19.02.2020 20:59

263. Þorbjörn ll GK 541. TFCF.

Vélskipið Þorbjörn ll GK 541 var smíðaður í Djupvík í Svíþjóð árið 1964 fyrir Hraðfrystihús Þórkötlustaða hf í Grindavík. Eik. 168 brl. 600 ha. Deutz vél. Ný vél (1970) 700 ha. Cummins vél. Selt 6 júlí 1977, Gunnlaugi Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét Gandi VE 171. Selt 23 janúar 1985, Langanesi hf á Húsavík, hét þá Björg Jónsdóttir ÞH 321. Selt 12 febrúar 1988, Haraldi hf á Dalvík, hét Hafsteinn EA 262. Selt 28 maí 1990, Siglfirðingi hf á Siglufirði, hét Hafsteinn SI 151. Selt 17 maí 1991, Söltunarfélagi Dalvíkur hf, hét þá Valeska EA 417. Selt til Noregs og tekið af skrá 11 ágúst árið 1992.

Skipið virðist hafa verið illa hirt síðustu árin hér á landi, samanber mynd hér að neðan. Sennilega hefur Valeska EA 417 legið við bryggju í einhvern tíma áður en það var úrelt og selt úr landi haustið 1992.
Einnig er mynd hér að neðan af skipinu tekin í Noregi fyrir nokkrum árum. Ekkert eftir nema skrokkur skipsins sem trúlega hefur beðið nokkuð síns vitjunartíma.


263. Þorbjörn ll GK 541.                                                                        (C) Hafsteinn Jóhannsson.


263. Þorbjörn ll GK 541 að koma til hafnar í Grindavík 19 ágúst 1971.        (C) Henning Henningsen.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Klukkan tæplega eitt í nótt kom nýr bátur til Grindavíkur, Þorbjörn II. GK-541 eigandi hlutafélagið Þorbjörn, Grindavík. Þetta er eikarbátur smíðaður í Djúpavík í Svíþjóð. Hann er 169 lestir með Deutz 585 hestafla vél og tvær ljósavélar, önnur 95 hestafla með 30 kw rafmagn, en hin aðeins 5 hestöfl með 30 kw. Í reynsluferð gekk báturinn 12 mílur og meðalhraði bátsins á leiðinni heim var 10 og hálf míla. Sími er um allt skipið, og það er gert fyrir 12 manna áhöfn og Viktor Jakobsson skipstjóri sigldi skipinu heim. Skipstjóri á fiskveiðum verður Þórarinn Ólafsson.
Forstjóri Þorbjörns er Jón Daníelsson.

Tíminn. 1 maí 1964.


263. Björg Jónsdóttir ÞH 321 að landa síld á Húsavík.                            (C) Þorgrímur Aðalgeirsson.


263. Valeska EA 417 í Reykjavíkurhöfn. 1345. Freri RE 73 í baksýn.    Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Svona leit skipið út fyrir nokkrum árum. Ég veit ekki hvað um það varð.            (C) Stefán Helgason.

 Tveir nýir línubátar væntanlegir til Rifs í ár

    fjórir bátar í úreldingu í stað þeirra

Kristján Guðmundsson hf á Rifi hefur gengið frá samningum um smíði tveggja báta í Noregi. Bátarnir eru eins, búnir sjálfvirkum útbúnaði til línuveiða og veiða í net og verður frystibúnaður um borð í þeim báðum. Á móti verða bátarnir, Tjaldur og Kópanes, Brynjólfur og Valeska úreltir. Nýju bátarnir verða afhentir að áliðnum ágúst á næsta ári og um næstu áramót. Kristján Guðmundsson hefur gert út bátana Tjaldur og Kópanes um langt skeið. Tjaldur var smíðaður á Ísafirði 1971 og hefur síðan bæði verið yfirbyggður og lengdur. Hann er 138 tonn að stærð. Kópanes var smíðað á Akureyri 1973 og hefur síðan verið lengt og yfirbyggt. Það er 167 tonn að stærð. Þá hafa bátarnir Brynjólfur og Valeska sérstaklega verið keyptir til úreldingar.
Nýju bátarnir verða 42,90 metrar á lengd og 9 metra breiðir. Fiskilestir verða 415 rúmmetrar. Skipin eru hönnuð í samvinnu við kaupendur og byggð af Solstrand skipasmíðastöðinni í Noregi. Þau verða búin Mustad-sjálfvirknibúnaði til línuveiða og um borð verða tveir lóðréttir plötufrystar. Frystigeta verður 20 til 24 tonn á sólarhring, en aflann verður einnig hægt að lausfrysta eða salta um borð. Aðalvélar verða 1.000 hestafla Caterpillar og gírinn Volda. Þá eru bæði skipin með eina Brunvoll 150 hestafla bógskrúfu. Að öðru leyti eru þau búin hefðbundnum siglinga- og fiskileitartækjum og búnaði til veiða í net. Kristján Guðmundsson segir í samtali við Verið, að það sé kominn tími til að endurnýja gömlu bátana. Þeir séu báðir um tvítugt og því ekki seinna vænna að grípa til endurnýjunar meðan einhver verðmæti felist í þeim.

Morgunblaðið. 8 janúar 1992.


Flettingar í dag: 284
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 1438
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 733475
Samtals gestir: 54328
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 09:21:36