12.05.2019 12:04

1159. Torfi Halldórsson ÍS 19. TFTH.

Vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marcelíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1971 fyrir Benedikt Vagn Gunnarsson útgerðarmann á Flateyri. 111 brl. 600 ha. Wichmann vél. Skipið var lengt árið 1972, mældist þá 134 brl. Selt 6 mars 1974, Núma Jóhannssyni, Skúla Jónassyni og Tjaldi hf á Siglufirði og Kristjáni Guðmundssyni útgerðarmanni á Rifi, hét Tjaldur SI 175. Selt 9 maí 1979, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, Gissuri Tryggvasyni, Árna Helgasyni og Guðmundi Bjarnasyni í Stykkishólmi, hét Tjaldur SH 270. Árið 1982 var skipið yfirbyggt og mældist þá 137 brl. Frá 1 júní 1986 var Kristján Guðmundsson einn eigandi skipsins. Ný vél (1987) 715 ha. Caterpillar vél, 526 Kw. Selt 21 maí 1992, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, hét Svanur SH 111. Selt 30 maí 1992, Sigurði Ágústssyni hf í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Selt 27 maí 1997, Hópi ehf í Grindavík, hét Þorsteinn GK 16 (kom í stað skips með sama nafni sem strandaði undir Krísuvíkurbjargi, 10 mars sama ár). Selt árið 2003, Vinnslustöðinni hf í Vestmannaeyjum, hét þá Kristbjörg VE 82.  Selt árið 2004, Kóp ehf í Hafnarfirði, hét Kristbjörg ÁR 82, með heimahöfn í Þorlákshöfn. Selt árið 2005, Ebba ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg HU 82. Selt árið 2007, Svartabakka ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg SK 82, með heimahöfn á Hofsósi. Frá árinu 2008 heitir skipið Kristbjörg HF 82, sami eigandi, en gert út frá Hafnarfirði. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur 15 júlí árið 2008.


1159. Torfi Halldórsson ÍS 19 við bryggju á Ísafirði.                                      Ljósmyndari óþekktur.

            Nýr bátur til Flateyrar

Síðastliðinn laugardag bættist nýr og glæsilegur fiskibátur í flota Flateyringa. Er það vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19, sem smíðað er í skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Skipið ber nafn hins kunna athafnamanns Torfa Halldórssonar skipstjóra á Flateyri, sem á sínum tíma átti hvað mestan þátt í uppbyggingu staðarins og hélt námskeið fyrir skipstjórnarmenn, sem telja má vísi að fyrsta sjómannaskóla á Íslandi. Torfi Halldórsson er stálskip, 115 lestir brúttó að stærð og er mesta lengd 26,40 m., breidd 7,70 m. og dýpt 3,35 m. Skipið er mjög vandað að allri gerð og traustbyggt. Aðalvél skipsins er 600 hestafla Wichmann-vél, og reyndist ganghraði í reynsluför um 12,5 sjómílur. Í skipinu eru tvær hjálparvélar af gerðinni Mercedes Benz og er hvor um sig 50 hestöfl. Vinna þær 220 volta riðstraum, samanlagt 50 kw. Togvinda, 16 lestir, er smíðuð hjá Sigurði Sveinbjörnssyni hf. Skipið er smíðað eftir ströngustu kröfum um gerð íslenzkra fiskiskipa í þessum stærðarflokki, og er búið öllum fiskileitar- og siglingatækjum eins og þau verða bezt.
Eigandi skipsins og útgerðarmaður er Benedikt Vagn Gunnarsson skipstjóri á Flateyri. Lofar hann öll samskipti við Marzellíus Bernharðsson skipasmíðameistara og starfsmenn hans, sem unnu að smíði skipsins. Skipstjóri á Torfa Halldórssyni er Jón Marteinn Guðröðsson, stýrimaður Einar D. Hálfdánsson, 1. vélstjóri Gísli Valtýsson og 2. vélstjóri Hallgrímur Kristinsson. Mikill mannfjöldi fagnaði nýja bátnum er hann kom til Flateyrar á laugardagskvöldið, fánum skrýddur stafna á milli í fögru veðri. Einar Oddur Kristjánsson, varaoddviti Flateyrarhrepps, ávarpaði fólkið og bauð skip og skipshöfn velkomna til Flateyrar. Kvað hann alla Önfirðinga fagna þessum nýja farkosti. Stjórn Slysavarnadeildarinnar Sæljóss á Flateyri fór um borð í hið nýja skip og færði skipstjóranum að gjöf ullarfatnað í gúmbjörgunarbáta skipsins og einnig öndunartæki, sem notað er viðblástursaðferðina við lífgun úr dauðadái. Frú Sólveig Bjarnadóttir, formaður Sæljóss, hafði orð fyrir konunum úr stjórninni, en það var Sólveig Bjarnadóttir, sem átti hugmyndina og forgöngu um það, að gefinn var ullarfatnaður í gúmbjörgunarbáta, og er deildin á Flateyri búin að gefa í alla báta þar. Í vetur bætti deildin um betur og gaf einnig öndunartæki í alla bátana á Flateyri og einnig færði hún björgunarsveitinni á staðnum slíkt tæki að gjöf. Þegar sjóslysin miklu urðu á Flateyri fyrir einum fimm árum, kom frú Sólveig Bjarnadóttir fram með þá hugmynd, að konurnar í slysavarnadeildinni gæfu ullarfatnað í gúmbjörgunarbátana, og hefur sú hugmynd vakið mikla eftirtekt og orðið til þess, að slíkan ullarfatnað er nú búið að gefa í alla báta á Vestfjörðum, einnig á Norðurlandi og víða annars staðar á landinu, þar sem kvennadeildir Slysavarnafélagsins eru starfandi. Vesturland óskar eiganda, áhöfn og Flateyringum til hamingju með hið nýja skip, sem er að hefja togveiðar um þessar mundir. 

Vesturland. 3-4 tbl. 21 maí 1971.


1159. Tjaldur SH 270.                                                                                               (C) Birgir Karlsson.


1159. Þorsteinn GK 16.                                                                      (C) Sjómannabl. Víkingur 1997.


1159. Kristbjörg HF 82.                                                                                (C) Ríkarður Ríkarðsson.

  Nýr Þorsteinn GK byrjaður veiðar 
     í stað skipsins sem strandaði

"Það er mjög gott að vera búinn að finna nýtt skip og yfirstíga þann þátt. Öll áhöfnin á Þorsteini kemur aftur og við byrjum að leggja netin fljótlega," sagði Guðmundur Þorsteinsson, forstjóri og eigandi Hóps hf. í Grindavík, í samtali við DV. Nýi báturinn kom til Grindavíkurhafnar í byrjun apríl en hann kemur í stað Þorsteins GK 16 sem strandaði við Krísuvíkurberg. Báturinn, sem bar nafnið Svanur SH 111, áður Tjaldur frá Rifi, var í eigu Sigurðar Ágústssonar ehf. í Stykkishólmi. Hann er 145 tonn að stærð, 30 tonnum minni en Þorsteinn, smíðaður 1971 á Ísafirði. Kaupverð er 73 milljónir. Báturinn hefur fengið nafnið Þorsteinn GK. "Greinilega hafa margir fylgst með strandinu. Mjög mikið framboð er af bátum, bæði hér á landi og erlendis. Faxtækið hefur ekki stoppað frá þeim tíma sem strandið varð og ekki síminn heldur. Ég hef ekki þurft að hringja eftir upplýsingum, það hefur verið hringt í mig. Það hafa komið á milli 70-80 tilboð erlendis frá frá aðilum sem vilja selja báta sína. Sennilega hef ég fengið upplýsingar um 25-30 báta hér á landi," sagði Guðmundur.

DV. 8 apríl 1997.


Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 725774
Samtals gestir: 53827
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 02:12:21