09.03.2020 10:48

1239. Þverfell ÓF 17.

Vélbáturinn Þverfell ÓF 17 var smíðaður hjá Byggingarfélaginu Bergi hf (Kristján Sigurðsson skipasmiður) á Siglufirði árið 1972 fyrir Sigurjón Antonsson, Ytri Á, á Ólafsfirði. 8 brl. 78 ha. GM vél, 57 Kw. Ný vél (1985) 73 ha. GM vél, 54 Kw. Báturinn sökk við Kerlingarsker um 1 sjómílu út af Gróttu 18 apríl árið 1989. Áhöfninni, 3 mönnum, var bjargað um borð í vélbátinn Pálmar RE 48. Þverfelli var náð upp síðar og það gert upp. Frá 1990 hét báturinn Fram ll HF 51 og var í eigu Jóns G Hafdal. Árið 1991 var hann í eigu Vélboða hf (Eiríkur Mikaelsson) í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Árið 1993 hét hann Auður HF 51, sami eigandi. Frá árinu 1994 hét báturinn Auður HF 8 og var í eigu Eiríks Ragnars Eiríkssonar í Garðabæ. Ný vél (1995) 122 ha. Ford Sabre vél, 90 Kw. Báturinn var tekinn úr rekstri 14 maí árið 2004. Hef ekki upplýsingar hvað um hann varð.


1239. Þverfell ÓF 17 í Reykjavíkurhöfn.                                      Ljósmyndari óþekktur.

             Siglufjarðarfréttir
                 Bátasmíðar

Hér hefur nokkuð verið unnið að bátasmíðum í vetur og meira en nokkru sinni fyrr. Tveir 11 lesta bátar liggja hér við bryggju, búnir til brottfarar. Fönix, ÞH - 148 fer til Raufarhafnar, eigandi Baldur Hólmsteinsson og Skálafell, SH - 240, fer líklega til Ólafsvíkur og er aðaleigandi hans Kristján Helgason. Skálafell er smíðað hjá þeim Hauki Kristjánssyni Sigurði Konráðssyni og Konráði Konráðssyni en Þverfell hjá Berg, 7-8 smálesta bát í smíðum, sem fer til Ólafsfjarðar. Eigandi hans mun vera Sigurjón Antonsson. Ráðgert er og að hefja þegar smíði á öðrum 11 lesta báti, sem þeir standa að Berg hf og Kristján Sigurðsson. Sá bátur mun fara til Ólafsfjarðar. Loks er Kristján Sigurðsson að smíða tvær trillur, 4-5 lesta. Fer önnur þeirra til Ólafsfjarðar en hin til Grímseyjar.

Tíminn. 14 mars 1972.


1239. Auður HF 8 (á miðri mynd) í Flensborgarhöfninni í Hafnarfirði.        (C) Lárus K Ingason.

  Þremur bjargað af sökkvandi báti

Þrír menn björguðust þegar Þverfell ÓF 17, átta tonna trébátur, lagðist á hliðina og sökk í þokkalegu veðri undan Gróttu um klukkan 16 í gær. Mennirnir þrír björguðust af lunningu bátsins yfir í Pálma RE 48, sjö tonna bát, sem var að veiðum skammt undan. Bátarnir voru að netaveiðum um það bil eina mílu undan Gróttu. "Við vorum að beygja á stjórnborða og ætluðum að fara að leggja út trossu. Þá kom alda undir bátinn stjórnborðsmegin og hann lagðist á hliðina," sagði Jón Barðdal, en hann var um borð í Þverfellinu ásamt Arnari, tvítugum syni sínum, og Sigurjóni Antonssyni, eiganda bátsins og skipstjóra. "Ég var afturá, komst upp á lunningu og náði að losa bátinn. Arnar var niðri í lúkar en komst upp. Skipstjórinn náði að kalla: "Pálmi - Þverfell" í stöðina. Þeir litu við, sáu hvað var að gerast og keyrðu beint til okkar. Þeir voru 2-3 mínútur á leiðinni og við biðum á lunningunni. Þeir Iögðu að og við stukkum yfir til þeirra. Við reyndum að rétta Þverfellið við en það var vonlaust. Ég hugsa að ekki hafi liðið meira en 5-7 mínútur frá því að hann fór á hliðina og þar til hann var sokkinn."

Morgunblaðið. 19 apríl 1989.

Flettingar í dag: 1279
Gestir í dag: 448
Flettingar í gær: 1749
Gestir í gær: 662
Samtals flettingar: 2031605
Samtals gestir: 519430
Tölur uppfærðar: 27.9.2020 18:37:21