05.11.2018 19:07

E. s. Fjallfoss l / TFCB.

Eimskipið Fjallfoss l var smíðaður hjá N.V. Haarlemsche Scheepsbouw Maatschappij í Haarlem í Hollandi árið 1919 sem Merwede fyrir Hollandsche Stoomboot Mij. í Amsterdam. Fékk svo stuttu síðar nafnið Amstelstroom. 1.451 brl. 1.400 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í apríl 1934, Eimskipafélaginu Ísafold hf í Reykjavík, hét Edda. Skipið var í flutningum milli Íslands og Evrópulanda með viðkomu víða á innlendum höfnum og flutti bæði stykkjavörur og þungavörur í heilum förmum. Skipið var selt í október 1941, hf. Eimskipafélagi Íslands, hét þar Fjallfoss, sá fyrsti með þessu nafni. Fjallfoss var í Ameríkusiglingum til loka seinni heimstyrjaldar og hóf þá Evrópusiglingar. Skipið var selt í maí 1951, Sargena Societa Armamento Gestione Navi S.p.A. á Ítalíu, hét þar Sidera. Skipið var selt 1957, M.A. Bakhashab í Saudi-Arabíu, hét Ommalgora. Selt 1968, Orri Navigation Lines í Saudi-Arabíu, hét þá Star of Taif. Talið ónýtt og því var sökkt í Rauðahafi við borgina Jeddah í Saudi-Arabíu í ágústmánuði árið 1978.


E.s. Fjallfoss l í Reykjavíkurhöfn.                                                           (C) Vigfús Sigurgeirsson.

     
     Edda, stærsta skip íslenska flotans       
      
         kom í fyrsta sinn til landsins í gær


Í gær kom til Hafnarfjarðar hið nýja skip Eimskipafjjelagsins Ísafold, Edda nefnt, sem hið fyrra skip með því nafni, er strandaði nálægt Hornafirði í vetur. Skip þetta keypti fjelagið í Hollandi, og önnuðust þeir kaupin, Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og Gísli Jónsson. Edda hin nýja hefir rúmlega 2.000 smálesta burðarmagn og er því heldur stærri en Dettifoss, sem hingað til hefir verið stærsta skip íslenska flotans. Er Edda 271 fet á lengd.
Skipið er byggt árið 1919, var áður í förum milli Hollands og Afríku með farþega og flutning, en farþegarúmi þess hefir verið breytt í Kolahólf. Ganghraði er 12 ½ míla. Skipstjóri er hinn sami og á hinu fyrra skipi fjelagsins, Jón Kristófersson, og er skipshöfnin að mestu leyti hin sama. Skipið kom að þessu sinni með kolafarm til Hafnarfjarðar, en kemur hingað um helgina.

Morgunblaðið. 3 maí 1934.


E.s. Edda á tímum seinni heimstyrjaldar með fánann málaðan á síður skipsins. Ljósmyndari óþekktur.


Star of Taif stuttu áður en skipinu var sökkt í Rauðahafinu.                        (C) Wreck side.

                    "Fjallfoss"

Eimskipafélag Íslands hefir skírt flutningaskipið "Eddu", sem það keypti af Eimskipafélaginu ísafold, "Fjallfoss". Er þetta nafn á fossi í ánni Dynjandi í Arnarfirði. Mynd af þessum fossi er á 10 aura frímerkjum, sem verið hafa í notkun undanfarið og nefndur þar Dynjandi. En þetta er rangnefni. Það er áin, sem heitir þessu nafni, en fossinn, sem er efsti fossinn í ánni, heitir Fjallfoss. Framkvæmdastjóri Eimskipafélags Íslands, tjáði blaðinu að þetta nafn hefði meðal annars verið valið á skipið vegna þess að Vestfirðir hafa til þessa verið afskiptir hvað snertir nöfnin á hinum eldri skipum Eimskipafélagsins. Edda mun þó sigla undir sínu gamla nafni næstu ferð sína til útlanda, vegna þess að ennþá hefir ekki unnizt tími til þess að ganga formlega frá nafngiftinni.

Tíminn. 25 október 1941.

Flettingar í dag: 1367
Gestir í dag: 498
Flettingar í gær: 2631
Gestir í gær: 554
Samtals flettingar: 1959806
Samtals gestir: 496165
Tölur uppfærðar: 8.8.2020 19:33:22