16.10.2021 05:58

B.v. Geir RE 241. LCHG / TFED.

Botnvörpungurinn Geir RE 241 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1912 fyrir Edward Cyril Grant & Joseph W Little í Grimsby. Hét fyrst Sialkot GY 780. 306 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,09 x 7,12 x 3,73 m. Smíðanúmer 253. Seldur 1919, Harry Woods í Grimsby . Seldur 15 mars 1920, Hlutafélaginu Geir (John Fenger stórkaupmaður og fl.) í Reykjavík. Seldur 31 mars 1924, Hlutafélaginu Hrönn í Reykjavík. Nýtt stýrishús var smíðað á togarann stuttu eftir árið 1940, eða það hafi verið gert eftir að hann var seldur til Færeyja. Skipið var selt 27 nóvember árið 1946, P/F Atlantis í Fuglafirði í Færeyjum, hét Vitin FD 440. Seldur 1951, P/F Vitar A/S í Fuglafirði. Leif Waagstein Landsréttarsaksóknari í Þórshöfn keypti togarann á uppboði 4 febrúar 1952. Seldur í brotajárn til British Iron & Steel Co Ltd og mun hafa verið rifinn í Rosyth í Skotlandi síðla árs 1952 og var síðan tekinn af færeyskri skipaskrá 12 mars árið 1953.

Þó að Geir hafi verið smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell í Beverley, var hann smíðaður eftir teikningu frá Cochrane & Sons í Selby. Geir og Walpole RE 239 (1914), voru smíðaðir eftir sömu teikningu, en áður höfðu togararnir Baldur RE 146 og Bragi RE 147, sem Bræðurnir Thorsteinsson í Reykjavík áttu, verið smíðaðir eftir henni árið 1911. Baldur og Bragi voru seldir til Frakklands í togarasölunni árið 1917.

Heimildir: Birgir Þórisson.
               Óli Ólsen í Færeyjum.


B.v. Geir RE 241 á veiðum.                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.

         Nýkeyptir botnvörpungar

Tveir nýkeyptir botnvörpungar hafa enn bætst við íslenska fiskiflotann. Annar heitir Draupnir og er skrásettur í Vestmannaeyjum. Hann kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjóri er Guðmundur Sigurðsson (áður skipstj. á Frances Hyde). Draupnir er sagður 12 ára gamall, stórt og mjög vandað skip. Hann kom með fullfermi af kolum. Hinn botnvörpungurinn heitir Geir , og er sagður 6 ára gamalt; eigendur eru Fenger stórkaupmaður o. fl. Skipstjóri Jón Jónasson. Geir er stórt skip og traust. Hann kom með kolafarm.

Vísir. 15 mars 1920.


B.v. Geir RE 241 á ytri höfninni í Reykjavík.                                         (C) Magnús Ólafsson.


B.v. Geir RE 241 á leið inn á Reykjavíkurhöfn.                                              Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Geir RE 241 á toginu. Sjá má í loftskeytaklefann framan við afturmastrið. Hann er nú eða var, varðveittur á Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði í Reykjavík. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Vitin FD 440 frá Fuglafirði fyrir framan og Nýpuberg VA 178 frá Miðvogi í Slippnum í Þórshöfn í Færeyjum 1950-51. Ljósmyndari óþekktur.

         "Geir" seldur til Færeyja

Nýlega hefur togarinn Geir verið seldur til Færeyja og er það fimmti togarinn, sem seldur er héðan til Færeyja nú á tiltölulega skömmum tíma.

Alþýðublaðið. 24 nóvember 1946.


Loftskeytaklefinn úr Geir.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í loftskeytaklefanum af Geir.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í vistarverum skipverja undir hvalbaknum.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík

Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík er orðið að veruleika og það heilu ári á undan áætlun. Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, veitir safninu forstöðu og tók hún við því starfi í upphafi þessa árs. Sjómminjasafnið er vestur á Grandagarði þar sem áður var fiskverkun BÚR. Sigrún segir að það hafi þótt við hæfi að opna sýningu nú á sjómannadaginn í tilefni þess að liðin eru eitt hundrað ár frá því að fyrsti íslenski togarinn kom til landsins. "Undirbúningur sýningarinnar hefur gengið afskaplega vel. Þriggja manna sýningarstjórn lagði hugmyndafræðilegan grunn að sýningunni þar sem áherslan var lögð á aðbúnaðinn um borð, sjómannafjölskylduna og að sjálfsögðu söguna," segir Sigrún. Þegar hugmyndavinnunni var lokið tók Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður, við verkinu og hannaði sýninguna. "Sýningin er merkileg að því leiti að hún er byggð upp af munum, leikmyndum,  margmiðlun og textaupplýsingum.
Sýningagestir ganga í gegnum söguna og byrja á því að skoða botnvörpuna, veiðafærið sem markaði tímamót hjá íslensku þjóðinni. Meðal skemmtilegra muna á sýningunni er fullbúinn loftskeytaklefi af togaranum Geir RE 241. Loftskeytatækin voru sett um borð í togarann uppúr 1920 en það var hvergi pláss fyrir tækin og því var klefinn smíðaður og festur niður fremst á bátadekkið, framan við afturmastrið," segir Sigrún. Á sýningunni er mikil áhersla lögð á að sýningargestir geti upplifað söguna "og með það að markmiði var smíðuð eftirlíking af lúkar til þess að fólk geti séð með eigin augum hvernig aðbúnaðurinn var um borð. Við gleymum heldur ekki lífinu í landi og höfum því sett upp dæmigerða stofu togarasjómanns þar sem meðal annars má sjá ýmsan munað sem sjómenn keyptu í erlendum höfnum. Nútímanum er einnig gerð góð skil með fullkomnum tækjum, meðal annars ratsjá sem komið hefur verið fyrir uppi á húsinu, þannig að sýningargestir geta fylgst með nánasta umhverfi Sjóminjasafnsins, en sjón er sögu ríkari og því full ástæða til þess að koma í Víkina - Sjóminjasafn og sjá sýninginguna með eigin augum. 

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 2005.



Flettingar í dag: 1853
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743612
Samtals gestir: 56010
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:55:06