22.11.2019 10:16

1050. Eldborg GK 13. TFKB.

Vélskipið Eldborg GK 13 var smíðað hjá Slippstöðinni hf á Akureyri árið 1967 fyrir Eldborg hf (Gunnar Hermannsson skipstjóra og Þórður Helgason) í Hafnarfirði. 415 brl. 980 ha. MAN díesel vél. Eldborgin var stærsta stálskip sem smíðað hafði verið hér á landi til þess tíma, og jafnframt það fyrsta sem smíðað var með tvö þilför. Selt í desember 1978, Einari Guðfinnssyni hf í Bolungarvík, hét þá Hafrún ÍS 400. Skipið strandaði utarlega undir Stigahlíð í Ísafjarðardjúpi 2 mars árið 1983. Áhöfnin, 11 menn, björguðu sér sjálfir upp í fjöru, en þyrla landhelgisgæslunnar, TF-Rán (fórst í nóvember sama ár í Jökulfjörðum með allri áhöfn, 4 mönnum) og önnur sem var Frönsk, bjargaði síðan mönnunum og flutti þá til síns heima á Ísafirði og í Bolungarvík. Skipið eyðilagðist fljótlega á strandstað.


1050. Eldborg GK 13 á loðnuveiðum.                                                  (C) Sigurður Bergþórsson.

          Hægt að hafa heilt síldarplan                                    undir þiljum 

 segir Gunnar Hermannsson skipstjóri                        á Eldborgu

Eldborg, stærsta stálskip, sem smíðað hefur verið hér á landi, kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar í Hafnarfirði í gær. Skip þetta er smíðað hjá Slippstöðinni á Akureyri og var hleypt af stokkunum 22. Júlí  í sumar. Aðaleigendur þess, Gunnar Hermannsson skipstjóri og Þórður Helgason 1. vélstjóri, sýndu blaðamönnum og öðrum gestum skipið í gær, en þar er margt nýjunga. Sagði Gunnar skipstjóri, að skipið gæti stundað allan venjulegan veiðiskap, hvort heldur væri síldveiðar, togveiðar, línu eða netaveiðar. Skipið er með tvöföldu dekki og er vinnupláss undir þiljum á neðra dekkinu, þar sem hægt er að hafa heilt síldarplan ef svo ber undir að því er Gunnar sagði. Kælikerfi er í undirlest skipsins, en hún er fjórskipt, þannig að minni hreyfing verður á aflanum í lestinni en ella. Skipið kostar um 28 milljónir með öllum tækjum og mun það vera sambærilegt verð, miðað við skipasmíðastöövar á Norðurlöndum, enda sagði Gunnar, að hann mundi ekki leita annað, ef hann þyrfti að láta smíða annað skip, og rómaði mjög allan frágang. Meðal tækja skipsins er nýtt amerískt fiskileitartæki, sem  ekki mun hafa verið reynt hér áður, nema ef til vill í einu skipi. Það er eins konar neðansjávarradar, SS 200 Zona, en það gefur radarmynd af sjónum allt umhverfis skipið og dregur um 1000 metra (3200 fet). Tæki þetta á að gefa heildarmynd af síldartorfunum, eða fiskitorfum í nálægð skipsins, en Astiktækin sýna ekki nema lítinn geira af sjónum umhverfis. Nú er verið að byrja að framleiða tæki af þessari gerð, sem eru mun langdrægari og telja margir að slík tæki verði leitartæki framtíðarinnar. Eldborg er að sjálfsögðu búin hliðarskrúfum, eins og flest nýjustu síldarskipin, síldardælu og sérstökum löndunartækjum til pess að landa úr lestum skipsins.
Eldborg er 415 lestir samkvæmt nýju mælingareglunum, ganghraði skipsins var 12,4 mílur í reynsluför. Það mun halda á síldarmiðin nú um helgina.

Vísir. 15 september 1967.


1050. Eldborg GK 13 með fullfermi af loðnu á Eskifirði.                         (C) Vilberg Guðnason.


1050. Eldborg GK 13 með fullfermi af loðnu á leið inn til Eskifjarðar.             (C) Vilberg Guðnason.

Stærsta skip, sem smíðað er hérlendis

 Eldborg GK 13 hleypur af stokkunum
           í Slippstöðinni á Akureyri

Akureyri, 22. júlí.
Gífurlegur fjöldi áhugasamra og eftirvæntingarfullra Akureyringa fyllti hið stóra skipasmíðahús Slippstöðvarinnar hf. í kvöld til þess að verða viðstaddur hina langþráðu og hátíðlegu stund, þegar stærsta stálskip, sem smíðað hefir verið innan lands til þessa, rynni í sjó fram. Grámálað skipið með hvíta yfirbyggingu og gulan reykháf, beið þess tignarlegt og æruverðugt á stokkunum með bláar blæjur bundnar yfir nafn og númer að fá að snerta saltar sævaröldur í fyrsta sinn, prýtt fánum og skrautveifum stafna á milli. Menn skynjuðu glöggt, að upp var runninn mikill sigurdagur í sögu íslenzkra skipasmíða og þá um leið iðnaðarsögu Akureyrar, og fylgdust því með því af nokkru stolti, sem fram fór. Upphaflega var ákveðið, að athöfnin hæfist kl. 21, en vegna þess að háflóð kom seinna en búizt hafði verið við, var henni frestað til kl. 22.30. Þá gengu upp á pallinn, sem reistur hafði verið framan við skipsstefnið, Skafti Áskelsson forstjóri Slippstöðvarinnar, Hallgrímur fulltrúi, sonur hans, ásamt frúm sínum, Þorsteinn Þorsteinsson skipasmíðameistari, yfirsmiður skipsins, ásamt væntanlegum eigendum skipsins, stjórnarmönnum Eldborgar hf. í Hafnarfirði, Gunnari Hermannssyni, Þórði Helgasyni og Sverri Hermannssyni ásamt skylduliði þeirra. Alls voru viðstaddir 13 manns úr fjölskyldu Gunnars, sem verður skipstjóri á hinu nýja skipi.


Eldborg GK 13 í smíðum hjá Slippstöðinni á Akureyri 1967.     (C) HRB.

Fyrst tók til máls Skafti Áskelsson, þakkaði öllum, sem lagt hefðu hönd á plóginn við smíði þessa skips á einn eða annan hátt, og lýsti trausti sínu á akureyrskum iðnaðarmönnum og handaverkum þeirra, sem hann kvað fyllilega standast samanburð við hið bezta í nálægum löndum. Hann vonaði, að brátt yrðu íslenzkar skipasmíðastöðvar einnig samkeppnisfærar við erlendar um verðlag.
Því næst lýsti skipaskoðunarstjóri mælingu skipsins. Samkværnt nýjum alþjóðlegum mælingareglum, sem gengu í gildi fyrir Ísland hinn 1. maí s.l., er það 415 brúttó rúmlestir, en samkvæmt eldri reglum hefði það verið talið 557 rúmlestir brúttó. Lengdin er 44.25 m, breidd 8,6 m og dýpt 6,5 m. Að lokum árnaði hann skipinu allra heilla og vonaði, að það yrði happafleyta. Nú gekk fram Salóme Rannveig Gunnarsdóttir, dóttir Gunnars Hermannssonar, klædd íslenzkum búningi, gaf skipinu nafn og óskaði því heilla og hamingju, um leið og hún lét kampavínsflösku brotna á stefni þess. Meðan kampavínið freyddi um bóginn, féllu blæjurnar af nafni og númeri skipsins og við blasti ELDBORG GK-13. Í sömu andrá komst skipið á hreyfingu, rann hratt og rösklega út úr skipasmíðahúsinu og flaut nú á smáýfðum sjónum fram undan Oddeyri með blaktandi fánum. Um leið gullu við fagnaðarhróp mannfjöldans.
Vélskipið Búðaklettur beið fyrir framan og dró hið nýja og glæsta far upp að bryggju í bátakvínni framan við Slippstöðina.


Eldborg GK sjósett hinn 22 júlí. Það er vélskipið Búðaklettur sem er með Eldborgina á síðunni og kom henni síðan að bryggju.               (C) HRB.
  
Heillaóskir bárust frá Jóhanni Hafstein, iðnaðarmálaráðherra, og Eggert G. Þorsteinssyni, sjávarútvegsmálaráðherra. Kjölur að Eldborgu var lagður snemma í desember 1966, og hefir hún verið smíðuð eftir reglum þýzka Lloyds, flokkunarfélagsins og Skipaskoðunar ríkisins. Hún hefir tvö heil þilför, aðalþilfar og 2. þilfar. Tvær lestar eru undir 2. þilfari, og er þeim skipt að endilöngu með vatnsþéttu þili. Ein lest er milli þilfara og íslest í framskipi. Vélbúnaður er allur af fullkomnustu gerð. MAN-dísel aðalvél framleiðir 990 hestöfl við 375 snúninga á mínútu. Við aðalvélina er tengdur úrtaksgír og öxulrafall. Skiptiskrúfa er frá norska fyrirtækinu Hjelset. Ljósavélar framleiða 220 volta riðstraum til hjálpartækja og ljósa. Tvær Ulstein-hliðarskiúfur eru í fram og afturskipi, 100 hestöfl hvor. Skipið verður útbúið til síldveiða og hefir nýtízku háþrýstivökva snurpu- og nótarvindu ásamt síldardælu. Nótarrennur eru tvær, þar af önnur aftast í niðurfærðum nótarkassa. Íbúðir eru allar í afturskipi, 7 tveggja manna klefar og 3 eins manns, auk eldhúss, borðsalar (með sjónvarpi) og snyrtingar. Aftan stýrishúss á aðalþilfari er kortaklefi og hvíldarherbergi skipstjóra. Stjórn aðalvélar og hjáJpartækja er öll framkvæmanleg úr stýrishúsi, og þar eru öll fullkomnustu siglinga- og fiskileitartæki, sem völ er á. Hjálmar R. Bárðarson gerði línuteikningu af skipinu, en allar aðrar teikningar eru gerðar í Slippstöðinni. Eldborg verður afhent eigendum fullbúið um miðjan ágústmánuð

Morgunblaðið. 25 júlí 1967.


1050. Hafrún ÍS 400 á landleið.                                                                   (C) Jón Páll Ásgeirsson.

        Nýtt skip til Bolungarvíkur

Bolungarvík, 9. jan.
Síðdegis í gær kom hingað til Bolungarvíkur rúmlega 400 lesta nótaskip sem Einar Guðfinnsson hf. hefur keypt frá Hafnarfirði. Skipið, sem áður hét Eldborg, hefur hlotið nafnið Hafrún og ber einkennisstafina ÍS 400. Skipið fer væntanlega til loðnuveiða í kvöld. Skipstjóri verður Benedikt Ágústsson og 1. vélstjóri Eiríkur Bergsson. Rækjuveiði hófst á Ísafjarðardjúpi í dag og virðist afli rækjubáta vera sæmilegur.

Morgunblaðið. 10 janúar 1979.
Hafrún ÍS á strandstað undir Stigahlíðinni.                                               (C) Morgunblaðið / RAX.


Flak Hafrúnar ÍS í urðinni undir Stigahlíðinni.                                       (C) Sveinbjörn Guðmundsson.


Flak Hafrúnar ÍS í fjörunnu undir Stigahlíðinni í sept 1988.                   (C) Gísli Aðalsteinn Jónasson.

        11 skipverjar björguðust á                 strandstað við Ísafjarðardjúp   

Liðlega fjögurhundruð tonna fiskiskip, Hafrún ÍS 400, strandaði í gær á landleið við utanverða Stigahlíð við Ísafjarðardjúp, nálægt Deildarhorni. 11 menn voru á skipinu og björguðust þeir allir í land, en nokkru síðar tóku tvær björgunarþyrlur skipbrotsmennina um borð, þyrla Landhelgisgæzlunnar og önnur franska björgunarþyrlan sem er nú hér á landi við störf. Þungur sjór var og dimmviðri þegar skipið strandaði, en þarna er mjög grýtt strönd. Skipið strandaði um kl. 14.30, en allir skipverjar voru komnir í land kl. 4. Hálfri klukkustund síðar voru björgunarþyrlurnar komnar á vettvang og gekk greiðlega að hífa skipbrotsmennina um borð, en ekki var unnt að lenda í stórgrýttri fjörunni undir snarbrallri fjallshlíð. Fluttu þyrlurnar skipbrotsmennina til sinna heimahaga á Ísafirði og í Bolungarvík, en þyrla Landhelgisgæzlunnar sótti einnig 10 manna björgunarflokk frá Bolungarvík sem var kominn langleiðina á strandstað þegar þyrlan sótti þá. Hafrún strandaði uppi í harða landi, en þegar skipstjórarnir yfírgáfu skipið var mikill sjór kominn í það. Hugað verður að björgunaraðgerðum í dag. Morgunblaðið ræddi við þrjá skipbrotsmenn í gær og fer viðtalið við Bjarna Þór Sverrisson háseta hér á eftir:
"Þetta er þriðja strandið sem ég lendi í, en ég hef aldrei áður þurft að yfirgefa skip," sagði Bjarni Þór Sverrisson háseti í samtali við Morgunblaðið á heimili sínu á Ísafirði síðdegis í gær, skömmu eftir að hann kom af strandstað með frönsku þyrlunni. "Við vorum búnir að sigla dágóða stund, eftir að skipstjórinn hafði sagt okkur að ekki yrðu dregnar nema þessar þrjár trossur sem búið var að draga, þar sem fréttst hafði af mjög vondu veðri á þeim slóðum sem hinar trossurnar voru," sagði Bjarni Þór, "þegar allt í einu var slegið af og byrjað að bakka, spurði einhver hvort að við værum komnir til Bolungarvíkur, en ég sagði að það gæti ekki verið, við værum ábyggilega að keyra einhversstaðar upp í fjöru. Um leið byrjuðu skruðningarnir og skipið var strandað. Þegar skipstjórarnir höfðu kallað okkur alla saman var óskað eftir tveimur sjálfboðaliðum til að fara í land á gúmmíbjörgunarbáti til að undirbúa að koma öðrum skipverjum í land. Róbert stýrimaður gaf sig strax fram og ég sagðist vera tilbúinn að fara með honum," sagði Bjarni Þór. "Síðan var sett taug milli gúmmíbátsins og Hafrúnar og við fórum í bátinn, en ætluðum aldrei að komast frá skipinu vegna straums og vinds. En eftir 15-20 mínútna barning komumst við !oks að landi og þá orðnir rennandi blautir, en 30-40 metrar voru þá á milli skips og lands. Við komum síðan fyrir líflínu í landi og síðan var tildráttartaug fest í gúmmíbátinn og menn dregnir þrír í einu í land. Þegar allir voru komnir í land og menn fóru í ullarföt sem skipstjórarnir komu með í land, var ég orðinn svo dofinn á fótunum og tilfinningalaus að ég fann ekkert til, en skipsfélagar mínir nudduðu á mér fæturna og þegar það dugði ekki tók einn skipsfélagi minn sig til og tróð löppunum á mér inn á bringu á sér og þá fyrst fór ég að fá tilfinningu í fæturna aftur. Það var erfitt að labba í fjörunni, sleipt og stórgrýtt og því gott að fá þyrlurnar. Ég var rétt að setjast á einhvern gúmmíhring sem hékk neðan úr þyrlunni, með sjópokann undir hendinni, þegar ég var allt í einu hífður upp í þyrluna. Auðvitað eru allir hálf smeykir þegar svona hendir, en allir voru rólegir og þess vegna gekk þetta vel. Ég vil að lokum koma á framfæri þakklæti til allra þeirra að svo giftusamlega tókst til."

Morgunblaðið. 3 mars 1983.


 
Flettingar í dag: 647
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962301
Samtals gestir: 496948
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 16:21:45