10.01.2022 12:00

3 m. sk. Syltholm strandar við Hafnarfjörð.

Það var hinn 18 nóvember árið 1917 að danska skonnorta Syltholm strandaði við Hafnarfjörð er legufæri hennar slitnuðu í miklu suðvestan óveðri sem gekk yfir Faxaflóa. Syltholm hafði farið nokkrum dögum áður af stað áleiðis til Barcelona á Spáni með saltfiskfarm fyrir Ágústi Flygenring útgerðar og kaupmanni í Hafnarfirði. Skipið lenti í nokkrum hrakningum þegar út á flóann kom og ákvað skipstjórinn, K. Johansen, að halda til Hafnarfjarðar og bíða veðrið af sér þar. Kom Syltholm inn á Hafnarfjörð hinn 17 nóvember og lagðist við legufæri þar á firðinum. En það varð heldur skammgóður vermir fyrir áhöfn Syltholm, því veðrið herti mikið er á leið og skipið tók að draga legufærin í suðvestan storminum og rak skipið í átt að landi þar sem brimaði mikið við klettanna og sker sem voru rétt undan landi við norðanverðan fjörðinn. Í greininni hér að neðan er fjallað um harðfylgi nokkurra Hafnfirðinga og dirfsku þeirra sem varð til þess að áhöfn Syltholms var bjarðað á síðustu stundu áður en skipið brotnaði í spón á strandstaðnum. Á þessum tíma var nú ekki mikið um björgunartæki sem gátu bjargað þegar sjóslys urðu og oftast var það nú svo að ekkert var hægt að gera til bjargar sjómönnum í neyð, en það átti eftir að breytast þegar tímar liðu.
Skonnortan Syltholm NQRW, var smíðuð hjá Skibsbygmester Christian Bom í Thurö í Svendborg í Danmörku árið 1904. 186 brl, 158 nettó. Dýpt miðskips var 11,5 ft. (dönsk). Hét áður J. Lötz og var í eigu Christians Bom til ársins 1917 að það var selt C. L. Andersen í Rödbyhavn í Danmörku og fékk þá nafnið Syltholm.

Í greininni hér að neðan er ekki farið rétt með nafn skipsins, er það skrifað eins og það er borið fram,"Sílthólm". Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem þetta skeður þegar frásagnir eru ritaðar en það er  bara þannig. Ég læt þetta "nafn" halda sér í greininni, enda ekki á minni ábyrgð að breyta því.

Heimildir: Dönsku skipaskrárnar.
                   Þrautgóðir á raunastund. lX bindi.
                   Sjómannadagsblaðið 1947.


3 mastra skonnortan Syltholm. Ber raunar sitt fyrra nafn, J. Lötz á málverkinu. (C) Ruben Chappel.

                   Skipskaðar

Í fyrrinótt gerði ofsarok með regni og var svo hvast að óstætt mátti kalla. Hélzt veður þetta allt til morguns og fram á dag, en lygndi þó heldur er á daginn leið. Tvö skip slitnuðu upp hér á höfninni, botnvörpungurinn »Jarlinn« og þilskipið »Ása« eign Duus-verzlunar. Rak þau upp að Örfirseyjargarðinum og skemdust þau þar eitthvað. Segjskip strandaði og í Hafnarfirði. Það heitir »Sildholm«. Lagði það á stað frá Hafnarfirði fyrra sunnudag og átti að fara til Spánar. En er það kom hér út í flóann kom að því leki all-mikill og sneri það þá aftur inn til Hafnarfjaiðar. Þegar veðrið var sem mezt í gærmorgun tók skipið að reka og var komið upp undir kletta. Gáfu þá skipverjar neyðarmerki og var brugðið við í landi og þeim bjargað. Síðan rak skipið í land og brotnaði þegar mjög mikið. Var fiskinn úr því farið að reka í land í gærkvöldi. Geir var í þann veginn að fara suðureftir til að reyna að bjarga skipinu, en hætti við það er það fréttist hve illa það var komið.

Morgunblaðið. 20 nóvember 1917.


Syltholm á strandstað í Hafnarfirði.                                                Ljósmyndari óþekktur.

       Þegar "Syltholm" strandaði

Það var í nóvember 1917, að skonnortan "Sílthólm" sigldi út frá Hafnarfirði, fullhlaðin saltfiski, áleiðis til Spánar. Eftir nokkra daga hrakningu í Faxaflóa, kom skipið aftur til Hafnarfjarðar og var lagt fyrir akkeri utantil á höfnina. Daginn eftir var kominn suðvestan stormur og leiddi mikla kviku inn á höfnina. Veittu menn því þá athygli, að "Sílthólm" var farið að reka. Skipið lá fyrir tveimur akkerum og virtust skipverjar vera búnir að gefa út alla þá keðju sem þeir höfðu. Einnig sást að þeir voru búnir að draga upp neyðarflögg Streymdu nú menn vestur að Svenborgarhúsum og vestur á klappirnar þar fyrir vestan. Mikið brim var við klappirnar og urðu margir blautir af sjógangi. Aðalumræðuefni var hvernig hægt væri að bjarga mönnunum af skipinu. Ef skipið ræki upp í klappirnar, voru litlar líkur til þess að mennirnir kæmust lífs af, því engin björgunartæki voru fyrir hendi. Hefði t. d. línubyssa og björgunarstóll verið á staðnum, var öðru máli að gegna. Enn hvorugt þekktist hér þá. Einn maður gekk þarna á milli manna og leitaði álits þeirra, hvort þeir sægju nokkur ráð til þess að bjarga mönnunum. Ýmsar uppástungur komu. T. d. lágu nokkrir mótorbátar á höfninni í vetrarlægi. Einhverjum mun hafa dottið í hug að losa þá úr festum, en þeir munu ekki hafa verið í því standi að hægt Væri að koma þeim í gang á stuttum tíma. Yfirleitt voru menn víst ráðafáir. Þessi maður sem ég minntist á, var Ágúst Flygenring. Það er að vísu ekki rétt að hann gengi á milli manna, því hann hljóp um klappirnar. Nú skal getið annars manns. Hann hélt sig einna fremst á klöppunum og hafði stöðugt auga á skipinu, sem smáfærðist nær landi. Þessi maður var Sigurður Guðnason skipstjóri. Flygenring mun hafa veitt þessu athygli, því hann vindur sér að honum og segir: "Sérð þú nokkur ráð Sigurður minn". Sigurður svarar: "Það er vel hægt að bjarga mönnunum, ef það væri til róðrarskip".
Flygenring segir þá: "Ég hef það, við skulum líta á skipið". Var nú farið austur að Edinborgarhúsum. Þar var skipið, gamalt og lítið skip, þó mun það hafa verið áttæringur. Sigurður sagði: "Skipið er ágætt, en hvað, það vantar árar?" Flygenring sagðist hafa þær. Voru nú sóttar árar. Allar voru þær skautalausar og flestar of langar. "Svo velur þú þér sjálfur menn, Sigurður minn', sagði Flygenring. Var nú skipið tekið og sett austur að næstu bryggju, sem var á líkum stað og innri hafskipabryggjan er nú. Svo margir menn settu skipið, eins og hægt var að raða á það. Á sama tíma fóru aðrir og sóttu lýsistunnu suður á möl til Einars Þorgilssonar. Þó mun hún hafa verið tekin frá manni sem hét Marteinssen. Einnig var sótt steinolía til F. Hansens. Hvað mikið man ég ekki . Sömuleiðis var sótt lína (snurpulína) og bátsdreki og mun það hafa verið sótt til Flygenrings. Þetta voru nú "björgunartækin". Þess skal getið, að um leið og skipið var tekið, veitti sá er þetta ritar, því athygli, að eitthvað brotnaði. Leit ég því undir skipið, en sá ekki neitt athyglisvert og hélt því að þetta hefði verið "hlunnur sem hefði brotnað, en tími var ekki til að athuga þetta nánar. Þessi ályktun mín var ekki rétt, eins og síðar verður getið. Var nú skipið sett á flot og "björgunartækin" látin í það. Skipshöfnin voru þessir menn: Sigurður Guðnason, skipstj., formaður, Einar Ólafsson, stýrim. (Gesthúsum), Sigurjón sonur hans, skipstj., Stefán Bachmann, afgreiðslum., Guðmundur Magnússon, skipstj., Jón Eiríksson, skipstj. (Sjónarhól), Friðrik Ag. Hjörleifsson, stýrim., Guðmundur Ólafsson (Bygðarenda), Þorsteinn Guðmundsson (nú dáinn) og Egill Guðmundsson (Vestfirðingur).
Var nú lagt af stað, en illa gekk róðurinn, því bæði var rokið og kvikan á móti og svo var skipið of þungt að framan, var því olían og lýsið fært aftur í. Sömuleiðis virtist mikill leki á skipinu, því þrátt fyrir kappaustur þá safnaðist sjór í skipið. En eftir stutta Stund fór sjórinn að minnka og fór nú að ganga betur. Þegar komið var vestur á móts við "hafskipabryggju", sást að Flygenring var þar á bryggjunni og var hann að benda Sigurði að snúa aftur. Þá segir Sigurður: "Látið sem þið sjáið það ekki". Þegar Flygenring sá, að áfram var haldið, sneri hann upp bryggjuna og heyrðist hann þá segja: "Þetta Þýðir ekkert, þeir drepa sig allir". Gefur það dálitla hugmynd um það, hvernig veður og aðrar aðstæður hafa verið. Sunnarlega á höfninni lá önnur skonnorta, "Skandía", og var víst hugmynd Sigurðar að festa línuna í hana, gefa hana síðan út og komast þannig að »Sílthólm". En þegar komið var á móts við hana, sást að hún lá of innarlega til þess að hægt væri að hafa not af henni. Var því haldið áfram, þar til komið Var í rétta vindstöðu af "Sílthólm", haldið síðan undan þar til Sigurður áleit að línan mundi ná að "Silthólm". Var þá drekinn látinn detta, línan síðan gefin út. Þegar komið var í námunda við "Sílthólm" Var olíu og lýsi hellt í sjóinn. Við það missti kvikan kraft. því brátt myndaðist lygn rák í kringum skipið. Þegar komið var að "Sílthólm" varð að gæta þess að skipið kæmi ekki við síðu skonnortunnar. Þetta tókst ágætlega.
Hefði skipið brotnað þarna við síðuna, Þá var voðinn vís. Það fyrsta sem skipverjar á skonnortunni gerðu, var að rétta okkur brúsa fullan af olíu. Síðan fóru þeir að koma niður í skipið. En skipstjóri neitaði að koma, því hann sagði að skipið væri of hlaðið eða að minnsta kosti yrði að ausa það áður en hann kæmi. Sigurður stendur þá upp og tekur í axlirnar á skipstjóranum og dregur hann niður í skipið og voru það víst engin móðurtök. Þegar átti að leggja frá "Sílthólm", heyrðist hundur gelta um borð. Skipaði Sigurður þá einum af skipverjum að sækja hann, sem hann og gerði. Skipverjar voru sjö. Ein skepna varð þó eftir um borð, en það var grís, og missti hann lífið, og eingöngu fyrir það, að enginn af okkur vissi um hann. Um leið og lagt var frá "Sílthólm", sást greinilega, að hún tók niður í hælinn, svo ekki mátti seinna vera. Nú var lýsið og olían búið, að undantekinni þeirri olíu sem við fengum hjá skipverjum á "Sílthólm". Var nú skipið dregið út á línunni og róið með. Þegar komið var að niðurstöðu, var allri línunni hent í sjóinn. Síðan var róið suður á höfnina og svo undan sjó og vindi inn að bryggju. Um leið og skipinu var snúið undan, lét Sigurður hella olíu í sjóínn. Þegar komið var inn að bryggju, var svo mikill mannfjöldi þar á bryggjunni, á götunni og í fjörunni, að ég minnist ekki að hafa séð fleira fólk saman komið í Hafnarfirði. Nú var alvörusvipurinn horfinn, en gleðibros komið í staðinn. Það var gaman að sjá andlitið á Ágúst Flygenring, þegar hann var að þakka Sigurði og skipshöfn hans fyrir björgunina.
Þess var áður getið, að í fyrstu virtist mikill leki á skipinu. Enn þannig stóð á lekanum, að um leið og skipið var tekið, þá hafði brotnað borð í barka skipsins. Sá sem fyrstur tók eftir þessu, var Sigurjón Einarsson. Þegar lýsistunnan var færð aftur í, sá Sigurjón hvar sjórinn streymdi inn. Þetta mun hann hafa sagt Sigurði. Kastar hann (Sigurður) þá til hans peysu, sem hann sá undir staflokinu aftur í, henni tróð Sigurjón í gatið og stendur síðan á því, þar til komið var inn að bryggju. Ég býst við að fáir á skipinu, hafi haft hugmynd um þetta. En þetta sýnir að duglegum mönnum verður sjaldan ráðafátt. Þegar komið var inn að bryggju og peysan var tekin úr gatinu og Ágúst Flygenring sá að sjórinn streymdi inn, sagði hann ekkert. Hann bara hristi höfuðið. Olían, lýsið og línan áttu sinn þátt í því, hvað björgunin tókst vel. Hefðum við ekki haft línuna, mundum við tæplega hafa dregið á árum frá "Sílthólm", og það ættu sjómenn að hafa hugfast, að vera alltaf vel byrgir af olíu í hverri sjóferð. Hún hjálpar mikið, sé hún notuð á réttan hátt. (Ég skal geta þess hér þó að það komi ekki þessari frásögn við, að Guðmundur heit. Sigurðsson fyrrum skipstjóri á "Draupni", sagði mér, að hann hefði farið í gegnum Pentlandsfjörðinn í vondu veðri og miklum straum. Lét hann þá hella olíu í vélarúmið unni að þeir hefðu komist slysalaust í gegnum fjörð og síðan dæla henni út. Sagðist hann þakka það olíunni). Það mun enginn af þeim mönnum sem á skipinu voru, hafa hugsað um björgunarlaun. Þeim var það nóg að björgunin tókst eins vel og raun varð á. Þó skal þess getið að fyrir orð Flygenrings, þá fékk hver maður sem á skipinu var 25 kr., sem áttu að vera eins og Flygenring orðaði það, "fyrir fataskemmdum". Margir voru stígvélalausir. Menn fóru án þess að hugsa um hlífðarföt, enda enginn tími til þess að ná í þau. Þó voru nokkrir í olíustakk eða kápu. Allir voru því meira og minna blautir af olíu, lýsi og sjó. Sömuleiðis fengum við vinnu við að bjarga því sem rak úr skipinu, bæði fiski og ýmsu öðru. Það mun ekki hafa verið mikið meira en 1 klukkustund frá því að mönnunum var bjargað og þar til að Sílthólm var brotin í spón. Kaup var þá 75 aurar um tímann, en Flygenring ákvað að við skyldum fá 1 kr. um tímann. Þó mun Sigurður ekki hafa fengið nema 75 aura, en það er önnur saga. Þetta er skrifað eftir minni, vera má að einhver smáatvik hafi gerzt í sambandi við þetta sem ég ekki man, en það mun ekki vera neitt sem máli skiftir. Það er nú langt um liðið, síðan þetta gerðist og hefði frásögn um þessa björgun gjarnan mátt koma fyrr á prenti. Íslenzkir sjómenn eru hlédrægir, þó þeir geti verið "svara kaldir" og ekki vanir að hafa hátt um, þó þeir vinni einhver frægðarverk.

Sjómannadagsblaðið. 1 tbl. 1 júní 1947.

Flettingar í dag: 1043
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 2688
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 745490
Samtals gestir: 56176
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 15:34:39