01.08.2021 22:29

B.v. Þorkell máni RE 205 á vatnslitamynd.

Þessi vatnslitamynd Halldórs Péturssonar teiknara og málara, kom óvænt upp í hendurnar á mér nýlega sem ég tel vera af Bæjarútgerðartogaranum Þorkeli mána RE 205. Nýsköpunarstjórnin svokallaða undir foristu Ólafs Thors forsætisráðherra, samdi við skipasmíðastöðvar í Englandi og Skotlandi um smíði á 32 togurum árið 1945. Árið eftir, 1946, samdi ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar (Stefanía) um smíði á 10 togurum til viðbótar. Voru þeir jafnframt kallaðir Stefaníuskipin og voru þau smíðuð flest í Skotlandi.
Nýsköpunartogarinn Þorkell máni RE 205 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. 722 brl. 1.332 ha. Ruston vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 23 janúar árið 1952. Þorkell máni þótti framúrstefnulegur og um margt öðruvísi en hinir Nýsköpunartogararnir. Í honum var lítið "frystihús" sem var staðsett b.b. megin frá hvalbak aftur að vanti sem var yfirbyggt og þar voru frystitæki staðsett sem gátu fryst um 2,5 tonn af fiskflökum á sólarhring. Seinna var þessu svo breitt þannig að togarinn gat haft 2 troll undirslegin. Þorkell máni var hætt komin á Nýfundnalandsmiðum í febrúar 1959. Gífurleg ísing hlóðst á skipið í þessum hamförum. Það þótti kraftaverki líkast að skipið héldist ofansjávar í þessum hildarleik þar sem áhöfnin stóð sólarhringum saman hvíldarlaust við íshögg og annan barning til að halda lífi. En til hafnar komust þeir eftir þetta þrekvirki í fylgd togarans Marz RE 261, sem einnig lenti í mikilli ísingu. Margir íslenskir togarar voru á Nýfundnalandsmiðum í veðri þessu, má nefna Norðfjarðartogarann Gerpi NK 106 sem fékk á sig brot suðaustur af Hvarfi á Grænlandi, en hann ætlaði að koma Grænlandsfarinu Hans Hedtoft til hjálpar sem hvarf með manni og mús 30 janúar 1959 við Grænland. Harðbakur frá Akureyri lenti í miklum hildarleik. Þegar upp var staðið vantaði Hafnarfjarðartogarann Júlí GK 21, en hann fórst með allri áhöfn, 30 ungum sjómönnum, eitt hræðilegasta sjóslys aldarinnar sem leið. Togarinn var seldur til Skotlands í brotajárn og tekinn af skrá 10 október árið 1973.


Bæjarútgerðartogarinn Þorkell máni RE 205 á leið til hafnar í Reykjavík.   (C) Halldór Pétursson.


B.v. Þorkell máni RE 205 á siglingu á sundunum við Reykjavík.                  Ljósmyndari óþekktur.

  "Þorkell máni" stærsti togari flotans
                 kom í gærkvöldi  

Um miðnætti í nótt kom hingað til Reykjavíkur hinn nýi togari Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Þorkell máni, sem er stærsti togari Íslendinga. Togarinn er hinn 9. í röðinni af þeim 10, er verið hafa í smíðum í Bretlandi undanfarin ár. Þorkell máni er dieseltogari. Hann er hálfu feti breiðari og hálfu öðru feti lengri en stærstu eimknúðu togararnir, og ber um 300 tonn af ísvörðum fiski. Að ytra útliti er hann allfrábrugðinn hinum nýsköpunartogurunum.
Í togaranum er fiskimjölsverksmiðja og hraðfrystitæki. Hægt er að vinna úr 20 tonnum af fiskúrgangi og beinum í verksmiðjunni og í hraðfrystirúminu má framleiða 2,5 tonn af frystum flökum á dag. Á fiskveiðum verður 30 manna áhöfn á togaranum, en séu saltfiskveiðar stundaðar og fiskmjölsvinnslan og hraðfrystingin starfrækt, verður 48 manna áhöfn á þessum stærsta togara íslendinga. Hannes Pálsson er skipstjóri, Hergeir Elíasson 1. Stýrimaður og Sigurjón Þórðarson 1 vélstjóri.

Morgunblaðið. 24 janúar 1952.

 

Flettingar í dag: 812
Gestir í dag: 179
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739464
Samtals gestir: 55769
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 06:35:44