20.10.2021 13:53

5055. Hrönn NK 14.

Mótorbáturinn Hrönn NK 14 var smíðaður í Bátastöð Akraness árið 1953. Eik og fura. 4,3 brl. 16 ha. Bukh vél. Hét fyrst Hrönn ST 122. Eigendur af bátnum frá 1953 til 1970 eru ókunnir en báturinn var skráður í Strandasýslu á þessum tíma. Var afturbyggður í upphafi, en verið breytt síðar. Seldur 7 september 1970, Kristjáni Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét þá Hrönn SH 162. Eigandi frá 1 maí 1975 var Sturla Einarsson í Kópavogi. Seldur 16 maí 1976, Guðmundi Magnússyni og fl. Í Ólafsvík. Frá 1 apríl 1981 er Jón Einarsson útgerðarmaður í Neskaupstað eigandi bátsins, hét þá Hrönn NK 14. Seldur 15 mars 1984, Ingimar Erni Péturssyni í Keflavík, hét Trausti KE 240. Seldur 24 mars 1986, Arnari Péturssyni á Akureyri og Eiði Stefánssyni í Sandgerði, hét þá Díana EA 125. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 september 1991.

Ólíklegt er að þessi 16 ha. Bukh vél hafi verið í bátnum frá upphafi. Hef ekki fundið heimildir fyrir því að önnur eða aðrar vélar hafi verið settar í hann, en það hlýtur að vera að svo hafi verið gert.


Hrönn NK 14 að koma úr róðri til löndunar í fiskvinnslustöð SVN í Neskaupstað snemma á 9 áratugnum. Eigandi bátsins, Jón Einarsson var að jafnaði kallaður "Rebbi" á Norðfirði. Ég þekkti Rebba gamla vel, alveg einstakt ljúfmenni. Fyrir miðri mynd er Barðsnes, til vinstri er Neseyrin og hægra megin er Hellisfjarðarnes.                                       Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Landað úr Hrönninni. "Rebbi" fylgist með úr dyrum stýrishússins. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Löndun lokið og Hrönn á leið inn í smábátahöfn.                      Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Flettingar í dag: 1746
Gestir í dag: 97
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743505
Samtals gestir: 56003
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 11:48:56