09.03.2019 08:03

953. Gullfinnur NK 78.

Vélbáturinn Gullfinnur NK 78 var smíðaður í Neskaupstað af Lindberg Þorsteinssyni árið 1964 fyrir Sigurð Hinriksson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik og fura. 11 brl. 132 ha. Perkins vél. Báturinn var smíðaður upp úr gömlum hringnótabáti í gömlu íshúsunum sem Sigfúsarverslunin átti áður fyrr. Seldur 1972, Ragnari Sigurðssyni hafnarstjóra í Neskaupstað. Seldur 1974, Rafni Einarssyni útgerðarmanni og fl. í Neskaupstað. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 16 desember árið 1975. Gullfinnur lá í mörg ár á fjörukambinum sunnan við slippinn upp við Þórsskúrinn og sennilega endað fyrir rest á áramótabrennu Norðfirðinga um árið 1980.


953. Gullfinnur NK 78.                                                                       (C) Guðmundur Sveinsson.

              Gullfinnur NK 78

Síðastliðinn föstudag, 15. maí, var hleypt af stokkunumi nýjum 11 lesta báti hér í Neskaupstað. Tíðindamaður Austurlands skoðaði bátinn og átti tal við eigandann, Sigurð Hinriksson, útvegsmann. Báturinn heitir Gullfinnur og hefur einkennisstafina NK 78. Hann er smíðaður upp úr hringnótarbát, þiljaður og frambyggður. Báturinn er búinn 125 hestafla Perkins-vél, enskri, og mun ganga 9-10 mílur. Smíði bátsins hefur staðið yfir i 15 mánuði, frá því að byrjað var, en í fyrra sumar var ekkert unnið við hana.
Yfirsmiður var Lindberg Þorsteinsson. Gullfinnur er vel búinn ýmsu því, er til hagræðingar má teljast. Stýrishúsið er mjög rúmgott, og "lúkar" er fyrir fjóra menn. Hann verður hitaður upp með kælivatni frá vélinni, en olíukynding verður til eldunar. Þá er í bátnum Simrad-dýptarmælir. Stýrisútbúnaður er öðruvísi en tíðkazt hefur. Frá stýrisvélinni gengur öxull aftur eftir kjalsoginu og í bílsnekkju aftur í stafni. Stýrið sjálft er gamalt bílstýri. Fiskikassar á þilfari eru að mestu úr aluminíum og leika á hjörum, er það uppfinning Sigurðar. Það nýmæli verður og, að aftarlega á þilfar kemur lyftikrani. Honum er ætlað að slöngva inn dragnót og ennfremur á að nota hann við uppskipun úr lest.
Sigurður lét þess getið, að báturinn væri byggður með tilliti til þess, að á honum gæti stundað fámenn áhöfn. Tveir menn geta t. d. stundað á honum dragnót. Frambyggingin er líka gerð með tilliti til þess, að betra þilfarsrými fáist og aukin vinnuhagræðing. Kostnaðarverð kvaðst Sigurður ekki geta sagt nákvæmlega að svo stöddu, en báturinn er virtur á milli sjö og átta hundruð þúsund. Og sem ég er að stíga upp á bryggjuna aftur sé ég við borðstokkinn miðskips stjórnborðsmegin, hvar er sívalningur einn torkennilegur, u. þ. b. einn meter á hæð, og snýst hann, ef komið er við hann. Hann er gerður úr steypujárnsteinum, lokaður í báða enda með síldartunnubotnum. Ég spyr Sigurð, hvaða tæki þetta sé, og segir hann, að þetta áhald sé til þess, að einn maður geti veitt með tveim færum í einu. Er þetta einnig uppfinning Sigurðar.
Sigurður Hinriksson á annan bát minni, Fóstra, er hann lét smíða sér hér og smíðaði einnig sjálfur. Hugkvæmni hans og útsjónarsemi koma að góðum notum við útbúnað báta hans, endi leggur hann mikla alúð við útgerð sína. 

Austurland. 22 maí 1964.
Birgir Stefánsson.


Flettingar í dag: 317
Gestir í dag: 186
Flettingar í gær: 1207
Gestir í gær: 337
Samtals flettingar: 737945
Samtals gestir: 55399
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 09:24:58