03.03.2019 11:01

M. b. Drífa SU 392 í smíðum á Skála í Færeyjum.

Mótorbáturinn Drífa SU 392 var smíðaður á Skála (Kongshavn ?) í Færeyjum árið 1917 fyrir Jón Sveinsson útgerðarmann, Magnús Hávarðsson og Sigurður Jónsson á Nesi í Norðfirði. Eik. 29 brl. 36 ha. Alpha vél. Seldur árið 1919, Konráð Hjálmarssyni útgerðar og kaupmanni á Nesi. Árið 1929 heitir báturinn Drífa NK 13. Ný vél (1929-30) 40 ha. Wichmann vél. Seldur 1931, Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Var báturinn hafður í förum á milli fjarða eystra til að safna saman beinum til vinnslu í verksmiðjunni. Fyrir kom að Drífa væri send til hafna á Norðurlandi eftir hráefni. Seldur 20 september 1936, Magnúsi Pálssyni og Anton Lundberg í Neskaupstað. Drífa var endurbyggð og lengd í Neskaupstað árið 1938, mældist þá 38 brl. Einnig var sett í bátinn ný vél, 50 ha. Wichmann vél. Seldur 26 janúar 1940, Faxa h/f í Reykjavík, hét Drífa RE 42. Seldur 18 september 1950, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík. Ný vél (1950) 132 ha. Kelvin vél. Báturinn strandaði við Hafnir á Reykjanesi 6 febrúar 1953. Slysavarnadeildin Eldey í Höfnum bjargaði áhöfninni, 6 mönnum á land en Drífa eyðilagðist á strandstað.

Hér fyrir neðan er frásögn Magnúsar Hávarðssonar eins eigenda Drífu þegar hann fór til Færeyja til að fylgjast með smíði bátsins. Fróðleg frásögn.


Drífa SU 392 í smíðum á Skála í Færeyjum sumarið 1917.                             www. wagaskip.dk

     Færeyjaför árið 1917

Haustið 1916 fór Jón Sveinsson til Færeyja. Ferðin var til þess gerð að fá smíðaðan bát, um 30 smálestir að stærð. Honum tókst að ná samningi um smíði bátsins og átti hann að vera tilbúinn í marz-apríl 1917. Hér segir af því, er Magnús Hávarðsson fór til Færeyja að líta eftir smíði Drífu, kynnum hans af Færeyjum og Færeyingum og loks heimferðinni til Íslands á nýsmíðuðum bátnum með nýrri vél, en siglandi, af því 4 lítrar voru allt sem fékkst af olíu.
Þriðji maður með okkur Jóni var Sigurður Jónsson, og átti hann að vera formaður. Til þess að sjá um að báturinn yrð tilbúinn á tilsettum tíma, töldum við heppilegt að maður færi út og hefði eftirlit með verkinu og ýtti eftir, ef þörf væri. Var ákveðið að ég tækist þessa ferð á hendur. En að komast til Færeyja var ekki auðvelt, því samgöngur voru ekki miklar á þessum árum, stríðsárunum. Snemma í febrúar fréttum við að ferð mundi verða frá Færeyjum til Seyðisfjarðar að sækja síld. Var þá brugðið við að koma mér til Seyðisfjarðar og var ég kominn norður daginn áður en Smyrillinn kom, en það var strandferðabátur, sem gekk milli eyjanna.


Drífa SU 392 fullsmíðuð á Skála í júlí árið 1917.                                  Ljósmyndari óþekktur.  

Strax og skipið kom fór ég um borð, hitti skipstjóra og bað um far til Færeyja. Kvað hann það sjálfsagt, ef vegabréf mitt væri í lagi, en enga ábyrgð kvaðst hann taka á þessu ferðalagi mínu. Um klukkan 10 að kvöldi, að mig minnir 8. febrúar vorum við komnir suður fyrir Dalatanga og var stefnan þaðan sett til Færeyja. Suðvestan gola var, heldur mótdræg. Þegar ég kom upp næsta morgun, er vindur svipaður að styrkleika, en hafði gengið til vesturs. Var þá búið að setja upp segl á báðar siglur og mátti heita góður gangur á Smyrli. Seglin voru þríhyrnur á báðum möstrum og fokka. Er svo siglt allan þann dag og bar ekkert til tíðinda. Að morgni þess 10. febrúar vildu Færsarnir fara að sjá land, en það vildi ekki sýna sig. Skyggni var ekki vel gott. Líklega hefur klukkan verið um 10 þegar ég kom upp í brú til þeirra, sem þar voru. Þeir horfðu alltaf framundan, en miklu minna til hliðar. Ekki var ég búinn að vera þarna lengi, þegar mér sýndist ég sjá land nokkuð mikið á stjórnborða og hef orð á því. Skipstjóri beinir nú sjónauka til þess staðar, sem ég benti og horfir nokkur augnablik, en segir svo: "Je, te er tyiligt land". Eru nú segl tekin niður og stefnu breytt í sem næst suðvestur og erum við komnir í Karlseyjarfjörð klukkan 12 og höfðum þá verið 38 stundir frá Dalatanga.


Gömul mynd frá Þórshöfn í Færeyjum.                                          (C) Börge Bildsöe Hansen.  

Til Þórshafnar var komið á tíunda tímanum um kvöldið. Fljótlega komst ég í land án nokkurra spurninga eða lögregluskoðunar. En nú var að fá sig inni. Ég hitti íslending þarna á bryggjunni og fór hann með mig að veitingahúsi því, sem hann bjó í, en þar reyndist ómögulegt að koma mér fyrir. Þar var maður staddur, sem kvaðst skyldi fara með mér. Hús það, er við komum að, var nefnt Borgarstofa. Konan, sem þar bjó, hafði matsölu og kvaðst geta hýst mig að minnsta kosti yfir nóttina, hvað sem síðar yrði. Fékk ég svo þarna herbergi og fæði meðan ég var í Þórshöfn. Um morguninn 11. febrúar var það mitt fyrsta verk að leita uppi íslendinginn sem ég hitti á bryggjunni og gekk það greiðlega. Hann hét Eiríkur Einarsson og var frá Ísafirði í sömu erindum og ég. Báturinn sem hann var að líta eftir, var smíðaður í Þórshöfn. Hann var kominn nokkuð á veg og átti að vera til í marz. Eiríkur var orðinn nokkuð kunnugur í Þórshöfn og hafði verið þar á sama tíma og Jón haustið áður. Var svo haldið á fund þess manns, sem samninginn gerði, Jens Andreassen að nafni, til að fá upplýsingar um hvað verkinu liði. Kvað hann það lítið mundi ganga á meðan verið væri að koma skútunum út, en nokkuð væri það á veg komið og væri bezt að ég færi norður, til að athuga hvað búið væri, mjólkurbátur færi daglega þessa leið.


Smyrill 1 í Klaksvík.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.
  
Næsta dag (ég hirði ekki um að tilfæra mánaðardag úr þessu), fór ég svo til Skálafjarðar, en þar var báturinn smíðaður, og fékk ég Eirík til að koma með mér. Þegar þangað kom leizt mér svo á, að báturinn mundi ekki vera tilbúinn á umsömdum tíma. Grindin var öll komin og þrjár umferðir að ofan. Tvær skútur stóðu á brautinni og var önnur botnlaus. Ég hafði tal af yfirsmiðnum. Sagði hann það algjörlega útilokað, að nokkuð væri hægt að vinna við bátinn fyrr en skúturnar væru komnar út. Við fengum kaffi hjá honum. Meðan við sátum yfir því fór ég að tala um gistingu, því ekki var hægt að komast til baka fyrr en daginn eftir. Sjálfur kvaðst hann ekki geta hýst okkur, það væru veikindi hjá sér og mér skildist, að heimilisástæður væru mjög erfiðar hjá honum. En hann bauðst til að senda í þessi fáu hús, sem þarna voru, til að athuga um gistingu. Við vorum svo að rölta þarna fram undir kvöld, en þá kemur yfirsmiðurinn til okkar og segir, að þetta ætli að ganga illa, alls staðar sé neitað um gistingu. En hann kvaðst hafa sent mann að Ytri-Skálum, um 20 mínútna gang þaðan. Ef ekki tækist að fá okkur inni þar, vissi hann ekki hvað til ráða væri. Í þessu byggðarlagi var fátæklegt fólk. Vorum við að gizka á, að það mundi halda okkur svo mikla höfðingja, að það gæti ekki tekið á móti okkur á viðeigandi hátt, hefur sjálfsagt litið svo til okkar, þegar við vorum að ganga þarna fram og aftur í frökkunum, með hatta og glæsibringu og Eiríkur þar á ofan með staf.


Brim við boða í Færeyjum.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

Þegar farið var að dimma kom sendimaðurinn frá Ytri-Skálum með þau skilaboð, að okkur væri velkomin gisting, ef við gætum sofið í sama rúmi, og tókum við því með þökkum. Gisti ég svo ætíð þarna, þegar ég var á ferð og eins eftir að ég kom norður og fór að vinna við bátinn. Þarna var vel hýst, fjögur herbergi, reykstofa eða eldhús, svefnstofa með fjórum lokrekkjum, matstofa eða borðstofa og svo gestastofa. Þar var eitt rúm, snyrtilega um búið. Öll voru þessi herbergi hvert við endann á öðru með timburþil á einn veg, en torf og grjótveggir á þrjá vegu. Það leit út fyrir, að maðurinn, sem þarna bjó, væri vel stæður. Hann var háaldraður orðinn, allt að því karlægur. Þegar sláttur skyldi byrja, en ekki má bera ljá í jörð fyrr en um Ólafsmessu, ætlaði hann að fara að slá, en gat það ekki og varð frá að hverfa. Þegar ég kom um kvöldið, sá ég hvað hann tók það nærri sér að vera orðinn svona mikill ræfill. Hann sagðist hafa slegið sjálfur mest allt árið áður, þetta hefði sér farið aftur á einu ári. Það var nú reyndar ekkert barnagaman að slá það gras, sem er úr sér vaxið og fúið í rót. Hann hafði tvær kýr og nokkrar kindur.
Það var að ýmsu leyti skemmtilegt í Þórshöfn. Aðal skemmtistaðurinn var klúbburinn svokallaði. Það var stórt hús, líklega það stærsta í bænum þá.


Risinn og Kerlingin. Tveir drangar yst á flóanum milli Austureyjar og Straumeyjar við Eiðiskoll. Til er færeysk þjóðsaga um þessa dranga.                            Ljósmyndari óþekktur.  

Það stóð á fallegum stað og bar mikið á því. Það var tvílyft með kjallara og rishæð. Í öðrum enda kjallarans var knattborðssalur með tveim borðum. Á aðalhæð var stór salur og var hann þannig gerður, að gólfið í honum var einum metra lægra en aðalgólfið. Við endann á honum var annar salur minni, sem notaður var fyrir leiksvið og þegar dansað var. Þá sátu bæði dansendur og áhorfendur við hressingu í honum. Svo mátti loka honum með draghurð, sem var eins og harmonikubelgur. Á efri hæð voru smáherbergi, sem menn gátu setið við spil og rabbað saman. Einn þjónn var þarna, enda ekki annað veitt en áfengi og vindlar á stríðsárunum. Í þennan klúbb gátu allir komizt, en ekki máttu þeir brjóta þær reglur, sem þar voru settar. Eiríkur var orðinn meðlimur þegar ég kom, og vildi hann að ég gerði eins og var ég því ekki fráhverfur. Til þess að komast í klúbbinn þurfti að fá einn af klúbbfélögunum til að bera mann upp og stjórnin að samþykkja, sem oftast var gert, en milligöngumaðurinn varð að bera ábyrgð á að maðurinn væri klúbbhæfur. Eiríkur þekkti mann, sem Sigmundur hét. Hann var járnsmiður og hefur senniiega mælt með Eiríki. Hann kom mér í klúbbinn. Vorum við þessir þrír svo oftast saman og spiluðum Lombre, en værum við fjórir var spiluð vist, en ávallt voru notaðir aurar. Allan þann tíma, sem ég var í Þórshöfn, sá ég aldrei ofurölva mann í "klúbbanum", eins og Færeyingar kölluðu húsið. Ég kynntist manni í "klúbbanum", sem hét Karl Fosse: Hann var bakarameistari og átti brauðgerðarhúsið sjálfur. Hann var mér oft hjálplegur með brauð. Það var skömmtun á matvörum og mjög knappur skammtur af kornvörum. Fékk ég oft vænan brauðskammt hjá honum, sérstaklega eftir að ég fór að vinna fyrir norðan. Í maí fór ég norður að Skálum til að vinna, en oftast fór ég til Þórshafnar um helgar að sækja mér ýmislegt, sérstaklega brauð.


Mikil náttúrufegurð er í Færeyjum.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

Einn sunnudag í júlí var ég staddur í "klúbbanum" og vorum við að spila. Þá heyrðist eins og þungur niður í fjarska. Færsarnir leggja að sér hendur og hlusta. Gnýrinn færist nær. Segir þá einn: "Te er grindaboð". Allir spretta á fætur og hraða sér út og fylgdist ég með. Mér er í minni hvað sú hljóðalda var sterk. Það var eins og jörðin titraði. Það var líka eðlilegt að hljóðið væri sterkt, þar sem hver einasti maður, karl og kona og börnin líka, hrópuðu sama orðið: "grindaboð". Karlmennirnir fóru niður að höfn til bátanna. Þangað fór ég ekki. Þess í stað fór ég út á skans, sem kallaður er Þaðan var gott útsýni. Bátarnir fóru út fyrir tangann. Á þeim flestum voru 12 menn, 10 undir árum, einn við stýri og einn í stafni. Það hef ég séð fallegast róið á einum þessara báta. Og alltaf var hrópað "grindaboð", en svo voru þeir óheppnir, að grindin var komin undir land og snúin við, þegar fyrstu bátarnir komu að henni. Sögðu menn að eftir það væri nær ómögulegt að snúa henni við. Þeir eltu hvalina austur fyrir Nolsey og komu ekki heim fyrr en um kvöldið. Í marz fór ég til Kvívíkur að hitta kunningja minn, Kristján Magnússon. Hann var í mörg ár hér á Norðfirði hjá Þorkeli og fleirum. Eftir að ég fór að búa kom hann oftast einu sinni á sumri inn eftir til mín og fékk þá vanalega einhverjar góðgerðir. Sagði hann þá, að ef ég kæmi til Færeyja, yrði ég að heimsækja sig og því fór ég þessa ferð.


Nesþorp í Norðfirði árið 1911-12.                                   Jón J. Dahlmann.   Póstkort í minni eigu.  

Mig minnir að fjörðurinn héti Kollafjörður. Fór ég þangað með mjólkurbátnum og var í fylgd með pósti og öðrum manni, sem var á sjómannaskóla og hafði fæði í Borgarstofu eins og ég. Þegar til Kollafjarðar kom, urðum við að fara á hestum postulanna 3-3 1/2  tíma ferð yfir heiðina. Hún var mjög lág, hreint ekki yfir 200 m yfir sjávarmáli. Það var lítið í fangið og vissi maður varla, að farið var á móti halla. Þessi fjallvegur var mjög líkur Fagradal. Þegar kom Kvívíkurmegin, er lítill klettahjalli. Kristján var á sjó þegar við komum til Kvívíkur. Ég fór heim til hans. Þegar Kristján kom um kvöldið var hann undrandi að sjá mig þarna. Ekki fór hann á sjó þá daga, sem ég dvaldi þarna.
Kvívík er fremur viðkunnanlegur staður í litlu dalverpi, en hrjóstrugt landslag. Ræktaða landið var allt girt með grjótgarði frá sjó til sjávar. Við sjóinn er klettótt strönd og brimasamt í sunnan suðvestan átt. Ég var í þrjá daga í Kvívík, öll kvöldin í heimboðum hjá Færeyingum, sem verið höfðu á Norðfirði. Daginn, sem ég fór, var stillt og bjart veður. Ég varð að leggja af stað kl. 5 til að vera viss um að ná í mjólkurbátinn. Hann átti að vera í Kollafirði um tíuleytið. Kristján fór með mér alla leið. Hann vildi ekki skilja við mig fyrr en ég væri kominn til Kollafjarðar.


Norðfjörður árið 1918. Húsið Bakki vinstra megin, síðan Ekra. Athafnasvæði Sigfúsar Sveinssonar í víkinni hægramegin. Lúðvíkshúsið lengst til hægri.  (C) Björn Björnsson.

Þar kvaddi ég hann í hinzta sinn. Hann var einn þeirra beztu og tryggustu manna, sem ég hef kynnzt um ævina. Snemma í maí fór ég til Skálafjarðar til að vinna við bátinn, sem nefndur hafði verið Drífa. Átti þá að fara að smíða af fullum krafti. Þá var eitt skip í brautinni, mátti heita botnslaust og stefnislaust. Átta menn voru settir til að vinna við bátinn. Tveir unnu saman, en einn var yfir vinnunni. Hét sá Pétur, dugnaðarmaður og sterkur vel. Einn þeirra, sem vann við skútuna, bróðir Péturs, Páll að nafni, var yfir þrjár álnir á hæð og þreknari, en sæmilegt var manni af þeirri stærð. Hann var seinn í hreyfingum og jötunn að burðum. Einn morgun voru þeir, sem unnu við skútuna, að koma eikarblökk inn í smíðahúsið og voru þeir allir við það verk. Blökkin átti að fara í stefnið á skútunni. Þeim gekk illa, þótt margir væru, eins og oft vill verða, þegar menn geta ekki orðið vel samtaka. Blökkin var 20 fet á lengd, tvö fet í grennri enda, 2,8 í sverari enda og 14 tommu þykk, rennandi blaut. Þegar þeir höfðu komið henni fyrir á búkkum þannig að tvö fet á hvorum enda stóðu fram af þeim, settust þeir niður og slíkt hið sama gerðum við, sem unnum við Drífu. Var þá farið að spjalla um blökkina, þyngd hennar og fleira. Segir þá Páll, að tveir muni taka hana upp. Við sögðum allir "korta noy", en Páll vildi ekki gefa sig og segir: "Peter kom og lat okkur royna". "Noy", segir Pétur, jeg dúga ykki". Páll stendur upp og segist skuli taka gildari endann. Stendur Pétur þá upp líka og segir: "Jeg dúgar ykki, men jeg kann prufa". Ganga þeir svo að blökkinni. Handföng voru slegin í hliðar hennar fyrir böndin, sem notuð voru til að draga hana. Þeir löguðu handföngin eins og þeim hentaði bezt. Búkkarnir voru um fet á hæð, svo hægt var að koma við miklu bolmagni við átökin. Þegar þeir höfðu komið sér fyrir eins og þeim líkaði bezt, beygja þeir sig lítið, leggja hendur á handföngin og rétta sig upp með blökkina og virtist mér Páll taka auðveldar upp sinn enda, þó mikið þyngri væri. Þótti þetta vel gert. Í matartímanum kom ég á undan öllum öðrum í smíðahúsið og mældi blökkina og hef ég hér að framan getið stærðar hennar. Ég hafði gaman af að reyna hvað ég gæti, gekk að grennri endanum og gat lyft honum, en þess ber að geta, að tvö fet af blökkinni stóðu út af hinum megin og hjálpaði það auðvitað til. En gildari endann gat ég ekki hreyft.


Drífa NK 13 við bryggju á Norðfirði.                                                            (C) Guðgeir Jónsson.

Tveir menn áttu dráttarbrautina og voru þeir allt að því hatursmenn. Ástæðan var sú, að annar þeirra, Möller, keypti dráttarbrautina í Noregi og seldi hinum, Jens Andreassen, helminginn í henni, en sá helmingur kostaði bróðurpartinn af því, sem öll brautin kostaði upphaflega. Komst svo Andreassen að því síðar, að hann var féflettur og bar það á Möller, en þá var brautin komin upp fyrir nokkru og þeir búnir að starfrækja hana í nokkur ár. Bauðst Möller til að kaupa brautina aftur, en hinn hafnaði því. Þeir höfðu skrifstofumann, sem var milligöngumaður þeirra, en annars réði yfirsmiðurinn mestu við brautina. Eigendurnir voru þarna í sumarleyfi, en aldrei saman. Þeir áttu þarna hús, sem þeir bjuggu í, þegar þeir dvöldu þar. Í júní kom Jens norður og dvaldi þar í tvær vikur. Einn morgun kom hann í smíðahúsið og var ósköp niðurdreginn að sjá og stynur við. Það var sýnilegt, að hann hafði eitthvað á samvizkunni. Þegar hann er kominn inn á mitt gólf, segir hann: "Ring tíðindi" og klökknar við. Allir setjast hljóðir. Þegar hann hefur jafnað sig, bætir hann við: Týskir undirvassbátar reinsa Föroyabanka við okkar skip". Dauðaþögn ríkti um stund, enginn sagði orð, allir biðu frétta. Þá um morguninn kom fyrsti báturinn til Suðureyjar með alla áhöfn einnar skútunnar, sem sökkt var, en mig minnir að þær hafi verið níu. Þrír kafbátar voru þarna að verki. Voru foringjar þeirra misjafnir. Einn þeirra var sérstaklega annálaður. Hann sagði, að langt væri síðan þeir hefðu fengið skipun um að sökkva skútunum, en sér hafi aldrei þótt nægilega gott veður fyrr en þennan dag. Ekki fórst einn einasti maður af öllum skútunum, þótt litlu munaði með áhöfn einnar. Þeir voru 17, en höfðu lítinn bát, sem tók þá tæplega alla.


Færeyskar skútur á Norðfirði stuttu fyrir 1920.                                       Ljósmyndari óþekktur.

En kafbátsforinginn sagði, að þeir, sem ekki kæmust í bátinn, gætu farið með skútunni. Var báturinn svo hlaðinn og valtur, að þeir máttu sig varla hreyfa. Þokuslæðingur var undir landi og náði þessi bátur til skútu, sem var á útleið, og sneri hún hið bráðasta við. Þetta sumar var mjög mikill fiskur á bankanum, en hætt var að sækja þangað eftir þetta.
Snemma í ágúst var smíði Drífu það langt komin, að ég fór til Þórshafnar að annast undirbúning heimsiglingar. Ég þurfti að fá skipstjóra og einn háseta. Ég fór til Jens Andreassen að fá hann í lið með mér, og gerði hann það sem hann gat til að greiða fyrir mér. Ómögulegt reyndist að fá menn í Þórshöfn. Símaði ég þá til Kvívíkur til Kristjáns og bað hann um hjálp. Tókst honum að fá skipstjóra og háseta í Vestmannahafn og áttu þeir að vera komnir til Þórshafnar um 15. ágúst. Þeir voru hásetar á skútu, sem átti að fara í veiðiferð til Íslands og koma til Seyðisfjarðar að taka síld. Var búizt við að Drífa mundi verða um líkt leyti á Norðfirði. Þegar ég hafði komið þessu í kring, fór ég aftur norður. Drífu var hleypt af stokkunum 10. ágúst. Vann ég svo með öðrum manni að ná grjóti í kjölfestu. Hafði ég það svo mikið, að lestin var nærri full. Tóm var Drífa gífurlega há á vatni. Til Þórshafnar er ég kominn með bátinn 14. ágúst. Sama dag komu Færeyingarnir og hjálpuðu þeir til að koma um borð vistum og vatni. Brauð var af skornum skammti, en þó fengum við það sæmilega útílátið, enda hjálpaði Fosse, blessaður karlinn. Dálítið fengum við af saltkjöti og fleski. Aðeins 4 lítra fékk ég af olíu. Skútan var tilbúin til brottferðar 16. ágúst.


Norðfjörður árið 1924. Mikill fjöldi franskra og færeyskra kúttera á firðinum.   (C) Björn Björnsson.  

Ég hirði ekki um að rekja snúninga mína milli yfirvalda í Þórshöfn. Síðast varð ég að fara til brezka ræðismannsins og gefa vottorð undir eiðstilboð um að ekkert væri í skútunní annað en grjót og matur handa áhöfn. Þann 19. ágúst átti Smyrill að fara til Klakksvíkur. Fór ég á skrifstofu útgerðarinnar og bað um að Smyrill mætti draga skútuna þangað. Þeir vísuðu mér til skipstjóra. Kvað hann það sjálfsagt fyrir greiðslu, sem væri 75 krónur. Klukkan 12 þann 19. ágúst er lagt af stað frá Þórshöfn. Daginn eftir er legið í Klakksvík í stillilogni. Um hádegi á mánudag er komin gola af norðvestri. Vindurinn liggur beint inn Karlseyjarfjörðinn, en það sund er nokkuð breitt og ágætt að fara eftir því, ef þarf að krusa. Þannig stóð á sjó, að vesturfall var að byrja, og nú var ekki eftir neinu að bíða. Akkerið er komið upp og seglum komið fyrir. Þarna innst á firðinum var komin talsverð gola, svo okkur gekk ágætlega út á miðjan fjörð, en þá fór golan að minnka og þá fóru erfiðleikarnir að gera vart við sig. Ég ætla að geta þess hér, að eitt sinn er við Jens Andreassen vorum að rabba saman, gat hann þess, að ég ætti að negla fyrir skrúfuopið. Ég mundi fá að reyna það, ef þyrfti að krusa, að vont yrði að venda, ef þetta yrði ekki gert. Sagðist hann hafa reynslu fyrir því. En af því ég vissi, að erfitt mundi að ná fjölunum frá hér heima, hafði ég ráð þetta að engu. Við höfðum bakborðsvind og var komin dálítil alda inn fjörðinn. Þegar við vorum hæfilega nálægt norðurströnd skyldi venda, en Drífa neitaði vendingu, og við aðra tilraun fór á sömu leið, en þriðja tilraun heppnaðist.


Dalatangi.Sér fyrir Húsgafla inn í Mjóafjörð. Þar næst sér í Norðfjarðarnípu, þá Norðfjörð, Hellisfjarðarnes og Hellisfjörð. Þá kemur Viðfjarðarnes og Viðfjörður og Barðsnes. (C) Náttúruvísindastofnun Íslands.  

Er svo haldið suður undir og gekk vel að venda á stjórn. Er svo haldið norður undir aftur og byrjað að reyna að venda fyrir norðan miðjan fjörð. Þær tilraunir mistókust þrisvar. Fórum við Hinrik, en svo hét færeyski hásetinn, þá í bátinn og rerum með og tókst þá vending. Var svo siglt eins nálægt suðurlandinu og hægt var, en samt var það ekki nægilegt til að ná út fyrir norðurtangann, og varð því enn að venda á bakborða. Þegar komið var norður á miðjan fjörð, var enn byrjað að reyna vendingu, en vindur var þá orðinn lítill og fékkst því ekki næg ferð á skútuna. Fórum við Hinrik þá enn í bátinn og rerum sem við gátum, en ekkert dugði, við færðumst æ nær norðurlandinu. Þannig hagaði til við ströndina, að strandberg var á nokkuð löngum kafla og var svo djúpt við bergið, að kvikan braut ekki, heldur seig upp og niður með því, en yst við tangann var fles og nokkurra faðma sund fyrir ofan hana. Út með þessu bergi lónaði Drífa, þó oft liti svo út, sem hún mundi lenda í bergið, en mesta hættan var í því fólgin, að við kæmumst ekki fyrir flesina. Ef skútan félli frá vendingu eða tilraun til vendingar, var hún komin í strand, en rétt innan við flesina fellur hún frá og er þá aftur byrjað að reyna og við róum eins og við getum. Þegar við komum á móts við flesjarhornið kom kvika undir skútuna, sem þá var komin beint í vind og kippti í dráttartaugina. Við vorum með báðar árar í sjó, en báturinn kipptist svo hart aftur á bak, að við höfðum ekki orku til að halda á móti, en gerðum þó það sem við gátum. Hvort það var af þessu átaki, að hún féll frá þessari kviku, veit ég ekki, en hún hjó í næstu kviku og féll þá niður á stjórnborða, en þá var hún komin út fyrir flesjarhornið og sloppin út á rúmsjó.


Norðfjörður árið 1919. Norðfjarðarkirkja og Bakki neðar. Á milli Kirkju og Bakka er sennilega mótorbáturinn Freyr SU 413, nýsmíðaður þetta ár á Akureyri. Var í eigu Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns og útgerðarmanns á Nesi. Togari, trúlega enskur, liggur við Sigfúsarbryggjuna sem smíðuð var fjórum árum áður.            Ljósmyndari óþekktur.  

Fórum við Hinrik þá um borð og lögðumst fyrir uppgefnir og hvíldumst til klukkan 12. Þegar við komum aftur upp var logn og blíða. Allan þriðjudaginn og til miðvikudagskvölds rákum við norður með eyjunum í blæjalogni, en alltaf var reynt að láta stefna í norður, því suður með vildum við ekki láta reka. Um hádegisbilið á þriðjudag kom hvalvaða mjög nærri okkur. Hún kom að sunnan, en hafði ekki stefnu til Færeyja. Nokkra fiska drógum við meðan við vorum á grunnu vatni, en brátt var svo djúpt, að við hættum allir veiðitilraunum. Það var sárt að vera á vélskipi, en geta ekki hreyft vél til að komast leiðar sinnar, en vera háðir duttlungum vindanna.
Um klukkan átta á miðvikudagskvöld dró þokubakka upp í austri-norðaustri og jafnframt kom andvari af sömu átt. Var hann í fyrstu svo lítill, að segl rétt stóðu. Fer þá Ólafur, skipstjórinn, að athuga stefnuna til Íslands og sýndist honum hún vera norðvestur hálfur norður þaðan sem við vorum og á Dalatanga. Er svo siglt af stað, þó vindur væri lítill. Við höfðum bátinn í uglum, en mér þótti vissara að taka hann úr uglunum og batt hann rækilega við nálabekkinn við framvantinn og yfir að mastrinu stjórnborðsmeginn og létum við hann liggja á hliðinni svo ekki stæði í honum sjór, ef ágjöf yrði. Ég bjóst við, að ef við fengjum kviku að ráði, mundi báturinn slást niður og gæti þá farið svo að við misstum hann. Þegar klukkan er orðin 10 um kvöldið var komið bezta leiði og bjóst Ólafur við að gangurinn væri þá orðinn 5 mílur, en ekki var skriðmælir dreginn að til athugunar. Um klukkan 12 kom ég upp og tók við stýri. Vindinn var alltaf að herða og klukkan 2 er kominn stormur það sterkur, að ég óttast að klíferbóman þoli ekki átökin, en það voru engin stög á henni. Mér virtist vindurinn hafa gengið til norðurs.


Norðfjörður á árunum 1920-25.                                                                          (C) Björn Björnsson.

Dettur mér þá í hug smákver, sem Þorsteinn Adamsson hafði lánað mér fyrir mörgum árum. Það hét: "Um vinda" og voru í því teikningar af vindsveipum, er sýndu hvernig vindurinn hreyfðist í hring um miðju hvers vindsveips og ávallt móti sólu. Bjóst ég því við, að ef þessi vindur héldist, mundi hann ganga til norðurs þegar kæmi nær Íslandi. Tók ég þá fyrir, að stefna hærra en Ólafur hafði skipað fyrir um og stýrði í norður-norðvestur, eða hálfu öðru striki hærra. Læt ég svo slag standa. Um fjögur leytið að morgni fimmtudags þess 24. ágúst, lítur Ólafur upp, en fer niður aftur til að fara í hlífðarföt, en kemur svo upp og aftur í til mín og segir að þetta sé bakk stormur. " Það mun vera", segi ég og spyr hvort hann haldi að reiðinn þoli hann eigi. Hann segir, að allt sé nýtt og megi til að halda. Ég svara: "Jæja, þá verðum við að sigla, því aldrei fáum við betri vind yfir hafið, en við skulum létta á reiðanum og skútunni með því að taka stóra klíferinn frá og setja upp" stormklífer í staðinn". Samþykkir Ólafur þetta, fer fram á, kallar Hinrik upp og gera þeir þetta. Munaði miklu hve skútan bar sig betur á eftir, því satt að segja var siglingin orðin svakaleg, en mikið hjálpaði, að sjór var lítill. Þegar við vorum búnir að skipta um segl, komu þeir til mín, Hinrik allt að því grátandi, og kvað þetta ófært veður. Nú er siglt allan fimmtudaginn. Eitthvað gátum við hitað handa okkur. Sjór tók nú að verða órólegri og um kvöldið fórum við allir aftur í til að vera til taks ef eitthvað þyrfti að gera á dekki. Það var gengið úr stýrishúsi niður í "hyttuna", eins og Færsarnir kölluðu það. Föstudagsmorgunn 25. ágúst var stormurinn orðinn það mikill, að varla var siglandi og fyrir hádegi kom okkur saman um að leggja til, enda þá lágrok yfir allt og vindur genginn það til norðurs, að stefnan var, þó haldið væri að vindi sem hægt var, tæplega norðvestur. Voru nú forsegl tekin frá og skutsegl strekkt á vant, en stórsegl látin standa á beitivind.


Barðsneshorn, í daglegu tali kallað Norðfjarðarhorn. Til vinstri sér í Gerpi.       (C) Björn Björnsson.

Eru það þau mestu umskipti, sem ég þekki á sjó. Það var eins og við værum komnir á heiðatjörn. Það hvein í reiða og kjölvatnið kom undan hliðinni og olli því, að engin kvika kom nærri okkur. Ólafur dró nú inn skriðmæli og athugaði hvað við værum langt frá landi, eða réttara sagt hvað margar mílur við værum búnir að sigla. Samkvæmt mælinum áttum við ófarnar 20 mílur að Dalatanga. Þegar búið var að ganga frá öllu, fór ég fram í til að kveikja upp eld og hita eitthvað handa okkur. Gekk mér það eitthvað treglega, en gat þó náð upp eldi eftir nokkurn tíma, læt pönnu á eldavélina og brýt egg, sem ég ætla að brasa. Kemur þá Hinrik í lúkarsopið og hrópar til mín að koma upp til að þekkja landið. Ég þýt upp og lít til lands og sé, að við erum um miðja Sandvíkina, en svo dimmt er af roki og móðu, að Hornið sást ekki, en Gerpirinn sást vel. Ég gizkaði á, að við værum það grunnt, að Miðfjall væri við Horn. Stekk ég þá aftur á og segi hvar við séum. Er nú tekið til segla og stagvent, sem gekk ágætlega þegar vent var á stjórnborða. Mér fannst skútan fara eitthvað verr undir eftir að við vorum farnir að sigla bakborðsvind, en það getur hafa stafað af því, að báturinn var nú til hlés, og kvikur, sem brutu yfir, lentu oft í bátnum og fossuðu ekki eins fljótt út um lensportið. Þær voru oft nokkuð stórar, kvikurnar, sem brutu yfir á þessum bóg.
Við siglum nú í klukkustund og vendum þá. Ætlaði það að ganga illa, en tókst þó vonum betur. Ef það hefði ekki tekizt, hefðum við ekki þorað að kúvenda, nema þá að taka niður stórseglið, því annars áttum við á hættu að setja af skútunni mastrið, þegar seglið hefði slegið yfir í því roki, sem þá var. Er svo siglt upp aftur, en mér brá þegar við sáum land næst. Það var Seley, sem ég sá á bakborða. Suðurfallið var svona hart. Er nú vent aftur út um og siglt út.


Séð inn Norðfjarðarflóa. Næst er Barðsnes, til hægri er Norðfjarðarnípan og Norðfjörður. Síðan er Hellisfjarðarnes, Hellisfjörður og Viðfjarðarnes og minni Viðfjarðar.

Er nú farið að athuga hvenær norðurfallið komi. Eftir því sem okkur reiknaðist til, átti það að byrja klukkan 8, en af því myrkur fór í hönd og stormur var á, töldum við bezt að sigla út það lengi, að við kæmum upp undir land aftur um það bil, er norðurfall tæki á laugardagsmorgun. Er svo slagur látinn standa, en svakalegt var að líta til stjórnborða og yfir þilfar. Það voru oft ljótar kvikur, sem brutu þá á Drífu og yfir hana. Undir lágnætti fór að draga úr veðrinu. Enginn okkar fór fram í þessa nótt. Við vorum allir í stýrishúsinu, til að vera tilbúnir, ef eitthvað brygði út af, enda ekki gott að fara á milli. Ég fór þá að hugleiða hvernig hefði farið fyrir okkur, ef við hefðum siglt lengur, og sömuleiðis hvað skriðmælirinn sagði minna en rétt var. Hélt skipstjóri, að hann hefði mælt of lítið fyrsta kvöldið, meðan vindurinn var svo lítill, og svo að straumur hefði valdið einhverju, og loks, að mælirinn, sem var alveg nýr, hefði verið eitthvað stirður. Ef við hefðum siglt lengur, hefðum við komið undir land óviðbúnir, og ekki víst að við hefðum komið þar að, sem heppilegast hefði verið, hefðum sennilega komið öðru hvoru megin Dalatanga.
Við höfum sjálfsagt verið búnir að reka hálfa aðra klukkustund, þegar land sást og ekki of áætlað, að við hefðum rekið þá vegalengd í hröðu suðurfalli og því roki, sem þá var, á þeim tíma. Ef við hefðum komið fyrir sunnan Dalatanga, veit ég ekki hvað hefði verið réttast, eins og á stóð, en sennilega hefðum við lagt í að sigla inn, en hvernig það hefði farið, ef rokið hefði staðið út fjörðinn fyrir innan Uxavogstanga, er hætt við að við hefðum lent í einhverjum erfiðleikum við vendingar og svo að ná botnhaldi með legufærunum. Að vísu höfðum við tvö akkeri, annað 200 pund, og hitt 250 pund, en með stærra akkerinu voru aðeins tveir liðir eða 30 faðmar, en því minna þrír liðir.


Í víkinni innan við Neseyrina um miðja síðustu öld. Sverrisbryggjan í forgrunni.(C) Björn Björnsson.  

Það er því eins og æðri öfl hafi þarna verið að verki, bæði með skriðmælirinn og að við skyldum hætta að sigla á þessum tíma. Fyrir lágnætti fór að draga úr storminum. Klukkan 1 var vent til lands og klukkan 3 hafði dregið það úr vindi, að við tókum stormklýfi frá og settum þann stóra fyrir. Klukkan 9 á laugardagsmorgun erum við komnir upp undir land og erum sem næst Vogatanga. Er svo siglt í stuttum bógum. Fyrir Horn erum við komnir klukkan 12 og er þá vindur ekki meiri en það, að bezta leiði var. Þá tók Hinrik gleði sína og fór að hreinsa fram í, enda ekki vanþörf. Ég var búinn að segja, að ég hafði kveikt upp eld, sett pönnu á eldavélina og egg þar á, en ekki hirt meira um þau í óðagotinu, sem var á öllum þegar land sást. Hinrik gekk rösklega til verks og var búinn að þrífa til áður en við komum til hafnar. Er svo þessi ferðasaga ekki lengri. En skútan, sem þeir Ólafur og Hinrik ætluðu að vera á, fór frá Vestmannahavn sama dag og við fórum frá Þórshöfn og átti að koma upp á Seyðisfjörð. Það fyrsta, sem Ólafur gerði, eftir að við komum til Norðfjarðar, var að síma til Seyðisfjarðar og spyrjast fyrir um skútuna. Var hún þá ekki komin og líður svo sunnudagur, mánudagur og þriðjudagur, að ekkert fréttist af henni og var Ólafur farinn að óttast, að hún kæmi ekki. En um hádegisbilið á miðvikudag fréttist að hún sé komin, og er þá brugðið við að koma þeim Ólafi og Hinriki til Seyðisfjarðar. Þegar þeir á skútunni fengu storminn á miðvikudagskvöld, sigldu þeir fram yfir lágnætti, en lögðu þá til og létu reka þar til á laugardag að vind fór að lægja. Þegar Ólafur sagði, að við hefðum siglt "í heilu", eins og hann orðaði það, þótti skútuskipstjóra við óforskammaðir, að sigla yfir í þeim stormi, sem á hefði verið þessa daga.

Sjómannablaðið Víkingur. 4 tbl. 1 apríl 1964
Frásögn Magnúsar Hávarðssonar.


Vélbáturinn Drífa RE 42.                                                                                Ljósmyndari óþekktur.

         Drífa RE strandaði í nótt                            mannbjörg varð

Vélbáturinn Drífa, RE-42, strandaði í nótt skammt fyrir sunnan Kalmanstjörn á Reykjanesi, en skipverjum var bjargað á land heilum á húfi. Samkvæmt upplýsingum, er Vísir fékk hjá skrifstofu SVFÍ.
strandaði báturinn kl. 2.50 í nótt á skeri skammt sunnan Kalmanstjarnar. Veður var þá gott, vestanátt, en talsvert brim við ströndina. Það var vb. Svanur, RE 88 sem tilkynnti um strandið, en í fyrstu var óljóst, hvar það hefði orðið, og voru slysavarnasveitir víða á Reykjanesi til taks, en um 20 mínútum síðar fékkst örugg vitneskja um strandstaðinn, og brá slysavarnadeildin Eldey í Höfnum þegar við og kom á strandstaðinn undir stjórn formanns síns, Vilhjálms Magnússonar. Var þegar hafizt handa um björgun, og tókst hún mjög greiðlega, en skipverjum, 6 að tölu, var bjargað í land á björgunarstól. Sýndi deildin mikið snarræði við þetta tækifæri, Segja sjónarvottar, að ekki hafi mátt tæpara standa. Báturinn strandaði á fjöru, en brátt tók að falla að, og hvoldi honum á skerinu skömmu eftir að síð- asti skipverjinn komst í land. V.b. Drífa, RE-42, er 38 brúttólestir að stærð, smíðaður í Kongshavn 1917, en endursmíðaður árið 1938. Eigandi hans er Jón Þórarinsson hér í bæ. Skipstjóri á Drífu er Kristinn Maríasson. Talið er sennilegt, að báturinn sé ónýtur með öllu, en ókunnugt er um orsakir strandsins.

Vísir. 6 febrúar 1953.

Flettingar í dag: 643
Gestir í dag: 193
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956451
Samtals gestir: 495306
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 04:22:16