27.03.2019 13:53

M.b. Bragi ÍS 415. / Djúpbáturinn Bragi.

Mótorbáturinn Bragi ÍS 415 var smíðaður í Bátasmíðastöð Elíasar Johansen í Álaskersvík í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 47 brl. Vélarstærð og tegund óþekkt. Bátinn smíðaði Elías Johansen skipasmiður frá Rættará fyrir séra Ásgeir Ásgeirsson í Hvammi, Arngrím Fr. Bjarnason prentara, Odd Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurð H. Þorsteinsson múrara á Ísafirði. Árið 1920 er Bragi kominn í eigu Landsbankans á Ísafirði. Seldur sama ár, hf. Djúpbátnum á Ísafirði, sama nafn en ekkert skráningarnúmer (það eru bara fiskiskip sem hafa skráningarnúmer). Báturinn strandaði undir Völlunum (Eyrarhlíð) í Ísafjarðardjúpi hinn 12 febrúar árið 1925. Bragi var þá á leið frá Langeyri til Ísafjarðar hlaðin saltfiskfarmi í eigu hf. Kveldúlfs í Reykjavík. Mannbjörg varð.


Bragi ÍS 415 í Reykjavíkurhöfn stuttu fyrir 1920. Báturinn er trúlega á síldveiðum, enda smíðaður sem slíkur í Færeyjum. Steinbryggjan til hægri.    (C) Magnús Ólafsson.

                    Ísafjörður

Þrír vélbátar hafa bætst við vélbátaflotann þessa dagana, eru tveir þeirra nýir.
Þórður Kakali nefnist annar nýju bátanna. Hann er um 34 smál. að stærð, með 66 hesta Tuxham-vél, útbúinn með raflýsingu og leitarljósi, mun enginn bátur hér hafa fengið það tæki fyrr. Báturinn er smíðaður hjá Andersensbræðrum í Friðrikssudi í Danmörku. Ólafur Sigurðsson, áður stýrimaður á Goðafossi, stýrði honum hingað til lands, en vélarmaður var Björn H. Guðmundsson héðan úr bænum. Eigendur bátsins eru þeir Karl Löve, séra. Magnús Jónsson og Sigurður Sigurðsson lögmaður.
Hinn báturinn nefnist Bragi og er smíðaður hjá Elíasi Johansen í Færeyjum. Er hann stærsti vélbáturinn sem hingað hefir komið, um 47 smálestir að stærð, vel lagaður og vandvirknisiega byggður, einhver laglegasti báturinn að útliti. Virðist af því mega marka, að þeir Færeyingar standa þeim dönsku ekki að baki í skipabyggingum. Bátinn eiga þeir séra Ásgeir í Hvammi, Arngrímur Fr. Bjarnason prentari, Oddur Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurður Þorsteinsson múrari hér í bænum. Eiríkur Einarsson skipstjóri kom með bátinn frá Færeyjum. Hefir hann einnig haft umsjón með smíði hans.
Þriðji báturinn heitir Mercur, um 23 smálestir að stærð, með frekra 20 h. vél. Var póstbátur í Færeyjum, en keyptur þar fyrir Skúla Einarsson íshússtjóra.

Vestri. 14 júní 1917.


Djúpbáturinn Bragi við Kompaníbryggjuna á Ísafirði.                                      (C) Skúli Kr. Eiríksson.

             Vélbátur strandar

Djúpbáturinn Bragi frá Ísafirði strandaði í fyrrinótt á Arnarnesi við Skutulsfjörð, í niðdimmri þoku. Var hann að koma úr skemmtiför innan úr Reykjarfirði og voru farþegar á annað hundrað. Veður var gott og sjólaust. Allir komust heilu og höldnu í land. Báturinn náðist á flot í gær.

Vísir. 19 júlí 1922.


Álaskersvík í Þórshöfn. Bragi var smíðaður í stóru skemmunni til vinstri á myndinni.

                Bragi fer á land

Fyrra fimmtudag fór Bragi inn á Langeyri til að sækja saltfisk, seldan "Kveldúlfi". Veður var risjótt, kafald með köflum, fjallabjart á milli. Á heimleiðinni um kvöldið fór Bragi á land neðan undir Völlunum, þar í grend sm Vesta gamla festi sig um árið. Atvikum hagaði þannig: Ljós brann á vita, "lögg" flaut úti, kompás í lagi, kuldastormur, undirsjór þungur, alldimt él, háflóð og hraður gangur. Vesturland telur bátinn tryggðan fyrir 40 þúsund kr. og farminn að fullu.
Menn hjálpuðust allir.

Skutull. 20 febrúar 1925.

                  Vertíðarlok

Ekki þarf að gjöra ráð fyrir að Bragi komi á flot aftur. Hann mun hafa þokast það betur á land í síðasta stórstraumi að fullt og fast strand verður. Bragi þótti jafnan góður bátur og munu Djúpmenn sakna hans. Hann var í upphafi keyptur til Djúpferðanna fyrir nær því hálfu hærra verð en fært var, ef útgerðin átti að geta borið sig sæmilega. Að því leyti var fyrirtækið "í grænum sjó" frá upphafi. Er nú slíkur endahnútur á riðinn og má Landsbankinn vita hvað kostar. Ber það að tileinka stjórn og forsjá Jóns Auðuns.

Skutull. 27 febrúar 1925.


Flettingar í dag: 371
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 1867953
Samtals gestir: 480266
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 09:49:36