20.12.2020 07:46

1536. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. TFKL.

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979 fyrir Útgerðarfélagið Gunnvör hf. á Ísafirði. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann vél, 1.728 Kw. Smíðanúmer 123. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar hinn 15 júní það ár. Skipið var selt í október 1989, Síldarvinnslunni hf. Í Neskaupstað, hét þá Barði NK 120. Togarinn var seldur í september 2002, Prestige Fishing Company Ltd í Walvis Bay í Namibíu. Hét þar fyrst um sinn sínu fyrra nafni, Bardi L 1125, en fékk svo nafnið Kamali L 1266, með heimahöfn í Luderitz í Namibíu.


1536. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

 Júlíus Geirmundsson í heimahöfn

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS-270 kom til heimahafnar á Ísafirði s.l. föstudag. Júlíus er fimmta skipið sem Gunnvör hf. á Íafirði eignast og þriðja skipið sem félagið lætur smíða hjá Flekkefjord Slipp og Maskinfabrik í Noregi. Eldra skip félagsins með sama nafni var tekið sem greiðsla upp í þessa nýsmíði, en var síðan selt til Keflavíkur og heitir nú Bergvík KE. Skipstjóri á Júlíusi verður Hermann Skúlason. fyrsti vélstjóri Þorlákur Kjartansson og fyrsti stýrimaður Ómar Ellertsson. Frú Margrét Leósdóttir gaf skipinu nafn. Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur hafði eftirlit með smíði skipsins fyrir hönd kaupenda þess. Júlíus Geirmundsson hélt til veiða í gær.
Nýja skipið er 497 brúttólestir það er 53.57 metra langt og 10,5 metra breitt. og er því 6 metrum lengra og einum metra breiðara en eldra skipið. Í skipinu er 2350 ha. Wichmann aðalvél og 2 G.M. Ijósavélar. Skipið er búið Beccer stýri og skrúfuhring frá Wichmann. Öll fiskileitartæki eru frá Simrad þar á rneðal myndtölva og sónar. Tölva þessi hefur áður aðeins verið notuð við nótaveiðar en nú á að reyna hana við togveiðar. Togvindur eru allar frá Brussel. Ísvél er frá Finsan og á hún að framleiða 16 tonn af ferskís. Atlas sjógeymir framleiðir vatn fyrir ísvélina. Í skipinu eru 4 grandaraspil sem gefur þá möguleika að ávallt er hægt að hafa 2 botntroll tilbúinn til veiða.

Vestfirska fréttablaðið. 12 tbl. 20 júní 1979.


1536. Barði NK 120 á leið út Norðfjörð.                                                             (C) Snorri Snorrason.

     Júlíus Geirmundsson keyptur 

Í lok síðustu viku var undirritaður samningur milli Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað og Gunnvarar hf. á Ísafirði um kaup Síldarvinnslunnar á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Samningurinn var þó undirritaður með fyrirvara um samþykki Sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskveiðasjóðs. Búist er við að ráðuneytið fjalli um samninginn fljótlega eftir helgi en Fiskveiðasjóður ekki fyrr en seinna. Eins og kom fram í Austurlandi í síðustu viku fer togarinn Barði upp í kaupin en hann var þó ekki nægilega stór til að úreldast gegn nýsmíði sem Gunnvör hf. á í smíðum og því greip Síldarvinnslan hf. til þess ráðs að kaupa fjóra báta sem fylgja munu Barðanum í úreldingu. Bátarnir eru keyptir víðsvegar um land og eru frá 11 til 70 tonna stórir.
Togarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var byggður í Flekkefjord í Noregi árið 1979 og kom fyrst til heimahafnar sinnar á Ísafirði þann 15. júní það ár. Skipið er 497 brúttólestir að stærð og rúmlega 53 metra langt. Á árinu 1984 voru gerðar verulegar breytingar á skipinu til olíusparnaðar. Sett var á það ný skrúfa og einnig var settur í það nýr niðurfærslugír. Þá var settur ásrafall á vélina þannig að rafmagnsframleiðsla fluttist frá ljósavélum á aðalvél. Á árinu 1985 var svo settur frystibúnaður til heilfrystingar um borð. Barði, sem fer upp í kaupin, er 453 brúttólestir og ríflega 45 metra langur. Skipið var smíðað í Gdynia í Póllandi árið 1975 en var keypt til Síldarvinnslunnar frá Frakklandi árið 1980.

Austurland. 5 október 1989.


Bardi L 1125.                                                                                                 (C) Piet Sinke.


Kamali L 1266.                                                                              (C) Benedikt Már Jóhannsson.

         Barði seldur til Namibíu

Gengið hefur verið frá sölu á togaranum Barða NK 120 til Prestige Fishing Company í Walvis Bay í Namibíu. Barði er nú í sinni síðustu veiðiferð og verður afhentur nýjum eigendum í Hafnarfirði 10. september. Barði, sem áður hét Július Geirmundsson, var smíðaður í Flekkefjord í Noregi 1979. Hann var keyptur til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað árið 1989. Í stað Barða kemur Norma Mary, áður Snæfugl SU, sem verið hefur í leigu í Skotlandi síðan SVN eignaðist hann með sameiningunni við Skipaklett. Norma Mary/Snæfugl er byggður sem frystitogari með stærra og rúmbetra vinnsluþilfar og miklu betri áhafharaðstöðu en Barði hefur. Norma Mary var smíðuð í sömu skipasmíðastöð og Barði en 10 árum seinna, þ.e. 1989. Samkvæmt skipaskrá Skerplu er Barði 990 brúttótonn en Norma Mary 1151 brúttótonn. Norma Mary, sem stundað hefur veiðar í Barentshafi, er væntanleg til Akureyrar um næstu mánaðamót og er ætlunin að skipið fari til Póllands í sandblástur og málningu og ætti að vera komið til heimahafnar um miðjan október. Salan á Barða er liður í hagræðingu þar sem einu skipi er ofaukið miðað við kvótastöðu fyrirtækisins. Reiknað er með að áhöfnin á Barða fari á nýja skipið. Hugsanlega verður falast eftir að einhverjir af yfirmönnum skipsins sigli því til Namibiu ásamt nýjum eigendum.

Dagblaðið Vísir. 10 september 2002.


Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Fyrirkomulagsteikning.                    Mynd úr Ægi.

      Júlíus Geirmundsson ÍS 270

Nýr skuttogari, m/s Júlíus Geirmundsson ÍS-270, bottist í flota landsmanna 15. júní sl, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Júlíus Geirmundsson ÍS er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, nýsmíði stöðvarinnar nr. 123, og er tíundi skuttogarinn, sem umrodd stöð smíðar fyrir Íslendinga. Auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina, sem Slippstöðin lauk við frágang á og afhenti í apríl 1977, (Björgúlfur EA). Skrokkar allra þessara skuttogara eru byggðir hjá Kvina Verft A/S í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðarinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Júlíus Geirmundsson ÍS er í eigu Gunnvarar hf á Ísafirði, sem átti áður skuttogara með sama nafni og var hann fyrsti skuttogarinn, sem Flekkefjord smíðaði fyrir Íslendinga, og jafnframt fyrsti skuttogari af minni gerð sem smíðaður var fyrir Íslendinga (kom í desember 1972). Þeir níu skuttogarar, sem umrædd stöð hefur áður afhent til landsins, eru allir smíðaðir eftir ,,sömu teikningu", nema hvað fjórir síðustu voru 3.3 m lengri. Fyrstu fimm skuttogararnir (mesta lengd 46.56m) voru: Júlíus Geirmundsson ÍS (nú Bergvík KE), Guðbjartur ÍS, Bessi ÍS, Framnes I ÍS og Björgvin EA, en fjórir síðustu (mesta lengd 49.85m) voru: Guðbjörg ÍS, Gyllir ÍS, Ásgeir RE og Ásbjörn RE. Hinn nýji Júlíus Geirmundsson, sem er í hópi storstu skuttogara af minni gerð hérlendis, er ný skuttogaragerð frá "Flekkefjord" og er rúmlega 30% storri, miðað við margfeldi aðalmála, en gamli Júlíus Geirmundsson. Geta má þess að fyrirkomulagi og búnaði á togþilfari skipsins er þannig háttað, að unnt er að hafa tvær botnvörpur undirslegnar og tilbúnar til veiða, en slíkt fyrirkomulag er aðeins í stóru Spánarskuttogurunum. Skipstjóri á Júliusi Geirmundssyni ÍS er Hermann Skúlason og 1. vélstjóri Þorlákur Kjartansson. Framkvomdastjóri útgerðar er Birgir Valdimarsson.
Mesta lengd 53.45.
Lengd milli lóðlína 47.40.
Breidd 10.50.
Dýpt að efra þilfari 6.85.
Dýpt að neðra þilfari 4.50.
Eiginþyngd 840 tonn.
Særými (djúprista 4.45 m) 1.308 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.45 m) 468 tonn.
Lestarrými 520 m3.
Lifrargeymir 10 m3.
Brennsluolíugeymar 187 m3.
Sjókjölfestugeymir 10 m3.
Ferskvatnsgeymar 76 m3.
Andveltigeymar (sjókjölfesta) 32 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 12.8 sjómílur.
Rúmlestatala 497 brl.
Skipaskrárnúmer 1536.

Ægir. 9 tbl. 1 september 1979.



Flettingar í dag: 830
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725362
Samtals gestir: 53799
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:10:57