16.03.2019 17:47

B. v. Helgafell RE 280. TFZD.

Nýsköpunartogarinn Helgafell RE 280 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt útgerðarfélag í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Helgafell var annar nýsköpunartogarinn sem kom til landsins, hinn 25 mars sama ár. Skipið var selt haustið 1952, Útgerðarfélagi Akureyringa hf., hét Sléttbakur EA 4. Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn og tekinn af skrá 18 apríl árið 1974.


B.v. Helgafell RE 280 á Pollinum á Ísafirði.                                             (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      B.v. Helgafell kemur næsta                             fimmtudag

Bv. Helgafell, annar Nýbyggingarráðstogarinn, sem fullgerður er, fór í reynsluför á þriðjudag. Visir átti í gær tal við Skúla Thorarensen útgerðarmann og fékk hjá honum þær upplýsingar um Helgafell, að hann hefði reynzt í alla staði vel. Í fyrradag var hann svo tekinn í slipp til eftirlits og botnmálunar. Gert er ráð fyrir því, að skipið fari frá Hull á morgun og komi ef til vill við í Aberdeen á heimleiðinni. Má þá búast við því hingað á fimmtudag.
B.v. Egill rauði, eign Neskaupstaðar, mun verða tilbúinn um næstu mánaðamót.

Vísir. 14 mars 1947.


B.v. Helgafell RE 280 sennilega á leið í siglingu með fullfermi.                      Ljósmyndari óþekktur.

 Annar nýsköpunartogarinn kominn

Togarinn Helgafell, RE 280, sem er annar nýsköpunartogarinn, kom hingað til Reykjavíkur í gærmorgun, eftir fjögra sólarhringa siglingu frá Hull. Eigandi Helgafells er samnefnt hlutafjelag hjer í bæ. Helgafell er byggður eftir sömu teikningum og b.v Ingólfur Arnarson. Á leiðinni frá Englandi hrepti skipið slæmt veður og náði veðurhæðin 9 vindstigum. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, skýrði svo frá, að skipið hefði farið vel í sjó, enda þó að sjólag hafi verið slæmt. Skipið var með 160 smálestir af sementi, og með eldsneytisforða var það á hleðslumerkjum fyrir vöruflutninga. Strax í gær hófst vinna við að setja lýsisvinsluvjelar í skipið og að búa það undir fyrstu veiðiför sína. Búist er við að togarinn fari á veiðar fyrir hátíðar.
Eins og fyrr segir er skipstjóri Helgafells Þórður Hjörleifsson. Fyrsti stýrimaður er Pjetur Guðmundsson og yfirvjelstjóri er óskar Valdimarsson.

Morgunblaðið. 26 mars 1947.


B.v. Helgafell RE 280 við bryggju í Reykjavík. Strandferðaskipið Esja ber yfir togarann. 



194. Sléttbakur EA 4 við bryggju á Akureyri.                                                    (C) Davíð Hauksson.

         Eigendaskipti á togurum

Togarinn Helgafell, sem var eign samnefnds félags í Reykjavik, en framkvæmdastjóri þess var Skúli Thorarensen, var seldur til Akureyrar, og er Útgerðarfélag Akureyrar kaupandinn. Skipið heitir nú Sléttbakur og hefur einkennisstafina EA 4. Útgerðarfélag Akureyrar á þar með orðið fjóra togara, og á enginn einn aðili fleiri togara hér á landi nema Bæjarútgerð Reykjavíkur. Frá Akureyri eru því gerðir út fimm togarar, og er það einungis einum togara færra en í Hafnarfirði. Togarinn Helgafell var seldur fyrir kr. 5.500.000.00. Greiðsluskilmálar eru þessir:
Við undirskrift samningsins greiddust 500 þús kr. Upphæð þá tók Útgerðarfélag Akureyrar að láni hjá Samvinnutryggingum, til 4 ára, og fer fyrsta afborgun fram í sept. næsta ár. Þá er 500 þús. kr. víxill til sex mánaða til fyrri eigenda. Þá er skuldabréf til 10 ára til fyrri eigenda að upphæð kr. 3.084.667,30, yfirtekin skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins kr. 1.322.000,00 og loks yfirtekin skuld við ríkissjóð kr. 93.132,80. Skipið var afhent hinum nýju kaupendum 8. september, en þá var það tilbúið á veiðar. Skipstjóri á því er Finnur Daníelsson, sem verið hefur 1. stýrimaður á Kaldbak.

Tímaritið Ægir. 9-10 tbl. 1 september 1953.


Flettingar í dag: 377
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739029
Samtals gestir: 55707
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 02:46:11