04.03.2020 09:36

E. s. Reykir LC..

Fiskiveiðagufuskipið  Reykir var smíðaður í Bergen í Noregi árið 1898 fyrir Konráð Hjálmarsson kaupmann og útgerðarmann í Mjóafirði. Stál. 42 brl. 45 ? ha. 2 þennslu gufuvél. Djúprista miðskips var 8 ft. Skipið mun hafa komið til Mjóafjarðar í apríl eða maí sama ár. Skipstjóri mun hafa verið J. Jacobsen, sennilega danskur maður. Konráð kaupmaður gerði Reyki út til fiskveiða en með litlum árangri. Skipið hentaði ekki vel til fiskveiða, enda voru áraskip sem veiddu aflann (þ.e. doríuveiðar) og hann síðan fluttur í Reyki. Einnig var skipið eitthvað í flutningum milli hafna á Austfjörðum. Reykir var seldur til Noregs í október árið 1900.

Sumarið 1898 var Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur við rannsóknir sínar á Austfjörðum. Hann birti grein í tímaritið Andvara í janúar 1899, þar sem hann lýsir þessum rannsóknum og einnig hefur hann fylgst með veiðum Reykis og segir frá þeim annmörkum sem Mjófirðingar áttu við að stríða við útgerð skipsins. Einkar athyglisverð grein. Hún birtist hér að neðan, nokkuð stytt.


Gufuskipið Reykir.                                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Íbúðar og verslunarhús Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði um árið 1900.                 Gamalt póstkort.

             Gufuskipið "Reykir"

"Reykir'', hið laglega fiskiveiðagufuskip kaupmanns Konráðs Hjálmarsonar, hefir af og til komið hingað í sumar í ýmsum erindagjörðum, og nokkrum sinnum flutt lækni fram og til baka.

Austri. 27 tbl. 30 september 1898.


             Fiskirannsóknir 1898
         Eftir Bjarna Sæmundsson

Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér mjóstur allra fjarðanna. Lengdin er rúmar 2 mílur frá línu milli Norðfjarðarnípu og Steinsness, inn í botn. Dýpið er mikið, 40 faðmar inni við botn, og smádýpkar út. Í firðinum er leirbotn, en úti fyrir nokkur hraun. Útræði er frá flestum bæjum við fjörðinn, en einkum frá Brekku. Sé fiskur ekki inni í firðinum, róa menn út í flóann milli Nípu og Dalatanga eða á djúp, alt að 1 mílu undan Dalatanga. Alls ganga úr firðinum 30-40 bátar, flestallir færeyskir, og svo 1 gufubátur. Bræðurnir Konráð kaupmaður og Vilhjálmur hreppstjóri Hjálmarssynir, síra Þorsteinn Halldórsson og Benedikt Sveinsson á Brekku fræddu mig um veiðarnar.
Fyrir hér um bil 10 árum byrjaði Otto sál. Wathne að gjöra út gufuskip til fiskiveiða, hin fyrsta tilraun hér á landi í þá átt. Urðu þau smámsaman 3 að tölu: »Egeria«, »Bjólfur« og »Elín«, (sem áður var strandferðabátur á Faxaflóa).


Fiskverkunarpláss Konráðs í Mjóafirði um árið 1900.                             Mynd á gömlu póstkorti.
  
Hin 2 síðastnefndu eru mjög lítil, en Egeria nokkuð stór. Þau voru látin stunda þorskveiðar með lóð og var fyrirkomulagið þannig, að þau fóru út með smábáta, er lögðu lóðirnar og tóku þær, og voru úti 1-2 sólarhringa, eftir því sem veður var til og afli mikill. Var svo gert að aflanum á landi. Þau fiskuðu á djúpmiðunum í nánd við Seyðisfjörð, en sjaldan lengra burtu, svo sem norður frá, suður af Langanesi, eða úti fyrir Vopnafirði, eða niður með, út af Suðurfjörðunum. Gjörðu menn sér miklar vonir um þessa veiðiaðferð, og í "blöðunum var látið eigi alllítið yfir hinum ágæta afla þessara skipa, og talið víst, að útgerðarmaðurinn hefði mikinn ábata á þeim. Þau hafa og eflaust aflað vel með köflum. En síðari árin hefir þeim ekki gengið vel og ábatinn orðið lítill. Og ekki heyrðist mér á Wathne sál. í sumar, að honum hafí þótt útgerðin vera sérlega arðberandi, sem bezt hefir sýnt sig á því, að hann í hitteð fyrra (1896) losaði sig að mestu leyti við skipin öll, þannig, að hann seldi þau að mestu leyti hlutafélagi einu dönsku, þar sem verzlunarhúsið 0rum og Wulff keypti flesta hlutina, en Wathne átti aðeins lítinn hluta, en hélt áfram að annast um útgerðina og fiskverkunina, ásamt með Bache kaupmanni á Vopnafirði, sem nú er aðal-umsjónarmaður útgerðarinnar. 1897 sagði hann mér, að skaðinn á útgerðinni hefði orðið 15 % og í sumar höfðu skipin varla aflað fyrir kolunum, þegar eg fór frá Austfjörðum; í haust hafa þau ekki aflað svo mikið, að þau hafi borgað sig. Mér heyrðist einnig á Bacbe, að félagið vildi helzt losna við skipin, ef hægt væri að selja þau án mikilla affalla. Eftir þessu að dæma hefir þessi útgerð því ekki orðið eins happasæl og menn gjörðu sér vonir um. Síðustu 3 ár hafa heldur ekki verið góð.


Bjarni Sæmundsson (fjær) við fiskirannsóknir sínar um borð í togaranum Baldri RE 146 árið 1912.
  
Konráð kaupmaður  Hjálmarsson í Mjóafirði lét smíða í fyrravetur gufubát, 14 smál. netto að stærð, fyrir 24,000 kr. Gekk báturinn (»Reykir«) til fiskiveiða í sumar, og var fyrirkomulagið sama og á hinum skipunum, hafði 2 báta með lóð, fór vanalega út á hverjum degi kl. 4 f. m. og kom aftur kl. 2 e. m., þegar veður leyfði. Hann fiskaði vanalega á djúpmiðunum út af Mjóafirði, en stundum nokkuð lengra burtu. Í sumar mun hann ekki hafa borgað sig ( útgerð og rentur), því til þess tíma, sem ég fór af Austfjörðum, gekk honum oftast illa. Þorsteinn kaupm. Jónsson í Borgarfirði átti von á gufubát í sumar, sem á að ganga til fiskiveiða. Þetta eru þær tilraunir, sem Austfirðingar hafa gert til að reka fiskiveiðar með gufuskipum, og þær eru mjög virðingarverðar, þar sem þær sýna mikla framtakssemi og hafa mikinn kostnað í för með sér. En því miður eru ýmsir agnúar á þessari útgerð, sem þegar hafa sýnt afleiðingar sínar á útgerð Watnesskipanna og Konráð jafnvel hefir þegar rekið sig á. Ég skal benda á hina helztu af þeim: Aðalgallinn er sá, að skipin eru of lítil. Af því leiðir, að þau eru nauðbeygð til að leita hafnar, eftir mjög stutta útivist, af því að ekki er hægt, vegna rúmleysis, að gera að aflanum og salta hann á skipinu, en fiskurinn þolir ekki að liggja lengi óslægður, einkum á sumrin. En við þessar tíðu ferðir út og inn eyðist mikið af kolum og tíma.


Bjarni Sæmundsson um borð í togaranum Skallagrími RE 145.
  
Þau eru af þessu einnig bundin við mjög takmarkað fiskisvæði, í stað þess geta haldið á þau mið, þar sem helzt er veiðivon, ef afli bregzt á heimamiðunum. Úr því mætti bæta, ef skipin gætu lagt aflann upp á öðrum hötnum, en til þess þyrfti að vera fólk fyrir til að hirða aflann, eða að hann væri seldur þar. Af smæðinni leiðir ennfremur, að skipin eru eigi eins góð í sjó að leggja og æskilegt væri, því lítil gufuskip eru mjög ágjöful og ókyrr, ef sjór er ókyrr, og því illt að athafna sig á þeim. Þau verða því oftast að liggja inni, þegar opnir bátar ekki geta róið veðursins vegna. Aftur á móti eru stór gufuskip dýr, og eigi þau að vera lengi úti í senn, þurfa þau mikið rúm fyrir kol, sem dregst frá lestarrúmi því, er aflinn ætti að verkast í. En svo er þeirri spurningu enn ósvarað, hvort það muni geta borgað sig, að gera út stór gufuskip til þorskveiða og salta þorskinn á skipinu, og mikið efamál, að það geti orðið, meðan verð á saltfiski er jafnlágt og það hefir verið nú að undanförnu. Konráð kaupmaður bjóst við, að bátur sinn gæti borgað sig, ef fiskur væri ávalt á heimamiðum. En þess skilyrðis ætti ekki að þurfa með, þegar um gufuskip er að ræða, því opnir bátar geta þá líka borgað sig. Það má þá segja, að gufuskipið sé aðeins til að draga bátana á miðin.

Andvari. 1 tbl. 1 janúar 1899.


Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 69
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742755
Samtals gestir: 55975
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 07:11:18