25.11.2018 08:58

M. b. Jenný SU 327.

Mótorbáturinn Jenný SU 327 var smíðaður í Danmörku (Frederikssund ?) árið 1908. Eik og fura. 7,97 brl. 8 ha. Dan vél. Fyrsti eigandi var Friðgeir Hallgrímsson kaupmaður á Eskifirði, sennilega frá sama ári. Seldur vorið 1919, Valdóri Bóassyni á Hrúteyri við Reyðarfjörð. Seldur 4 júní 1925, Landsbankanum á Eskifirði. Báturinn var endurbyggður á Eskifirði árið 1925 og mældist þá 10 brl. Einnig var sett ný 15 ha. Rapp vél í hann. Seldur sama ár, Guðjóni Símonarsyni útgerðarmanni á Nesi í Norðfirði. Frá árinu 1930 heitir báturinn Jenný NK 20. Seldur 1931, Þórði Jónssyni í Neskaupstað og Jóni Ólafssyni á Vopnafirði. Árið 1933 eignast Landsbankinn á Eskifirði bátinn á uppboði. Í skipaskrá Neskaupstaðar er báturinn sagður standa uppi ósjófær og ónýtur árið 1934.

Það má geta þess að þegar breski togarinn Clyne Castle GY frá Grimsby strandaði á Bakkafjöru í Öræfum 17 apríl árið 1919 og ljóst varð að honum yrði ekki bjargað, að Valdór Bóasson, eigandi Jennýar og Jóhann Hansson vélsmíðameistari á Seyðisfirði, kaupa flakið. Hér voru tveir miklir dugnaðarmenn á ferð. Jóhann með sína miklu sérþekkingu í vélsmíði og starfi dráttarbrauta og Valdór, áræðinn og bjartsýnn með nýkeyptan bát sinn, Jennýju. Hér var til mikils að vinna, miklir fjármunir í húfi. Það lýsir fádæma áræði að ráðast í þetta björgunarævintýri og hafa til umráða aðeins 8 tonna bátsskel. En víst hefur hann verið freistandi breski togarinn þar sem hann stóð heill og óskemmdur suður á Bakkafjörum. En í tengslum við þetta strand gerast örlagaríkir atburðir, sem enduðu betur en á horfðist.
Einn í hópi björgunarmanna var Gissur Filippusson vélsmiður í Reykjavík. Fær hann Jennýju lánaða með 3 mönnum. Segir ekki af ferðum þeirra fyrr en komið er á áfangastað. Brimsúgur var mikill við ströndina og því kom landtaka ekki til greina. Aftan í Jennýju var lítill árabátur. Var nú það ráð tekið að lána Gissuri hann svo að eigi þyrfti að vera töf á ferðum hans. Náði hann landi og komst leiðar sinnar. En eftirleikurinn hjá þeim sem voru um borð í Jennýju, var ekki eins auðveldur. Fór nú veður mjög versnandi og útlit ekki gott.. Þegar báturinn skilaði sér ekki á réttum tíma, var hafin leit að honum. Fannst hann nokkrum dögum síðar rekinn á Fossfjöru. Var hann lítið skemmdur, en ekkert spurðist til mannanna þriggja, og engin vísbending á strandstað um afdrif þeirra. Löngu síðar kom í ljós að mennirnir urðu að yfirgefa bátinn vegna vonskuveðurs, en voru svo lánsamir að komast um borð í breskan togara sem var í námunda við þá. Fóru þeir svo með honum til Englands. Skipstjóri á Jennýju þá var Jón Árnason frá Eyri í Fáskrúðsfirði. Jón Jónsson fiskifræðingur og fyrrum forstjóri Hafrannsóknarstofnunar var sonur hans.
Það er af flaki Clyne Castle að segja að þeir félagar, Valdór og Jóhann náðu Jennýju á flot, en togarinn sat sem fastast. Náðu þeir töluverðum verðmætum úr skipinu á þeim 3 árum sem þeir unnu við það. Enn má sjá flak togarans í sandinum á Bakkafjörum.

Heimild: 
Guðmundur Magnússon fyrrv. fræðslustjóri.
Skjala og myndasafn Norðfjarðar.


Mótorbáturinn Jenný SU 327 á siglingu á Norðfirði.                                        Ljósmyndari óþekktur. 


Botnvörpungurinn Clyne Castle GY á strandstað á Bakkafjörum árið 1922. Togarinn var smíðaður hjá Smith's Dock Co Ltd í North Shields á Englandi árið 1907 fyrir Castle Steam Trawlers Ltd í Swansea. 252 brl. Togarinn var í eigu Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby þegar hann strandaði á Bakkafjörum.  Ljósmyndari óþekktur.

            Strand og hrakningar

Snemma á síðastliðnu vori strandaði á Breiðamerkursandi í Skaftafellssýslu enskur botnvörpungur "Clyne Castle" og komust allir menn af. Voru þeir eftir ráðstöfun sýslumanns fluttir austur á Hornafjörð og þaðan sjóleiðis til Seyðisfjarðar. Tilraun var gerð, af björgunarskipinu "Geir", til þess að ná hinu strandaða skipi út, en hepnaðist eigi. Það var síðan keypt af nokkrum Austfirðingum og fl., er hafa verið við strandið í sumar við tilraunir að koma því á flot, sem einnig hefir mistekist. Síðan hafa þeir unnið úr því og flutt burt það, er fémætt var. Þar með var einnig vélasmiður Gissur Filippusson héðan úr Reykjavík. Fékk hann fyrir stuttu lítinn mótorbát af Austfjörðum, er var við strandstaðinn, til þess að flytja sig þaðan og út á Síðufjörur. Er þangað kom vildu bátsmenn, sem voru aðeins þrír, eigi setja hann á land, þar sem þeir óttuðust að þeir ef til vill kæmnst ekki út aftur. Fékk hann þá hjá þeim bátshorn, er þeir höfðu aftaní, til þess að fara einn í upp í fjörurnar og skolaði honum upp. Komst hann til bygða og er nú kominn hingað. En það er af mótorbátnum að segja, að hann lenti í mestu hrakningum, því að á skall stormur, er hann hélt austur, og kom hann eigi fram. Um sama leyti var hingað símað austan úr Skaftafellssýslu, til sýslumanns Gísla Sveinssonar alþingismanns, að mannlaus mótorbátur væri rekinn upp á Fossfjöru þar í sýslunni, tómur en lítið skemdur. Þótti þegar líklegt, að þetta væri austanbáturinn, og skömmu seinna fékk eigandi hans, Valdór Bóasson á Reyðarfirði, fregn um það símleiðis, að mennirnir væru komnir heilir á húfi til Englands, höfðu komist af í brezkan botnvörpung.

Ísafold. 15 september 1919.


Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 244
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962237
Samtals gestir: 496937
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 15:25:23