28.11.2021 10:07

B. v. Gullfoss RE 120. TFAD.

Botnvörpungurinn Gullfoss RE 120 var smíðaður hjá Reichsmarinewerft í Wilhelmshaven í Þýskalandi árið 1920. 214 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. 38,93 x 6,91 x 3,20 m. Togarinn var smíðaður sem Staatssekretar Albert fyrir Reichstreuhandgesellschaft (fyrirtæki í eigu Þýska ríkisins). Seldur 1922, J. Wieting útgerðarmanni í Geestemunde, hét þá Otto Gehres. Seldur 1927, Hochseefischerei, Carl Kampf & Meyer Partenreederei í Wesermunde (Bremerhaven) í Þýskalandi, hét þá Gustav Meyer PG 375. Varðskipið Óðinn tók togarann fyrir meintar ólöglegar veiðar innan landheldi Íslands við Ingólfshöfða 19 febrúar árið 1933 og ætlaði að færa hann til hafnar í Vestmannaeyjum. En svo slysalega vildi til að togarinn strandaði á Svínadalsfjöru í Meðallandi aðfaranótt 20 febrúar. Áhöfn hans, 13 mönnum var bjargað á land. Togarinn náðist út 5 ágúst um sumarið og stjórnaði Einar M Einarsson fyrrverandi skipherra björguninni. Höfðu þá Bjarni Runólfsson í Hólmi og nokkrir menn aðrir þar eystra keypt flakið á 600 krónur. Var togarinn tekinn í slipp í Reykjavík og gerður þar upp. Fékk þá nafnið Gullfoss RE 120. Það voru 15 menn sem stofnuðu Samvinnuútgerðarfélagið Gullfoss hinn 15 desember 1933 um rekstur togarans og voru þeir allir í áhöfn hans. Mun Gullfoss hafa hafið veiðar í janúar árið 1934. 18 júní árið 1936 var togarinn kominn í eigu Landsbankans, en seldur svo 27 júní sama ár, Magnúsi Andréssyni í Reykjavík. Togarinn fórst út af Malarrifi á Snæfellsnesi 28 febrúar árið 1941 að talið er, með allri áhöfn, 19 mönnum.


B.v. Gullfoss RE 120.                                                             Úr safni Tryggva Sigurðssonar.

              Togari strandar

Togarinn "Gustav Meyer" frá Wesermunde strandaði á Meðallandsfjörum, aðfaranótt mánudags. Komu menn af næstu bæjum á strandstaðinn á mánudagsmorgun. Skipverjar fóru á land úr togaranum á streng, nema skipstjóri, stýrimaður og vjelstjóri. Þeir urðu eftir í skipinu. Óðinn var kominn á strandstaðinn í gærmorgun.  Ætlaði hann að reyna að ná togaranum út, og voru vonir um það í gær, að takast myndi, því brimlaust var og hagstætt veður.

Morgunblaðið. 21 febrúar 1933.


Þýski togarinn Gustav Meyer PG 375 á strandstað á Meðallandsfjöru. (C) Valgerður Helgadóttir.


Togari dreginn út af Meðallandsfjörum 

Þann 19. febrúar síðastliðinn strandaði þýskur togari "Gustav Meyer" á Meðallandsfjöru. Óðinn hafði tekið togarann í landhelgi við Ingólfshöfða, en á leiðinni vestur með ströndinni strandaði togarinn. Ekki þótti tiltök að ná togaranum út, eins og ástatt var þarna eftir strandið, og var því úrskurðað, að hjer væri um fullkomið strand að ræða. Vátryggingarfjelag skipsins auglýsti því næst skipið til sölu, þarna á söndunum, og gerðu boð í það nokkrir menn eystra og var Bjarni Runólfsson í Hólmi þeirra fyrirliði. Þeir fengu skipið keypt fyrir sáralítið verð (5-600 kr.). Þegar leið á veturinn, fór skipið að sitja betur í sandinum, en það upphaflega gerði, og mun Bjarna í Hólmi og öðrum mönnum eystra þá hafa hugkvæmst, að reynandi væri að ná skipinu út. Í vor kom Bjarni hingað til Reykjavíkur og fjekk Einar Einarsson fyrrum skipherra til þess að koma austur til þess að líta á skipið og staðhætti á strandstaðnum. Einar fór austur og hefir verið þar við og við síðan. Hann fjekk vjelstjóra austur og tókst honum að hreinsa vjelina og koma henni í gang. Skipið stóð á rjettum kili og lá vel við. Var nú róið með akkeri og festar út og akkerið sett í sjóinn utan til á legunni. Biðu björgunarmenn nú eftir að sjó brimaði, til þess að fá lyftingu undir skipið, en hugsuðu sjer þá að draga skipið út á festunum og nota til þess vjelaafl skipsins. Þetta heppnaðist prýðilega.
Í gær var komið brim við sandana, og var þá vjelin sett í gang og skipið komst á flot kl. 6 síðdegis í gær. Bjóst Einar skipherra við að sigla skipinu hingað til Reykjavíkur. Ekkert skip var til aðstoðar við björgunina.

Morgunblaðið. 6 ágúst 1933.


Gullfoss RE 120. Fyrirkomulagsteikning.


      Nýtt samvinnuútgerðarfélag

15 menn mynda með sér samvinnufélag, kaupa togarann Gustav Meyer og gera hann út á veiðar eftir áramót. Félagsmennirnir vinna sjálfir á skipinu.
Eins og lesendur Nýja dagblaðsins rekur vafalaust minni til, náði Einar Einarsson skipherra þýska togaranum Gustav Mayer, sem strandaði austur á söndum í fyrra, út í sumar og sigldi honum hingað til Reykjavíkur. Fyrir skömmu keyptu 15 menn, sem myndað höfðu með sér samvinnufélag, togarann fyrir 22 þúsund krónur. Togarinn þurfti allmikillar viðgerðar við og var hann tekinn hér upp á dráttarbrautina og gert við hann. Mun viðgerðin kosta nálægt 40 þúsundum króna, svo verð togarans með öllum tilheyrandi tækjum, og vel útbúinn að öllu leyti, ætti ekki að fara mikið yfir 60 þús. kr. Félag þessara 15 manna heitir Samvinnuútgerðarfélagið Gullfoss. Stjórn félagsins skipa 3 menn. Formaður er væntanlegur skipstjóri á togaranum Kjartan Árnason skipstjóri og meðstjórnendur Óskar Þorsteinsson 1. vélstjóri og Sigurbergur Dagfinnsson stýrimaður. Skal hér gerð grein fyrir nokkrum helztu atriðum í lögum og fyrirkomulagi félagsins: Hver félagsmaður leggur 2000 krónur fram sem stofnfé. Félagsmenn ábyrgjast einn fyrir alla og allir fyrir einn skuldbindingar félagsins, þó með nokkrum takmörkunum. Ábyrgðin er einungis miðuð við eignir félagsins, sjóði og það 2000 kr. framlag, sem félagsmenn í upphafi leggja fram. Frekari ábyrgð bera félagsmenn ekki. Félagsmenn allir eru skipverjar á togaranum Gullfossi, eins og hann heitir nú. Heimilt er félagsmanni að setja annan fyrir sig í skiprúm um stundarsakir, með samþykki skipstjóra. Fari félagsmaður úr skiprúmi fyrir fullt og allt, er hann þar með genginn úr félaginu, en ábyrgð ber hann á skuldbindingum félagsins þar til 2 ár eru liðin frá því að hann gekk úr félaginu. Nýir félagar geta þá gengið í félagið með samþykki skipstjóra og félagsstjórnar.
Skipting afrakstursins er þannig: "Af óskiptum afrakstri skal greiða allan beinan kostnað við útgerð félagsins og starfsemi, er það kann að reka í sambandi við útgerð, annan en kaup skipshafnar". - Viðhald á skipinu, vátryggingargjöld, matvæli handa skipshöfninni, 1% af bruttóandvirði aflans í varasjóð o. fl. Það sem þá er eftir af afrakstrinum, skiptist milli félagsmanna í hlutaskiptum þannig: Skipstjóri fær 3 hluti.
Stýrimaður fær 2 hluti.
1. vélstjóri fær 2 hluti.
2. vélstjóri fær 1 ½ % hlut.
Bátsmaður og netamaður fá 1 ¼  hlut.
Matsveinn, kyndarar og hásetar fá einn hlut hver. 2 / 3 hlutar aflans koma þegar til skipta meðal skipshafnarinnar, en þó aldrei meira en sem svarar kr. 350 á mánuði fyrir hvern heilan hlut. Það, sem framyfir er, geymist til tryggingar framhaldsrekstri, þar til reikningar félagsins eru fullgerðir og endurskoðaðir. Í fyrningarsjóð skal greiða árlega 4% af vátryggingarupphæð skipsins. Í varasjóð skal leggja árlega 1% af brúttoandvirði aflans. Í ákvæðum um þessa sjóði segir í lögum félagsins: "Eigi má nota fyrningar- eða varasjóð sem rekstursfé í þágu félagsins, heldur skal ávaxta þá í viðskiptabanka félagsins". Fé má þó greiða úr fyrningar- og varasjóði eftir tillögu félagsstjórnar og í samráði við endurskoðendur, ef minnst 2/3  félagsmanna samþykir það. Félagið hyggst að draga nokkuð úr útgerðarkostnaðinum í samanburði við það sem tíðkast hefir hjá öðrum togarafélögum. Framkvæmdarstjóra hyggjast þeir að spara. Stjórnin á að annast allar framkvæmdir félagsins. Einnig segja félagsmenn að aðaláherzlan verði lögð á það, að útkoman af rekstri skipsins verði sem allra bezt, en hitt ekki gert að aðalatriði, að koma alltaf með sem mestan afla. Því þannig muni það hafa reynst, að kostnaðurinn við reksturinn hefir oftar orðið þeim mun meiri, sem aflinn hefir orðið meiri. Hinn nýi togari Gullfoss, sem langt komið er nú að gera við, mun fara á saltfisksveiðar eftir hátíðarnar.

Nýja Dagblaðið. 16 desember 1933.


B.v. Gullfoss RE 120 á Reykjavíkurhöfn.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


  5 skip hefja leit að b.v. "Gullfossi"

Leit hefir verið hafin að togaranum "Gullfossi" , sem ekkert hefir til spurst síðan s.l. fimtudagskvöld í ofviðrinu , er hann var staddur um 3 sjómílur út af Lóndröngum á Snæfellsnesi. Í gær leitaði flugvjelin "Haförninn " í tvær klukkustundir á þeim slóðum, sem talið var líklegast að togarinn væri, en hvergi varð skipsins vart. Einnig hafa skip verið beðin að svipast eftir Gullfossi, en einskis orðið vör. Í gærkvöldi sendi breska flotastjórnin hjer; tilkynningar til '' enskra skip, sem stödd kunna að vera á því svæði, sem talið er að Gullfoss geti verið á, um að svipast eftir togaranum og veita honum aðstoð, ef með þyrfti. Í gærkvöldi voru 5 íslensk skip fengin til að fara út og leita að Gullfossi. Skip þessi eru: "Gyllir", "Helgafell", "Ármann", "Óðinn" og "Sæbjörg". Var í gærkvöldi ákveðið leitarsvæði, sem leita skyldi á.
Loks hefir komið til mála, að breskar flugvjelar taki þátt í leitinni, ef veður leyfir. Gullfoss fór hjeðan í veiðiför fyrra föstudag. Klukkan 9 á fimtudagskvold, er ofviðrið var skollið á hjer í Faxaflóa, hafði vjelbáturinn "Guðný" samband við Gullfoss, gegnum talstöð. "Guðný" var þá á hrakningi með bilaða vjel og ætlaði Gullfoss að koma henni til aðstoðar. Var Gullfoss rjett hjá "Guðnýu", en ætlaði að bregða sjer frá um stund til að bjarga dufli, sem hann átti þarna nálægt, en kom ekki eftir það. 8 Skipverjar á "Guðnýu" halda að Gullfoss hafi rekið með þeim um nóttina, því þeir sáu ljós á skipi altaf öðru hvoru fram eftir nóttu. Klukkan 5 á föstudagsmorguninn kom togarinn "Vörður" frá Patreksfirði "Guðnýu" til aðstoðar ,en þá sást Gullfoss hvergi og hefir ekki til hans spurst síðan. Vel getur átt sjer stað að loftnet togarans hafi slitnað niður eða loftskeytatæki  hans hafi skemst, svo þau sjeu ónothæf, og þess vegna hafi ekkert til hans heyrst. Einnig getur verið um vjelarbilun að ræða. Gullfoss hafði nægar kolabirgðir að minsta kosti fram til dagsins í dag, þó hann hafi þurft að "keyra" mikið.
B.v. Gullfoss er einn af minnstu togurum íslenska flotans, en traust og gott skip. Skipstjóri á togaranum er Finnbogi Kristjánsson og eru sennilega, 18 manns á skipinu. Eigandi Gullfoss er Magnús Andrjesson útgerðarmaður.

Morgunblaðið. 5 mars 1941.


Við Malarrif á Snæfellsnesi. Þau eru ófá skipin sem hafa farist þar, strandað eða farist á rúmsjó í námunda við nesið. Snæfellsjökull og Lóndrangar í baksýn.  (C) Einar Guðmann.

          Togarinn "Gullfoss" talinn af                        með 19 manna áhöfn

Það er ekki lengur talin nein von um, að togarinn Gullfoss sje ofan sjávar og mun hann hafa farist í ofviðrinu, sem geysaði hjer við Iand dagana 27. febrúar-1. mars s.l. Á skipinu var 19 manna áhöfn. Eins og Morgunblaðið hefir áður skýrt frá sást síðast til Gullfoss fimtudaginn 27. febrúar. Var hann þá staddur um 3 sjómílur útaf Lóndröngum á Snæfellsnesi. Skip, bæði innlend og erlend, voru beðin að hafa gætur á því, ef þau sæju til togarans, en ekki varð neitt skip vart við hann. Flugvjelin TF Örn leitaði að Gullfosi á stóru svæði í bjartviðri, en heldur ekki sú leit bar neinn árangur. 12 íslensk skip, varðskipin og togarar leituðu á stóru svæði í tvo daga, en urðu einskis vör. Eftirtaldir menn voru á Gullfossi:
Finnbogi Kristjánsson, skipstjóri, Garðastræti 33. F. 9. maí 1901. Kvæntur og átti 2 börn, 12 ára og 6 mán.
Stefán Hermannsson, 1. stýrimaður, Lokastíg 10. F. 6. júní 1905. Kvæntur og átti 4 börn, 14 ára, 8 ára, 6 ára og 2 ára.
Indriði Filippusson, 1. velstjóri, Brautarholti við Reykjavík. F. 13. apríl 1911. Ókvæntur.
Guðlaugur Halldórsson, II. vjelstjóri, Vesturbraut 12, Hafnarfirði. F. 8. nóv. 1885. Kvæntur; átti tvö börn, ung.
Magnús Guðbjartsson, matsveinn, Laugaveg 159 A. F. 26. febrúar 1913. Kvæntur. Barnlaus.
Maron Einarsson, kyndari, Laugaveg 159 A. F. 25. des. 1912. Kvæntur og átti 2 börn, 2ja ára og 7 mán. Sigurður Egilsson, kyndari, Bræðraborgarstíg 12. F. 11. sept. 1906. Kvæntur og átti 2 börn, 12 og 8 ára.
Hans Sigurbjörnsson, bátsmaður, Hafnarfirði. Kvæntur; átti mörg uppkomin börn.
Böðvar Jónsson, háseti, Suðurgötu 39. F. 28. okt. 1906. Kvæntur og átti 2 börn, 9 ára og 5 mán. Vilhjálmur Jónsson, háseti, Suðurgötu 39. F. 25. ágúst 1904. Ókvæntur. Hann var bróðir Böðvars.
Gísli Jónsson, háseti, Baldursgötu 31. F. 7. maí 1902. Ókvæntur.
Einar Þórðarson, háseti, Óðinsgötu 4. F. 11. des. 1911. Ókvæntur.
Ólafur Ólafsson, háseti, Bræðraborgarstíg 4. F. 31. ágúst 1892. Kvæntur og átti 6 börn, 16, 14, 13, 10, 8 og 7 ára.
Jón Stefánsson, háseti, Laugaveg 74. F. 9. jan. 1903. Kvæntur og átti 2 börn, 8 og 5 ára.
Magnús Þorvarðarson, háseti. Kárastíg 8. F. 27.. ágúst 1907. Ókvæntur.
Hjörtur Jónsson, háseti, Framnesveg 12. F. 27. nóv.- 1891. Ókvæntur.
Sigþór Guðmundsson, háseti, Grettisgötu 60. F. 14. febr. 1911: Kvæntur og átti 2 börn, 4 ára og 1 árs.
Ingólfur Skaptason, háseti, Fossi í Mýrdal. F. 30. mars 1905. Ókvæntur.
Gísli Ingvarsson, háseti, Þingholtsstræti 21. F. 3. des. 1913. Ókvæntur.

Morgunblaðið. 11 mars 1941.



Flettingar í dag: 766
Gestir í dag: 174
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739418
Samtals gestir: 55764
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 06:14:10