05.11.2021 16:46

1293. Börkur NK 122. TFND.

Nótaskipið Börkur NK 122 var smíðaður hjá Trondhjems Mekanisk Verksted A/S í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norska útgerðarfélagið Fishing Intenational Ltd í Hamilton á Bermúdaeyjum, hét áður Devonshire Bay. 711 brl. 1.200 ha. Wichmann vél. 52,08 x 10,93 x 7,17 m. Smíðanúmar 269/629. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað kaupir skipið í ágúst árið 1972. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu, t.d. var það útbúið til flotvörpuveiða og fl. Fiskimjölverksmiðja var í skipinu, en hún var tekin úr því og seld úr landi. Börkur kom svo í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10 febrúar 1973. Börkur stundaði að mestu loðnuveiðar fyrstu árin. Einnig var skipið á kolmunnaveiðum og kom með fyrsta farminn, um 200 tonn til Neskaupstaðar hinn 19 maí það ár. Í október 1975 fór Börkur á makrílveiðar undan ströndum Máritaníu við norðvestur Afríku, en gengu þær veiðar frekar illa. Ný vél var sett í skipið árið 1979, 2.100 ha. Wichmann vél, 1.545 Kw. Börkur var lengdur og gagngerar endurbætur voru gerðar á honum hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1997. Skipið var lengt um 14,64 m. Nýtt stýrishús var sett á skipið, settur á það bakki, einnig perustefni. Allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Allur spilbúnaður skipsins var endurnýjaður. Kælikerfi sett í lestar og skipið útbúið til flotvörpuveiða. Burðargeta skipsins var eftir þessar breytingar um 1.800 tonn. Eftir breytingarnar mældist skipið 949 brl. Í marsmánuði árið 1999 var skipt um vél í Berki í Englandi. 6.690 ha. Caterpillar vél, 5.420 Kw, var þá sett í skipið.


1293. Börkur NK 122 að landa 800 tonnum af loðnu í gömlu síldarbræðslu SVN í Neskaupstað 23 febrúar 1973. Held að þetta sé fyrsta löndun skipsins hér heima. (C) Guðmundur Sveinsson.

                Börkur kominn

Laugardaginn 10. febrúar kom Börkur NK 122 í fyrsta sinn til heimahafnar, Neskaupstaðar. Síldarvinnslan hf., Neskaupstað keypti Börk í Noregi á sl. hausti, en síðan hafa farið fram ýmsar breytingar á skipinu Og fjögurra ára flokkunarviðgerð á skipi og vél. Þá var í skipinu síldarbræðsla, sem tekin var úr því og flutt til Reykjavíkur. Verður hún seld. Settir hafa verið í skipið 8 hráefnistankar, þar af eru tveir einangraðir, og unnt er að flytja í þeim afla um lengri veg, t. d. síld til söltunar af fjarlægum miðum. Áður hefur verið sagt frá Berki hér í blaðinu, og skal lýsing skipsins því ekki endurtekin hér, en geta má þó þess, að í skipinu eru tvö 16 tonna spil og flotvönputromla, en ætlunin er, að skipið stundi veiðar í flotvörpu jafnt sem nót, eftir aðstæðum hverju sinni. Í skipinu eru svo að sjálfsögðu öll siglinga- og fiskileitartæki, og er það hið bezta útbúið. Börkur er stórt skip, 1.019 lestir, og er stærsta skip, sem Norðfirðingar hafa eignazt. íbúðarklefar eru hinir vistlegustu. Á heimleiðinni var ganghraði skipsins 12,5 mílur, en á sjóhæfni þess reyndi ekki, að sögn skipstjóra, þar sem renniblíða var þá á hafinu. Skipstjórar á Berki eru þeir bræður, Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. Fyrsti vélstjóri er Björgvin Jónsson og fyrsti stýrimaður Sigurbergur Hauksson. Á skipinu verður 15 manna áhöfn. Börkur er farinn til loðnuveiða með nót.

Austurland. 7 tbl. 16 febrúar 1973.


Börkur NK 122 við komuna til heimahafnar 10 febrúar 1973.     (C) Guðmundur Sveinsson.


Börkur NK 122 við bæjarbryggjuna í fyrsta sinn 10 febrúar 1973. (C) Tryggvi Ingólfsson.


Devonshire Bay við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum sumarið 1968.         (C) J.A. Hugson.

                Börkur NK 122 

Snemma á þessu ári kom Börkur NK 122 til heimahafnar sinnar Neskaupstaðar. Skipið, sem áður hét Devonshire Bay var keypt frá Noregi á sl. ári, en þaðan var það gert út á veiðar við Kanaríeyjar. Í skipinu var búnaður til bræðslu á hráefni, en sá búnaður var tekinn úr skipinu í Noregi og í þess stað settir í það hráefnisgeymar. Skipið er smíðað hjá Trondhjems Mek. Verksted í Noregi árið 1968. Skipið var útbúið til snurpunótaveiða og flotvörpuveiða, smíðað úr stáli samkvæmt flokkunarreglum "Lloyd's Register of shipping +100A1, Deep Sea Fishing", og hefur tvö heil þilför stafna á milli. Undir neðra þilfari, talið að framan, er stafnhylki, keðjukassar, brennsluolíugeymir, asdikklefi, netalest og fisklestar. Undir fiskilest í tvöfalda botninum eru geymar fyrir olíu og ballast. Aftan við lestarnar er vélarúmið og þar fyrir aftan skutgeymir fyrir ferskvatn. Á neðra þilfari er geymsla fiskilestar og aftast íbúðir,- tveir borðsalir, eldhús, þrír einsmanns klefar og sex tveggja manna klefar. Auk þess eru matvælageymslur, þvottaklefi og salerni. Á efra þilfari eru vindur, losunarbúnaður og fiskidælur. Yfirbygging á efra þilfari er á tveimur hæðum, þilfarshús og brú. Í þilfarshúsi eru tveir eins manns klefar, sjúkraklefi, salerni, verkstæði og vélareisn. Til hliðar við þilfarshús, stjórnborðsmegin, er kraftblökk og færslublökk og þar fyrir aftan nótakassi, en aftast er skutrenna og gálgi til flotvörpuveiða. Í brú er stýrishús, kortaklefi og íbúð skipstjóra.
Aðalvél er Wichmann 8ACAT, 1200 hö. við 350 sn./mín., og er tengd við Wichmann skrúfubúnað. Skrúfa skipsins er 3ja blaða skiptiskrúfa með skrúfuhring. Aflúrtak er framan á vélinni fyrir vökvadælur vindukerfis og dælur fyrir hliðarskrúfur. Auk þess eru rafknúnar vökvadælur fyrir vindukerfi skipsins. Hjálparvélar eru 3 Scania Vabis, DS11, 176 hö. við 1500 sn. mín., með 145 KVA, 3x380 V, 50 Hz rafala hver. Tvær hliðarskrúfur af gerðinni Brunvoll SPO, 150 hö. hver, eru að framan og aftan. Stýrisvél er Tenfjord H 160. Vindur skipsins eru vökvaknúnar, lágþrýstar frá Norwinch. Snurpuvinda er staðsett bakborðsmegin, miðskips, og er meðaltogkraftur um 6 t við 75 m/mín. Tvær togvindur ("splitvinch") fyrir flotvörpuveiðar eru á aðalþilfari, nokkru framan við yfirbyggingu, stjórnborðs- og bakborðsmegin. Vindur þessar eru af gerðinni TUD-12-380- 120. Aftan við yfirbyggingu er netavinda fyrir flotvörpu.
Framarlega á aðalþilfari er akkerisvinda af gerðinni A 26/36-30N, með um 6 t lyftiafl við 18 m/mín. hraða. Við frammastur eru 3 vindur: bómulyftivinda, gerð BL 30/2, bómuvinda, gerð BS 15 og losunarvinda, gerð LF 45. Ein hjálparvinda, gerð C 15 er staðsett við yfirbyggingu. Kraftblökk og færslublökk eru af gerðinni ABAS GB15. Síldardælur eru Rapp U880 og Karmoy. Auk þess er framan a yfirbyggingu stjórnborðs- ^egin krani af gerðinni Örjavik með um 1.5 t lyftiafli við 3 0 m/mín. Lestarými skipsins skiptist í 18 geyma; 9 geymar undir neðra þilfari og 9 geymar á millidekki. Geymar þessir skiptast í stjórnborðs- og bakborðsgeyma og geyma í miðju. Geymar í miðju eru einangraðir og gerðir fyrir kælingu með sjóhringrás.
Af tækjum í brú eru þau helztu: Ratsjár: Decca RM 316 og Decca RM926. Dýptarmælar: Simrad EH2E og Simrad EK38A. Asdik: Simrad SB3. Loran: Koden LR-700. Miðunarstöð: Taiyo TD-A163. Talstöð: Simrad TA3/RA2. Örbylgjustöð: Nera. Sjálfstýring: Arkas. Á skipinu er 15 manna áhöfn. Skipstjórar verða til skiptis bræðurnir Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. 1. vélstjóri er Björgvin Jónsson.
Stærð skipsins 711 brl.
Mesta lengd 52.08 m
Lengd milli lóðlína 45.75 m
Breidd 10.90 m
Dýpt frá efra þilfari 8.05 m
Dýpt frá neðra þilfari 5.85 m
Lestarými 1200 m3
Brennsluolíugeymar 106 m3
Ballastgeymar 248 m3
Ferskvatnsgeymar 55 m3
Hraði í reynslusiglingu 13.5 sjómílur.

Ægir. 7 tbl. 15 apríl 1973.


1293. Börkur NK 122 á loðnuveiðum.                                     (C) Tryggvi Sigurðsson.


1293. Börkur NK 122 í heimahöfn í Neskaupstað.                             Ljósmyndari óþekktur.


1293. Börkur NK 122 eftir breytingarnar sem gerðar voru á honum í Póllandi. Myndin er tekin á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                Börkur NK 122

Í janúar s.l. lauk breytingum á Berki NK-122, hjá Skipasmíðastöðinni Nauta í Gdynia í Póllandi. Breytingarnar voru hannaðar hjá Vik og Sandvik í Noregi og Teiknistofu KGÞ á Akrureyri og fólu m.a. í sér 14,64 m lengingu á skrokk, nýjar yfirbyggingar og innréttingar, ný spil og kraftblökk, dekkbúnað, krana, andveltigeymi, nýjan bakka, Ijósavél, RWS-kerfi fyrir lestar, ísdreifikerfi og margt fleira. Skipið er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Framkvæmdastjóri útgerðar er Finnbogi Jónsson og útgerðarstjóri er Freysteinn Bjarnason. Skipstjóri Barkar NK-122 er Sturla Þórðarson, 1. stýrimaður er Hálfdán Hálfdánarson og yfirvélstjóri er Óskar Sverrisson. Fiskifélag Íslands þakkar Freysteini og áhöfn Barkar fyrir veittar upplýsingar og óskar hluthöfum og Norðfirðingum nor og fjor til hamingju með breytt og endurnýjað skip.
Helstu mál og stærðir eftir breytingu.
Mesta lengd (Loa) 68,10 m.
Lengd milli lóðlína 60,39 m.
Breidd (mótuð) 10,90 m.
Dýpt að efra þilfari 8,05 m.
Dýpt að neðra þilfari 5,85 m.
Eiginþyngd 1.300 tonn.
Særými við 7,5 m djúpristu 3.405 tonn.
Lestarými 1845 m 3.
Brennsluolíugeymar 368 m 3.
Kjölfestugeymar. 255 m 3.
Ferskvatnsgeymar. 57,6 m 3.
Andveltigeymir. 40,0 m 3.
Brúttó rúmlestir. 949,14.
Brúttótonn 1.440.
Nettótonn 488.
Hraði í reynslusiglingu 13 hnútar.
Rúmtala 3.850,8 m 3.
Skipaskrámúmer. 1293.
Aflvísir 4.440.
Áætluð bryggjuspyrna 23 tonn.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1998.



Flettingar í dag: 2523
Gestir í dag: 277
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741175
Samtals gestir: 55867
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 20:13:40