06.09.2020 10:34

Síldarflutningaskipið Haförninn lestar síld á miðunum við Svalbarða.

Þegar síldveiðarnar á miðunum við landið brugðust, var þá gripið til þess ráðs að senda síldveiðiskipin íslensku langt norður í höf og það alveg til Svalbarða. Skipin þurftu þá að sigla allt að 700 til 1000 sjómílur á miðin. Fjarlægðin gerði það að verkum að nánast var ógerlegt að sigla með síldina heim í hvert skipti sem þau fylltu sig. Þá var gripið til þess ráðs að fá síldartökuskip (flutningaskip) sem hægt væri að landa í á miðunum og þau sigldu svo til lands með fullfermi. Haförninn var eitt þeirra skipa sem flutti síldina til bræðslu á Siglufirði. Það var í eigu Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði frá árinu 1966 þar til það var selt til Ítalíu árið 1971. Haförninn var smíðaður í Noregi árið 1957 og var 2.462 brl. með 2.100 ha. B & W vél. Einnig flutti Haförninn olíu og vistir til flotans og sjálfsagt margt annað sem til féll.


Skip Síldarvinnslunnar hf, 970. Barði NK 120 til vinstri og 975. Bjartur NK 121 til hægri, að landa síld í Haförninn á miðunum við Svalbarða.      (C) Steingrímur Kristinsson.


           Haförninn fullfermdur

Rúmlega 30 íslenzk skip eru nú á síldveiðum við Bjarnarey. Erfiðlega hefur gengið að fá fréttir af afla þar sem vegalengdin milli lands og síldarmiðanna er um 700 sjómílur. Þó er vitað að 12 skip fengu afla síðasta sólarhring. Landa skipin í síldarflutningaskip, og eru þrjú slík á miðunum, auk söltunarskips Valtýs Þorsteinssonar. Var fyrsta síldin söltuð þar um borð í gær. Voru það 400 tunnur. Flutningaskipið Haförninn var komið með fullfermi í dag og er sennilega lagt af stað til Siglufjarðar, en þar verður síldinni landað á mánudag eða þriðjudag. Þegar er byrjað að lesta Síldina en þriðja síldarflutningaskipið þarna norður frá er Nordgard og verður ekki byrjað að losa í það fyrr en Síldin er fullfermd, og þegar Nordgard verður komið með fullfermi má búast við að Haförninn verði kominn á miðin aftur. Síldarradíóin á Raufarhöfn og Dalatanga tóku til starfa um hádegi í dag. Árni Friðriksson er á leið til Bjarnareyjasvæðisins til að fylgjast með hreyfingum síldarinnar. Leiðangursstjóri er Jakob Jakobsson.

Tíminn. 13 júlí 1968.


Flettingar í dag: 1215
Gestir í dag: 375
Flettingar í gær: 2042
Gestir í gær: 693
Samtals flettingar: 2036091
Samtals gestir: 521007
Tölur uppfærðar: 30.9.2020 19:19:25