03.03.2020 15:18

359. Brimnes BA 267. TFWJ.

Vélbáturinn Brimnes BA 267 var smíðaður í Gilleleje í Danmörku árið 1946 fyrir Vesturnes hf á Patreksfirði. Eik. 36 brl. 160 ha. Tuxham vél. Seldur 10 janúar 1955, Jóhannesi Kristjánssyni og Grímólfi Andréssyni í Stykkishólmi, hét þá Brimnes SH 107. Ný vél (1955) 240 ha. G.M. vél. Seldur 31 desember 1955, Þórsnesi hf í Stykkishólmi. 21 júní 1963 er Grímólfur Andrésson aftur orðinn eigandi bátsins, hét þá Brimnes RE 407. Seldur 30 janúar 1967, Freyju hf á Patreksfirði, hét Brimnes BA 214. Báturinn var endurbyggður að stórum hluta árið 1971 og einnig ný vél, 235 ha. Cummins vél. Seldur 28 apríl 1978, Guðmundi Agnarssyni og fl. Á Bolungarvík, hét Brimnes ÍS 214. Seldur 28 nóvember 1979, Magnúsi Daníelssyni í Njarðvík, hét Brimnes KE 204. Seldur 23 maí 1985, Jóhannesi Héðinssyni og Frey Héðinssyni á Patreksfirði, hét Brimnes BA 800. Báturinn sökk út af Blakksnesi 2 apríl árið 1989 eftir árekstur við strandferðaskipið Heklu. Áhöfnin, 3 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í Heklu.


Brimnes BA 267 í Reykjavíkurhöfn.                                                                 (C) Þráinn Hjartarson.

        Nýr bátur til Patreksfjarðar

Þann 22. desember síðastliðinn kom nýr vélbátur til Patreksfjarðar. Bátur þessi er 38 rúmlestir að stærð og er smíðaður í Gilleleje í Danmörku. Hann heitir Brimnes og er eign Vesturnes h/f á Patreksfirði. Helgi Guðmundsson skipstjóri á Patreksfirði sigldi bátnum upp og verður hann með hann á vertíðinni.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1947.


359. Brimnes BA 214.                                                           Úr safni Sigurðar Bergþórssonar.


Brimnes BA 800 að sökkva út af Blakk eftir áreksturinn. Skipverjarnir 3 í gúmmíbátnum.
(C) Þorgrímur Jónsson.

        Brimnes sökk eftir árekstur                              við  Heklu                            Þriggja manna áhöfn bjargaðist
       um borð í strandferðaskipið

Þrír menn komust í gúmbjörgunarbát þegar Brimnes BA 800 sökk eftir að báturinn lenti í hörðum árekstri við strandferðaskipið Heklu skammt út af Blakksnesi um klukkan sjö í gærkvöld. Hekla var á siglingu suður með Vestfjörðum en skipið var á leið til Reykjavíkur. Brimnes var á leið til Patreksfjarðar að loknum línuróðri. Þrír menn voru á Brimnesi og björguðust allir. Ekki lá ljóst fyrir í morgun með hvaða hætti áreksturinn varð. Jóhannes Héðinsson, skipstjóri á Brimnesi, vildi lítíð um atburðinn tala er DV náði sambandi við hann. Jóhannes sagði að prýðilegt veður hefði verið og vel hefði gengið að komast um borð í björgunarbátinn og þaðan um borð í Heklu.
Stýrimaður á Heklu vildi lítið sem ekkert um atburðinn ræða og vísaði til sjóprófa sem verða haldin í dag. Sjópróf verða hjá sýslumanninum á Patreksfirði í dag. Tveir af þremur skipverjum á Brimnesi voru í lúkar bátsins þegar áreksturinn varð og þykir mildi að þeir skyldu sleppa ómeiddir. Brimnes, sem er 34 tonna eikarbátur, sökk fáum mínútum eftir áreksturinn og aldrei var von til að bjarga bátnum. Tveir af þremur skipverjum á Brimnesi, það er skipstjórinn og vélstjórinn, eru bræður og eru þeir jafnframt eigendur bátsins.

Dagblaðið / Vísir. 3 apríl 1989.

Flettingar í dag: 887
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 906
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 719614
Samtals gestir: 53463
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 18:22:00