07.01.2022 11:47

B.v. Svalbakur EA 2. TFJC.

Nýsköpunartogarinn Svalbakur EA 2 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949 fyrir Ríkissjóð Íslands. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,10 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 726. Skipaskrárnúmer 205. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Akureyrar hinn 5 júní sama ár. Svalbakur var skráður frá upphafi á Akureyri en komst í eigu Útgerðarfélags Akureyringa árið 1967. Togarinn var seldur í brotajárn til R. Alvargonzales í Aviles á Spáni í október árið 1974.



B.v. Svalbakur EA 2 á toginu.                                                (C) Ásgrímur Ágústsson.

               Svalbakur EA 2

Hinn nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa h.f "Svalbakur" kom hingað til bæjarins aðfaranótt 5. þ- m., beint frá Aberdeen, en skipið var formlega afhent umboðsmönnum félagsins af hálfu skipasmíðastöðvarinnar Alexander Hall Ltd. í Aberdeen hinn 31. f. m. Við það tækifæri flutti Sigursteinn Magnússon, aðalræðismaður, ræðu, þar sem hann lýsti ánægju íslendinga yfir viðskiptunum við skozkar skipasmíðastöðvar. Jafnframt afhenti hann fyrir hönd eigenda togarans, ljósmynd af Akureyri, en forstöðumaður skipasmíðastöðvarinnar tók á móti henni og þakkaði með ræðu. Viðstaddir hádegisverðarboð í tilefni afhendingar togarans voru, auk aðalræðismannsins og forstöðumanna skipasmíðastöðvarinnar, Guðmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélagsins, íslenzki ræðismaðurinn í Aberdeen, fulltrúar togaraeigenda í borginni og fleiri gestir.
Í reynsluför sinni var ganghraði Svalbaks 14,02 sjómílur en meðalhraði í förinni til Íslands 13 sjómílur. Skipið reyndist vel á heimferðinni. Kunnáttumenn segja skipið hið glæsilegasta og mjög vandað. Það er af svipaðri gerð og Kaldbakur, 2 fetum lengra en hann og mun ganga eitthvað betur. Nokkuð er breytt til um útbúnað um borð í samræmi við fengna reynslu, en yfirleitt má segja að þetta skip sé af
sömu gerð og hinir svokölluðu "nýsköpunartogarar". Svalbakur er síðastur þeirra skipa, sem fyrrv. ríkisstjórn samdi um smíði á í Bretlandi. Skipið fer á veiðar nú um helgina. Skipstjóri er Þorsteinn Auðunsson, 1. stýrimaður er Gunnar Auðunsson, en 1. vélstjóri Bergur P. Sveinsson.

Dagur 9 júní 1949.


B.v. Svalbakur EA 2 með pokann á síðunni. Sennilega er þetta tappatogarinn Sigurður Bjarnason EA 450 fyrir framan Svalbak.   Mynd úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


B.v. Svalbakur EA 2 á útleið frá Akureyri.                                             Ljósmyndari óþekktur.

      Mokafli hjá Akureyrartogurum
  Stunda flestir veiðar við Nýfundnaland

Mokafli hefur verið hjá flestum Akureyrartogaranna að undanförnu, einkum þeim, sem stundað hafa veiðar á hinum nýju karfamiðum við Nýfundnaland. Þrír togaranna hefa veitt þar vestra að undanförnu, Kaldbakur, Svalbakur og Harðbakur. Um miðja síðustu viku kom Kaldbakur af Nýfundnalandsmiðum með fullfermi af karfa, sem allur fór í hraðfrystingu á Akureyri. Togarinn fór út aftur s.l. sunnudag. Svalbakur kom af sömu miðum 2. nóv. s.l. með 283 lestir af karfa. Togarinn fór á veiðar aftur daginn eftir. Hann var í gær búinn að afla 120 lestir og hefur tilkynnt löndun n.k. mánudag. Togarinn Harðbakur landaði föstudaginn 7. Nóvember, 343 lestum af karla og fór á veiðar á sunnudaginn. Sléttbakur stundaði veiðar, einn Akureyrartogaranna, á Vestfjarðamiðum, og fór með afla sinn til Þýzkalands. Hann seldi afla sinn. ca. 130 lestir, í Cuxhaven 8. þ. m. fyrir rúmlega 102 þúsund mörk. Togarinn lagði af stað til Íslands s.l. þriðjudag. Vegna hins mikla afla togaranna og löndunar þeirra á Akureyri hefur verið mjög mikil atvinna þar í landi að undanförnu.

Vísir. 13 nóvember 1958.


B.v. Svalbakur EA 2 á toginu svolítið ísaður.                                        Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Svalbakur EA 2 kominn til löndunar á Akureyri talsvert ísaður.          Ljósmyndari óþekktur.



            Togarar í mokfiski á
          Nýfundnalandsmiðum

Geysilegar annir hafa verið undanfarið í hraðfrystistöð Útgerðarfélags Akureyringa vegna mikils afla, sem borízt hefur á Iand síðustu dagana. Á tímabilinu 13.-19. þ. m. hafa allir togarar félagsins komið til Akureyrar með fullfermi af karfa af Nýfundnalandsmiðum, eða samtals 1230 lestir. Togarinn Kaldbakur kom fyrstur þeirra, s.l. þriðjudag með 307 lestir, Harðbakur kom á föstudaginn með 340 lestir, Sléttbakur á mánudaginn með tæplega 300 lestir og loks Svalbakur í gær með 300 lestir. Aflinn fer allur til hraðfrystingar og hefur orðið að fá aukið vinnuafl til þess að hafa undan. Undanfarna daga hafa unnið þarna 150-160 manns til jafnaðar, en allt að 200 manns þegar mest var að gera. Unnið var fram á nótt aðfaranótt hvítasunnudags og allan daginn á 2. í hvítasunnu. Hefur vinnslan numið allt að 140 lestum á dag. Til baga hafa verið veikindaforföll hjá starfsfólkinu. Inflúenzan er hér enn í almætti og eins í nærliggjandi sveitum. Virðist hún heldur leggjast þyngra á fólk, eftir því sem lengur líður.

Fyrir helgina kom m.s. Dettifoss til Akureyrar og lestaði hér 12 þúsund kössum af karfa fyrir Rússlandsmarkað. Enn fremur tók skipið hér 80 lestir af refafóðri, einnig fyrir erlendan markað.

Vísir. 20 maí 1959.


B.v. Svalbakur EA 2 á heimleið af karfamiðunum út af Breiðafirði árið 1951 með 403 tonn.


B.v. Svalbakur EA að landa karfa í Krossanesverksmiðjuna.                 Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Svalbakur EA 2. Búið að taka afturmastrið niður að mestu leyti.            Ljósmyndari óþekktur.

    Nýr Kaldbakur senn á heimleið

Gamli síðutogarinn Svalbakur er nú kominn til Spánar og er þar seldur sem brotajárn. Kom hann þangað á mánudag. Kemur svo hluti skipshafnarinnar, sem sigldi honum þangað, fljúgandi heim, en hinn hlutinn tekur við nýja skuttogaranum Kaldbak og siglir sá togari til Þýskalands, þar sem verður gengið frá lestum. Skipstjóri er Sverrir Valdemarsson. Svalbakur nýi hefur verið bilaður í mánuð. Það var spil, sem bilaði, en varahlutar eru væntanlegir frá Noregi einhvern næsta dag. Afli Akureyrartogaranna það sem af er árinu er 11.565 tonn og auk þess losaði Sléttbakur 210 tonn á mánudaginn. Framleiðsla Hraðfrystihúss Ú. A. á Akureyri er nú meiri en annarra frystihúsa hér á landi. Heita má, að stöðug vinna hafi verið í Hraðfrystihúsi Ú. A. allt þetta ár, nema í síðustu viku. Bilanir togaranna gerðu það að verkum, að svo hittist á, að enginn fiskur barst Hraðfrystihúsinu í síðustu viku.

Dagur. 16 október 1974.


 







Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 2688
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 744521
Samtals gestir: 56076
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 01:07:37