30.01.2022 10:43

Hæringur. TFMB.

Síldarbræðsluskipið Hæringur var smíðaður hjá Union Dry Dock Co í Buffalo í New York ríki í Bandaríkjunum árið 1901. 4.898 brl, 3.371 nettó. 1.800 ha. 4 þennslu gufuvél. Hét fyrst Mauch Chunk og var í eigu Lehigh Valley Steamship Co í Buffalo. Selt um 1920, Great Lakes Transit Corporation, fékk þá nafnið  W.J. Conners. 116,53 x 15,40 x 8,10 m. Hlutafélagið Hæringur í Reykjavík keypti skipið í borginni Portland í Oregonfylki í Bandaríkjunum árið 1948. Kom skipið til Reykjavíkur í október sama ár. Hæringur lá í Reykjavíkurhöfn til ársins 1950, að það sumar var því siglt á síldarmiðin út af Austfjörðum og lá þá á Eiðisvík sunnan Langaness og svo einnig á Seyðisfirði. Skipið lá lengi inn á Sundunum við Reykjavík eða þangað til það var selt til Gangsövik í Noregi í september árið 1954. Skipið mun hafa verið selt í brotajárn og rifið árið 1957.

Síldarbræðsluskipið Hæringur. Síldarleitarskipið Fanney RE 4 utan á Hæringi.

 

Síldarbræðsluskipið Hæringur
 

Járnskip með 1.800 ha. 4 þennslu gufuvél. Stærð: 4.724 brúttórúmlestir, 3.599 nettórúmlestir. Skipið hét áður W. J. Conners, smíðað í borginni Buffalo við Erievatn á vatnasvæðinu mikla á landamærum Bandaríkjanna og Kanada árið 1901. W. J. Conners var notað til flutninga á málmgrýti, unz Bandaríkjastjórn tók það í þjónustu Kyrrahafsflotans í styrjöldinni við Japana. Skipið var notað sem fljótandi viðgerðar og birgðastöð flotans. Hlutafélagið Hæringur í Reykjavík keypti skipið í Bandarikjunum árið 1948. Var það afhent í borginni Portland í Oregonfylki og hlaut þá nafnið Hæringur. Hingað til Reykjavíkur kom skipið svo í október 1948 eftir eina lengstu siglingu (7.664 sjómílur), sem íslenzkt skip hafði þá farið. Ingvar Einarsson skipstjóri sigldi Hæringi hingað heim, en hann hafði nokkrum árum áður siglt Fanneyju svipaða leið eða frá Tacoma í Bandaríkjunum. Hér var skipinu breytt í fljótandi síldarverksmiðju, sem nú skal stuttlega lýst:
Tvenn löndunartæki fyrir 800 mál á klukkustund. Síldarlestir rúmuðu 10 þús. mál. Afkastageta verksmiðjunnar var 6—10 þús. mál á sólarhring.
Lýsisgeymar rúmuðu 2.200 smállestir  og mjölgeymsla fyrir 1.600 smálestir. Þá átti skipið að geta afkastað fullri vinnslu í átta sólarhringa án sambands við land. Það átti þó ekkl fyrir Hæringi að liggja að sýna þessa afkastagetu sína í svo ríkum mæli sem hér hefur verið lýst. Skipið lá við Ægisgarð þangað til sumarið 1950, að það hélt á síldarmiðin austanlands. Lá Hæringur þá á Eiðisvík sunnan Langanes og á Seyðisfirði. Síðar var skipinu lagt inni á Sundum, unz það var selt til Gangsövik í Noregi árið 1954, þar sem skipið var gert að landfastri síldarverksmiðju. Hæringur er eina fljótandi verksmiðjuskipið, sem íslendingar hafa eignast.

Tímaritið Æskan. Guðmundur Sæmundsson.

Flettingar í dag: 2669
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744428
Samtals gestir: 56057
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 23:17:52