12.01.2020 15:35

M. s. Langjökull. TFJB.

Frysti og flutningaskipið Langjökull var smíðaður hjá Aarhus Flydedok & Maskinkompagni A/S í Árósum í Danmörku árið 1959 fyrir hf Jökla í Reykjavík. 1.987 brl. 2.000 ha. Deutz vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 6 október sama ár. Árin 1966-67 var Langjökull í leigu hjá Company Paquet í Marseille í Frakklandi, var í ávaxtaflutningum frá Casablanca í Marokkó til Marseille, Le Havre og Rotterdam. Skipið var selt 20 júní 1967, Korean Equipment Import Corporation í Pyongyang í Norður-Kóreu, og var notað þar sem móðurskip fyrir fiskiskip úti á miðunum. Hef ekki enn fundið neitt um hvað skipið hét í Norður-Kóreu eða hvað um það varð.


140. Langjökull.                                                                 Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.

               M.s. Langjökull

Sunnudaginn 6. okt. kom hingað til Reykjavíkur nýtt flutningaskip, kæliskipið Langjökull, eign Jökla h.f. Skipstjóri á þessu flaggskipi fyrirtækisins er Ingólfur Möller. Kjölurinn að ms. Langjökli var lagður í skipasmíðastöðinni Aarhus Flydedok og Maskinkompagni A/S í Árósum 26. sept. 1958. Aðalmál skipsins eru: Lengd 88,00 m., breidd 12,25 m., dýpt 4,90 m. og gefur það "deadweight" 2063 longton, við 16 feta djúpristu. Skipið, sem er frystiskip, er byggt eftir ströngustu kröfum Lloyd's til skipa, sem sigla eiga á öllum höfum og auk þess er skipið styrkt til siglingar í ís. Skipið hefur Lloyd's vottorð, um að það haldi 20 gráðum á celsius við +25 gráða sjávarhita og +35 gráða lofthita. Skipið, sem hefur þrjár Sabro frystivélar, þarf aðeins tvær þeirra til þess að halda þessu frosti. Í skipinu eru fjórar lestar, sem hver um sig getur haldið því hitastigi, sem óskað er, innan þeirra takmarka, sem áður getur. Rúmmál lestanna er 87,000 teningsfet.
Lestaropin eru fjögur og er þeim lokað með lúguhlemmum af allra nýjustu gerð. Allar aflvélar skipsins eru dieselvélar af Deutz-gerð: aðalvél 2000 hestöfl við 275 snúninga á mínútu, 2 hjálparvélar sem drífa 165 kw rafala og ein, sem drífur 110 kw rafal. Í skipinu eru vistarverur fyrir 28 menn. Allar vistarverur, stjórnpallur, kortaklefi, loftskeytaklefi, eldhús, búr, kæligeymslur og birgðageymslur eru aftur á skipinu. Vistarverur mjög rúmgóðar og vandaðar. Björgunarbátar eru geymdir í uglum af allra fullkomnustu gerð, og tekur aðeins um 25 sekúndur að sjósetja þá. Öryggisútbúnaður er að sjálfsögðu eins og frekast er krafizt. Skipið er búið öllum nýtízku siglingatækjum og ganghraði þess um 13,5 sjómíla á klukkustund. Sem fyrr segir er Ingólfur Möller skipstjóri á hinu nýja skipi, en fyrsti stýrimaður er Júlíus Kemp og fyrsti vélstjóri er Höskuldur Þórðarson. 

Sjómannablaðið Víkingur. 10 tbl. október 1959.

                    H.f. Jöklar 

Árið 1945 var hlutafélagið Jöklar stofnað af frystihúsaeigendum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og er heimili félagsins í Reykjavík. Félagið gerði þá þegar samning í Svíþjóð um byggingu á kæliskipinu m/s Vatnajökli og var smíði þess lokið 1947.
Árið 1952 keypti félagið m/s Foldina af samnefndu hlutafélagi og var því gefið nafnið Drangajökull. Samningur var gerður 1957 í Danmörku um byggingu á kæliskipinu m/s Langjökull og var smíði þess lokið 1959. Í júnímánuði 1960 fórst m/s Drangajökull við Skotland og björguðust allir menn er með skipinu voru. Í september sama ár var gerður samningur um byggingu á kæliskipi í Hollandi, sem væntalega verður fullsmíðað haustið 1961.
Þessi skip hafa hafa eingöngu frystilestar, eru grunnskreið og stærðin miðuð við það að geta lestað frystar vörur á öllum þeim höfnum víðsvegar á landinu, þar sem frystihús eru staðsett og flutt vörurnar til hinna ýmsu markaðslanda.
Forstjóri h.f. Jökla er Ólafur Þórðarson, Ægisíðu 54 en skrifstofur fyrirtækisins eru í Aðalsstræti 6 í Reykjavík.

Ísland í dag. 1961.


M.s. Langjökull, sennilega á heimleið í október 1959.                               Ljósmyndari óþekktur.

      Jöklar hf selja tvö skipa sinna

Blaðinu barst í gær eftirfarandi fréttatilkynning frá Jöklum h.f.:
H f. Jöklar hafa ákveðið að selja tvö af frystiskipum sínum, m s.  Langjökul og m.s. Drangajökul. Kaupandi skipanna er Korea Equipment Import Corporation, Pyongyang, Norður-Kóreu. Söluverð skipanna má telja að sé hagstætt. Ástæðan til sölu skipanna er fjárhagserfiðleikar við rekstur þeirra. Eins og kunnugt er tók Eimskipafélag Íslands h.f. að sér flutninga á frystum fislki fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna frá 1. apríl 1965. Þá voru ekki lengur verkefni fyrir skipin hér og hafa þau því síðan verið í flutninigum erlendis. Íslenzkum aðilum var gefinn kostur á að kaupa skipin með svipuðum kjörum, en þeir höfðu ekki áhuga á kaupum á þessum grundvelli.

Morgunblaðið. 26 maí 1967.





Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722467
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 16:08:32