29.10.2018 12:37

414. Fjalar VE 333. TFPE.

Vélbáturinn Fjalar VE 333 var smíðaður hjá Holms Skeppsvarv í Raa í Svíþjóð árið 1955 fyrir Helga Benediktsson kaupmann og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 49 brl. 180 ha. June Munktell vél. Seldur 14 desember 1965, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf, hét Fjalar ÁR 22. Ný vél (1970) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 13 desember 1972, Sveinbirni Sveinssyni og Sigurði Hreiðarssyni í Stykkishólmi og Jónatan Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Sigurður Sveinsson SH 36. Seldur 11 desember 1973, Jónatan Jóhannessyni í Reykjavík og Garðari Jóhannessyni og Eðvarð Vilmundarsyni í Keflavík, hét Græðir KE 141. Seldur 22 júlí 1977, Jóni Gesti Sveinbjörnssyni og Ómari Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét Þröstur SH 130. 14 september 1977 voru Ómar Sigurðsson í Stykkishólmi og Örn Snorrason á Blönduósi skráðir eigendur, hét þá Þröstur HU 130. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 20 september árið 1979.


414. Fjalar VE 333 í prufusiglingu.                                                  (C) Holms Skeppsvarv í Raa.


414. Fjalar VE 333 sjósettur haustið 1954.                                 (C) Holms Skeppsvarv í Raa.

             V.b. Fjalar VE 333

Fjalar, annar þeirra fiskibáta, sem Helgi Benediktsson hefur látið byggja í Svíþjóð kom til Vestmannaeyja 22. febrúar s. l. eftir viðkomu í Færeyjum vegna leiðréttingar á áttavita. Fjalar er að öllu af sömu gerð og Frosti, sem kom fyrir áramótin. Báturinn er byggður í Raa með 180 hk. June Munktell aðalvél, sem búin er olíudrifinni gangskrúfuskiptingu, auk ljósavélar. Í bátnum er olíudrifin línu og netavinda, M. P. Petersen talstöð og miðunarstöð, dýptarmælir ásamt öllum þeim fullkomnustu og beztu tækjum sem notuð eru í fiskibátum. Gísli J. Johnsen, stórkaupmaður í Reykjavík, hafði milli göngu um samning um byggingu bátsins, en báturinn er byggður samkvæmt smíðalýsingu og miðbandsuppdrætti er Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari í Vestmannaeyjum gerði, og mun vera bezt gerða og nákvæmasta smíðalýsing, sem samin hefir verið af íslenzkum manni. Yfirbygging bátsins er úr létt málmi og íbúðir skipverja mjög vistlegar og vel frágengnar. Umsjón með byggingu bátsins annaðist Stefán Helgason, er nú er nýkominn heim eftir dvöl í Svíþjóð frá því í októbermánuði, en eftirlitsmaður af hálfu Skipaskoðunar ríkisins var Hans Hansson, skipstjóri í Gautaborg. Skipstjóri á heimsiglingunni var Sævaldur Runólfsson, sem verður skipstjóri á bátnum í vetur, en Bogi Sigurðsson stýrimaður. Vélstjórar voru Ingólfur Kristjánsson og Rafn Sigurbergsson.  Fjalar kom fullbúinn til fiskiveiða.

Framsókn. 4 tbl. 4 mars 1955.


Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960295
Samtals gestir: 496296
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 05:31:34