31.01.2022 14:49

Hafnarfjarðarhöfn.

Ljósmyndin hér að neðan úr Hafnarfjarðarhöfn er sennilega tekin um 1970. Sjá má togarann Haukanes GK 3 við Norðurbakkan. Haukanes hét áður Gylfi BA 16 og var smíðaður í Goole í Englandi árið 1952 fyrir Vörð h.f á Patreksfirði, en á þessum tíma var togarinn í eigu bræðranna Haraldar Jónssonar og Jóns Hafdals Jónssonar í Hafnarfirði. Þeir áttu einnig togarann Hamranes GK 21, áður Egill Skallagrímsson RE 165. Framan við Hamranesið er sennilega togarinn Röðull GK 518, smíðaður í Beverley í Englandi árið 1948 fyrir Venus h.f í Hafnarfirði. Aftan við flutningaskipið er trúlega vélskipið Guðrún GK 37, smíðuð í Brattvaag í Noregi árið 1964 fyrir Ása h.f. í Hafnarfirði. Lengst til vinstri sér í Hafbjörgu GK 7, smíðuð hjá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar árið 1946 fyrir Bjarg h.f. í Hafnarfirði.

Hafnarfjarðarhöfn um 1970.                                (C) Haukur Helgason.

 



               Mikil umferð í Hafnarfjarðarhöfn
 

Umferðin í höfninni hefur verið mikil á þessu nýbyrjaða ári. Hér hafa komið skip eftir skip og lestað útflutningsvörur. Sumar þeirra hafa komið héðan úr Hafnarfirði, en aðrar hafa verið fluttar hingað á bílum, bæði frá Reykjavík og Keflavík. Á þessum rúma mánuði, sem nú er liðinn af árinu 1962 hefur t.d. Tungufoss lestað 850 tunnur af lýsi úr Reykjavík, auk annarrar vara frá Hafnarfirði og Reykjavík, Dettifoss lestaði m. a. 250 tonn af mjöli frá Keflavík ásamt frystum fiski frá Hafnarfirði og Keflavík, og svona mætti lengi telja. Auk þessara skipa hafa Selfoss, Lagarfoss, Reykjarfoss, Langjökull o. fl. skip lestað ýmiskonar vörur til útflutnings hér í Hafnarfjarðarhöfn. Árangurinn af hinum myndarlegu hafnarframkvæmdum á síðasta kjörtímabili núverandi bæjarstjórnar, segir þegar til sín.

Alþýðublað Hafnarfjarðar. 3 febrúar 1962.

Flettingar í dag: 1114
Gestir í dag: 127
Flettingar í gær: 2688
Gestir í gær: 157
Samtals flettingar: 745561
Samtals gestir: 56190
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 17:15:54