08.04.2020 14:01

Seglskipið Gyða frá Bíldudal.

Seglskipið (Jaktin) Gyða var smíðuð á Bíldudal af Kristjáni Kristjánssyni skipasmið frá Veðrará í Önundarfirði árið 1892  fyrir P. J. Thorsteinsson & Co á Bíldudal. Eik og fura.15 brl. Gyða fékk skráningarnúmerið BA 69, 1904-05. Selt 4 apríl 1905, Hannesi B Stephensen & Co á Bíldudal. Pétur kaupir Gyðu aftur 5 september 1907. Gyða var talin hafa farist í mynni Arnarfjarðar 23 apríl árið 1910 með allri áhöfn, 8 mönnum. 
Það var svo í nóvember árið 1953 sem mastrið af Gyðu að talið var, kom í rækjutrollið hjá m.b. Frigg BA. Mastrið og minnisvarði um þá sem fórust með skipinu er á Bíldudal.


Seglskipið Gyða á Bíldudal.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Minningaskjöldur um sjómennina 8 sem fórust með Gyðu á Bíldudal.


Minnisvarðinn og mastrið á Bíldudal.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 ágúst 2008.

             Seglskipið "Gyða"

Um fiskiskipið "Gyða", er fórst frá Bíldudal á nýafstöðnu vori sbr. 23-24. nr. "Þjóðviljinn" þ. á., hafa oss nú borizt grenilegri fregnir, en þar var getið. Það er talið víst, að "Gyða hafi farizt laugardagsnóttina fyrstu í sumri. Skip frá Bíldudal mætti henni á innsiglingu úti í mynni Arnarfjarðar föstudagskvöldið fyrsta í sumri. en um kl. 1-2 um nóttina gerði afspyrnuveður af norðri, með frosti og fannkomu, og er álitið, að "Gyða" muni hafa verið komin inn undir Stapadal, er hún fórst, með því að rekið hefir af henni ýmislegt lauslegt, þar á meðal tvo þiljuhlera, og tvo sjóhatta, á Fífustaðahlíðum, milli Fífustaða og Selárdals, flest á mánudaginn, eptir að slysið varð. Á skipinu voru þessir menn:
1. Þorkell Kristján Magnússon, skipstjóri, kvæntur maður á Bíldudal, er lætur eptir sig ekkju og fjögur börn, þar af þrjú í ómegð.
2. Magnús, sonur hans, er var stýrimaður, 18 ára að aldri.
8. Páll Jónsson, 15 ára, sonur síra Jóns Árnasonar á Bíldudal.
4. Jón Jónsson, unglingspiltur á Bíldudal, 19 ára að aldri.
5. Jón húsmaður Jónsson, í Hokinsdal, kvæntur maður, aldraður, er lætur eptir sig ekkju og uppkomna dóttur.
6. Ingimundur Loftsson, ekkjumaður að Fossi í Suðurfjörðum, 58 ára. Átti uppkomin börn.
7. Einar Líndal Jóhannesson, til heimilis að Bakka í Dalahreppi, 31 árs. Hann lætur eptir sig ekkju, og þrjú börn í ómegð.
8. Jóhannes Leopold Sæmundsson að Vaðli á Barðaströnd, kvæntur maður, er átti eitt eða tvö börn í ómegð. Hér er að mun skýrt glöggar frá þeim sem drukknuðu, en gert var í fyrgreindu nr. blaðs vors. Þegar litið er á manntjónið af "Industri", frá Patreksfirði, en á því skipi voru og ýmsir úr Arnarfirði, þá er ljóst, að í Arnarfirði á margur um sárt að binda, eptir skipskaða þessa og hefir eigi slíkt mannfall átt sér þar stað síðan bátstapinn mikli varð þar í sept. sumarið 1900. Hlutaðeigandi sveitir hafa og misst mikið, þar sem þær hafa misst nýta og dugandi menn, og efnilega unglinga.

Þjóðviljinn ungi. 5 ágúst 1910.


Flettingar í dag: 2507
Gestir í dag: 275
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741159
Samtals gestir: 55865
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:52:29