31.12.2018 08:28

Landhelgisbrjótur færður til hafnar í Neskaupstað.

Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var tekinn að meintum ólöglegum veiðum, 1,6 sjómílu innan fiskveiðilögsögunnar út af Digranesi á Bakkaflóa 12 maí árið 1965. Var togarinn færður til hafnar í Neskaupstað eftir mikinn eltingarleik, en togarinn stefndi til hafs á fullri ferð með nokkra varðskipsmenn af Þór um borð. Guðmundur Kjærnested skipherra á varðskipinu Þór elti togarann hálfa leiðina til Færeyja uns Guðmundi og útgerðarmönnum Aldershot tókst að koma vitinu fyrir skipstjórann, Leslie Alfred Cumby og stöðva skipið. Cumby skipstjóri var frægur landhelgisbrjótur hér við land, var nokkrum mánuðum áður tekinn að ólöglegum veiðum fyrir vestan land og dæmdur fyrir brot sitt. Mikil réttarhöld voru haldin yfir Cumby skipstjóra hjá Bæjarfógetanum í Neskaupstað sem stóðu yfir í 2 daga sem enduðu með því að Cumby skipstjóri var sýknaður af ákæru um landhelgisbrot en dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Á þessum tíma og svo síðar í þorskastríðunum 1973-76, var oft grunnt á því góða í samskiptum þjóðanna. Þegar hætta steðjaði að eða menn voru í sjávarháska, stóðu menn saman sem einn og gerðu það sem hægt var til að bjarga mannslífum. Það var einmitt það sem gerðist daginn sem Aldershot kom til Neskaupstaðar, að 8 ára stúlka, Jóna Rebekka Högnadóttir féll fram af bryggjunni rétt hjá þar sem togarinn lá. Með snarræði eins skipverja á Aldershot, R. Perrin að nafni, tókst honum að ná Jónu úr sjónum ásamt 2 skipsfélögum sínum. Var hún búin að sökkva tvívegis og mátti því ekki tæpara standa með björgun hennar. Jóna Rebekka var fljót að jafna sig eftir þetta.


Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1959. 427 brl. 1.100 ha. Mirrlees díesel vél. Togarinn var þá í eigu útgerðarfélagsins Consolidated Fisheries Ltd í Grimsby.   Mynd úr safni mínu.


Aldershot GY 612 í höfn í Grimsby.

       Brezkur togari tekinn í landhelgi
       
            Réttarhöld standa yfir í Neskaupstað  
                Skipstjóri neitar öllum ákærum

Varðskipið Þór kom að brezkum togara, Aldershot GY 612 1.6 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna út af Digranesi um kl. 8 s.l. þriðjudagsmorgun. Eftir u.þ. b. sólarhrings eltingarleik við togarann var hann tekinn að meintum ólöglegum veiðum og færður til hafnar. Komu skipin til Neskaupstaðar um. kl. 16 á miðvikudag. Réttarhöld í máli skipstjórans á Aldershot, Leslei Alfred Cumby, hófust hjá bæjarfógetanum í Neskaupstað, Ófeigi Eiríkssyni í gær kl. 17. Stóðu þau til kl. tæplega 12 á miðnætti sl. nótt að frádregnu kvöldmatarhléi. Tíðindamaður Austurlands var viðstaddur réttarhöldin og hafði einnig tal af varðskipsmönnum svo og dómurum. Fyrstur kom fyrir réttinn Guðmundur Kærnested, skipherra á varðskipinu Þór. Verða hér aðeins rakin helztu atriði úr skýrslu skipherra. Varðskipið var á suðurleið á þriðjudagsmorgun og varð vart við marga togara að veiðum út af Bakkaflóa. Aldershot var
næst landi af þessum skipum, 1.6 sjómílu innan fiskveiðitakmarkanna, en annar togari var þar rétt hjá einnig að veiðum. Hins vegar sáu varðskipsmenn aldrei, að Aldershot hefði veiðarfæri í sjó, en hann sigldi hæga ferð eða 3 sjómílur, semi er toghraði. Jók hann síðan ferðina. Þór gaf honum stöðvunarmerki, en togarinn sinnti því engu og hægði ekki ferðina til hafs fyrr en skotið hafði verið að honum mörgum aðvörunarskotum, púðurskotum og skörpum skotum. Var þá kl. 12.30. Höskuldur Skarphéðinsson 1. stýrimaður fór nú við fjórða mann yfir í togarann. Skipstjóri togarans neitaði öllum ákærum um það að hafa verið að veiðum, en kvaðst hafa misst vörpuna og vera nú á leið til Grimsby til að ná laugardagsmarkaðinum fyrir afla sinn. Skipstjórinn ræddi við skipherrann á Þór, og fóru þær viðræður hógværlega fram, og féllst sá enski á að reyna að slæða upp vörpuna. Var því snúið við. En skyndilega snýr skipstjóri togaranum aftur til hafs og óx nú spennan um borð í togaranum. Varðskipsmenn voru ofurliði bornir af hinni 17 manna áhöfn togarans, enda allir óvopnaðir nema 1. stýrimaður. Þeir ensku vopnuðust hins vegar öllum tiltækum tólum og röðuðu sér á brúarvængi, en varðskipsmenn króaðir inni í brúnni. Stóð þessi spenna og eltingaleikur skipanna til kl. 4 aðfaranótt miðvikudags, en þá gaf skipherra skipun um valdbeitingu við að ná togaranum á vald þeirra varðskipsmanna. Var Þór þá kominn fast að togaranum. Skipstjóri togarans gafst nú skilyrðislaust upp og jafnframt barst 7 manna liðstyrkur frá varðskipinu, en áhöfn þess er 24 menn. Engin varpa sást á þilfari togarans, en vírar stjórnborðsmegin greinilega höggnir sundur og spil og blakkir höfðu verið í notkun nýlega, og einnig var nýr fiskur (steinbítur) á þilfari. Skipin héldu síðan til Neskaupstaðar og komu að bryggju sem fyrr segir um kl. 16 á miðvikudag. Voru varðskipsmennirnir þá um borð í togaranum vopnum búnir.
Togaraskipstjórinn, L. A. Cumby kom fyrir rétt um kl. 18 í gær og var fyrir rétt allan tímann eftir það, meðan réttur stóð. Sagðist hann hafa verið að veiðum á þriðjudagsmorgun frá kl. 5-7 aust-suðaustur af Langanesi, en haldið svo suður og verið á leið til Grimsby. Kvaðst hann hafa misst vörpuna, en áhöfn sín neitað að hefja veiðar að nýju, þótt veiðarfæri væru til í skipinu, þeir hefðu hins vegar höggvið af slitnu vírunum til að geta "splæst". Ekki sagðist hann hafa reynt að slæða upp töpuðu vörpuna. Um viðskipti sín við varðskipsmenn sagðist skipstjóranum frá á allt annan veg en skipherra, og ber þar margt á milli, sem ekki er rúm til að rekja hér. Meðan á eltingaleiknum stóð voru stöðugar skeytasendingar milli skipanna. Skipherra talaði mjög um fyrir enska skipstjóranum með að hlýða þeim skipunum að fylgja Þór til lands. Sömu fyrirmæli fékk hann frá Landhelgisgæzlunni og útgerðarfyrirtæki togarans, Consolidated Fisheries í Grimsby, en hann þverskallaðist við samt sem áður. Þessi sami skipstjóri var tekinn í landhelgi á sama togara á sl. hausti af varðskipinu Ægi fyrir vestan land. Höskuldur Skarphéðinsson var þá 1. stýrimaður á Ægi og tekur því Cumby skipstjóra nú í annað sinn. Sl. sunnudag kom togarinn Aldershot til Neskaupstaðar með 2 slasaða menn. Réttarhöld hófust aftur í morgun kl. 10.30 og munu væntanlega standa alllengi. Viðstaddir réttarhöldin eru: fulltrúi saksóknara, Bragi Steinarsson, lögfræðingur Landhelgisgæzlunnar, Gísli Einarsson og lögfræðingur brezka skipstjórans, Gísli Ísleifsson. Dómtúlkur er Hilmar Foss. Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti er dómsforseti, en meðdómendur þeir skipstjórarnir: Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson. Ekki mun hafa verið fjallað um landhelgisbrot sem þetta hér í Neskaupstað í u. þ. b. áratug.

Austurland. 14 maí 1965.
Birgir Stefánsson.


Cumby skipstjóri í brú Aldershot við komuna til Neskaupstaðar.  (C) Morgunblaðið.

             4 mánaða fangelsi

Dómur í máli brezka togarans, sem frá var sagt í síðasta blaði, féll ekki fyrr en á þriðjudag, eftir löng og ströng réttarhöld. Var skipstjórinn sýknaður af ákæru um landhelgiabrot, en dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Báðir aðilar áfrýjuðu dómnum og varð skipstjóri að setja 1.1 millj. kr. tryggingu áður en honum var leyft að fara. Fór togarinn héðan seint um kvöldið áleiðis til Englands.
Forseti dómsins var Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti, en meðdómendur Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson.

Austurland. 21 maí 1965.


Flettingar í dag: 1154
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 721051
Samtals gestir: 53532
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 17:54:59