21.11.2021 06:46

1408. Runólfur SH 135. TFQR.

Skuttogarinn Runólfur SH 135 var smíðaður hjá Stálvík hf í Arnarvogi, Garðahreppi árið 1974 fyrir Guðmund Runólfsson hf í Grundarfirði. 312 brl. 1.750 ha. Wichmann vél, 1.287 Kw. 47,10 x 9,01 x 4,95 m. Smíðanúmer 23. Runólfur var annar skuttogarinn sem smíðaður var í Arnarvogi, sá fyrsti var Stálvík SI 1 sem smíðaður var fyrir Þormóð ramma hf á Siglufirði árið 1973. Þeir voru smíðaðir eftir norskum teikningum. Árið 1976 ákváðu stjórnvöld að hefja veiðar á kolmunna út af Austfjörðum. Gerður var samningur við Guðmund Runólfsson hf í Grundarfirði um að togari þeirra, Runólfur SH 135, yrði nýttur til veiðanna og skyldu þær fara fram á tímabilinu 12 júlí til 26 ágúst það sumar. Afli skipsins var um 1.100 tonn og var megninu af honum landað hjá Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað. Veitt var með flotvörpu mestmegnis, en einnig með botnvörpu. Þessar tilraunaveiðar munu hafa gengið nokkuð vel og mun skipið hafa fengið allt upp í 50 tonn í holi. Togarinn var seldur 10 maí árið 1998, portúgölsku fyrirtæki í samvinnu við rússa og norðmenn. Hét þá Bellamorsk og var gert út frá Rússlandi og Noregi að ég held. Mun hafa farið í brotajárn í janúar árið 2005.

Það má geta þess að á meðan Runólfur var í eigu Guðmundar Runólfssonar hf í Grundarfirði (1975-1998), fór togarinn í um 800 veiðiferðir og aflaði um 73.500 tonn. Það er nú bara nokkuð vel að verki staðið held ég.


1408. Runólfur SH 135.                                                                  (C) Óskar Franz Óskarsson.

  Runólfur SH 135 til heimahafnar

Laugardaginn 19. janúar kom skuttogarinn Runólfur SH 135 til heimahafnar sinnar, Grundarfjarðar. Runólfur er smíðaður í Stálvík h/f í Garðahreppi og er annar skuttogarinn sem smíðaður er hér á landi. Runólfur er smíðaður eftir svipaðri teikningu og sá fyrri, Stálvík. Meðal breytinga má telja, að brúin er stærri, skipið er bakkaskip og búið til flotvörpuveiða m.a. með flotvörpusjá. Þá er það nýjung að skutrennunni má loka með þili lóðrétt upp úr rennunni. Byggingarverð er um 250 milljónir. Á Runólfi verður 16 manna áhöfn, allir úr Grundarfirði. Skipstjóri er Axel Schöth.

Alþýðublaðið. 23 janúar 1975.


Runólfur SH 135 að landa kolmunna hjá Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað sumarið 1976. Togarinn liggur við bryggju í nýju höfninni sem þá var. Sjá má í loðnuverksmiðju SVN sem tók til starfa í febrúar það ár, en hún var byggð eftir að gamla síldarbræðslan gereyðilagðist í snjóflóði 20 desember árið 1974.     (C) Guðmundur Sveinsson.


  Kolmunnavinnsla í Neskaupstað

Byrjað var að vinna kolmunna í marning hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað í gær, og reyndist flakanýtingin mun betri en þorað hafði verið að vona, eða 45-46% úr vélunum. Aflanum, sem verið var að vinna úr, landaði skuttogarinn Runólfur, sem Hafrannsóknastofnun hefur á leigu til tilraunaveiða á kolmunna. Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur vélum verið breytt til að vinna kolmunna í marning, en einnig á að vinna hann í skreið. Markaður fyrir þessar tegundir kolmunna er í Bandaríkjunum og Nigeriu. Til að byrja með er aðaláherzlan lögð á marningsvinnsluna. Runólfur landaði 16-17 tonnum af kolmunna hjá Síldarvinnslunni í gær, en aflann fékk skipið í norðurkantinum á Seyðisfjarðardýpi, um 30-45 sjómílur undan Dalatanga, að sögn Sveins Sveinbjörnssonar fiskifræðings um borð í Runólfi. Skipið hélt aftur í gær á veiðar, og sagði Sveinn, að ætlunin væri að halda nú út á Norðfjarðardýpið og með suðurkantinum að Tangaflakinu. Kolmunninn er ísaður í kassa um borð í skipinu, og það hráefni, sem nota á í marning, má helzt ekki vera nema sólarhrings gamalt svo að það komi sem ferskast í vinnsluna. Hins vegar má sá kolmunni, sem notaður verður í skreið, vera allt að þriggja sólarhringa gamall. Tíminn ræddi við Má Lárusson, verkstjóra hjá Sildarvinnslunni í gærkvöld, og sagði hann að byrjað hefði verið á marningsvinnslu kolmunnans á hádegi í gær.
Þegar unnið hafði verið úr fjórum tonnum, kom í ljós að flakanýtingin var mjög góð, eins og áður er skýrt frá, eða toppnýting eins og Már sagði, en hann tók jafnframt fram, að fiskurinn væri óvenjulega stór af kolmunna að vera. Það er ekkert hægt að segja um afkastagetu á þessu stigi, við erum aðallega að safna tölulegum upplýsingum, og erum að þreifa okkur áfram með vinnsluna, sagði Már. Már sagði einnig að þrjár aðferðir væru notaðar til að merja kolmunnann, í fyrsta lagi er flökunum raðað á marningsbandið og roðið látið snúa niður, í öðru lagi er kolmunninn settur í marningsvélina eins og hann kemur fyrir og í þriðja lagi er hann hausaður og slógdreginn áður en hann er settur í vélina. Sagði Már, að allar þessar aðferðir yrðu reyndar nú, svo og að einhver hluti aflans myndi verða tekinn í skreiðarframleiðslu, en þá er kolmunninn hausaður í þar til gerðri vél og slógdreginn, síðan er hann settur á þurrkgrindur í saltfiskþurrkunarklefa í einn sólarhring og síðan þurrkaður í blásara í tvo sólarhringa. Við höfum aldrei prófað þetta áður í þessum mælikvarða, sagði Ólafur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í gær, og við vonumst til að þetta standi undir sér en ef einhver skakkaföll koma í ljós gerum við ráð fyrir að hið opinbera hlaupi undir bagga. Ólafur sagði, að góður markaður væri í Bandarikjunum fyrir marninginn, en meiri óvissa væri ríkjandi með skreiðarmarkaðinn í Nigeriu, en sem kunnugt er hafa stjórnvöld þar stöðvað allan innflutning á skreið í bili.

Tíminn. 17 júlí 1976.


1408. Runólfur SH 135 á leið í veiðiferð.                                       (C) Hringur Pálsson.


1408. Runólfur SH 135 nýsmíðaður.                                                       Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1975.


               Runólfur SH 135 

18- janúar s. l. afhenti Stálvík hf. í Garðahreppi skuttogarann Runólf SH 135, sem er smíðanúmer 23 hjá stöðinni. Þetta er 2. skuttogarinn sem Stálvík h. f. smíðar, en sá fyrsti var Stálvík SI 1 , sem stöðin afhenti í september 1973. Runólfur er byggður eftir sömu teikningu og Stálvík SI (sjá 16. tbl. '73). Eigandi Runólfs SH er Guðmundur Runólfsson h.f., Grundarfirði. Skipið er byggt skv. reglum Det Norske Veritas og flokkað + 1A1, Stern Trawler, IceC, +MV. Aðalvél er Wichmann, gerð 7 AX, 1750 hö við 375 sn/mín, sem tengist skiptiskrúfubúni frá Wichmann. Skrúfa skipsins er 4ra blaða, þvermál 2150 mm og utan um hana er skrúfuhringur. Framan á aðalvel er aflúttak, með ASEA gír, fyrir Indar jafnstraumsrafal 295 KW, 440 V, sem er aflgjafi fyrir togvindu. Hjálparvélar eru tvær Caterpillar, gerð D 343 TA ' 280 hö við 1500 sn/mín. Hvor vél knýr Stamford rafal, 230 KVA  3 x 220 Hz. Á annarri hjálparvélinni er 50 KW Indar jafnstraumsrafall, sem er vararafall fyrir togvindumótor. Stýrisvél er frá Brusselle, gerð HSCE 140 R, snúningsvægi 6,4 tm við 35° útslag. Vindubúnaður er frá Brusselle. Togvinda er rafknúin af gerðinni 2004-III með tvær toggtromlur, tvær hífingartromlur og tvo koppa. Hvor togtromla tekur um 1100 faðma af 3 ¼ " vír. Togátak vindu á miðja tromlu (840 mm") er 12,5 t og tilsvarandi vírahraði um 120 m/mín.
Vindan er knúin 375 ha. 440 V Indar jafnstraumsmótor. Fremst á efra þilfari (togþilfari) eru tvær grandaravindur, s. b. - og b. b.-megin, togátak 5 t og vírahraði 42 m/ mín. Aftast á togþilfari b.b.- megin við skutrennu er hjálparvinda fyrir pokalosun o. fl., togátak 3 t og vírahraði 44 m/mín. Skipið er búið flotvörpuvindu, sem er staðsett aftast á hvalbaksþilfari, aftan við brú. Ofangreindar vindur eru vökvaknúnar (háþrýstikerfi), og eru samtals þrjár rafdrifnar dælusamstæður, tvær 78 ha fyrir grandaravindur (og flotvörpuvindu) og ein 50 ha fyrir hjálparvindu við skutrennu. Akkerisvinda er af gerðinni AL 24, rafdrifin, og er framarlega á hvalbaksþilfari. Tveir vökvaknúnir losunarkranar af gerðinni Hiab 950 er í skipinu, annar staðsettur aftast á hvalbaksþilfari, en hinn á s.b.- skorsteinshúsi. Vökvaknúin fiskilúga, framan við skutrennu, veitir aðgang að fiskmóttöku aftast á vinnuþilfari. í efri brún skutrennu er vökvaknúin skutrennuloka, sem er felld lóðrétt niður. Þess má geta að samskonar búnaður er í Dagstjörnunni KE (sjá 20. tbl. '73), en Runólfur SH er 2. íslenzki skuttogarinn sem er með slíkan búnað. Á vinnuþilfari eru 2 blóðgunarker, tvær slægingarvélar, önnur af gerðinni Atlas Jutland, hin af gerðinni Shetland 28. Að öðru leyti er vinnuþilfar búið fiskþvottakari, færiböndum til flutnings á fiski, slógrennum og losunarbúnaði fyrir úrgang.
Í skipinu er Seafarer sjóísvél, gerð TE 16, afköst 6,7 tonn á sólarhring. Ísvél þessi er framleidd af Stálver s. f. og er fyrsta samstæðan sem fyrirtækið framleiðir (sjá 15. tbl. '74). Ísklefi um 8 m3 að stærð er fremst á vinnuþilfari, en sjálf ísvélin er í sérstökum klefa í þilfarshúsi á efra þilfari. Fiskilest er um 300 m3 að stærð og er gerð fyrir fiskkassa. Aftast í lestinni eru Ulstein and-veltigeymar og eru nú 10 íslenzk fiskiskip búin slíkum geymum. Lestin er einangruð með polyurethan og klædd með stálplötum. Kælikerfi er miðað við að halda 0°C hitastigi í lest. Kæliþjappa er frá Bitzer, kælimiðill Freon 22, og er lest kæld með kælileiðslum. Íbúðir eru samtals fyrir 18 menn, fimm 2ja manna klefar undir neðra þilfari, tveir 2ja manna og einn eins manns klefi á neðra þilfari, tveir eins manns klefar og íbúð skipstjóra í þilfarshúsi á efra þilfari. Á neðra þilfari er einnig matsalur, eldhús, kæld matvælageymsla með frystiskáp, snyrting með salernum og sturtuklefa. Skipstjóri hefur eigið salerni og bað, en í þilfarshúsi er einnig snyrtiaðstaða. Skipstjóri á Runólfi SH er Axel Schiöth og 1. vélstjóri Búi Jóhannsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Guðmundur Runólfsson. Ægir óskar eigendum og áhöfn til hamingju með skipið.
Rúmlestatala 312 brl.
Mesta lengd 47.10 m
Lengd milli lóðlína 40.00 m
Breidd 9.00 m
Dýpt að efra þilfari 6.50 m
Dýpt að neðra þilfari 4.35 m
Djúprista 4.30 m
Lestarrými 300 m3
Brennsluolíugeymar 124 m3
Ferskvatnsgeymar 47 m3
Sjókjölfestugeymir 21 m3
Ganghraði (reynslusigling) 13 sjómílur.

Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1975.

Flettingar í dag: 530
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742289
Samtals gestir: 55942
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 03:12:27