06.02.2022 11:17

155. Jón Kjartansson SU 111. TFQL.

Nóta og togveiðiskipið Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Nobiskrug Werft í Rendsburg í Þýskalandi árið 1960. 890 brl. 1.900 ha. Werkspoor vél. 61,21 x 10,43 x 4,90 m. Hét fyrst Narfi RE 13 og var í eigu Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns í Reykjavík. Árið 1974 var Narfa breytt í skuttogara og einnig var skipið yfirbyggt, var það gert í Hollandi. Skipið var selt í mars 1978, Hraðfrystihúsi Eskifjarðar h.f, fékk þá nafnið Jón Kjartansson SU 111. Var á því ári (1978) breytt í nótaskip. Ný vél (1980) 2.880 ha. Alpha vél. Skipið var endurbyggt, skipt um framhlutann og það lengt hjá Radunia International skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1998. Mældist þá 1.399 bt. og 68,89 m. á lengd. Árið 1999 var skipt um afturhluta skipsins að mestu, hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Póllandi. Einnig var sett í skipið 6.690 ha. Wartsiila vél, 4.920 Kw. Frá árinu 2005 hét skipið Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Selt 2007, H.B. Granda hf, hét þá Lundey NS 14. Skipið var selt til Noregs árið 2016 og mun bera nafnið Mokstein þar.

Narfi RE 13 mun hafa verið fyrsta íslenska fiskiskipið sem gat fryst afla sinn um borð. Þegar Narfi var smíðaður í Rendsburg árið 1959-60, vildi Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður að hann yrði skuttogari, en fékk þau svör frá "kerfinu" að Íslendingar hefðu "ekki efni á experimentum" og þar við sat.


  

Nótaskipið Jón Kjartansson SU 111 á landleið með fullfermi. (C) Vilberg Guðnason.

 

              Narfi keyptur til Eskifjarðar

 

Guðmundur Jörundsson, útgerðarmaður í Reykjavík hefur nú selt togarann Narfa til Eskifjarðar, nánar tiltekið Hraðfrystihúsi Eskifjarðar hf. Narfi er 18 ára gamall skip, var áður síðutogari, síðar breytt í skuttogara og nú í nótaskip og ber um 1.100 lestir af loðnu, en er einnig útbúið til veiða í botnvörpu. Narfi er seldur Eskfirðingum fyrir 650 millj. kr. með öllum veiðarfærum. Þar á meðal nýrri nót. Skipið verður afhent hinum nýju eigendum 30. apríl og verður þá gefið nafnið Jón Kjartansson, en svo hafa heitið mikil aflaskip í eigu frystihússins. Þessi kaup sýnast mjög vel ráðin, þótt skipið sé nokkuð gamalt. En því mun hafa verið vel við haldið og er nýuppgert. Fyrir fyrirtæki, sem rekur afkastamikla bræðslu, getur skipt sköpum, að það eigi nótaskip, sem orðið getur góð kjölfesta og lengt árlegan reksturstíma bræðslunnar, ekki síst með heimflutning sumarveiddrar loðnu og kolmunnaveiðum.

Austurland. 23 mars 1978.

 

Jón Kjartansson SU 111 með fullfermi. (C) Snorri Snorrason.
 
Lundey NS 14 við bryggju í Örfirisey.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Fyrirkomulagsteikning skipsins.                  Mynd úr Ægi frá 2000.
 

B.v. Narfi RE 13 nýsmíðaður.                                  (C) Karl Kristjánsson.


             Narfi glæsilegasti togarinn

Á skírdag kom hinn nýi togari Guðmundar Jörundssonar, Narfi RE 13, hingað til landsins, en hann var, eins og áður hefir verið frá sagt, smíðaður í skipasmíðastöðinni Nobiskrug. G. m. b. H í Rendsburg í  Vestur-Þýzkalandi. Gekk hann í reynsluförinni 16 sjóm. En verður annars „keyrður" með 14 sjóm. hraða, sem gefur bezta nýtingu hvað olíueyðslu og meðferð á vél snertir. Narfi er 890 tonn, 198 fet, bp, 34 feta breiður og 18 feta djúpur. Er hann byggður með það sérstaklega fyrir augum að stunda veiðar á fjarlægum miðum. Til dæmis er tvöföld bandagrind frá brú og fram eftir. Þá er í honum tæki, sem á að geta dælt 70—80° heitum sjó úr fjórum stöðum, ef um ísingu er að ræða. Allar mannaíbúðir eru hinar glæsilegustu og mjög haganlega fyrir komið. Lestarnar eru innréttaðar með aluminium og þar er ekki að finna eina einustu spítu. Eru þær 24 þús. kubikfet og taka 430—440 tonn af fiski. Til samanburðar má geta þess, að eldri togararnir taka yfirleitt frá 280 —320 tonn. Þá er Narfi frábrugðinn öðrum togurum að því leyti, að hann hefir allmikla breidd um miðju. Einnig hefur stefnið svokallað perulag, en við það næst betri gangur.
Aðalaflvélin er Werkspoor díselvél, smíðuð í Hollandi. Er hún 1900 hestöfl og hefir beina tengingu á skrúfu. Þá eru hjálparvélar. Togvinda er t. d. drifin af 550 hestafla vél. Tvær ljósavélar eru í Narfa, önnur 240 hestöfl og hin 90. Einnig er stór rafall tengdur við skrúfuöxul, og á að nota hann á öllum lengri siglingum og þarf þá ekki að „keyra" ljósavélarnar. Í togaranum eru að sjálfsögðu öll nýjustu og fullkomnustu siglingatæki, svo sem tveir Dekka-radarar, giróáttaviti, sjálfstýring, Lorantæki, tvö Atlas-fiskileitartæki og ný gerð af hraðamæli. Á stjórnpalli er mjög fullkomið símakerfi og getur skipstjóri haft samband þaðan við skipsmenn. Inn af stjórnpalli er kortaklefi og loftskeytaherbergi. Eru tæki af Telefunken og Simens-gerð og hin fullkomnustu. Í fáum orðum sagt má segja, að Narfi sé eitt glæsilegasta skip, sem smíðað hefir verið fyrir íslendinga. Er auðséð á öllu að vandað hefir verið mjög til smíði hans og lögð áherzla á að haga þar öllu á sem hagfelldastan hátt. Milligöngumaður um togarakaupin og útvegun lána til þeirra, annaðist dr. Magnús Z. Sigurðsson, sem er umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar, er smíðaði Narfa. Hann kostaði hingað kominn 34 millj. kr. Var kjölurinn lagður 29. sept. í fyrra og af stokkunum hljóp hann 13. jan. sl. Hann er eign Guðmundar Jörundssonar, sem áður átti togarann Jörund, og starfrækti þá útgerð sína á Akureyri. En nú er hann fluttur hingað suður og verður Narfi gerður út frá Reykjavík. Skipstjóri er Þorsteinn Auðunsson, einn hinna þekktu Auðunsbræðra og kunnur aflamaður. 1. vélstjóri er Júlíus Halldórsson, 1. stýrimaður Aron Guðmundsson og Karl Kristjánsson loftskeytamaður. Narfi fór á veiðar laugardaginn fyrir páska.

Morgunblaðið. 20 apríl 1960.






 





 

Flettingar í dag: 832
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742591
Samtals gestir: 55966
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 05:58:12