28.06.2020 09:12

M. s. Drangajökull sökk á Pentlandsfirði.

Í dag eru liðin 60 ár frá því að flutningaskip Jökla hf, Drangajökull, sökk á Pentlandsfirði í ágætis veðri. Orsakir slyssins eru enn á huldu, en skipið fékk skyndilega á sig mikla slagsíðu. 19 skipverjar voru um borð. Flutningaskipið Drangajökull var smíðaður hjá Kalmarvarf í Kalmar í Svíþjóð árið 1947. 621 brl. 720 ha. Nohab vél. Hét fyrst Foldin og var smíðuð fyrir Skipafélagið Fold hf í Reykjavík. Selt 16 ágúst 1952, Jöklum hf í Reykjavík, fékk nafnið Drangajökull. Skipið sökk í Pentlandsfirði á milli Orkneyja og Skotlands 28 júní árið 1960. Áhöfnin, 19 manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og stuttu síðar var þeim bjargað um borð í skoska togarann Mount Eden A 152 frá Aberdeen í Skotlandi sem hélt með skipbrotsmenn inn til Aberdeen.


E.s. Drangajökull.                                                            (C) Ólafur Ragnarsson.

              Kæliskipið Foldin

Þann 17. nóvember síðastliðinn kom hingað til lands nýtt kæliskip, sem heitir Foldin. Skip þetta er smíðað í Kalmarvárv í Svíþjóð. Samningar um smíði þess voru gerðir í ársbyrjun 1945. Það er 625 rúmlestir brúttó og tekur til flutnings 500-550 smálestir af flökum. Aðalvélin er 720 hestafla Noabvél. Lestað gengur skipið 11,5 mílu. Í reynsluför fór það 12,5 mílu. Hjálparvélar eru þrjár, tvær 16 hestafla og ein 130 ha. Þegar skipið er á siglingu, eru Ijós og frystivélar drifnar af 20 k\v rafal, sem aðalvélin rekur. Pressur eru af Stalgerð. Í lestunum er hægt að halda 18° frosti við 25° utanborðshita. Skip þetta virðist að öllu hið vandaðasta og sérstaklega eru mannaíbúðir allar og allt fyrirkomulag viðvíkjandi áhöfninni með ágætum. Yfirmenn á Foldinni eru: Ingólfur Möller, skipstjóri, Steinar Kristjánsson 1. stýrimaður og Guðmundur Hjaltason 2. stýrimaður. Fyrsti vélstjóri er Jón Örn Ingvarsson. Foldin er eign Skipafélagsins Foldin, en stjórn þess skipa: Baldvin Einarsson, Óskar Normann og Geir Zoéga.

Ægir. 11 og 12 tbl. 1 nóvember 1947.


E.s. Foldin í slippnum í Reykjavík.                                                                    (C) Pétur Thomsen.

  Drangajökull sökk í Pentlandsfirði

  Skozkur togari bjargaði áhöfninni

Morgunblaðinu barst í gærkvöldi svohljóðandi einkaskeyti frá fréttaritara sínum í Færeyjum: DRANGAJÖKULL, sem var staddur í Pentlandsfirði sendi út neyðarskeyti kl. 19,39 svohljóðandi: Turning over portside (Er að hvolfa á bakborða). Svo heyrðist ekki meira til hans. En kl. 20 kallaði skoski togarinn Mount Eden frá Aberdeen til Wickradíó, og skýrði loftskeytamaður hans svo frá að togarinn hefði bjargað öllum sem á Drangajökli voru, samtals 19 manns. Hann er nú á leið til Aberdeen. Togarinn kom að Drangajökli þegar hann var að velta á hliðina. Fór hann alveg yfir um og stóð botninn upp nokkra stund, en svo sökk skipið stuttu síðar.
Samkvæmt þeim fréttum, er Morgunblaðið gat aflað sér í gærkvöldi, var DrangjökuII á heimleið frá Ósló, Amsterdam og fleiri Evrópuhöfnum, fullhlaðinn kartöflum og öðrum varningi, og með dráttarvélar á dekki.
Skipstjóri var Haukur Guðmundsson, Nökkvavogi 31 í Reykjavík, og voru kona hans og barn með í ferðinni. Haukur er reyndur sjómaður og hefur um langt skeið verið fyrsti stýrimaður á skipinu, en þetta var hans fyrsta ferð sem skipstjóri. Aðrir skipverjar voru:
Georg Franklínsson, I. stýrimaður, Hverfisgötu 102. Finnbogi Kjeld, II. stýrimaður, Ytri-Njarðvík. Helgi Þorkelsson, 1. vélstjóri, Kleifarvegi 5. Sveinbjörn Erlingsson, II. vélstjóri, Efstasundi 63. Tryggvi Oddsson, III. vélstjóri, Skúlagötu 56. Bjarni Sigurðsson, loftskeytamaður, Njarðargötu 31. Árni Jónsson, bryti, Víðihvammi í Kópavogi. Haraldur Helgason, matsveinn, Ásgarði 123. Þórður Geirsson, bátsmaður, Bólstaðahlíð 33. Gunnar Bjarnason, háseti, Neskaupstað. Guðjón Erlendsson, háseti, Ásgarði 39. Ævar Þorgeirsson, háseti, Birkimel 8B. Gylfi Pálsson, háseti, Innri-Njarðvík. Þorlákur Skaptason, háseti, Tómasarhaga 44. Karl Jónsson, smyrjari, Tómasarhaga 57. Vilhjálmur Vilhjálmsson, messadrengur, Mávahlíð 42.
Drangjökull var 621 smálest að Stærð, byggður í Svíþjóð 1948 og talinn gott sjóskip. Yfirbygging var í skutrúmi, og þar voru íbúðir skipverja, eldhús, stjórnklefi, loftskeytaklefi og vélarúm.

Morgunblaðið. 29 júní 1960.


Drangajökull við bryggju í Reykjavík.                                        (C) Ólafur Ragnarsson.


Skorski togarinn Mount Eden A 152 frá Aberdeen sen bjargaði áhöfninni af flutningaskipinu Drangajökli á Pentlandsfirði hinn 28 júní árið 1960.    Mynd úr safni mínu.

      Drangajökull sökk á 20 mín

     Fólkið fór allt í gúmmíbátana

Ekki er vitað neitt frekar af hvaða orsökum skipið Drangajökull fórst svo skyndilega í Pentlandsfirði, milli Skotlands og Orkneyja, í fyrradag. Skipbrotsmennirnir komu til Aberdeen í gær, en svo virðist að þeir vilji ekkert segja um orsakirnar fyrr en við sjópróf. Þeir eru væntanlegir heim með flugvél Flugfélagsins á föstudag. Sjópróf fara fram í Reykjavík en ekki er enn afráðið hvort þau geta hafist þegar á laugardaginn. Það er lauslega áætlað að tjónið í skiptapa þessum, bæði skip og farmur, nemi a.m.k. 20 milljónum króna. Mbl. bárust í gær nokkru nánari fregnir af þessu sviplega atviki frá fréttamanni í Aberdeen. Það var skozki togarinn Mount Eden, 293 tonn sem bjargaði skipshöfninni á Drangajökli og kom hann með skipbrotsmenn til Aberdeen árdegis í gær, miðvikudag, Mount Eden var að koma úr tólf daga veiðiför á Færeyjamiðum og var að sigla með aflann til Aberdeen. John Snelling skipstjóri á skozka togaranum segir, að hann hafi verið um 5 mílur frá Drangajökli, þegar hann varð þess vísari að þetta íslenzka skip var í nauðum statt. Þetta gerðist þar sem Pentlandsfjörður er mjóstur undan vitanum á Stromaeyju og er þar 40 faðma dýpi. Sjö vindstig voru á norðan.
Þegar Mount Eden kom að Drangajökli var hann enn á floti, en hafði hvolft. Skipsmenn höfðu allir komizt í gúmmíbjörgunarbátana. Allir voru ómeiddir og glaðir yfir björguninni, sem barst þeim svo fljótt. Flestir voru þurrir, nema fjórir eða fimm þeir síðustu sem yfirgefið höfðu skipið, þeir höfðu stokkið í sjóinn en komizt upp í gúmmíbátana. Yngsti skipbrotsmaðurinn var Gunnar fjögurra ára sonur skipstjóra. Utan um hann hafði verið vafið til hita, hollenzkum fána, en fáni þessi hafði verið þrifinn í fáti upp úr fánakistu skipsins, þegar fólkið varð svo skyndilega að yfirgefa það. Drangajökull sökk niður að aftan og hvarf í hafið skömmu eftir að fólkið var komið um borð í Mount Eden. Einn skipverjanna á skozka togaranum, hásetinn John Warman sagði við fréttamanninn: "Þessi björgun var Guðs mildi". Hann bætti því við að Pentlandsfjörður væri alræmdur fyrir hringiður, straum og úfinn sjó. Skipbrotsmennirnir búa nú á sjómannaheimilinu í Aberdeen. Þegar fréttamaðurinn kom þangað var Gunnar litli sá fyrsti sem kom á móti honum. Hann var á hlaupum fram og aftur á rósrauðum inniskóm og hafði verið að borða morgunmat, cornflakes og mjólkurglas. Loftskeytamaðurinn á Drangajökli, Bjarni Sigurðsson sem er 31 árs upplýsti, að skipið hefði sokkið á 20 mínútum. Hann kvaðst hafa verið mjög glaður yfir því að togarinn kom svo skjótt til hjálpar eftir að neyðarkall hafði verið sent út.
Drangajökull var að koma frá Vestur Evrópulöndum með ýmsan varning. Hafði hann tekið varning í Noregi, Hollandi, Belgíu og Englandi. Síðasta viðkomuhöfn hafði verið London. Farmurinn var m. a. kartöflur, þurrkaðir ávextir, margskonar stykkjavara og dráttarvélar á dekki. Skipið var vátryggt hjá Tryggingamiðstöðinni en varningurinn hjá ýmsum félögum. Í upptalningunni yfir skipsmenn í blaðinu í gær vantaði einn, en hann er Vilhjálmur Vilhjálmsson Mávahlíð 42, sem er 14 ára drengur. Var hann skráður sem messadrengur en mun fremur hafa verið í skemmtiferð með skipinu.

Morgunblaðið. 30 júní 1960.

Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699098
Samtals gestir: 52777
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:05:20