12.01.2022 07:53

1627. Sæbjörg TFBP.

Skólaskipið Sæbjörg var smíðuð hjá Trondhjems M/V Aker Trondelag A/S í Þrándheimi í Noregi árið 1974 fyrir Ferry Gomera S.A. á Kanaríeyjum. Hét fyrst Benchijigua. 999 brl. 2 x 1.155 ha. Nohab vélar, 2 x 850 Kw. 68,79 x 11,52 x 3,46 m. Frá árinu 1980 hét skipið Betancuria. Skipið var selt í júní 1982, Skallagrími h.f. á Akranesi, hét þá Akraborg og hélt uppi farþega og bílaflutningum milli Akraness og Reykjavíkur. Með tilkomu Hvalfjarðargangna var rekstri ferjunnar hætt í júlí árið 1998 og í kjölfarið var skipið afhent Slysavarnafélagi Íslands til afnota fyrir Slysavarnaskóla sjómanna og fékk nafnið Sæbjörg. Með tilkomu þessa skips, stórbættist öll aðstaða skólans til kennslu og æfinga. Nýja Sæbjörgin leysti af hólmi eldra skip með sama nafni, en það skip var varðskipið Þór, smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1951.


Skólaskipið Sæbjörg.                                                 (C) Snorri Snorrason. Ljósmynd í minni eigu.

          Akraborgin verður Sæbjörg

 Slysavarnaskóli sjómanna eflist verulega

Slysavarnafélag Íslands stofnaði Slysavarnaskóla sjómanna árið 1985. Með því var stigið stórt framfaraskref í öryggismálum sjómanna því frá því að skólinn var stofnaður hefur margoft komið í Ijós að þátttaka í námskeiðum hans hefur hjálpað sjómönnum að bregðast rétt við slysum og átt sinn þátt í björgun mannslífa. Markmið skólans eru að auka öryggi sjómanna í starfi með markvissri miðlun þekkingar á öryggismálum. Í nýlega samþykktri stefnumótun fyrir SVFÍ kemur m.a. fram sem markmið samtakanna að "efla öryggisfræðslu sjómanna með öflugum skóla sem uppfyllir íslenskar og alþjóðlegar kröfur um þjálfun sjómanna; að auka þjónustu við sjómenn og fleiri aðila í tengslum við sjó og vötn; og að fækka og koma í veg fyrir slys".
Rúmu ári eftir stofnun Slysavarnaskólans var hann fluttur í gamla varðskipið Þór sem fékk þá nafnið Sæbjörg. Síðan hefur Sæbjörgin verið kennsluskip skólans. Með því að færa kennsluna á skipsfjöl var hægt að færa hana til sjómanna á landsbyggðinni. Árið 1988 náðist áfangi í sögu skólans sem tryggði hann mjög í sessi. Þá var undirritað samkomulag milli SVFÍ og samgönguráðuneytisins þar sem félaginu var falið að sjá um öryggisfræðslu fyrir starfandi sjómenn með starfrækslu Slysavarnaskóla sjómanna. Sérstök lög voru sett um skólann árið 1991. Þar með var grundvöllur skólans tryggður með því að ríkið greiðir rekstrarkostnaðinn. Nemendafjöldi við skólann hefur vaxið jafnt og þétt enda hafa stjórnvöld lagt áherslu á að allir sjómenn sæki fræðslu um öryggismál með því að gera hana að skyldu við lögskráningar. Fljótlega kom í Ijós að ef skipið ætti að notast í mörg ár til viðbótar yrðu að fara fram á því miklar og kostnaðarsamar viðgerðir og því var talið vænlegra að endurnýja það og fá stærra skip. Á haustmánuðum í fyrra hóf Slysavarnafélagið að kanna hvort unnt yrði að fá Akraborgina þegar henni yrði lagt í kjölfar opnunar Hvalfjarðarganganna.
Að beiðni samgönguráðherra, fór fram samanburður á rekstri Akraborgar og Sæbjargar og voru niðurstöðurnar á þann veg að um álitlegan kost væri að ræða fyrir skólann, enda er "Boggan" 22 árum yngri en gamla Sæbjörgin. Ef skipin tvö eru borin saman kemur m.a. í Ijós að í brúttólestum er Akraborgin um þriðjungi stærri og í brúttótonnum nær þrefalt. Flatarmál lokaðra rýma í Akraborginni er meira en tvöfalt stærra en gömlu Sæbjargarinnar. Akraborgin er enda um tveimur metrum breiðari og tæplega sex metrum lengri. Tveimur af þremur sölum Akraborgarinnar verður breytt í kennslustofur, en Sæbjörgin var aðeins með eina slíka. Bílaþilfar Akraborgarinnar nær stafna á milli og verður það notað sem æfingasvæði þar sem meðal annars verður æfð reykköfun auk þess sem þar verður aðstaða fyrir búnað og viðhald hans. Einnig verður komið fyrir búningsaðstöðu nemenda sem er til mikilla bóta því áður þurftu nemendur að hafa búningaskipti á göngum skipsins. Auk gömlu björgunarbáta Akraborgarinnar verður bætt við þeim þriðja sem er frífallandi björgunarbátur sem gefinn var og ættaður er úr Vikartindi. Með tilkomu Akraborgarinnar,sem nú heitir Sæbjörg, er því Ijóst að miklar breytingar verða til batnaðar fyrir Slysavarnaskóla sjómanna. Um leið aukast möguleikar skólans til að auka fyrirbyggjandi fræðslustarf, veita þjónustu og ráðgjöf, fjölga námskeiðum og minnka þar með biðlista. Það er gott til þess að vita að Boggan kæra kemur áfram, sem hingað til, að góðum notum og vafalaust á hún því oft eftir að sjást á kunnuglegum slóðum á Skipaskaga.

Skessuhorn. 16 júlí 1998.


Betancuria við Kanaríeyjar.                                                                   Mynd af netinu.


Akraborg í Reykjavíkurhöfn.                                      (C) Jón Björnsson.  Ljósmynd í minni eigu.

 Nýja Akraborgin komin til landsins

Ný Akraborg lagðist að bryggju á Akranesi á 17. júní. Að sögn Viðars Vésteinssonar,starfsmanns Skallagríms, eiganda Akraborgar, var fjöldi fólks staddur á bryggjunni við komu skipsins. Hann sagði það mjög glæsilegt og að aðbúnaður farþega væri miklu betri en var í því eldra. "Skipið tekur 70 til 75 fólksbíla og er því mun stærra en það gamla. Það tók mest 43 bíla. Sama áhöfn verður á nýja skipinu og viö reiknum með að rekstrarkostnaður þess verði svipaður og hins,"sagði Viðar. Nýja Akraborgin er byggð í Noregi árið 1974. Skipið er keypt frá Kanaríeyjum. Það var dótturfyrirtæki norska fyrirtækisins Fred Olsen sem gerði það út frá Kanaríeyjum. Búizt er við að skipið fari sína fyrstu ferð, sem Akraborg, á fimmtudag.

Dagblaðið Vísir. 19 júní 1982.

Flettingar í dag: 629
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 2688
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 745076
Samtals gestir: 56166
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 11:07:04