01.11.2020 08:48

Fiskimiðaleit togarans Harðbaks EA 3 sumarið 1955.

Á árunum eftir 1950 fór að sverfa að togaraflotanum hvað fiskimiðin varða. Við útfærslu landhelginnar í 4 sjómílur 1952 var lokað fyrir veiðar í flóum og fjörðum, en verst var fyrir togaranna að missa sín hefðbundnu fiskimið út af Faxaflóanum og Breiðafirði. Og enn nú meira var það þegar landhelgin var færð út í 12 sjómílur  árið 1958. Neyðin kennir naktri konu að spinna. Það var sumarið 1954 að tilhlutan Jóns Axels Péturssonar og Hafsteins Bergþórssonar, sem þá voru framkvæmdastjórar Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Hermann Einarsson fiskifræðingur, en þeir áttu frumkvæðið að því að togaraútgerðirnar leituðu nýrra fiskimiða. Eftir því sem ég veit best var það Bæjarútgerðartogarinn Jón Þorláksson RE 204  sem hélt á miðin við Austur Grænland í ágúst sama ár. Árangur þeirrar leitar var sá að hann fann auðug karfamið sem gáfu vel af sér. Þau fengu nafnið Jónsmið, í höfuð togarans Jóns Þorlákssonar RE 204. Sama ár leitaði togarinn Austfirðingur SU 3, nýrra fiskimiða úti fyrir Norðurlandi og út af Austfjörðum sem gáfu góða raun. Það var svo í júnímánuði árið 1955 að Atvinnumálaráðuneytið fékk togarann Harðbak EA 3 til að leita nýrra fiskimiða úti fyrir Norður og Austurlandi. Greinin hér að neðan er eftir Ingvar Hallgrímsson fiskifræðing en hann var með í för þessa leiðangurs togarans Harðbaks EA 3 frá Akureyri sumarið 1955.


B.v. Harðbakur EA 3 í Reykjavíkurhöfn.                                                   (C) Valdimar Jónsson.

      Frá fiskimiðaleit "Harðbaks"


Eins og kunnugt er, samþykkti síðasta Alþingi að fela ríkisstjórninni leit nýrra fiskimiða fyrir Norður- og Austurlandi. Í greinargerð með samþykkt þessari er gert ráð fyrir umfangsmikilli leit, og er réttilega tekið fram, að þessu verkefni verði ekki lokið á einu sumri. Í fylgiskjali með tillögunni eru raktir erfiðleikar togaraútgerðarinnar norðanlands og austan, aðallega hvað snertir fjarlægð fiskimiða frá heimahöfnum þessara togara, og eins er þar getið, að togarinn "Austfirðingur", skipstjóri Þórður Sigurðsson, hafi á síðastliðnu sumri fundið ný fiskimið norðanlands, og er það álit skipstjórans, að mikil þörf sé fiskimiðaleita á norðaustursvæðinu. Atvinnumálaráðuneytið fékk svo togarann "Harðbak", skipstjóri Sæmundur Auðunsson, til þess að leita nýrra fiskimiða á þessu svæði, og var mér falið að taka þátt í þeirri leit. Leitin stóð yfir frá 1. til 13. júní með eins dags hléi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, var leitað allt vestur frá Strandagrunni og úti fyrir Norðurströndinni allt austur til Þórsmiða. Á myndinni eru togstöðvarnar merktar með punktum. Þar sést, að oftast var togað utan venjulegra fiskislóða milli 200 og 500 metra dýptarlínanna yzt á landgrunnshallanum. 


Kortið sýnir togslóðir Harðbaks EA úti fyrir Norður og Austurlandi.                             Mynd úr Ægi.

Á utanverðu Strandagrunni var góð veiði, þegar við vorum þar, og var það tilkynnt öðrum skipum, og komu nokkrir togarar á þessar slóðir. Annars voru aflabrögðin mjög lítil, og ekki er hægt að segja með sanni, að ný fiskimið hafi fundizt. Togbotn var víðast góður, en víða gefa sjókort alranga mynd af botnlagi, t. d. má sjá af myndinni, að leitað var gaumgæfilega norður af Kolbeinsey, þar eð ráða mátti að sjókortum, að þarna væru bærileg togsvæði, en svo reyndist ekki. Er allsendis ófært, að ekki skuli vera til örugg sjókort yfir hafið umhverfis landið, og er ómælt hvílíku tjóni það hefur valdið.
Leiðangur þessi hefur sætt gagnrýni, aðallega fyrir þá sök, að hann hafi verið farinn á óheppilegum tíma, þ. e. of snemma sumars. Má það reyndar til sanns vegar færa, því að í ljós kom, að sjávarhiti djúpmiðanna fyrir norðan og austan reyndist lágur á athugunartímanum. Hins vegar er þess að gæta, eins og fyrr segir, að hér er gert ráð fyrir umfangsmikilli leit, sem ekki verður lokið á einu sumri, og má því líta á þessa ferð sem fyrsta þátt þessa mikla verkefnis. Í skýrslu um leiðangurinn get ég þess m. a., að ég telji að æskilegt sé að farinn verði annar leiðangur síðsumars yfir þetta svæði, þar sem þess megi vænta, að fiskur gangi á djúpmið síðari hluta sumars, þegar upphitun sjávarins sé orðin meiri en hún var í fyrri hluta júní. Þetta álit reyndist rétt, og má nefna, að röskum mánuði eftir að við toguðum út af Melrakkasléttu með litlum árangri, fékk togarinn "Austfirðingur" ágætan afla á sömu slóðum. Má því fyllilega búast við, að árangur "Harðbaks"-leiðangursins hefði orðið meiri, ef seinna hefði verið farið. Þó má sitthvað læra af þessum leiðangri, og vil ég hér sérstaklega minnast á sambandið milli sjávarhitans og fiskimagnsins.


Grafið sýnir afla í kg pr togtíma ásamt botnhita.             Mynd úr Ægi.

Eins og kunnugt er, eru allir fiskar (og reyndar öll önnur dýr) háð vissum lífsskilyrðum, þ. e. a. s. að umhverfi fisksins verður að uppfylla viss skilyrði til þess að hann geti þrifizt. Þessar kröfur, sem fiskurinn gerir til umhverfisins, eru mjög margbrotnar og sumar tæpast þekktar, en meðal þeirra er sjávarhitinn, og hann er auðveldast að athuga. Fiskurinn velur sér umhverfi með vissu hitastigi, sem nefnist kjörhiti fisksins. Kjörhitinn er mismunandi fyrir hinar ýmsu tegundir, og er annar á hrygningartíma en utan hans. Víða erlendis hafa farið fram umfangsmiklar athuganir á kjörhita helztu nytjafiska, en hér við land hefur þetta aðeins verið athugað lítillega enn sem komið er. Norskir fiskifræðingar hafa t. d. fært sönnur á, að við Lófót hrygnir þorskur næstum eingöngu í 4-6° heitum sjó. Eitt árið getur þorskurinn staðið djúpt í sjó á hrygningartíma, annað árið grunnt, allt eftir því hvar þetta vissa hitalag er að finna. Einnig hefur verið sýnt fram á, að við Finnmörk, þar sem þorskur er veiddur utan hrygningartíma, heldur hann sig aðallega í 3° heitum sjó. Á "Harðbak" var í þessari ferð mældur botnhiti á 22 togstöðvum. Aðeins í 6 skipti mældist hitinn yfir 3°, en undir 3° í 16 skipti. Þegar athugað er svo sambandið milli botnhitans og þorskaflans, kemur í Ijós, að þorsks varð mjög lítið vart, þar sem botnhitinn var undir 3°. Þetta er sýnt á meðfylgjandi línuriti, þar sem sýndur er aflinn reiknaður á togstund við mismunandi botnhita. Sambandið milli karfaaflans og botnhitans er ekki eins ljóst, en þó má greinilega sjá á línuritinu, að aðeins einu sinni fannst verulegt karfamagn þar sem botnhitinn var undir 2°. Af þessu má ráða, að hin óhagstæðu hitaskilyrði norðanlands og austan í byrjun júní hafi verið ein meginorsök hins litla árangurs. Einnig gefur þetta vísbendingu um, að mælingar sjávarhitans gætu komið íslenzkum fiskiskipum að góðu gagni við veiðarnar. Djúpsjávarhitamælar eru víða erlendis notaðir í fiskiskipum og t. d. í erlendum fiskiskipum við Ísland. Slíkir mælar munu nú vera fáanlegir hér og hefði fyrr mátt vera.

Ægir. 13 tbl. 15 ágúst 1955.
Ingvar Hallgrímsson fiskifræðingur.

Flettingar í dag: 467
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 1058
Gestir í gær: 85
Samtals flettingar: 726057
Samtals gestir: 53847
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 05:32:42