17.11.2018 07:13

B. v. Egill Skallagrímsson RE 165. LCGP / TFJC.

Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1916 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 308 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 663. Eftir að smíði hans lauk, var togarinn tekin í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari og bar nafnið Iceland þar. Skipið kom ekki til landsins fyrr en á árinu 1919. Egill Skallagrímsson var fyrstur íslenskra togara að fá loftskeytatæki og var það árið 1920. Egill var einn af þeim togurum sem lentu í Halaveðrinu mikla og varð einna harðast úti af þeim, og litlu mátti muna að enginn hefði orðið til frásagnar þar um borð. Snæbjörn Stefánsson var þá skipstjóri. Seldur 26 maí 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Drangey í Reykjavík, hét Drangey RE 166. Seldur 28 febrúar 1945, Engey hf í Reykjavík. Togarinn var seldur til Svíþjóðar og tekinn af íslenskri skipaskrá 20 maí árið 1948.


Kveldúlfstogarinn Egill Skallagrímsson RE 165.                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

      Egill Skallagrímsson RE 165

Hinn nýji botnvörpungur Kveldúlfsfélagsins hér í bænum, kom hingað 6. þ. m. frá Grimsby á Englandi. Hann var smíðaður í Englandi árið 1916, en vegna ófriðarins fékk félagið hann ekki afhentan fyrr en nú. Er sagt að Englendingar hafi notað skipið til þess að slæða tundurdufl. En ekki hefir það sakað og nú er það hingað komið og á að taka til óspiltra málanna við fiskveiðarnar. Skipstjóri verður Guðmundur Jónsson, sá er áður stýrði Skallagrími. Skip þetta er stærst af botnvörpuskipum þeim er íslendingar enn hafa eignast, 312,84 registertonn brúttó og 160.20 nettó.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1919.


Um borð í Agli Skallagrímssyni. Trollið tekið og pokinn flýtur við síðuna.

                60 ár frá Halaveðrinu
     "Hafði ekki vit á að vera hræddur"
  Viðtal við Hilmar Norðfjörð loftskeytamann
                   á Agli Skallagrímssyni

Hilmar Norðfjörð var loftskeytamaðurá togaranum Agli Skallagrímssyni í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925 og segir hér frá þeirri reynslu sinni, en allt brotnaði sem brotnað gat á togaranum og hann rak stjórnlaust á hliðinni í meira en sólarhring.
Ég hafði ekki vit á að vera hræddur, var bara átján ára. Það var eins og með sveitamennina sem fóru á vertíð og voru spurðir að því hvort þeir væru að fara til sjós. Nei, ég er að fara á togara, sögðu þeir. Það er Hilmar Norðfjörð loftskeytamaður sem hefur orðið, en hann er einn af fáum núlifandi Íslendingum sem lentu í Halaveðrinu mikla fyrir réttum 60 árum en þá fórust tveir stórir togarar með manni og mús og fleiri voru mjög hætt komnir. Sá togari, sem varð einna verst úti en komst þó af, var Egill Skallagrímsson. Á honum brotnaði allt sem brotnað gat og skipið rak stjórnlaust í meira en sólarhring, hálffullt af sjó og eiginlega á hliðinni. Hilmar Norðfjörð var loftskeytamaður á því. Við gefum honum nú orðið;
Ég er fæddur á Sauðárkróki 1906 en er þó af reykvískum ættum. Faðir minn var Jóhannes Norðfjörð úrsmiður og árið 1912 fluttist hann suður og opnaði aftur úrsmíðavinnustofu á ættarlendu sinni í Bankastræti 11.


Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.

Ég fór á námskeið í Loftskeytaskólanum veturinn 1923-1924, annað sem haldið var, síðan beint á bát norður á Raufarhöfn. Þegar ég kom suður aftur bauðst mér pláss á togaranum Agli Skallagrímssyni hjá Snæbirni Steánssyni skipstjóra og var þá nýorðinn 18 ára. Það var í september 1924. Þegar ég kom um borð tók Guðmundur Halldórsson á móti mér og það fyrsta sem hann gerði var að afhenda mér lyklana að apótekinu og sagði: "Þú átt að lækna og gefa lyf". -Og þú hefur náttúrulega aldrei komið nálogt því áður? - Nei, en það var feiknamikill doðrantur um borð sem ég fór að lesa mér til í, og svo kom þetta smám saman. Togaramennirnir fengu mjög oft ígerð og svo voru þeir alltaf að drepast í maganum og þá var það sódapúlverið. Þeir voru alltaf að fá sódapúlver hjá mér. Það hefur verið kjötátið sem gerði þá svona magaveika. - Þeir hafa ekki litið við öðru en kjöti? - Það var alltaf kjöt í hádeginu en fiskur í kvöldmat. Ef það kom fyrir að væri fiskur í hádeginu hentu þeir honum frá sér og sögðu: "Eigum við ekki að fá mat?" Svo tóku þeir til við klukkan 12 á miðnætti og fengu sér afgangana af kjötinu fá því í hádeginu. - Var ekki tiltölulega nýbúið að uppgötva Halann sem fiskislóð um þetta leyti? - Það var svona tveimur árum áður.


Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.
  
Það var alveg hroðalegt með karfann. Það kom kannski fullt troll af karfa, en þá var bara leyst frá pokanum og stímt út. Ekki var litið við öðru en þorskinum. Kveldúlfur átti verksmiðju á Hesteyri og einhvern tíma að haustlagi var byrjað að vinna karfa þar, ég man ekki hvaða ár. Það var byrjunin. - Hvernig skall Halaveðrið á? - Ég var uppi í brú hjá Snæbirni sem oftar og þetta skall óhemjusnöggt á. Við stímdum, fram hjá Leifi heppna og þá voru þeir í hörkuaðgerð, en þá var minn maður að hífa upp. Leifur var örstutt frá okkur og ég hafði samband við hann. - Það mun hafa verið í síðasta sinn sem sást til Leifs heppna. - Já, það var í síðasta sinn sem sást til hans.

 
Loftskeytaklefinn á Agli, fyrsti sinnar tegundar á íslensku fiskiskipi.
 
- Þið lentuð svo í brotsjóum? - Veðrið skall á um fjögurleytið laugardaginn 7. febrúar og fljótlega fór að verða illt í sjóinn. Við vorum um 50 mílur úti og eftir að búið var að hífa upp reyndum við að stíma í átt til lands. Þegar við vorum komnir eitthvað 5 mílur skall á okkur stórsjór og þá var ekki um annað að gera en að lensa eða stíma upp í. - Urðu strax skemmdir á togaranum? - Ekki svo mikið til að byrja með en svo fóru að brotna rúður og allt meira eða minna í brúnni. Loftskeytaklefinn var úr timbri og ekki þótti hættandi á að ég væri í honum lengur, svo að ég pillaði mér aftur í. Um svipað leyti fóru loftskeytastangirnar svo að maður varð sambandslaus. - Urðu engin slys á mönnum? - Seint um kvöldið var einn hásetinn, Vilhjálmur Þórarinsson, sendur út til að hleypa gufunni af spilunum því að hætta var á frostsprungum.


Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE 165 á siglingu. 

Þá kom brotsjór yfir skipið og hann tók út. Bátsmaðurinn var þá að koma upp á vaktina og náði taki á Vilhjálmi og skellti honum inn fyrir. Hinir sem voru að koma á vaktina drógu hann svo upp í brú eftir keisnum því að öðru vísi var ekki fært. Það kom svo í ljós að Vilhjálmur var handleggsbrotinn og fann ákaflega mikið til. Við tókum hann tveir og komum honum í koju aftur í káetu og bundum hann eins vel og við gátum og bjuggum um hann. Vilhjálmur reyndist vera tvíbrotinn og hafði miklar kvalir. Skömmu síðar fengum við svo stórsjó sem lagði togarann á hliðina og káetan fylltist af sjó. Vilhjálmur var þá alveg að drukkna í kojunni. Loftventill í káetunni kubbaðist sundur en við gátum troðið upp í hann einhverju teppadrasli og settum svo Vilhjálm í aðra koju sem var sæmilega þurr. Við reyndum að hagræða honum og hjálpa eftir bestu getu og gefa honum ópíum til að linna kvalirnar. Það var nóg af því í þá daga og gott að maður varð ekki ópíumisti.


Brú og brúarvængur Egils. Skipverji stendur á brúarvængnum.
  
Svo kom hver stórsjórinn af öðrum og ekkert gekk. - Var ekki mikil ísing? - Alveg feiknarleg. - Og svo fylltist vélarrúmið af sjó? - Já, fírplássið fylltist og kyndararnir stóðu í sjó upp á miðja bringu. Nú þurfti að senda menn fram í lest til að færa til fiskinn því að hann hafði allur kastast út í aðra hliðina. Það ætlaði ekki að ganga vel að komast þangað fram en það tókst. Skipið rak stjórnlaust í 30 tíma, mestallan tímann á hliðinni og það tókst ekki að kveikja á ný upp í fírnum fyrr en seint og um síðir. Allar tiltækar fötur voru notaðar til að ausa og stóð maður við mann í því verki. Sá neðsti" stóð hlekkjaður þar sem sjórinn var og síðan voru föturnar réttar frá manni til manns. Þegar skipið fór að rétta við rann sjórinn svo úr lúkarnum þannig að það lækkaði í honum. - Var þetta ekki mikil þrekraun? - Jú, en flestir stóðu sig andsk... vel.


Pokinn kominn inn og mikill fiskur ennþá í belgnum.

Ég man aðeins eftir einum manni sem var dálítið aumur. Maður var svo ungur að maður hafði ekki beint vit á að vera hræddur. - Var nokkur hiti á skipinu? - Nei, það var ískalt nema frammí seinna meir. Þá tókst að kveikja upp og sjóða ýsu í einhverri dós en matarkistan hafði farið fyrir borð eins og annað. Við vorum orðnir mjög hungraðir. - Var engin hotta á að ykkur roki í land? - Nei, það var engin hætta á því, við vorum það langt úti. Þegar fór að lægja vorum við komnir suður fyrir Látrabjarg á rekinu. Seinna var svo gerð mikil leit að þeim togurum, sem ekki komu fram, undir stjórn Magnúsar Magnússonar skipstjóra, sem kallaður var lipri, og þá var leitinni mjög hagað eftir því hvernig okkur hafði rekið. Það voru ekki nema 6-7 tímar til Reykjavíkur, okkur hafði rekið það mikið. - Er Halaveðrið vesta veður sem þú hefur lent í? - Það er alversta veðrið. Jólaveðrið 1924 var ansi slæmt en ekkert þó í líkingu við þetta. Þá misstum við þó lifrartunnurnar líka fyrir borð.


Fullt dekk af vænum þorski.

 - Hvað heldurðu að veðurhæðin hafi verið mikil, kannski 13 vindstig? - Miklu meiri. Það voru himinháir sjóar. Ég var mikið á Halanum eftir þetta en það var aldrei stímað upp ef veðurútlit var ekki gott eftir þetta fárviðri. Oftast nær var þá farið til Flateyrar og stundum til Patreksfjarðar. - Fenguð þið enga aðvörun frá Veðurstofunni? - Nei, ég man ekki eftir að neitt sérstakt hafi verið í veðurskeytunum, kannski að það hvessti eitthvað. En þetta var svo frumstætt til að byrja með, t.d. engin veðurskeyti frá Grænlandi. - Voru ekki fagnaðarfundir þegar þið siglduð inn á Reykjavíkurhöfn? - Jú, það var óttast um mörg skipin og eiginlega sorglegt að ganga niður á höfn fyrst á eftir. Flest skipin voru meira eða minna skemmd, bátarnir farnir og möstrin af sumum. Þó var Egill Skallagrímsson verst farinn af öllum. Þar var allt brotið, ekkert heilt. - Hafði þessi þrekraun engin sálræn áhrif á menn eftir á? - Ég man ekki eftir því.


Fullur poki á síðunni.                                (C) Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.

Þau voru miklu meiri þegar við vorum að sigla í stríðinu. Eg var á Agli í 8-9 ár, síðan á Skallagrími í 5-6 ár og loks á Gylli í 6 ár. Eg sigldi nær allt stríðið en í september 1944 fór ég í land og vann síðan á Veðurstofunni í 33 ár, og var seinni árin deildarstjóri þar. - Var ekki Egill Skallagrímsson fyrsti togarinn sem fékk loftskeytatæki? - Jú, það var árið 1914 sem Kveldúlfur lét smíða þetta skip og þá voru loftskeytin ekki farin neitt að ráði af stað. Englendingar tóku togarann strax eignarnámi og var hann notaður sem tundurduflaslæðari í fyrri heimsstyrjöldinni og hét þá Iceland. Kveldúlfur fékk því skipið ekki afhent fyrr en 1919. Það hlýtur að hafa verið sterkbyggt skip. - Hvernig voru þessi fyrstu loftskeytatæki? - Þau voru mjög frumstæð. Þetta var hjól sem snerist og gerði neista og á gólfinu var heljarkassi með einhverjum tækjum í. Maður mátti passa sig á því að stíga ekki á hann því að þá fékk maður rafmagn. Ég þurfti að vakna kl. 3 á nóttunni til að gefa upp kódann því að þá voru kódafélögin starfandi. Sjálfur gerði ég mikið af því að búa til þessa kóda, bæði til Iands og sjávar.


Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE inn á einum Vestfjarðanna.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Einu sinni fór ég fram úr á sokkaleistunum og var syfjaður og þá steig ég óvart ofan á þennan kassa og fékk rokna högg. Togarinn Skallagrímur kom svo til lands árið 1920 og þá eru komnir lampasendar í stað neistahjólsins og allt annað kerfi. - Komu loftskeyti að einhverju gagni í þessu mikla fárviðri? - Þó nokkuð af skipunum gat haft samband og Þórólfur stóð sig t.d. vel í því. - Þú segir að loftskeytaklefinn á Agli hafi verið úr timbri? - Já, og í þessu veðri skekktist hann heilmikið og fylltist af sjó. Hann var síðan tekinn í land og ég fluttur niður. Ég man að klefinn stóð lengi á Kveldúlfslóðinni. Þeir eru nú orðnir býsna fáir á lífi sem lentu í Halaveðrínu mikla og Hilmar man í svipinn eftir tveimur af Agli sem enn kunna að vera á lífi. Við kveðjum hann með virktum og hann undrast um leið og við göngum út að það séu virkilega orðin 60 ár síðan þetta gerðist.

Þjóðviljinn. 10 febrúar 1985. 
Flettingar í dag: 647
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962301
Samtals gestir: 496948
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 16:21:45