   M.b. Víðir VE 326 ferst með allri áhöfn                            fimm mönnum.

Þann 6. þ. m. var hér hægviðri snemma morguns og reru allmargir bátar. Í birtingu tók að hvessa á suðaustan, og um hádegi var komið hvassviðri. Eftir kl, tvö fór aftur að hægja og vindur að ganga suðlægari. Meðan vindurinn var mestur var mikil snjóhríð, er síðar um daginn breyttist í rigningu. Þegar leið á daginn fóru bátar smátt og smátt að koma heim og allir komu þeir heim um kvöldið nema m.b. Víðir VE 326. Um kvöldið fór varðskipið Þór að leita hans. Einnig leitaði m.b. Ver nokkuð um kvöldið. M.b. Víðir hafði lagt línu sína um 25 sjóm. NV. frá Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir leit nokkurra skipa í fullan sólarhring sást ekki til bátsins. Fóru menn þá að verða vonlausir um heimkomu hans, þó að öllum sjómönnum kæmi saman um það, að eitthver óvænt óhapp, annað en stormurinn, hefði grandað bátnum. Báturinn var vel sterkur, vel útbúinn, 20 tonn að stærð og vel mönnum skipaður.
Skipstjóri var Gunnar Guðjónsson 32 ára,
Gísli Guðjónsson 1. vélstjóri 23 ára, bræður frá Kirkjubæ hér,
Ólafur Markússon frá Fagurhól hér, 2. vélstjóri um tvítugt
og tveir Eyrbekkingar Árni Bjarnason og Halldór Þorleifsson.
Allir vaskleikamenn. Nú má telja víst að bátur þessi hafi farist með allri áhöfn, enda hefir heyrst um rekald úr honum á Landeyjasandi. Það er alltaf hörmulegt að ungir menn og frískir hverfi í fullu fjöri, og í þessu tilfelli er ekki síst sorglegt til þess að vita, að móðir bræðranna, Gunnars og Gísla, Halla Guðmundsdóttir, hafði áður mist tvo syni sína í sjóinn, á unga aldri, hér við Eyjar. Eftir að þetta var skrifað, hefir bátinn rekið upp á Landeyjasand, brotinn til ónýtis. Hvers vegna báturinn hefir lent þarna í brotsjóum skamt frá landi verður aldrei vitað með vissu, en sennilega hefir kompáskekkja eða vélarstopp valdið þessu hörmulega slysi.

Víðir. 10 tbl. 19 febrúar 1938. 


Flettingar í dag: 256
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689202
Samtals gestir: 51461
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 08:27:43