29.02.2020 16:03

E. s. Súlan SU 1. LBJC / TFBG.

Gufuskipið Súlan SU 1 var smíðuð í Gausvik í Hörðalandi í Noregi árið 1902 fyrir Konráð Hjálmarsson útgerðar og kaupmann í Mjóafirði, síðar á Norðfirði. 117 brl. 75 ha. 2 þennslu gufuvél. Kom fyrst til heimahafnar Mjóafjarðar hinn 2 febrúar árið 1903. Nafn skipsins er dregið af fjallinu Reykjasúlu (878 m) sem er í Mjóafirði að sunnanverðu. Skipið var selt 21 nóvember 1910, Thor E Túliníus útgerðar og kaupmanni í Kaupmannahöfn og Ottó Túliníus kaupmanni á Akureyri. Því hefur verið lengi haldið fram að Súlan hafi verið fyrsta gufuskip íslendinga sem gert var út til fiskveiða, en það er ekki rétt. Það mun hafa verið Muggur, Péturs J Thorsteinssonar, sem gerður var út á doríuveiðar frá Bíldudal árin 1899-1900.
Sögufræg er heimsigling Súlunnar. Hún var þá nærri farin. Skipstjóri var hvalveiðimaður hjá Ellefsen , Ebenezer Ebeneszarson frá Flateyri, en stýrimaður Sveinbjörn Egilsson og hefur hann lýst því á prenti, hversu litlu munaði að skip og menn færust og er sú lýsing frábær , eins og aðrar lýsingar Sveinbjarnar, en náttúrlega er hann sjálfur söguhetjan. Eftir að Súlan hafði staðizt þessa raun og komin upp til Íslands 1903, hlekktist skipinu ekki á sem heitið getur fyrr en það fórst 1963.

Hér fyrir neðan er greinin sem Sveinbjörn skrifaði um heimferðina en hún birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1939. Það kemur meira síðar um Súluna, enda sögufrægt skip sem gert var út, þá mest á síldveiðar í rúmlega 61 ár.

Heimildir: Sjómannadagsblaðið. 1939 / 1990.
                


Gufuskipið Súlan. Ljósmyndin sennilega tekin í Noregi í janúar 1903.           Ljósmyndari óþekktur.

               Eimskipið "Súlan"

Borgareyri 5. febr. 1903.
Þá er nú hið nýa fiskiskip kaupmanns Konráðs Hjálmarssonar komið, »Súlan«. Það kom 28. f. m. eftir 9 daga ferð frá Stavangri. Það hreppti mjög vond veður, skipsbáturinn brotnaði og fleira gekk úr lagi, en skipið reyndist ágætlega gott sjóskip, svo þeir er með voru þóttust eigi hafa komið á betra sjóskip, og eru slíkt miklir og góðir kostir á fiskiveiðaskipi, enda skipið að öllu leyti mjög myndarlegt, og spá mín er það, að ef þetta skip borgar sig eigi við fiskiveiðar, í höndum þess eignarmanns sem nú er, þá mun gufuskipaúthald til fiskiveiða eigi borga sig fyrst um sinn hjer við strendur. Jeg óska útgerðarmanninum til heilla með tilraun sína, og vona sú ósk rætist.
Jeg hef heyrt sagt að það hefði 7 mílna hraða á vakt, en svo hefur það líka allhá siglutrje og segl, sem það á að nota jafnframt gufunni, er ástæður leyfa. Það ber 120 tonn. Skipstjórinn heitir Ebeneser Ebenesarson, hefur verið töluvert lengi með Ellefsens-skipunum. Stýrimaðurinn heitir Sveinbjörn Þorsteinsson Egilsen úr Hafnarfirði, maskínistar eru Norðmenn, en fiskimenn allir verða Íslendíngar. Nú sem stendur er skipið suður á Eskifirði til mælinga og til að takast í tölu íslenskra skipa, og svo fer það suður til Reykjavikur, og leggur síðan út til fiskiveiða.

Bjarki 5 tbl. 11 febrúar 1903.

          "Súlan" SU 1 / E A 300

Á þessum tímamótum "Súlunnar", þegar hún skiptir um stað á skipalista landsins, fer úr tölu eimskipa með sína gömlu 75 ha. vél, og verður sett á listann meðal mótorskipa, með 225 ha. June-Munktell vél, má ekki minna vera en að ég minnist þessarrar gömlu vinkonu minnar með fáum orðum. - Nokkur aðdragandi varð til kunningsskapar okkar og skýri ég hér lauslega frá tildrögum. Þ. 11. Október 1902, var ég skráður í Kaupmannahöfn af símalagningaskipinu "Örsted" og fór að venju til sjómannaheimilisins í Holbergsgötu 17, þar sem ég ætlaði að gista, þar til, ég fengi skiprúm. Þegar þangað kom var húsfyllir, um 40 sjómenn, allir atvinnulausir, og eftir því sem mér var sagt, lítil von um vinnu. Mér leizt ekki á blikuna, en hingað var ég kominn og hér varð ég að vera þar til ég yrði rekinn út, vegna peningaleysis, eða heppnin væri með og ég fengi skiprúm áður en ég væri alblankur. Á hverjum degi fór ég á skipaskráningaskrifstofur og spurðist fyrir um skiprúm, en hvarvetna var svarið: "Ekkert skip." Ég fór einnig til Þórarins Tuliníus útgerðarmanns, en fékk þar sama svarið og góð orð. Á sjómannaheimilinu var meðal annarra, norskur bryti, ungur maður. Við fórum stundum út í borgina og urðum kunningjar. Einn dag, er við höfðum verið vinnulausir í mánuð, spyr hann mig, hvort við eigum ekki að verða samferða til Noregs, við gætum líklega fengið frítt far; var ég til í það. Vissi hann af gufuskipi, sem fara átti til Skien við Kristianiafjörðinn og gengum við þegar í það að fá farið, sem gekk greiðlega, gegn því, að við ynnum á leiðinni fyrir fæði, því nóg var að starfa og hreinsa, áður en skipið kæmi heim og hætti siglingum.


Gufuskipið Súlan, sennilega á síldveiðum.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

Gekk þetta allt vel og ákvað ég að halda til Tönsberg og reyna þar að komast á hvalveiðaskip, en hafði þó enga hugmynd um staðinn, eða hvort nokkur vinna væri þar fáanleg. Brytinn og ég skildum í Skien hinn 14. nóvember um fjögur leytið; hélt hann til Porsgrund; átti hann þar heima, en til að spara peninga, hélt ég gangandi til Sandef jord og bar eitthvað af fötum.
Þangað kom ég seint um kvöldið, gekk inn á veitingahús og keypti mat og mikið kaffi og spurði um leið til Tönsberg; var mér sagt að hún væri löng, en ég ásetti mér að leggja þegar af stað gangandi, en ég var talinn af því, einkum vegna þess að frost var mikið, og ekki væri víst hvaða flökkurum ég kynni að mæta, en ég hélt þó áleiðis, gekk alla nóttina og kom til Tönsberg kl. 7 f. h. hinn 15. nóvember. Hinn 17. byrjaði ég vinnu á skipasmíðastöðinni "Kaldnæs Patentslip og Mekaniske Værksted" á Nátterö við Tönsberg. Þegar ég kom, var þar fyrir Jón Hinriksson, gamall kunningi frá Brekku á Álftanesi, síðar verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum; hann er nú dáinn fyrir mörgum árum. Útvegaði Jón mér þegar verustað í sama húsi og hann hélt til, hjá svínaslátrara Kettilsen og hans góðu konu og var þar gott að vera. Eg vann nú dag hvern við hampþéttingu skipa, barði ryð, málaði, lagaði reiða á hvalabátum, sem stóðu uppi o. s. frv. Leið svo fram til jóla. Á annan í jólum skrapp ég inn á lestrarstofu sjómanna og spurði hvort nokkuð bréf væri til mín. Jú, þar var bréf, ekki þaðan sem ég bjóst við, heldur frá Þórarni Tuliníus, sem spyr, hvort ég vilji fara stýrimaður á nýju skipi, sem kaupmaður Konráð Hjálmarsson sé að láta smíða í Stavanger, og vilji ég þetta, skuli ég snúa mér til skipstjóra Ebenesar Ebenesarsonar, sem búsettur var í Tönsberg.


Fjallið Reykjasúla í Mjóafirði að sunnanverðu. Nafn skipsins er dregið af fjallinu.     (C) Hjörleifur G.

Ég fór heim til hans og sýndi honum bréfið. Hann kannaðist við þetta og var ráðinn skipstjóri á hinu nýja skipi, til þorskveiða heima. Við þekktumst ekkert, en svo fór, að ég ákvað að ráðast á skipið. Þegar svo var komið sendi ég Tuliníusi skeyti, þess efnis, að ég tæki tilboðinu. Ég vann í slippnum milli jóla og nýjárs og til 4. janúar 1903. 6. janúar áttum við skipstjóri að leggja af stað, áleiðis til Stavanger. Fyrsta áfangann fórum við með járnbrautarlest til Laurvík og gistum þar um nóttina og næsta morgun fórum við út á fallegt, lítið strandferðaskip "Dronningen", sem kom við, nálega á hverri höfn, alla leið til Stavanger. Var skipið fullt af fólki, ýmsar mállýzkur talaðar og mörg gömul skrínan opnuð til að ná í bita og dram. Í Kragerö, Tvedestrand, Arendal, Grimstad og Kristiansand mátti líta hin gömlu bark- og briggskip, sem nú voru lögð upp, en einu sinni voru skrautleg langferðaskip.
Þau höfðu lifað sitt bezta, og lengstu ferðir þeirra nú, voru til Englands á sumrin eftir kolafarmi, ef vindmyllan, sem knúði dælurnar, gat haft við lekanum, að öðrum kosti var það timburflutningur og að fljóta á farminum. Allt þetta var nú að týna tölunni, smá hverfa og víkja fyrir öðrum aðferðum til vöruflutninga á hafinu. Þegar til Stavanger kom, settist skipstjóri að á "Victoria Hotel", en mér var útveguð gisting á matsöluhúsi hjá Thorbjörnsen nokkrum, sem var hinn mesti óreglugemsi og húsið hafði á sér versta orð, en milli skipstjóra og stýrimanns er mikið djúp og þess vegna voru líka dvalarstaðir okkar eftir því.


Síld landað og söltuð úr Súlunni SU 1 á Akureyri.                                   (C) Þjóðminjasafnið.

Samt var ég ekkert að grufla út í þetta; ég hafði gott rúm, nóg að borða, kaup og náðuga daga, meðan við biðum eftir að skipið yrði ferðbúið, en það var hinn 16. janúar. Ég komst að því, að margir ungir menn komu oft til skipstjórans; voru það atvinnulausir íslendingar, sem vildu komast heim. Ég réð skipstjóra til, að reyna að fá 2 duglega háseta til ferðarinnar og matsvein, en það fór öðruvísi. Við fylltum farmrúmin með kolum, tókum nauðsynleg matvæli, og annað er til ferðar þurfti, en á meðan var ég einn af skipshöfn og hafði engan séð, nema hina tvo norsku vélamenn, sem ráðnir voru. En 20. janúar kom skipshöfnin, ekki 2-3 menn, heldur 9 menn, flestir sjóklæðalausir, með ekkert, sem heitið gat, meðferðis. Einn var mér sagt að væri bakari og átti hann að vera matsveinn, að sögn. Rúmföt eða teppi voru lítt sjáanleg en þó var þar einn í hópnum, stór, laglegur maður, sem hafði allt meðferðis, sem til sjóferða heyrir, kistu, rúmföt, sjóstígvél og olíuföt; hét hann Valdemar Jóhannesson, ættaður frá Svalbarðsströnd, náfrændi Þórðar Iæknis Edilonssonar í Hafnarfirði. Reyndist hann hinn mesti dugnaðarmaður þessa ferð. Síðar fór hann til Ameríku. Loks kom kveldið 20. janúar. Þá létum við í haf og ferðin til Íslands byrjaði. Nú átti hið nýja skip að sýna kosti sína og galla, sem það og gerði þá 12 daga, sem við vorum á leiðinni. Vélin var lítil, þá talin 87 hö., en er nú aðeins 75, af hverju sem það er. Urðum við því brátt þess varir, að hraði skipsins var lítill, kringum 6-7 mílur. Meðan veður var sæmilegt, höfðum við skipstjóri og Valdemar þá ánægju, að sjá einn og einn háseta vera að skjótast upp á þilfar og matsveinninn eldaði til kveldsins 23. janúar, en þá gerði austan rok. Klukkan eitt um nóttina vorum við Valdemar í stýrishúsi og skipið andæfði. Þá reis sjór, sem hvolfdi sér yfir það, svo það nötraði og skalf og leið góð stund þar til það komst upp úr sjólöðrinu, en nú hafði það slagsíðu og vildi ekki rétta sig; kom þá fyrsti vélstjóri upp í stýrishús og heimtaði, að eitthvað yrði gjört til að rétta skipið, með öðrum orðum moka kolunum, sem farið höfðu út í aðra hliðina, en til þess þurfti að opna lúgur, en það var óðs manns æði að byrja á slíku, því fleiri sjóir gátu riðið yfir það og þá vissi ég hvernig fara myndi. Ég bað vélstjóra að vera rólegan, nú reyndi ég að leggja skipið yfir og sjá til, hvort ekkert lagaðist, þegar við fengjum sjóina á hlið og heppnaðist þannig að fá kolin í samt lag aftur, skyldi hann stöðva vélina og skyldum við svo láta reka. Sættum við nú lagi og fengum vind og sjói á hlið og eftir stóra öldu, sem kastaði skipinu á hliðina, heyrðum við skruðning í farmrúmi og réttist það þá nokkuð. Þá hringdi ég til vélstjóra og var vélin stöðvuð og við biðum átekta.


Brekkuþorp í Mjóafirði um það leiti sem Súlan kemur þangað.                 Ljósmyndari óþekktur.
  
Skipstjóri hafði frívakt og skildi ég ekki, hvers vegna hann kom ekki upp, því hann hlaut að hafa orðið þess var, þegar sjórinn reið yfir skipið. Fór ég því niður á þilfar til að athuga hvernig umhorfs væri og hið fyrsta, sem ég rak mig á var skipsbáturinn, laus og brotinn rétt við káetukappann, hurð þar brotin og eflaust fleira, en svo var dimmt, að ég sá vart handa minna skil. Reyndi ég nú að ýta bátnum frá káetudyrunum og fór niður. Ég heyrði stunur og kallaði til skipstjóra, sem ég ekki sá, því slokknað hafði á lampanum. Hann var í rúmi sínu, en þegar sjórinn skellti skipinu á hliðina, þá hentist hann út úr kojunni, yfir borðið og lenti á bekk og hafði brotið eða brákað rif og legið þannig nokkra stund, og líklega hefir liðið yfir hann. Í myrkrinu fálmaði hann sig svo upp í koju og leið mjög illa er ég kom. Rokið var hið sama, en með stöðvaða vél lá skipið ágætlega, hafði hagrætt sér sjálft og var afturhluti þess um 3 strik frá vindi. Ég yfirgaf skipstjóra, fór til Valdemars í stýrishús og bað hann að liðsinna skipstjóranum, kveikja, ná í áburð eftir hans fyrirsögn í meðalakistu og bera á hann, ef hann vildi. Mig langaði til að vita, hvað hásetunum liði, og fór fram í lúkar. Þar var ljótt umhorfs, þegar ég loks gat kveikt ljós. Sumir spúðu, aðrir stundu og enn aðrir báðu fyrir sér og var það fallegt, en lítil uppörfun fyrir mig, að sjá mannskapinn þannig. Ég spurði hvort enginn treysti sér á þilfar, en það var enginn. Þeim var bæði kalt og voru sjóveikir, og ég held, sumir hræddir. Leið nú nóttin og birta tók, fórum við Valdemar að rannsaka skemmdir.
Báturinn var ónýtur, annað siglingaljósið horfið en káetuhurð mátti gera við og var það okkar fyrsta verk. Skipið fór vel í sjó og er bjart var orðið hengdum við tvo olíupoka til kuls, og eftir það kom vart skvetta á þilfar. Valdemar gerði við hurðina, ég fór að sinna skipstjóra, og kokkinn varð að drífa upp til að matreiða, og einhvernveginn heppnaðist að elda kjötsúpu og kom hún sér vel, en matarlyst var engin hjá stafnbúum. Ég fór smátt og smátt að taka eftir, hvílíkt gæða sjóskip "Súlan" var, og það strammaði mig upp, eins og menn segja, því ömurlegt var á þessum blessuðum spítala.


Súlan SU 1 að landa síld á Akureyri.                                             (C) Handels & Söfart Museets.dk

Svo gekk á ýmsu, við héldum ferðinni áfram þegar færi gafst, stöðvuðum vél og létum út olíupoka, þegar sjóir urðu svo miklir, að ekki var siglandi, og svo kom 27. janúar. Um morguninn er birti, tók ég eftir því, að skipið lét ekki að stjórn. Veður var sæmilegt, en vindur á móti. Ég komst brátt að því, að stýrið höfðum við ekki misst, en vegna þess að járnhetta var yfir stýrisleggnum þar sem hann kom upp úr stýrisgatinu, skrúfuð niður, að mig minnir, með 32 skrúfboltum, þá gat ég ekki séð missmíði. Einn háseti var þá í stýrishúsi, því Valdemar svaf þegar ég varð þessa var. Ég fékk nú fleiri háseta á þilfar og skipstjóri, sem legið hafði þessa daga, kom sárlasinn upp og svo var farið að losa járnhettuna, og þegar hún var laus kom í ljós, hvað að var og það var ekki þeim að þakka, sem svikið höfðu útbúnað hér, að okkur auðnaðist að fá við það gert. Um hádegi þennan dag sást til sólar og mældi ég þá hæð og var það í eina skiptið, sem þess var kostur alla ferðina. Um kveldið, um 7 leytið, breyttist vindstaða til suðvesturs og gerði él; leið ekki á löngu þar til komið var rok og hauga sjór. Stóð svo alla þá nótt, en lygndi með morgninum og gekk síðan til suðausturs; varð sjór þá svo úfinn, að furðu sætti að skipið skyldi verja sig eins og raun varð á; hér dugðu engir olíupokar, til þess voru sjóir of krappir og tíðir; áfram varð að síga. Hinn 28. gátum við haldið áfram ferðinni, en 29. og 30. janúar var vestan stormur og lágum við með stöðvaða vél 15 klukkutíma á því tímabili. Dagana 31. janúar og 1. febrúar var veður gott, en þungur sjór, og eftir leiðarreikningi hefðum við átt að sjá land, síðari hluta dags hins 1. febrúar, en ekkert sást og héldum við áfram um nóttina, en lóðuðum annan hvorn tíma, en fundum ekki botn. Þegar birti 2. febrúar, var veður heiðskírt og logn; sáum við þá hvít fjöll og bil milli þeirra, sem við álitum fjörð.
Við tókum stefnu á fjörðinn og er við vorum komnir í mynni hans, sáum við bát og sigldum að honum og spurðum mennina, hvaða fjörður þetta væri, sem við sæjum. ,,Það er Norðfjörður", svöruðu þeir. Ég undraðist þetta meira en þótt þeir hefðu sagt, Finnafjörður eða Reyðarfjörður, því á réttan stað bjóst ég alls ekki við, að við kæmum, með þeim skilyrðum, sem mér virtust vera, bæði hvað stefnur, logg og fleira áhrærði. Er við höfðum talað við mennina í bátnum, breyttum við stefnu, og um hádegi 2. febrúar höfðum við varpað akkerum á Mjóafirði, og eigandi skipsins, Konráð Hjálmarsson, var kominn út á skip, ferðinni var lokið, og dáðist ég þá í huga mínum að allri frammistöðu "Súlunnar" á hafinu, þótt ferðin færi nokkuð fram úr áætlun.

Sjómannadagsblaðið árg. 1939.
Sveinbjörn Egilson. 
Flettingar í dag: 908
Gestir í dag: 371
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398673
Samtals gestir: 624729
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 14:19:31