08.11.2018 19:12

V. b. Ársæll GK 527.

Vélbáturinn Ársæll GK 527 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1938 fyrir Magnús Ólafsson, Þorvald Jóhannesson, Bjarnveigu Vigfúsdóttur og Björn Þorleifsson (Sameignarfélagið Ársæll) í Njarðvík. Báturinn kom til landsins hinn 1 júní það ár. Báturinn fórst út af Garðskaga eftir að hafa fengið á sig brotsjó. 4 menn fórust en 1 skipverja var bjargað um borð í vélbátinn Ásbjörgu GK 300 frá Hafnarfirði.


Vélbáturinn Ársæll GK 527.                                                                  Mynd úr Virkinu í Norðri.

                 Nýjir vélbátar

Til landsins hafa verið keyptir 3 nýjir vélbátar og eru 2 þeirra smíðaðir nú í ár, en einn þeirra 1936. Vélbáturinn "Vísir" T. H. 59 kom til landsins 13. maí og er hann 21 smál. að stærð brúttó og hefir 65 hestafla vél. Eigandi hans er Þórhallur Karlsson o. fl. á Húsavik.
Vélbáturinn "Ársæll" kom til landsins 1. júni. Er hann 22 smál. brúttó. Eigandi hans er Magnús Ólafsson, Höskuldarkoti. Báðir þessir bátar eru byggðir í Frederikssund. Þriðji báturinn er frá Grimsby, en byggður í Svíþjóð 1936. Þessi bátur heitir "Keilir" G. K. 92. Er hann 60 smál. brúttó og hefir 120 h.a. Bolindirvél. Eigendur hans eru Haraldur Böðvarsson & Go., Sandgerði.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1938.


Ársæll GK 527. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

      Vélbáturinn Ársæll GK ferst

Síðari hluta dags í fyrradag vildi það slys til, að einn vélbátanna frá Suðurnesjaverstöðvunum, sem var þá á heimleið, fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Fimm menn voru á bátnum og fórust fjórir þeirra, en nærstöddum bát tókst að bjarga einum mannanna.
Bátur þessi var v.b. "Ársæll" frá Ytri-Njarðvík. Var hann staddur um 4-5 mílur út af Skaga, á heimleið, þegar hann fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Vélbáturinn "Ásbjörg" frá Hafnarfirði var nærstaddur og tókst honum að bjarga einum manni af "Ársæli", Símoni Gíslasyni vélstjóra, sem var staddur í stýrishúsinu, ásamt skipstjóranum, Þorvaldi Jóhannssyni, þegar brotsjórinn skall yfir bátinn. Vélbáturinn "Ásbjörg" beið all lengi á slysstaðnum, en varð einskis var. Þeir, sem fórust með "Ársæli" voru þessir:
Þorvaldur Jóhannsson, skipstjóri frá Njarðvík, 42 ára, kvæntur og átti 2 börn.
Pétur Sumarliðason frá Ólafsvík, en nýfluttur til Njarðvíkur. Hann var 26 ára, kvæntur og átti 2 börn. Guðmundur Sigurjónsson frá Lundi í Njarðvík. Hann var 24 ára, ókvæntur.
Trausti Einarsson frá Ólafsvík.
Vélbáturinn "Ársæll" var 22 smálestir, smíðaður í Frederikssund í Danmörku 1938. Eigendur var sameignarfélagið "Ársæll" í Njarðvík.

Þjóðviljinn. 6 mars 1943.


Flettingar í dag: 493
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720390
Samtals gestir: 53508
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 06:38:08