18.03.2020 15:41

314. Baldvin Þorvaldsson EA 24. TFPV.

Vélbáturinn Baldvin Þorvaldsson EA 24 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1956 fyrir Aðalstein Loftsson, Baldvin Loftsson og Guðjón Loftsson á Dalvík. Eik. 59 brl. 270 ha. MWM vél. Smíðanúmer 9. Seldur 14 maí 1966, Þverfelli hf í Reykjavík, hét þá Brimnes RE 333. Seldur 7 janúar 1971, Þverfelli hf í Keflavík, hét Þverfell KE 11. Seldur 21 mars 1974, Agnari Indriðasyni og Hólmgrími Sigvaldasyni á Raufarhöfn, hét þá Þverfell ÞH 139. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar vél. Seldur 12 maí 1977, Agnari Smára Einarssyni í Reykjavík, hét Þverfell RE 139. Seldur 16 febrúar 1978, Gústaf A Guðmundssyni, Guðmundi Gústafssyni og Jónasi Ragnarssyni í Kópavogi, hét þá Sæbjörg ST 7. Eigendur bátsins flytja með bátinn til Hólmavíkur síðar það ár. Ný vél (1983) 420 ha. Caterpillar vél, 296 Kw. Seldur 20 desember 1987, Höfðavík hf á Hólmavík, hét þá Sæbjörg ST 77. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 júlí árið 1991. 

Ég hef það eftir Hauki Sigtryggi Valdimarssyni að áhöfn Baldvins hafi farið til Hafnarfjarðar að sækja bátinn nýsmíðaðan en farið svo til Keflavíkur og farið strax á veiðar. Báturinn var síðan gerður þaðan út alla vertíðina. Heim kom hann ekki fyrr en seint og um síðir.
Agnar Smári Einarsson gerði bátinn út frá Neskaupstað í nokkra mánuði á árinu 1977.

Heimildir að mestum hluta eru fengnar frá Hauki Sigtryggi Valdimarssyni.


314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 með fullfermi til Dalvíkur 1958. Báturinn hægra megin hét Valur EA 110. Hann fórst í mannskaðaveðrinu 10 apríl 1963 og með honum 2 menn. Úr safni Arnars Jónassonar.


314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði árið 1955. Ljósmyndari óþekktur.

  Nýjum báti hleypt af stokkunum                          í Hafnarfirði

Hinn 17. marz sl. var hleypt af stokkunum hjá Skipasmíðastöðinni Dröfn hf. í Hafnarfirði, nýjum vélbát, 59 rúmlesta að stærð. Var honum gefið nafnið Baldvin Þorvaldsson EA 24. Eigendur bátsins eru Aðalsteinn Loftsson og fleiri á Dalvík. Báturinn er smíðaður úr eik, en með yfirbyggingu úr stáli.  Hann er með 270 hestafla díselvél, Mannheim-gerð. Hann er með vökvalínu og dekkvindu, dýptarmæli með asdic-úrfærslu og yfirleitt búinn öllum beztu tækjum, sem völ er á og að öllu leyti mjög vandaður. Smíði þessa vélbáts var hafin snemma á síðasta ári. Hann er smíðaður eftir teikningum Egils Þorfinnssonar, skipasmíðameistara. Yfirumsjón með verkinu hafði Sigurjón Einarsson, skipasmíðameistari, en yfirsmiður var Hans Lindberg.
Yfirbyggingu, niðursetningu á vél og alla járnsmíði og hitalögn, annaðist Vélsmiðjan Klettur hf. Raflögn lögðu rafvirkjameistararnir Jón Guðmundsson og Þorvaldur Sigurðsson, málun framkvæmdu málarameistararnir Sigurjón Vilhjálmsson og Aðalsteinn Egilsson. Reiðar og segl voru gerð af Sören Valentínussyni, dýptarmælir settur niður af Friðriki A. Jónssyni, útvarpsmeistara. Þilfar og línuvinda var smíðað af vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar. Þetta er 9. vélbáturinn, sem Skipasmíðastöðin Dröfn hf. hefur byggt á þeim 14 árum, sem skipasmíðastöðin hefur starfað, og er undirbúningur hafinn að smíði þess tíunda.

Morgunblaðið. 29 mars 1956.


314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 í reynslusiglingu í mars 1956.              Ljósmyndari óþekktur.


314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 með nótabátinn á síðunni.                                   (C) Loftur ?


314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 á sjómannadag á Dalvík, sennilega árið 1957. Ljósmyndari óþekktur.

Þessi mynd er frá sjómannadegi einhvern tímann fyrir 1960. Á myndinni sjást fjórir helstu síldarbátar Dalvíkurflotans, fánum prýddir. Frá hægri eru þetta Hannes Hafsteinn EA 475, Bjarmi EA 760, Baldvin Þorvaldsson EA 24 og næst hafnargarðinum Júlíus Björnsson EA 216. Framan við Július Björnsson má sjá tvo minni báta. Nær bryggjunni er Hafþór EA 102 og utan á honum Valur EA 110. Þessir tveir bátar fórust nokkrum árum síðar eða 1963 og með þeim sjö menn eins og fram kemur í heimildamyndinni Brotið. Þess má geta að 20 árum síðar fórst Júlíus Björnsson, sem þá hét Hellisey VE 503, og með honum fjórir menn, en einn, Guðlaugur Friðþórsson náði með undraverðum hætti að synda í land. Um þann atburð hefur Baltasar Kormákur gert kvikmyndina Djúpið.
Ljósm. Héraðsskjalasafn Svarfdæla.


314. Þverfell ÞH 139.                                                                               (C) Tryggvi Sigurðsson.


314. Sæbjörg ST 7.                                                                      (C) Snorri Snorrason.


314. Sæbjörg ST 77. Báturinn kominn á leiðarenda.                                  (C) Bjarni Guðmundsson.


Stýrishúsið af Baldvin Þorvaldssyni EA 24 / Sæbjörgu ST 77 rétt utan við Hólmavík. Varla hefur það verið notað sem sumarhús.      (C) Tryggvi Sigurðsson.

        Dalvíkurbátar halda suður

Frá fréttaritara Tímans á Dalvík í gær.
Tíðarfar hefir verið hér mjög erfitt síðan fyrir jól, snjóað meira eða minna á hverjum degi síðastliðinn hálfan mánuð og allir vegir ófærir bílum en mjólk flutt á sleðum framan úr sveit og sjóleiðis til Akureyrar. Fjórir bátar fóru héðan í gærkvöldi áleiðis til verstöðva á Suðurnesjum. Voru það Hannes Hafstein, Bjarmi, Þorsteinn og Björgvin. Haukur I fer næstu daga. Verið er að byggja 55 lesta bát í Hafnarfirði fyrir Aðalstein Loftsson og fleiri á Dalvík. Verður hann tilbúinn i næsta mánuði og heitir Baldvin Þorvaldsson. Verður hann gerður út í Keflavík í vetur. Margt fólk fer héðan til vertíðarstarfa suður, jafnvel heilar fjölskyldur, sem taka sig upp og skilja íbúðirnar auðar eftir.

Tíminn. 26 janúar 1956.

Flettingar í dag: 237
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 1558
Gestir í gær: 541
Samtals flettingar: 1960234
Samtals gestir: 496291
Tölur uppfærðar: 9.8.2020 04:32:19