15.07.2019 20:47

B.v. Þorkell máni RE 205. TFCG.

Botnvörpungurinn Þorkell máni RE 205 var smíðaður hjá Goole S.B. & Repg. Co Ltd í Goole á Englandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. 722 brl. 1.332 ha. Ruston vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 23 janúar árið 1952. Þorkell máni þótti framúrstefnulegur og um margt öðruvísi en hinir Nýsköpunartogararnir. Í honum var lítið "frystihús" sem var staðsett b.b. megin frá hvalbak aftur að vanti sem var yfirbyggt og þar voru frystitæki staðsett sem gátu fryst um 2,5 tonn af fiskflökum á sólarhring. Seinna var þessu svo breitt þannig að togarinn gat haft 2 troll undirslegin. Þorkell máni var hætt komin á Nýfundnalandsmiðum í febrúar 1959. Gífurleg ísing hlóðst á skipið í þessum hamförum. Það þótti kraftaverki líkast að skipið héldist ofansjávar í þessum hildarleik þar sem áhöfnin stóð sólarhringum saman hvíldarlaust við íshögg og annan barning til að halda lífi. En til hafnar komust þeir eftir þetta þrekvirki í fylgd togarans Marz RE 261, sem einnig lenti í mikilli ísingu. Margir íslenskir togarar voru á Nýfundnalandsmiðum í veðri þessu, má nefna Norðfjarðartogarann Gerpi NK 106 sem fékk á sig brot suðaustur af Hvarfi á Grænlandi, en hann ætlaði að koma Grænlandsfarinu Hans Hedtoft til hjálpar sem hvarf með manni og mús 30 janúar 1959 við Grænland. Harðbakur frá Akureyri lenti í miklum hildarleik. Þegar upp var staðið vantaði Hafnarfjarðartogarann Júlí GK 21, en hann fórst með allri áhöfn, 30 ungum sjómönnum, eitt hræðilegasta sjóslys aldarinnar sem leið. Togarinn var seldur til Skotlands í brotajárn og tekinn af skrá 10 október árið 1973.


Bv. Þorkell máni RE 205 á siglingu.                                                                       (C) Snorri Snorrason.

      "Þorkell máni" stærsti togari                     flotans kom í gærkvöldi  

Um miðnætti í nótt kom hingað til Reykjavíkur hinn nýi togari Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Þorkell máni, sem er stærsti togari Íslendinga. Togarinn er hinn 9. í röðinni af þeim 10, er verið hafa í smíðum í Bretlandi undanfarin ár. Þorkell máni er dieseltogari. Hann er hálfu feti breiðari og hálfu öðru feti lengri en stærstu eimknúðu togararnir, og ber um 300 tonn af ísvörðum fiski. Að ytra útliti er hann allfrábrugðinn hinum nýsköpunartogurunum.
Í togaranum er fiskimjölsverksmiðja og hraðfrystitæki. Hægt er að vinna úr 20 tonnum af fiskúrgangi og beinum í verksmiðjunni og í hraðfrystirúminu má framleiða 2,5 tonn af frystum flökum á dag. Á fiskveiðum verður 30 manna áhöfn á togaranum, en séu saltfiskveiðar stundaðar og fiskmjölsvinnslan og hraðfrystingin starfrækt, verður 48 manna áhöfn á þessum stærsta togara íslendinga. Hannes Pálsson er skipstjóri, Hergeir Elíasson 1. Stýrimaður og Sigurjón Þórðarson 1 vélstjóri.

Morgunblaðið. 24 janúar 1952.


223. Þorkell máni RE 205 í reynslusiglingu.                                        (C) Goole S.B. & Repg. Co Ltd.

    Hraðfrystivélarnar í Þorkeli mána               munu koma sér einkum vel á                             fjarlægum miðum

Nýjasta skip togaraflotans, Þorkell máni, eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem kom til landsins seint í fyrrakvöld, kann að marka tímamót í sögu íslenzku togaranna. Hann er þannig úr garði gerður, að varpan verður aðeins á stjórnborðshlið, en hvalbakurinn aftur á móti framlengdur að frammastri, vegna hraðfrystivélanna, sem í skipinu eru. Hefur jafnvel verið talað um að Þorkell máni geti orðið nokkurs konar "móðurskip" við nýtingu lúðu, þegar saltfiskveiðar eru stundaðar á fjarlægum miðum. Þorkell Máni, sem er stærsta" skip flotans, er byggður í skipasmíðastöð Goole. Þar er systurskip hans, Gylfi, sem þeir Vatneyrabræður á Patreksfirði eiga, einnig í smíðum.
Þorkell máni er 200 fet á lengd og 30,5 fet á beidd. Hann er því stærsta skip togaraflotans. Togarinn er 283,5 rúmlestir. Þorkell máni, sem margir telja fallegasta togarann í flotanum að ytra útliti, er í ýmsu frábrugðinn hinum nýsköpunartogurunum sem fyrr segir. T. d. að aðeins er hægt að kasta vörpunni stjórnborðsmegin, og eru því engir gálgar bakborðsmegin. Hægt er þó að setja þá ef hitt þykir reynast illa. Hvalbakurinn nær samfellt, bakborðsmegin, aftur fyrir frammastur. Að því er Hafsteinn Bergþórsson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur, skýrði blaðinu frá, hefir reynsla undanfarinna ára sýnt, að einkum er notazt við stjórnborðsvörpuna. Liggur bakborðsvarpan því oft ónotuð í lengri tíma, og þess eru jafnvel dæmi, að hún hafi orðið fúin áður en nokkur not væri af henni.
Með því að hafa aðeins stjórnborðsvörpuna, skapast mikið pláss bakborðsmegin, sem hefir verið notað til þess að byggja yfir hraðfrystiklefa skipsins sem er í yfirbyggingunni, milli hins eiginlega hvalbaks og frammasturs. Þar fer flökun fisksins fram, og að öllu leyti gengið frá honum í umbúðum til geymslu í frystiklefanum sem er í framlest. Getur klefinn rúmað um 30 tonn af hraðfrystum flökum. Í frystihúsinu er gert ráð fyrir, að 4 menn starfi þegar næg verkefni eru. En fiskur, svo sem lúða, ýsa, steinbítur og karfi mun einkum frystur, þegar togarinn er á saltfiskveiðum. Þá verða á skipinu 48 menn, en á ísfiskveiðum 30. Fiskimjölsgeymslan tekur 25 tonn af mjöli og lýsistankar 38 tonn. Þá verður grútur geymdur í sérstökum tank aftast í skipinu. Þegar komið er úr veiðiför, verður grúturinn bræddur upp að nýju, en fá má 1-2 tonn af úrvalslýsi úr 6-8 tonnum af grút.
Jón Axel Pétursson sagði, að það væri von Bæjarútgerðarinnar, að Þorkell máni gæti orðið nokkurs konar "móðurskip" fyrir önnur skip Bæjarútgerðarinnar á saltfiskveiðum á fjarlægum miðum. Væri þá hugmyndin að lúða og annar nytjafiskur, sem hin skipin veiddu, yrði fluttur yfir í Þorkel mána til hraðfrystingar. Aðalvél skipáins er 1440 hestafla, og er hún þannig úr garði gerð, en svo er einnig um vélarnar í hinum dieseltogurum Bæjarútgerðarinnar, að hún knýr einnig rafknúið spilið. Hefir þetta fyrirkomulag reynzt alveg prýðilega. En Gísli Jónsson alþingismaður átti hugmyndina að þessu. Við þetta sparast það, að annars myndi þurfa 270 hestafla hjálparvél. Ýmsir forráðamenn bæjarins, bæjarráðs og útgerðarráðs, svo og borgarstjóri og bankastjórar Landsbankans skoðuðu hinn glæsilega togara í gær, þar sem hann lá fánum skreyttur við Faxagarð. Borgarstjóri óskaði skipstjóra og skipshöfn til hamingju með Þorkel mána og það að heill og hamingja mætti fylgja skipinu. Hannes Pálsson er skipstjóri á Þorkeli mána.
Þorkell máni er áttundi togari Bæjarútgerðarinnar, en fjórði í "fjölskyldu Ingólfs Arnarsonar" Var Þorkell sonur Þorsteins Ingólfssonar, "er einn heiðinna manna hefur bezt verið siðaður að því er menn vita dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði er sólina hafði skapað" eins og sagt er um Þorkel mána í Landnámabók.

Morgunblaðið. 25 janúar 1952.


Togarinn Þorkell máni RE 205 við bryggju í Reykjavík.                                     Ljósmyndari óþekktur.

        Þorkell máni hætt kominn  

Þann 16. febrúar sl. fengu fréttamenn tækifæri til að ræða við Martein Jónasson skipstjóra á togaranum Þorkeli mána. Með honum var Þorsteinn Arnalds, skrifstofustjóri hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þorsteinn kynnti Martein skipstjóra fyrir fréttamönnum og sagði um leið, að hann hefði ráðizt til Bæjarútgerðar Reykjavíkur í marz 1956 og starfað þar síðan sem skipstjóri á Þorkeli mána við bezta orðstír. Togarinn Þorkell máni var einn af íslenzku togurunum, sem voru á Nýfundnalandsmiðum, þegar fárviðrið gekk þar yfir. Til marks um það, hve hætt skipið var komið má vitna í ummæli Marteins skipstjóra á blaðamannafundinum: Við gerðum eina tilraun til þess að slá hann af og venda, þegar dúraði og við vorum búnir að berja vel klakann af vöntum, hvalbak og brú, en þá kom svo mikill halli á hann, að við hættum við tilraunina. Hann lagðist á brúargluggann. Í vélinni er hallamælir og sögðu vélstjórarnir, að skipið hefði fengið 60 gráða halla. Þetta var á sunnudagskvöld. Þetta sagði Marteinn skipstjóri og má bæta því við, að reynt var að venda til þess að unnt væri að slóa undan veðrinu í austur, þar sem sjór er miklu hlýrri og ekki eins hætt við ísingu. Með því að andæfa upp í veðrið fór skipið alltaf lengra og lengra inn í frostbeltið. Má geta þess hér, að Marteinn skipstjóri sagði, að ef engin ísing hefði verið, þá hefði ekkert gerzt. Hann sagði einnig: - Ég tel vafalaust, að klakabarningur skipshafnarinnar hafi bjargað skipinu.


Þorkell máni RE 205.                                                                                       (C) Snorri Snorrason.  

Hér á eftir fer frásögn skipstjórans: - Við komum á Nýfundnalandsmið 4. febrúar sl. og var þá allsæmilegt veður. Við hófum þá þegar veiðar syðst á Ritubanka við ágætar aðstæður og fiskuðum í þrjá daga. Þar voru íslenzku togararnir í hnapp á litlu svæði. Það stóðst nokkurn veginn á endum, að þegar við höfðum fyllt skipið, þá skall veðrið á mjög snögglega. Það var síðari hluta dags 7. Febrúar, Þá vorum við nákvæmlega staddir 50 gr. 28 mín. norður og 51 gr. vestur, en láta mun nærri, að það sé álíka sunnarlega og syðsti oddi Englands. Dýpið þarna var 155-185 faðmar. - Þegar veðrið var skollið á á laugardag, var haldið upp í sjó og vind og skipið gert sjóklárt að svo miklu leyti, sem hægt var. Hann var á norðvestan og veðrið jókst stöðugt, þegar á kvöldið leið, og um miðnætti voru komin að minnsta kosti 12 vindstig með miklum sjó, frosti og byl. Veðrið skall mjög snögglega á og hygg ég fæstir hafi búizt við þvílíkum ofsa, þó að loftvogin sýndi slæmt útlit og frétzt hefði af lægðum. En það er ekkert nýtt, að mjög djúpar lægðir gangi þarna yfir og hefur slíkt ofviðri ekki fylgt í kjölfar þeirra áður. Við andæfðum svo þarna, hélt Marteinn skipstjóri áfram, og þegar kemur fram yfir miðnætti, þá herðir hann frostið til muna, svo skipið yfirísast mjög fljótt. Sást það m. a. af því, að skipið lagðist þá á bakborðshliðina og fékk mjög mikinn halla. Um leið voru allir skipverjar kallaðir út til að hefja klakabarning og litlu síðar var bakborðsbátnum sleppt. Annars er tímaskynjun manns ekki svo örugg á slíkum stundum og þori ég ekki að segja neitt ákveðið um, hve lengi skipið lá á hliðinni eða hve langan tíma tók að losa björgunarbátana o. s. frv. Það sem mér hefur e. t. v. fundizt 10-20 mín., hefur kannski ekki verið meira en 1-2 mínútur. Þegar við höfðum sleppt bakborðsbátnum, rétti skipið sig aftur um stund, en litlu síðar virtist það leggjast til hinnar hliðarinnar og slepptum við þá líka stjórnborðsbátnum. Til að losa bátana þurfti að leysa festingarnar og skera á talíurnar og þá ultu þeir í sjóinn.


Marteinn Jónasson skipstjóri í brúarglugganum.
  
- Svo líður nóttin og skipverjar berja klaka þrotlaust í reiðanum, á stjórnpalli og hvalbak og notuðu til þess öll tiltæk verkfæri, spanna, járnbolta, sleggjur o. fl., en ekki höfðum við neinar axir, sem tvímælalaust eru bezt til þess fallnar að berja klakann. Þær verða áreiðanlega hafðar með í næstu túrum. Skipshöfnin sýndi mikla hörku og dugnað við þetta starf, enda var hún samvalin, allt vanir sjómenn og þrekmiklir. Þrátt fyrir klakabarninginn fékk skipið hvað eftir annað hættulegan halla ýmist á bak eða stjórn og var þá horfið að því ráði að logskera bátauglurnar (eða davíðurnar) í sundur. Það gerði fyrsti vélstjóri, Þórður Guðlaugsson. Ekki var hann bundinn við þetta starf, en þurfti að leita lags, er hallinn var sem minnstur. Miðað við allar aðstæður gekk þetta greiðlega. - Til marks um það, hvað klakinn getur verið mikill, hélt Marteinn Jónasson skipstjóri áfram, var stagurinn á pokabómunni, sem venjulega er eins og fingur manns að gildleika, orðinn eins og tunnubotn, enda var hann ekki barinn. Þá var spilið orðið að einni klakahellu, sem náði upp undir brúarglugga, og ef skipið lá lengi niðri, myndaðist klakabelti af lunningunni og niður á gang. Við gátum haldið klakanum niðri á vöntunum, hvalbaknum og á brúnni, og þegar við gátum náð klakanum af spilinu munaði það mjög miklu. - Sannleikurinn er sá, að maður finnur það ekki af hreyfingum skipsins, þegar það byrjar að ísa. Þegar ísingin er orðin svo mikil, að þyngdarpunkturinn er farinn að færast til, þá munar um hvert kíló af ís, sem á skipið hleðst.
Svo svart var útlitið um eitt skeið, að það kom til tals milli mín, fyrsta vélstjóra og fyrsta stýrimanns, að skera afturmastrið úr, ef ástandið versnaði. Þess má geta, að botnfrosið var í öllum vatnskössum nema einum og því lítið um vatn.


Þorkell máni RE 205 við komuna til Reykjavíkur úr hildarleiknum.  Mynd úr Þrautgóðum á raunastund.  

Sjórinn er nærri frostmarki á þessum slóðum og segja má, að hver sletta, sem fer á skipið, festist við það og verði að ís. Þá gat Marteinn Jónasson þess, að hann hefði sagt loftskeytamanninum að rétt væri að láta nálæg skip vita, að Þorkell máni væri í nauðum staddur. - Júní frá Hafnarfirði svaraði okkur fyrst, síðan Bjarni riddari og Marz og kváðust þeir mundu freista þess að sigla nær okkur, en það var miklum erfiðleikum bundið, þar sem ekki var hægt að miða vegna klaka á loftnetum og illmögulegt að ákveða afstöðu og fjarlægð milli skipanna, þar sem bylur var á. Svo var haldið hvíldarlaust áfram klakabarningi og skipinu slóað upp í. Á mánudagsmorgun sáum við ljós og reyndist það vera á togaranum Marz, sem lónaði með okkur þann dag allan og þangað til lagt var af stað heimleiðis um nóttina. Þá hafði veðrið gengið mikið niður og allar aðstæður batnað. Skipstjórinn tók fram, að ekki sé hægt að lýsa hve öryggistilfinning skipverja á Þorkeli mána jókst við samflotið við Marz, en skipin höfðu samflot heim. Fékk skipshöfnin aukinn styrk við að sjá togarann ekki langt frá, en menn voru orðnir talsvert lerkaðir eftir þrotlausan ísbarning í 2 ½ sólarhring. Þá sagði Marteinn Jónasson að lokum, að lítil hætta hefði verið á ferðum í slíku veðri í hlýrri sjó eins og hér við land. Hann bætti því einnig við, að hann hefði verið þeirrar skoðunar, að versti illviðratíminn væri nú liðinn hjá á Nýfundnalandsmiðum, en því miður hefur sú spá ekki rætzt, sagði hann. Í næstu túrum á undan hefur skipið lítið sem ekkert ísað og í næstsíðasta túr var veðrið svo gott alla leiðina, að engu var líkara en við værum á síld fyrir Norðurlandi. Þarna er mokfiskirí og aldrei eins mikið og síðustu túrana.


Togarinn Þorkell máni RE 205 að taka trollið.                                           Ljósmyndari óþekktur.
  
Um borð í Þorkeli mána voru 32 menn, sá yngsti 18 ára. Einn skipverja, Sigurður Kolbeinsson, 2. stýrimaður, slasaðist á baki, þegar hann var að berja klaka á sunnudagsmorgun. Hann var uppi á hvalbaknum við fimmta mann. Þá reið sjór á skipið, svo Sigurður stýrimaður féll og slasaðist.
Sigurgeir Pétursson, 1. stýrimaður á b/v Marz, var skipstjóri á skipinu þessa veiðiferð til Nýfundnalandsmiða. Marz kom á miðin á laugardag, var búið að hafa eitt hol, er veðrið skall á, en veiðum var hætt klukkan 17,30 og byrjað að slóa. Á sunnudagsmorguninn um ellefuleytið hafði loftskeytamaðurinn samband við togarann Júní, er skýrði frá því, að Þorkell máni ætti í miklum erfiðleikum vegna ísingar, hann lægi á hliðinni, búinn að höggva af sér báða lífbátana, og óskaði eftir að nærverandi skip vildu koma til sín. Bjarni riddari var einnig á sömu slóðum og Marz, en þeir voru í allmikilli fjarlægð frá Þorkeli mána. Hjá þeim var NV-rok, mikill sjór og 10 gr. frost. Þeir reyndu þó strax að miða sig á stefnu til Þorkels mána, en skilyrði voru slæm. Skipstjórinn á Marz lét strax kalla báðar vaktir út til þess að berja klaka. Klukkan 14,30 hélt Marz af stað með ½ -ferð í áttina til Þorkels mána, og um svipað leyti einnig Bjarni riddari, en síðar varð hann að hætta við að gera tilraun til áframhalds vegna veðurs. Um þetta leyti hafði ástandið enn versnað hjá Þorkeli mána, skipverjar stóðu í stanzlausum klakabarningi og skipið lagðist sitt á hvora hlið. Klukkan 18,30 varð Marz að lóna til þess að berja klaka hjá sér, en eftir rúma tvo tíma var haldið aftur af stað með hálfri ferð og þá stanzlaust í hríðarveðri og náttmyrkri fram undir morgun. Samband var haft við Þorkel mána öðru hvoru alla nóttina. Kl. 04,00 var komið á sömu breiddargráðu og Þorkell var. En ekkert sást fyrir veðri og sjó. Var lónað upp í veðrið, gekk á með hryðjum, NV 6-9 vindstig og 11 gr. frost. Um klukkan 06,00 sagði Þorkell máni, að betur hefði farið á skipinu um nóttina, og lónað væri með hægri ferð, mikill klaki væri kominn á hvalbak og við spilið, og yrði reynt að senda menn framá aftur, þegar birti. En um kl. 07,00 varð ástandið aftur ískyggilegt og skipið komið á hliðina að nýju.
Eftir ítrekaðar tilraunir tókst að ná góðri miðun af Þorkeli mána um kl. 07,30, og hélt þá Marz strax af stað með ½ -ferð til hans. Um kl. 08,30 var komið að skipinu. Var Þorkell máni þá með mikinn halla á bakborðssíðu. Ræddu skipstjórarnir um það sín á milli, að ef til þyrfti að taka um björgun á mönnum, myndi það vera helzt til ráða, að nota gúmmíflekana af öðru hvoru skipinu. Til allrar hamingju kom aldrei til slíks. Skipin lónuðu saman í ofviðrinu. Skipverjar á báðum skipunum héldu stanzlaust áfram að berja klaka til þess að gera skipin sjóhæfari. Undir miðnætti fór að draga úr veðrinu og kl. 05,00 á þriðjudagsmorgun lögðu þau af stað samflota heim.
Það er skammt milli lífs og dauða á skipum, sem lenda í slíku ofsaveðri. Í þessu tilfelli lauk baráttunni með sigri. Sigurgeir skipstjóri og skipverjar hans lögðu skip og sitt eigið líf að veði í baráttu við ofsafengnar náttúruhamfarir. Með þrautseigju og hörku tókst þeim að sigrast á erfiðleikunum og komast heilu og höldnu nauðstöddum félögum sínum til aðstoðar.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1959.


Flettingar í dag: 708
Gestir í dag: 35
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698247
Samtals gestir: 52758
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 20:13:05