03.01.2019 20:42

975. Bjartur NK 121 með fullfermi til Neskaupstaðar.

Tog og síldveiðiskipið Bjartur NK 121 er hér að koma til löndunar í Neskaupstað með fullfermi af síld, sennilega á árunum 1968-69. Þau voru falleg þessi skip sem smíðuð voru í Boizenburg í A-Þýskalandi á árunum 1964-67 fyrir íslendinga, smíðuð eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipatæknifræðings. Bjartur NK 121 kom nýr til Neskaupstaðar 14 maí árið 1965 og var í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað. Hann var einn af 18 skipum sem smíðuð voru þar og flest þeirra reyndust mjög vel. Filip Þór Höskuldsson var skipstjóri á Bjarti frá upphafi til ársins 1967, að Ísak Valdimarsson tók við skipstjórn uns skipið var selt til Grindavíkur 29 janúar árið 1972. Það var á síðastliðnu haust að skipið var selt í brotajárn, hét þá Sighvatur GK 57.


975. Bjartur NK 121 með fullfermi af síld við bryggju SVN í Neskaupstað.   (C) Guðmundur Sveinsson.


975. Bjartur NK 121 með fullfremi af síld á Norðfirði.                                 (C) Guðmundur Sveinsson.

       20 síldarskip komin á miðin
          Góðar veiðihorfur í nótt 

Neskaupstað í gærkvöld. Tuttugu síldarbátar eru nú komnir á miðin hér fyrir austan og halda sig aðallega á nýju veiðisvæði, sem Ægir fann í gærkvöld um 55 mílur austur af Dalatanga. Þarna hafa nokkur skip þegar fengið afla eins og Reykjaborgin 1100 mál, Þorsteinn 1600 mál, Bjartur 1500 mál, Jón Kjartansson 1200 mál og Sæfari 600 mál. Skínandi gott veiðiveður er á miðunum og eru veiðihorf- ur góðar í nótt.
Nýja síldarskipið okkar, Bjartur, er væntanlegt hingað í fyrramálið með 1500 mál og fer sú síld í bræðslu og frystingu. Þá komu til Eskifjarðar í dag Þorsteinn með 1600 mál og Jón Kjartansson með 2200 mál og Krossanesið kom með 1800 mál til Fáskrúðsfjarðar klukkan 5 í dag og hefur verksmiðjan þar bræðslu annað kvöld. Alltaf eru að berast fréttir af síldarskipum, sem þyrpast á miðin hvaðanæva að af landinu. Þannig eru á leiðinni að norðan síldarskip eins og Súlan, Ólafur Magnússon og Sigurður Bjarnason frá Akureyri, Siglfirðingur frá Siglufirði og Helgi Flóventsson frá Húsavík. Móttaka á síld er víðast í lamasessi hér á Austfjörðum og spyrja menn nú af kurteisi, hvar þetta margrómaða flutningakerfi sé þessa stundina og er enginn vafi á því, að allar þær bollaleggingar hafa gert menn óviðbúnari hér fyrir austan til móttöku á síld.

Þjóðviljinn. 27 maí 1965.


Flettingar í dag: 350
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689296
Samtals gestir: 51464
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:55:39