05.08.2019 16:28

1277. Ljósafell SU 70. TFHV.

Skuttogarinn Ljósafell SU 70 var smíðaður hjá Narazaki Zosen K.K. Shipyard í Muroran í Japan árið 1973 fyrir Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar. 462 brl. 2.000 ha. Niigata vél, 1.472 Kw. Skipið var endurbyggt og lengt um 6,6 metra í Gdynia í Póllandi árið 1989,(Ný brú, tvö ný þilför og perustefni), mældist þá 549 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.297 ha. Niigata vél, 1.691 Kw. Ljósafell var einn af þeim 10 togurum sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Japan á árunum 1972-73, og var sá næst síðasti sem kom til landsins. Nú eru þeir bara tveir eftir hér, Ljósafell SU 70 og Múlaberg SI 22 eftir að Sindri VE 60 ex Páll Pálsson ÍS 102 var seldur til Spánar s.l. vetur. Ljósafell er einstaklega fallegt skip og hefur alla tíð verið vel við haldið af eigendum sínum frá upphafi. Fáskrúðsfirðingar meiga vera stoltir af skipi sínu. Togarinn er gerður út af Loðnuvinnslunni hf á Fáskrúðsfirði.


1277. Ljósafell SU 70 við Grandagarð.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 ágúst 2019.


1277. Ljósafell SU 70 í Reykjavíkurhöfn á 8 áratugnum.                      Ljósmyndari óþekktur.

      Fáskrúðsfirðingar eignast                                skuttogara

Fimmtudaginn 31. maí kom til Fáskrúðsfjarðar nýr 460 lesta skuttogari. Ber hann nafnið Ljósafell SU 70. Eigandinn er Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar. Skipið fór frá Japan 8. apríl og hafði siglingin tekið 53 sólarhringa. Móttökuathöfn var þegar skipið lagðist að bryggju og fluttu þar ávörp Már Hallgrímsson oddviti Búðarhrepps, Jón Gauti Jónsson, sveitarstjóri og Guðlaugur Sigurðsson, stjórnarformaður Kaupfélagsins. Framkvæmdastjóri skipsins flutti ávarp og þakkaði hlýjar móttökur, en hann var einn þeirra er sigldu skipinu heim.
Síðar máttu gestir skoða skipið. Þetta er 9. togarinn, sem smíaður er í Japan fyrir íslendinga. Skip þessi virðast öll vera hin vönduðustu og íbúðir skipverja, sem allar eru eins og tveggja manna klefar, eru vandaðar. Mikið er lagt upp úr hagræðingu á vinnuþilfari og gert ráð fyrir sem fæstum mönnum. Reilknað er með að á skipinu verði 17 menn. Fiskilestir eru hannaðar fyrir kassa að mestu leyti.  Skipstjóri á Ljósafelli er Guðmundur Í. Gíslason frá Eskifirði, 1. vélstjóri er Gunnar Ingvarsson frá Esikifirði og 1. stýrimaður er Pétur Jóhannsson frá. Reykjavík.

Morgunblaðið. 14 júní 1973.       


Systurskipin 1277. Ljósafell SU 70 til vinstri og 1278. Bjartur NK 121 á toginu á Austfjarðamiðum. Myndina tók Gunnar Þorsteinsson skipverji á 1495. Birtingi NK 119.


1277. Ljósafell SU 70 komið til heimahafnar 31 maí árið 1973.                             (C) Albert Kemp.


1277. Ljósafell SU 70 á toginu.                                                  (C) Sigmar Þröstur Óskarsson.

       Ljósafell kom endurbætt                             til heimahafnar

Skuttogarinn Ljósafell SU 70 kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði föstudagskvöldið 17. Mars eftir gagngerðar endurbætur í Gdynia í Póllandi. Þar var skipt um aðalvél í skipinu og ljósavél. Vélarrúmið er því alveg endurnýjað. Skipið var lengt um 6,6 metra, sett ný þilför, ný brú og perustefni. Kostnaðurinn við þessar endurbætur er um 170 milljónir króna. Ljósafell er í eigu Hraðfrystihúss Fáskrúðsfjarðar hf. en það gerir líka út skuttogarann Hoffell SU 80, en hann er nýbúinn að vera í breytingu í Póllandi. Samanlagður kostnaður beggja skipanna er 270 milljónir króna, eða hálfvirði nýs togara. Á laugardeginum fór Ljósafell í siglingu með yngri borgara Fáskrúðsfjarðar og var það vel þegið hjá þeim yngstu. Klukkan 5 á laugardeginum var móttaka fyrir bæjarbúa og gesti um borð í skipinu, þar sem bornar voru fram veitingar. Um kvöldið var svo haldinn dansleikur í félagsheimilinu Skrúð, þar sem var mikið fjölmenni samankomið og fór það vel fram.
Skipstjóri á Ljósafelli er Albert Stefánsson og fyrsti stýrimaður er Ólafur Gunnarsson. Yfirvélstjóri er Kristmundur Þorleifsson.

Morgunblaðið. 22 mars 1989.


1277. Ljósafell SU 70 við Grandagarð.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 ágúst 2019.


Um borð í Ljósafelli SU 70.                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


Um borð í Ljósafelli SU 70.                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


Um borð í Ljósafelli SU 70.                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


Á millidekkinu.                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


Kokkurinn í eldhúsinu. Minnir að hann heiti Þórir.                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


Setustofa áhafnar.                                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.
Í klefa áhafnarmeðlima.                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.


1277. Ljósafell SU 70 við Grandagarð.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 9 mars 2016.

                Ljósafell SU 70

31. maí s. l. kom skuttogarinn Ljósafell SU 70 til heimahafnar sinnar, Fáskrúðsfjarðar. Ljósafell er níundi skuttogarinn sem smíðaður er í Japan fyrir Íslendinga og jafnframt fimmta skipið frá Narasaki skipsmíðastöðinni. Eigandi Ljósafells SU er Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar. í 4. tbl. Ægis var lýst skuttogaranum Vestmannaey VE og á sú lýsing við þetta skip einnig, nema hvað vinnuþilfar er eins og í Páli Pálssyni ÍS sem lýst var í 6. tbl. Ægis. Til viðbótar tækjum þeim í brú, sem lýst var í sambandi við Vestmannaey VE, eru togmælar frá Tokyo Keiki og asdiktæki frá Furuno, gerð FH - 203. Skipstjóri á Ljósafelli SU 70 er Guðmundur Ísleifur Gíslason og 1. vélstjóri er Gunnar Ingvarsson, en framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Jón Erlingur Guðmundsson. Ægir óskar eigendum og áhöfn til hamingju með þetta glæsilega skip.
Stærð skipsins 462 brl.
Mesta lengd 47.00 m.
Lengd milli lóðlína 41.00 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt frá efra þilfari 6.50 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.30 m.
Djúprista 4.00 m.
Dauðvigt ca. 320 tonn.
Lestarrými 370 m3. Brennsluolíugeymar 180 m3.
Ferskvatnsgeymar 40 m3.
Hraði í reynslusiglingu 14,1 sjómíla.

Ægir. 13 tbl. 1 ágúst 1973.


Flettingar í dag: 1064
Gestir í dag: 310
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963516
Samtals gestir: 497304
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 04:12:16