24.11.2018 09:23

V. b. Eggert GK 521.

Vélbáturinn Eggert GK 521 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1930. Eik og fura. 22 brl. 64 ha. Tuxham vél. Eigendur voru Gísli Eggertsson í Garði, Haraldur Kristjánsson, Húsum í Fróðárhreppi, Huxley Ólafsson Þjórsártúni og hf. Sandgerði í Sandgerði frá febrúarmánuði sama ár. Báturinn fórst út af Garðskaga 24 nóvember árið 1940 með allri áhöfn, 7 mönnum.
Vélbáturinn Eggert GK 521.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

           V.b. Eggert GK 521

Vjelbáturinn "Eggert" kom í gær frá Frederikssund í Danmörku. Báturinn er ca. 20 tonn að stærð og er byggður við Frederikssund Skibsværft. Eigandi bátsins er Gísli Eggertsson frá Kothúsum í Garði o. fl., og verður hann skipstjóri bátsins, sem ætlaður er til fiskiveiða hjer við flóann. Skipstjóri á bátnum frá Danmörku var Kristján Kristjánsson, sem var skipstjóri á m.k. Gotta í Grænlandsförinni síðastliðið sumar. Báturinn virðist vera mjög vandaður og reyndist góður í sjó að leggja, og fjekk þó talsvert slæmt veður, einkum þegar dró að Vestmannaeyjum. Báturinn var 11 daga frá Frededikssund, þar af lá hann einn sólarhring í Noregi, tvo í Færeyjum og eina nótt í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 27 febrúar 1930.

 Óttast um vjelbát með 7 mönnum

Mjög er óttast um afdrif vjelbátsins "Eggerts" frá Keflavík, sem fór í róður með reknet s.l. föstudag, en er ókominn að enn. Bátar og flugvjel hafa leitað bátsins, en árangurslaust. Sjö menn voru á "Eggert". "Eggert" réri frá Keflavík, s.l. föstudag í besta veðri. Lagði hann net sín um 16-18 sjómílur SSV af Garðskaga. Klukkan 10 á föstudagskvöld töluðu skipverjar á "Eggert" við menn af öðrum .bátum, er voru þarna á líkum slóðum, og var þá allt í lagi, enda veður ágætt. Klukkan 3 um nóttina hvessti skyndilega af suðri. Á sunnudagsmorgun var hafin leit að bátnum. Tóku þátt í þeirri leit varðskipið "Ægir" og 9 vjelbátar frá Keflavík. Einnig tók þátt í leitinni bresk flugvjel, en leitin bar engan árangur. Ýmislegt ofandekks úr bátnum hefir fundist í Garðssjó, svo sem hlerar og belgir, en báturinn gæti verið ofansjávar fyrir því.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1940.

  Sjö menn fórust með vjelbátnum             "Eggert" frá Keflavík

Vjelbáturinn "Eggert" frá Keflavík. sem fór í róður s.l. föstudag, er nú talinn af og hafa farist með bátnum 7 ungir menn. "Eggert" var 22 smálestir að stærð, byggður í Frederikssund árið 1930 úr eik og furu og var talinn traust skip. Báturinn var með 64 ha. Tuxham vjel. Eigandi bátsins var Loftur Loftsson útgerðamaður. Á "Eggert" voru þessir menn:
Þorsteinn Eggertsson, formaður, 35 ára, kvæntur og átti tvö börn.
Gunnar Haraldsson, vjelstjóri, Skeggjastöðum, Garði, 23 ára, ókvæntur.
Jón Guðbrandsson, Reykjavík, 42 ára, ókvæntur.
Arnar Árnason, Lambakoti, Miðnesi, 22 ára, ókvæntur.
Eiríkur Guðmundsson, Keflavík, 32 ára, kvæntur og átti 1 barn.
Karl Celin, Keflavík, 27 ára, kvæntur, átti 2 börn.
Ragnar Einarsson, Haga, Miðnesi, 23 ára, ókvæntur.
Ekki er vitað með hvaða hætti báturnin hefir farist, en rekald úr honum hefir fundist í Garðssjó, á þeim slóðum, sem síðast varð vart við bátinn.

Morgunblaðið. 29 nóvember 1940.


Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 408
Gestir í gær: 137
Samtals flettingar: 1920360
Samtals gestir: 486906
Tölur uppfærðar: 10.7.2020 06:44:10