07.11.2021 07:56

3011. Freyja TFUA. Varðskip.

Varðskipið Freyja var smíðuð hjá SeKwang Shipbuilding Co Ltd í Mokpo í S-Kóreu árið 2010. 4.566 bt, 3.600 brl, 1.370 nettó. 2 x Bergen diesel ME = 16.320 ha, 12.000 Kw. 85,80 x 19,90 x 8,80 m. Hét fyrst Vittoria og síðan G H. Endurance og var í eigu United Offshore Support í Leer í Þýskalandi. Hámarkshraði skipsins er 17 sjómílur. Kaupverðið er 1,7 milljarður króna.
Það er fagnaðarefni að varðskip Landhelgisgæslunnar fái heimahöfn á landsbyggðinni, n.t.t. á Siglufirði. Ég óska skipi og áhöfn þess, velfarnaðar í starfi og LHG og íslensku þjóðinni til hamingju með þetta glæsilega skip.
Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sendi mér þessar myndir hér að neðan af Freyju koma til heimahafnar á Siglufirði í gær 6 nóvember 2021.


Varðskipið Freyja að koma til heimahafnar á Siglufirði í gær.












                                                                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Útlitsteikning af Freyju.                                                                                            (C) LHG.


   Stór áfangi að varðskip fái heimahöfn
                   á landsbyggðinni

Bæjarstjórinn í Fjallabyggð segir að ekki þurfi að ráðast í miklar framkvæmdir í Siglufjarðarhöfn til að útbúa þar aðstöðu fyrir nýtt varðskip. Hann telur miklu máli skipta fyrir landsbyggðina að varðskip skuli nú í fyrsta sinn hafa eignast heimahöfn úti á landi.
Landhelgisgæslan tilkynnti í gær þá ákvörðun að heimahöfn nýs varðskips, Freyju, verði á Siglufirði.
Elías Pétursson bæjarstjóri í Fjallabyggð segir það hvorki flókið eða kostnaðarsamt að útbúa aðstöðu fyrir skipið þar. "Við eigum hafnargarð sem væri hægt að nýta í þetta. Þannig að það þarf að fara í einhverjar aðgerðir, girða og koma mögulega heitu vatni til þess að tengja við skipið og rafmagni. En engar stórframkvæmdir." Enn hafi ekkert verið rætt um hugsanlegan kostnað vegna legu skipsins við bryggju á Siglufirði og þá hvort eða hvernig slíkur kostnaður skiptist milli Gæslunnar og Fjallabyggðar. "Það er ekki þannig að hvorki Gæslan eða aðrir komi hér og séu algerlega ókeypis. Þeir náttúrulega verða með nokkuð marga legudaga þannig að eitthvað munum við bara semja um þetta." Þá muni einhver umsvif fylgja í kjölfarið, viðhald og umhirða við skipið í höfn sem komi heimamönnum þá til góða. Og það að velja Siglufjörð sem heimahöfn varðskips skipti miklu máli fyrir landsbyggðina. "Núna er varðskip í rauninni í fyrsta skipti að eignast heimahöfn úti á landi. Sem að ég held að sé nú bara stórmál."

Ruv.is 22 september 2021.

Flettingar í dag: 2998
Gestir í dag: 304
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741650
Samtals gestir: 55894
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:51:56