30.04.2020 22:12

Bátar við bryggju í Neskaupstað.

Við bæjarbryggjuna í Neskaupstað liggja þó nokkrir bátar. Ég veit ekki hvenær þessi mynd er tekin, en giska á árið 1975. Yst að austanverðu liggur færeyskur kútter, en þeir voru algengir á Norðfirði á þessum tíma. Utan á honum er sennilega 513. Árni Bergþór NK 25, hét áður Haddur SU 300. Eigandi hans var Hávarður Bergþórsson. Óþekktur í miðju, en sennilega 1127. Kögri NK 101 ystur, var í eigu Smára Einarssonar. Næst aftan við er sennilega 517.Hafbjörg NK 7. Var í eigu samnefnds hlutafélags í Neskaupstað. Hét Haraldur VE 246. Var áður í eigu Ölvers Guðmundssonar útgerðarmanns í Neskaupstað og hét þá Jón Guðmundsson NK 97. Þar utan við er 1122. Gullfaxi NK 11, eigandi hans var Guðmundur Þorleifsson (Gummi Dolla) útgerðarmaður í Neskaupstað. Hét áður Draupnir SI 62. Yst er 1368. Silla NK 42, eigandi hennar var Jón Sigurðsson útgerðarmaður í Neskaupstað, hét áður Rökkvi SU 45 og smíðaður á Borgarfirði eystra árið 1974.


Norðfirskir bátar og færeyskur kútter við bryggju í Neskaupstað.  (C) Sigurður Arnfinnsson.

    Friða verður norðfirsk trillumið
          fyrir stórum netabátum

Trilluútgerð er mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi margra sjávarplássa hér á landi. Þannig eru t.d. um 40 trillur gerðar út frá Neskaupstað á hverju sumri og færa frystihúsinu mikinn og góðan afla. Fréttaritari Þjóðviljans i Neskaupstað tók einn norðfirskan "trillukarl", Guðmund Karlsson, tali og lagði fyrir hann nokkrar spurningar. Guðmundur er 35 ára gamall Húsvíkingur, en flutti til Neskaupstaðar 1963. Hann er Stýrimannaskólagenginn og hefur stundað sjómennsku sem aðalstarf, m.a. stundað trilluútgerð héðan frá Neskaupstað flest sumur frá 1968.
Fyrst var Guðmundur spurður um eigin trillu. "Hún heitir Svala NK-54, hálfdekkuð, 4,3 tonn að stærð samkvæmt nýju mælingunni. Hún er smíðuð á Siglufirði 1961 og endurbyggð í Dráttarbraut Neskaupstaðar 1975." Hvað stendur trilluútgerð lengi? "Hún stendur frá því í byrjun maí og út október hér í Neskaupstað. Þetta finnst okkur mörgum helst til stuttur tími. Því ætlum við nokkrir að gera tilraun með grásleppuveiðar nú í apríl, og kanna hvort ekki sé hægt að lengja þannig vertíðina. Grásleppuveiðar hafa lítið verið stundaðar héðan, en ég trúi því, að hægt sé að gera héðan út á grásleppuveiðar með góðum árangri." Nú stendur trilluútgerðin hér svona stuttan tíma. Hvað gera trillukallar meðan þeir róa ekki?
"Það er nú margvislegt. Sumir fara á togara en aðrir vinna það sem til fellur í landi, og þeir sem best hafa fiskað taka því bara rólega." - Hvaða veiðarfæri eru notuð á trillum? "Færi, lína og þorskanet. Langflestir róa með færi og tel ég, að þau komi best út þegar á heildina er litið. Gjörbylting varð þegar rafmagnsrúllurnar komu til sögunnar. Gera þær vinnuna á sjónum margfalt léttari og svo eru þetta undraverkfæri í miklum fiski. Einn maður getur með góðu móti annað þremur rúllum, þannig að mikið er hægt að draga þegar sá guli gefur sig." - Hefur fiskgengd á trillumið norðfirðinga minnkað síðustu árin? "Ekki held ég það nú. Segja má, að trillumið okkar norðfirðinga séu á svæðinu frá Dalatanga að Gerpi, allt út í tólf mílur. Á þessu svæði hefur fiskgengdin áreiðanlega ekkert minnkað og fiskurinn að svipaðri stærð og áður." - Hvað með netaveiðar á þessu svæði? "Ég er algjörlega á móti öllum netaveiðum á stórum bátum á þessum fiskimiðum; þessar fáu trillur, sem róa með net héðan skipta ekki máli. Ef t.d. 10 stórir bátar kæmu hingað og legðu net sín á þau fiskimið, sem við stundum veiðar á þá gætum við lagt trillunum okkar og fengið okkur eitthvað annað að gera því þeir legðu trilluútgerð héðan gjörsamlega í rúst.
Það var farið fram á það í fyrra við stjórnvöld að svæðið væri friðað fyrir netaveiðum á stórum bátum, en því var synjað. En það verður að banna þessar veiðar nú þegar á þessu ári, því annars kann illa að fara, jafnvel svo illa, ef stórir flotar netabáta koma hingað á miðin, að norðfirsk trilluútgerð heyri sögunni til. En þar sem verið er að tala um, að við verðum að auka sókn í aðra fiskistofna en þorskinn, þá finnst mér sjálfsagt að opna hér svæði fyrir snurvoðarbáta frá því í endaðan september og til áramóta, því hér eru auðug skarkolamið, sem vel ma nýta." - Eru trillur ekki orðnar vel útbúnar til sjósóknar? ,,Jú, mikil ósköp. Allar eru þær komnar með dýptarmæla og þó nokkrar með radar. En það sem athyglisverðast er, er sú staðreynd, að í hverri trillu héðan frá Neskaupstað er talstöð og eykur það mikið öryggið. Vð tilkynnum Nesradíó þegar við förum af stað, aftur rétt fyrir hádegi og svo þegar við komum að landi. En þar sem ég er farinn að tala um öryggi á sjó finnst mér tilhlýðilegt að minnast á það að brýna nauðsyn ber til þess, að allir þeir sem róa einir, séu skyldaðir til þess að vera í björgunarvestum á sjónum. Til eru hentug björgunarvesti, sem hægt er að vera í innanundir fötunum."  - Er arðsamt að róa á trillu? "Þeir sem duglegastir eru bera mannsæmandi laun úr býtum. Hæsta trillan hér í fyrra fékk td. 65 tonn. En þetta er mikil vinna. Flestir fara á sjóinn á milli klukkan 4 og 5 á morgnana og koma að landi á tímabilinu frá klukkan 18-21, þannig að vinnudagurinn er langur og tímakaupið ekki alltaf hátt. En við norðfirskir trillukallar lítum björtum augum til framtíðarinnar og kvíðum engu ef stjórnvöld fást til að friða þau fiskimið, sem við róum á. fyrir stórum netabátum."

Þjóðviljinn. 10 apríl 1976.


Flettingar í dag: 604
Gestir í dag: 244
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962258
Samtals gestir: 496937
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 15:51:01