14.12.2018 20:03

B. v. Surprise GK 4 á síldveiðum.

Ljósmyndin hér að neðan er af togaranum Surprise GK 4 frá Hafnarfirði þar sem hann er á síldveiðum á stríðsárunum, sennilega fyrir norðan land. Ekki annað séð en hann sé kominn með fullfermi og vel það. Það gæti alveg verið að hann sé á veiðum á Húnaflóa og því stutt að fara inn á Reykjarfjörð og landa síldinni í Djúpavík. 
Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn, hét Samuel Martin í þeirra eigu. Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, hét Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, mun þó ekki hafa verið hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur Einari Þorgilssyni & Co í Hafnarfirði í nóvember 1924 og fær nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Kom togarinn til heimahafnar, Hafnarfjarðar, hinn 11 desember 1924. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.

Surprise var fyrst skráður í eigu þeirra feðga, Einars Þorgilssonar, Ólafs Tryggva Einarssonar og Þorgils G Einarssonar í Hafnarfirði, en frá 4 nóvember 1939 er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði eigandi togarans.


B.v. Surprise GK 4 á síldveiðum á stríðsárunum.                                        (C) Kjartan Traustason.

             Síldarafli togaranna

Allir togarar eru nú hættir síldveiðum og herpinótaveiði virðist vera að hverfa, en reknetaveiði að glæðast. Þessir togarar eru hættir síldveiðum og hafa þeir aflað alls í sumar mál og tunnur, sem hér segir:
Garðar 19.259,
Surprise 17.886,
Tryggva gamli 16.400,
Kári 13.360,
Arinbjörn hersir 11.040,
Egill Skallagrímsson 13.182, og
Skallagrímur 12.812.
Garðar, Surprise, Egill Skallagrímsson og Arinbjörn hersir fara heimleiðis. Kári og Tryggvi gamli byrja karfaveiðar og leggja aflann á land í Djúpuvík. Skallagrímur er byrjaður karfaveiðar.

Nýja dagblaðið. 25 ágúst 1936.

Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 1646
Gestir í gær: 169
Samtals flettingar: 746267
Samtals gestir: 56282
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 04:11:47