01.03.2019 10:32

1833. Málmey SK 1. TFMS.

Frystitogarinn Málmey SK 1 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk í Flekkefjord í Noregi árið 1987 fyrir Sjólastöðina hf í Reykjavík. Hét áður Sjóli HF 1. 883 brl. 2.990 ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 140. Skipið var gert út frá Hafnarfirði. Frá 11 júní 1993 er Sjólaskip hf í Hafnarfirði skráður eigandi, sama nafn og númer. Selt 11 október 1994, Djúphafi hf í Hafnarfirði (Skagfirðingur hf á Sauðárkróki var aðaleigandi í Djúphafi hf), fékk nafnið Málmey SK 1. Skipinu var breytt í ísfisktogara haustið 2014. Málmey SK 1 er gert út af Fisk Seafood hf á Sauðárkróki í dag.


1833. Málmey SK 1 í heimahöfn.                                                                             Mynd úr Ægi.

          Sauðkrækingar kaupa                      frystitogarann Sjóla HF-1 

Einn best hannaði frystitogari íslenska flotans, Sjóli HF- 1, hefur verið seldur til Djúphafs hf. í Hafnarfirði, en Skagfirðingur hf. á Sauðárkróki er aðaleigandi þess. Sjóli HF er 883 brl. að stærð, smíðaður í Flekkefjord í Noregi 1987 fyrir Sjólaskip hf. í Hafnarfirði, en aðaleigandi þess er Jón Guðmundsson. Skipið er keypt með 300 þorskígilda kvóta, en það var með 1.325 þorskígildiskvóta í byrjun fiskveiðiársins. Sjólaskip hf. eiga einnig Harald Kristjánsson HF 2, sem er sömu stærðar og Sjóli, smíðaður 1988. Hann er með 1.411 þorskígildiskvóta. Kaupverð verður ekki uppgefið fyrr en eftir stjórnarfund hjá Skagfirðingi hf. síðar í mánuðinum. Einar Svansson, framkvæmdastjóri Skagfirðings hf., segir kaupin á Sjóla vera einn af þeim valmöguleikum sem hafi verið uppi á borðinu sl. tvö ár, en málin hafi hins vegar skyndilega þróast nokkuð hratt að undanförnu en þessi kaup hafi verið einn af bestu kostunum. Jón Guðmundsson segir að eina af aðalástæðum þess að Sjóli sé seldur þá að á skipinu hefðu hvílt óhagstæð lán og ekki hafi verið hægt að endurfjármagna það á ásættanlegan hátt, það hafi verið of dýrt. "Það eru engin vandamál, engin lán í vanskilum, en við erum ánægðir með að skipið lendir hjá góðum kaupendum sem hafa möguleika á betri fjármögnun en núverandi lán eru til mjög skamms tíma. Bæði skipin hafa verið í toppviðhaldi, fyrirframviðhaldi," sagði Jón Guðmundsson. Sjóli hefur aðallega verið á úthafskarfaveiðum og karfaveiðum innan lögsögu og ennfremur hefur hann verið á veiðum í Smugunni. Stefnt er að óbreyttum veiðum, a.m.k. fyrst um sinn. Ekki verður skipt um nafn á skipinu fyrr en í byrjun næsta árs. "Kosturinn við þessi kaup er sá að ekki þarf að úrelda á móti kaupunum því það er með veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og tekjurnar af þessu skipi eru hrein viðbót hjá fyrirtækinu. Sami skipstjóri, Guðmundur Kjalar Jónson, verður með skipið, og verður áhöfninni boðin vinna áfram. Því fylgir enginn krafa um búsetu á Sauðárkróki enda félagið með heimilisfestu í Hafnarfirði," sagði Einar Svansson.

Dagur. 11 október 1994.


1833. Málmey SK 1 á útleið frá Sauðárkróki.                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

     Tímamót með breytingum á               Málmey SK 1 á Sauðárkróki
     Ofurkældur afli en enginn ís

Togarinn Málmey SK 1, sem er í eigu FISK Seafood hf. á Sauðárkróki, er þessa dagana í fyrstu veiðiferðum eftir að skipinu var breytt úr frystitogara í ísfiskskip. Í þessu tilfelli þarf þó að gera fyrirvara við hugtakið ísfiskskip því Málmey er fyrsti togarinn í flotanum útbúinn þannig að ekki þarf að nota ís til kælingar aflans, líkt og almennt hefur verið gert hingað til. Togarinn er búinn nýju vinnslu- og kælikerfi frá systurfyrirtækjunum Skaganum hf. á Akranesi og 3x Technology á Ísafirði en afli skipsins er kældur í mínus eina gráðu áður en hann fer í lest. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og 3X, segir komið að tækniframförum í bolfiskvinnslu hér á landi á borð við þær sem gengið hafi yfir í uppsjávarvinnslunni á liðnum árum. Ofurkæling úti á sjó skapi tækifæri á öllum sviðum landvinnslunnar.
Segja má að fyrirtækin leggi í þessu verkefni saman tvær af sínum lausnum; annars vegar ofurkælingartæknina sem Skaginn hf. hefur unnið með í flakavinnslu á undanförnum árum og hins vegar Rotex blóðgunar- og kælitanka fyrir fiskiskip sem 3X Technology á Ísafirði hefur þróað.


Á millidekkinu. Hér byrjar kæling fisksins.                                                                 Mynd úr Ægi.

Ferillinn um borð í Málmey SK 1 er þannig að eftir að afli kemur úr móttöku er hann slægður á hefðbundinn hátt, að því frátöldu að öll lifur fer í sérstakan kæliferil og þaðan í lest. Sama á við um hrogn á meðan á hrygningartíma stendur. Að lokinni slægingu fer hver fiskur í sérstaka þvottameðhöndlun og þaðan inn á færiband þar sem myndgreiningarbúnaður tekur mynd af hverjum fiski fyrir sig og greinir bæði tegund og þyngd. Á vinnsluþilfarinu eru þrír Rotex-tankar, hver um sig 14 metrar að lengd. Í hverjum tanki er stór snigill, eða skrúfa, sem snýst rólega og myndar hvert bil á sniglinum hólf sem í fara 300 kg. af fiski. Í tönkunum er blanda af sjó og saltupplausn og er hverjum tank skipt í þrjá hluta þannig að fyrsti hlutinn, sem tekur við aflanum eftir myndgreiningu, er blóðgunarhólf og í gegnum það fer aflinn á 15 mínútum. Þaðan færist fiskurinn áfram með skrúfunni yfir í kælingarhólf þar sem aflinn er kældur niður í 30 mínútur og í síðasta hluta tanksins fer aflinn í gegnum upplausn sem er mínus 4 gráður. Það er hin eiginlega ofurkæling sem tekur 15 mínútur en að henni lokinni er fiskurinn kominn í mínus 1-1,2 gráður. Þessi ferill aflans í gegnum hvern tank tekur því eina klukkustund og á enda tanksins er færiband sem tekur við fiskinum og skilar á rennur niður í lest þar sem lestarmenn taka við honum og raða í kör. Hægt er að hafa í senn allt að 10 tonn af afla í tönkunum þremur, ef á þarf að halda.
Kæling lestarinnar miðar að því að halda hráefninu stöðugu allt til loka veiðiferðar í því hitastigi sem það er í þegar fiskurinn kemur úr ofurkælingunni. Eins og áður segir er magnið 300 kg. í hverjum skammti sem á þennan hátt fer í gegnum allan ferilinn og er þetta hæfilegur skammtur fyrir 460 lítra körin sem notuð eru í lestinni. Myndgreiningarbúnaðurinn sem áður er nefndur er einn af lykilþáttum í kerfinu. Hann greinir hvern fisk, bæði tegund og þyngd og út frá þeim upplýsingum eru gefnar skipanir í stjórnbúnaði kerfisins sem stýrir því inn á hvaða tank hver fiskur á að fara og í hvaða hólf. Tegundir veljast þannig saman, sem og stærðir, og loks stýrir þessi búnaður því að í hvert hólf veljist alltaf rétt magn, þ.e. 300 kg. Búnaðurinn vistar á þennan hátt mynd af hverjum fiski fyrir sig og þar sem hvert kar í lest hefur sitt númer er hægt að sækja upplýsingar úr vinnslunni um borð, ef einhverra hluta vegna þarf á slíku að halda.


Í Rolex tönkunum er blanda af sjó og saltpækli og búnaður stýrir kælingunni.          Mynd úr Ægi.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans og 3X Technology, segir aðalatriðin með nýja kerfinu í Málmey SK 1 að auka vinnsluhraða og hráefnisgæði. Með ofurkælingunni í vinnsluferlinu sé vökvinn í fiskinum sjálfum nýttur til fulls. "Fiskur er auðvitað að stórum hluta vatn og við erum í þessu ferli að hagnýta okkur það til kælingar. Svokölluð fasaskipti eru þegar vökvi þykknar í fast form og í fiski hefst þetta ferli í mínus 0,9 gráðum. Með því að þykkja vökvann í fiskinum á þann hátt sem við gerum þá búum við okkur til ákveðið kæliafl sem kemur í staðinn fyrir ísinn sem hefðbundið er að nota," segir Ingólfur en segja má að í lestinni í Málmey SK 1 sé unnið á hefðbundinn hátt í frágangi afla í ísfisktogara, að því undanskildu að enginn ís er settur milli laga í körin. Aðeins þarf að raða fiskinum í hvert kar. Aðspurður segir Ingólfur að form hvers skips ráði því hvort hægt sé að koma fyrir heildarkerfi á borð við það sem er í Málmey SK 1 en best sé að útfæra kerfið samhliða hönnun á nýjum fiskiskipum, líkt og ætlunin er að gera í fyrirhugaðri nýsmíði FISK Seafood og í þremur skipum HB Granda. Eins og fram kemur annars staðar í blaðinu hefur nú þegar verið samið um útfærslu kerfa frá Skaganum hf. og 3X Technology í ísfisktogara HB Granda. "Í öllu okkar þróunarstarfi erum við að sækjast eftir betri fiski og að lengja geymsluþol. Allar rannsóknir sýna bætta nýtingu í flökun með því að bæta meðhöndlun og kælingu strax eftir að fiskurinn er slægður um borð. Næsta skref í þróunarferlinu hjá okkur er að fækka göllum í flökun og roðdrætti í vinnslunni sjálfri. Þar er að finna lykilinn að framtíðar tækni í landvinnslu á bolfiski. Í þessum þáttum skilur á milli tæknilegrar stöðu bolfiskvinnslu og uppsjávarvinnslu í dag. Í bolfiskvinnslunni þurfa öll flök að fara í gegnum snyrtilínur en takmark okkar er að þróa tækni sem skilar þeim árangri að sem hæst hlutfall af flökum geti farið beint úr flökunarvél inn í vatnsskurð þar sem beingarður er skorinn í burtu og flökin hlutuð niður eins og við á í hverri vinnslu fyrir sig."


Þrír 14 metra langir tankar eru á vinnsluþilfari Málmeyjar. Í gegn um þá fer aflinn og er smátt og smátt kældur niður í mínus 1-1,2 gráður. Í þessum enda tankanna er svokölluð ofurkæling og úr henni fer fiskurinn í 300 kg skömmtum í rennuna fyrir miðri mynd og niður í lest.      Mynd úr Ægi.

Ingólfur segir að í sjávarútvegi á Íslandi sé mikill áhugi á þessari tækniþróun og þau fyrirtæki sem bæði eru í uppsjávarvinnslu og bolfiskvinnslu hafi fundið fyrir því hversu miklum ávinningi tæknin í uppsjávarvinnslunni hafi skilað á síðustu árum. "Í uppsjávarvinnslunni hefur störfum vissulega fækkað frá því sem áður var en þau eru á hinn bóginn betur launuð. Okkar framtíðarsýn hjá Skaganum og 3X Technology er þess vegna að leggja áherslu á roðflettingu og flökun sem getur skilað bolfiskvinnslunni á sömu braut í framþróun og orðið hefur í uppsjávarvinnslunni. Innan okkar fyrirtækja höfum við allt til þess; flökunarvél, roðdráttarvél og þróun á vatnsskurðarbúnaði en forsendurnar sem við vinnum eftir eru þessi árangur sem við höfum náð í ofurkælingunni á hráefninu. Við horfum á þetta sem eitt heildarferli og ætlum að horfa á hvert og eitt skref í ferlinu, allt frá móttöku til pökkunar," segir Ingólfur og bætir við að miklir tæknilegir möguleikar hafi opnast þegar Skaginn hf. og 3X Technology urðu systurfyrirtæki. Í kjölfarið á breyttu eignarhaldi þess síðarnefnda hafi verið unnt að leggja saman víðtæka tækniþekkingu innan fyrirtækjanna og lausnir sem þau hafi þegar þróað. Því til viðbótar hafi fyrirtækin fengið styrki til þróunarstarfs sem gangi til rannsóknarfyrirtækjanna Matís og Iceprotein á Sauðárkróki sem unnið hafi þýðingarmiklar upplýsingar um áhrif ofurkælingar á hráefni strax á fyrsta vinnslustigi. "FISK Seafood steig mjög mikilvægt skref með því að semja við okkur um breytingarnar á Málmey og láta reyna á þá möguleika sem rannsóknirnar hafa sýnt okkur. Málmey SK verður ekki ísfiskskip í þeirri merkingu sem við höfum hingað til notað heldur væri nær að tala um rannsóknarskip á fyrstu mánuðunum því rannsóknarfyrirtækin munu fylgja verkefninu eftir. Ég er alveg sannfærður um að við eigum eftir að sjá í þessu verkefni í Málmey árangur sem lyftir þekkingu í fiskvinnslu hér á landi á annað stig og markar nýtt skeið í bolfiskvinnslu. En svona lagað gerist ekki nema til séu fyrirtæki eins og FISK Seafood sem hafa kjark, þor og getu til að breyta og tileinka sér tæknilegar nýjungar," segir Ingólfur Árnason.

Tímaritið Ægir. 1 janúar 2015.


1833. Sjóli HF 1.                                                                                          (C) Tryggvi Sigurðsson.

                     Sjóli HF 1

Nýr skuttogari, M/S Sjóli HF 1, bættist við fiskiskipastól landsmanna 21. september s.l, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Sjóli HF er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 140 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h.f. í Reykjavík. Sjóli HF er þrettándi skuttogarinn sem umrædd stöð smíðar fyrir Íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina. Skrokkar allra þessara skuttogara eru smíðaðir hjá Kvina Verft í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Rúm fjögur ár eru síðan stöðin afhenti Gullver NS, sem var sá 12. í röðinni. Þess má geta, að á síldarárunum 1962 til 1967 smíðaði stöðin 11 fiskiskip (nótaveiðiskip) fyrir Íslendinga, auk þess sem eitt fiskiskip smíðað hjá umræddri stöð var keypt til landsins árið 1980. Sjóli HF er því 25. fiskiskipið í eigu íslendinga frá þessari stöð. Hinn nýi Sjóli kemur í stað samnefnds skuttogara (Sjóli HF 18) sem var í eigu sömu útgerðar, og keyptur 11 ára gamall til landsins (kom í mars 1982). Sjóli HF er breiðasta fiskiskip flotans (12.60 m) og í hópi skrokkstærstu fiskiskipanna hérlendis. Skipið er með búnað til fullvinnslu afla, umfangsmeiri en áður hefur verið settur í nýsmíði fyrir Íslendinga. Þá telst það til nýjunga í nýbyggðu fiskiskipi fyrir hérlenda aðila, að allir klefar eru búnir snyrtingu (salerni og baði).
Sjóli HF er í eigu Sjólastöðvarinnar h.f. í Hafnarfirði. Skipstjóri á skipinu er Þráinn Kristinsson og yfirvélstjóri Ásgeir Guðnason. Framkvæmdastjóri útgerðar er Haraldur jónsson.
Mesta lengd 56.42 m.
Lengdmilli lóðlína (VL=5.20 m) 54.17 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 51.91 m.
Breidd (mótuð) 12.60 m.
Dýpt að efra þilfari 7.70 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.20 m.
Djúprista (hönnunar) 5.20 m.
Eiginþyngd 1.437 tonn.
Særými (djúprista 5.20 m) 2.064 tonn.
Burðargera (djúprista 5.20 m) 627 tonn.
Lestarými 702 m3.
Meltugeymar 91.5 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 181.4 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 40.7 m3.
Set- og daggeymar 16.3 m3.
Ferskvatnsgeymar 149.8 m3.
Andveltigeymir 139.5 m3.
Ganghraði um 15 sjómílur.
Rúmlestatala 883 brl.
Skipaskrárnúmer 1833.

Tímaritið Ægir. 1 nóvember 1987.


Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25