01.09.2020 07:31

M. s. Liv EA 401. LBQK / TFGI.

Mótorskipið Liv EA 401 var smíðað í Stavanger í Noregi árið 1907. Eik og fura. 50 brl. 60 ha. Bolinder vél (1923). Guðmundur Pétursson útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri keypti skipið frá Noregi vorið 1924. Skipið var lengt árið 1944, mældist þá 65 brl. Ný vél (1946) 155 ha. Atlas vél. Selt 15 apríl 1948, Útgerðarfélagi Hríseyjar hf, hét Ver EA 401. Selt 5 nóvember 1953, Þórhalli Hálfdánarssyni í Hafnarfirði, hét þá Hreggviður GK 3. Selt 9 febrúar 1957, Ingólfi Theodórssyni í Vestmannaeyjum, hét Hafbjörg VE 54. Ný vél (1958) 375 ha. Kromhout vél. Selt 14 desember 1961, Þórólfi Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Hafbjörg SH 133. Selt 19 maí 1964, Haraldi Jóhannssyni í Vestmannaeyjum, hét Hafbjörg EA 112. Haraldur flutti til Grímseyjar með skipið árið 1965. Skipið sökk með malarfarm um 6 sjómílur suðvestur af Grímsey 13 september árið 1965. Áhöfnin, 3 menn, komust í björgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í varðskipið Óðinn.


518. Liv EA 401 sennilega inn á Eyjafirði.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Skipakaup

Guðmundur Pétursson útgerðarmaður kom í gær frá Noregi á 50 smálesta mótorkútter, er hann hefir keypt þar.

Íslendingur. 20 júní 1924.


Liv EA 401 á siglingu.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Sennilega er þetta Liv EA 401. Mér sýnist myndin tekin á Ísafirði.              Ljósmyndari óþekktur.


Liv EA 401. Módel.                                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


 Hafbjörg EA 112 sökk við Grímsey

Vélbáturinn Hafbjörg EA 112 sökk um kl. 5,30 í gærmorgun um 5-6 sjómílur suðvestur af Grímsey. Á bátnum voru þrír menn, sem björguðust í gúmbát, og voru þeir um 2 tímum síðar teknir um borð í varðskipið Óðinn. Hafbjörg var 65 lestir að stærð, byggð árið 1907, og hét báturinn áður Hreggviður. Óhappið gerðist er Hafbjörg var að flytja byggingamöl frá Dalvík til Grímseyjar. Voru um 50 tonn af möl um borð og kom mikill leki upp í bátnum um kl. 4 um nóttina. Reyndist árangurslaust að dæla sjónum úr honum. Gúmbátar, tveir að tölu, voru settir út og um kl. 5.30 um morguninn yfirgáfu skipverjar Hafbjörgu, sem sökk að 2-3 mínútum liðnum. Skipstjórinn, Haraldur Jóhannsson, hafði áður haft samband við lofskeytastöðina í Siglufirði og gert aðvart um hvernig komið væri. Um tveimur tímum síðar kom varðskipið Óðinn á staðinn og tók mennina þrjá um borð og flutti til Grímseyjar. Þar er Haraldur skipstjóri að byggja fiskvinnsluhús, en hann er gamall Grímseyingur. Hinir skipverjarnir tveir eru Björn Þorleifsson, búsettur á Húsavík og Pálmi Sigurðsson frá Akureyri.

Morgunblaðið. 14 september 1965.

Flettingar í dag: 316
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 738968
Samtals gestir: 55673
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 02:23:44