15.05.2019 19:43

156. Náttfari ÞH 60. TFXY.

Vélskipið Náttfari ÞH 60 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1962 fyrir Barðann hf á Húsavík. 169 brl. 660 ha. Lister vél. Skipið var lengt árið 1966 í Noregi og mældist þá 208 brl. Frá 7 desember 1966 hét skipið Þorri ÞH 10, sömu eigendur. Skipið var endurmælt í júní 1970 og mældist þá 170 brl. Selt 10 febrúar 1975, Pólarsíld hf á Fáskrúðsfirði, hét þá Þorri SU 402. Mikil slagsíða kom að Þorra er hann var staddur rétt austan við Ingólfshöfða 18 október árið 1979, með þeim afleyðingum að hann sökk. Var skipið þá á heimleið með síldarfarm til Fáskrúðsfjarðar. Það var vélskipið Gunnar SU 139 frá Reyðarfirði sem bjargaði áhöfninni, 10 mönnum.


156. Náttfari ÞH 60.                                                    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

                 Náttfari ÞH 60

Fyrra laugardag kom til Húsavíkur nýr stálbátur, smíðaður í Moldö í Noregi. Bátur þessi er 168 rúmlestir að stærð og hefur hlotið nafnið Náttfari, ÞH 60. Í bátnum er 640 ha Lister-dieselvél, og ganghraði í reynsluferð var 11,6 sjómílur. Báturinn er að sjálfsögðu búinn öllum nýjustu siglingatækjum og fiskileitartækjum, einnig kraftblökk til síldveiða. Eigandi Náttfara er útgerðarfélagið Barðinn h.f. (Stefán og Þór Péturssynir). Skipstjóri verður Stefán Pétursson og vélstjóri Kristinn Gunnarsson.

Verkamaðurinn. 29 júní 1962.

 Mannbjörg varð er síldarbátur sökk

Vélbáturinn Þorri SU 402 frá Fáskrúðsfirði sökk um klukkan 20 í gærkvöldi. Mannbjörg varð og engin slys á mönnum. Báturinn var á heimleið frá síldarmiðunum við Ingólfshöfða með 70 lestir af síld þegar óhappið varð. Áhöfninni, 10 mönnum, var bjargað um borð í vélbátinn Gunnar SU frá Reyðarfirði. Gunnar er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar með mennina snemma í fyrramálið. Vonzkuveður var af austan þegar báturinn sökk. Þorri SU 402 var 170 lesta stálbátur, byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn hét áður Náttfari.

Morgunblaðið. 19 október 1979.


Vélskipið Gunnar SU 139 bjargaði áhöfn Þorra SU, 10 mönnum.                (C) Vilberg Guðnason.

"Við reyndum að rétta bátinn við en
     það varð ekki við neitt ráðið"

Við reyndum að rétta bátinn við aftur eftir að hann byrjaði að hallast á stjórnborðshliðina, en það varð ekki við neitt ráðið og ekki hægt að komast að neinu, um klukkustund eftir að við yfirgáfum bátinn sökk hann, sagði Friðrik Stefánsson skipstjóri á Þorra 402 frá Fáskrúðsfirði í samtali við Mbl. í gær, en báturinn sökk skammt austur af Ingólfshöfða klukkan rúmlega 20 í fyrrakvöld. Það hefur trúlega eitthvað gefið sig í lestinni, maður veit það ekki nákvæmlega, sagði Friðrik.
Þorri var á síldveiðum með hringnót og höfðu fengist 70-80 tonn í góðu verðri í fyrradag í Meðallandsbugt. Eftir um 3 ½  tíma siglingu áleiðis heim til Fáskrúðsfjarðar fór báturinn skyndilega að halla, en þá var komið vonzkuveður á þessum slóðum, 6-7 vindstig og töluverð kvika. Sagði Friðrik að mjög snögglega hefði brælt. Við vorum komnir stutt austur fyrir Ingólfshöfða þegar þetta gerðist, sagði Friðrik skipstjóri. Við héldum bátnum uppí og það var ekki fyrr en um 2 tímum eftir að báturinn byrjaði að hallast, að við yfirgáfum hann og fórum í bátana. Þá var hann að segja má alveg lagstur á hliðina, kominn inn á miðjar lúgur. Ég var búinn að vera í sambandi við Jónas Jónasson á Gunnari SU frá Reyðarfirði nokkuð lengi og fljótlega eftir að við vorum komnir í bátana vorum við teknir um borð í Gunnar. Við vorum búnir að taka okkur til með þjörgunarbátana og höfðum þá alveg tilbúna, allir í sínum sjógalla og björgunarvestum. Það var ekkert að mönnunum, en við vorum 10 um borð, og við komum til Fáskrúðsfjarðar um klukkan hálffimm í morgun, sagði Friðrik Stefánsson í gær. Hann sagði að fleiri bátar hefðu verið þarna nærstaddir og nefndi Sæljónið frá Eskifirði og Jón Guðmundsson frá Djúpavogi, en síðarnefndi báturinn var við Þorra þegar báturinn sökk upp úr klukkan 20 í fyrrakvöld. Friðrik sagðist ekki hafa sent út neyðarkall, þess hefði ekki gerzt þörf þar sem bátar voru þarna nærstaddir og sagði að samskiptin á milli bátanna hefðu farið fram á venjulegri vinnubylgju. Ekki hefði sérstaklega þurft að kalla eftir hjálp, þetta hefði haft langan aðdraganda og sjómenn væru ætíð fljótir til hjálpar ef eitthvað brygði út af og sagðist vilja þakka þeim sem hefðu lagt sitt af mörkum í þessu tilfelli.
Þorri SU 402 var byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn var úr stáli og 170 lestir að stærð. Hann hét áður Náttfari ÞH 60, eigendur voru Pólarsíld, Bergur Hallgrímsson og fleiri.

Morgunblaðið. 20 október 1979.


Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 88
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960295
Samtals gestir: 496296
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 05:31:34