17.03.2022 07:25

252. Sæberg SU 9 á leið inn Eskifjörð með fullfermi af loðnu.

Á ljósmyndinni hér að neðan er Sæbergið á leið inn Eskifjörð með fullfermi, enda skipið vel hlaðið. Svona hleðsla var algeng hér áður, loðnuveiðiskipin mun minni en nú er og á nýjustu skipunum er varla að það sjáist á þeim þótt þau væru með um 3.000 tonna farm.
Sæberg SU 9 var smíðað hjá Kaarbös Mekanik Verksted A/S í Harstad í Noregi árið 1963. Hét fyrst Jón Kjartansson SU 111 og var í eigu Jóns Kjartanssonar h/f á Eskifirði og Þorsteins Gíslasonar í Reykjavík. 278 brl. 600 ha. Wichmann vél. 33,77 x 7,32 x 3,47 m. 30 júní árið 1971 var nafni skipsins breytt, hét þá Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. 8 júlí árið 1971 var skráður eigandi Sæberg h/f á Eskifirði, skipið hét Sæberg SU 9. Skipið var endurmælt í júní 1972, mældist þá 226 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1978, mældist þá 275 brl. 44,54 x 7,32 x 5,87 m. Ný vél (1980) 1.350 ha. Wichmann vél, 993 Kw. Selt 7 júlí 1986, Eskfirðingi h/f á Eskifirði, hét Eskfirðingur SU 9. Skipið sökk út af Héraðsflóa 14 júlí árið 1988. Áhöfnin, 6 manns var bjargað um borð í Hólmaborg SU 11.

252. Sæberg SU 9 á leið inn Eskifjörð með fullfermi. (C) Vilberg Guðnason.



 

                               Jón Kjartansson SU 111

Þann 23. des. sl. kom nýr bátur til Eskifjarðar, m/b „Jón Kjartansson" SU 111. Er hann 278 brúttó rúmlestir og er eign samnefnds hlutafélags og Þorsteins Gíslasonar, sem sigldi bátnum til landsins. Aflvél er 600 hestöfl frá Wichmann. Hjálparvélar eru tvær frá Volvo Penta 60 hestöfl hvor. Við hvora hjálparvél er 35 kw riðstraumsrafall og mun það nýjung í fiskibát hér. Sendir og sjálfstýring er frá Robertson, en miðunarstöð frá Kodan. Tvö sjálfvirk síldarleitartæki eru í bátnum, Simrad sildeasdic og Atlas perifon 4. 48 mílna radar er frá Kelvin Hughes. í bátnum eru íbúðir fyrir 20 menn og geta allir á þorsk og síldveiðum búið aftur í. Þá þykir kostur að í bátnum eru tvær aðskildar lestar sem eiga að geta rúmað um 2800 hl., svo að mesti hluti afla á síldveiðum getur verið undir þilfari. Jón Kjartansson er byggður hjá Kaarbös mek. verksted í Harstad, en það er stærsta skipasmíðastöð í Norður-Noregi. Fyrr á árinu hafði stöðin afgreitt til Íslands m/b Gróttu" og  Árna Magnússon og mun fljótlega á þessu ári afgreiða Höfrung III AK og nýtt skip fyrir eigendur Árna Magnússonar. Allt fyrirkomulag og vinna þykir sérlega vel af hendi leyst. Í reynsluferð fór báturinn 11,5 sjómílur og á heimleið fékk hann vont veður og reyndist prýðilega. Hann stundar nú þorskveiðar frá Eskifirði og skipstjóri í vetur verður Þorsteinn Þórisson.

Ægir. 15 janúar 1964.

 

252. Jón Kjartansson SU 111.                                     (C) Snorri Snorrason.
 
252. Eskfirðingur SU 9.                                        (C) Þorgeir Aðalgeirsson.

 



            Sex manns bjargast af Eskfirðingi SU
   Sáu skipið sökkva er þeir voru á leið um borð í Hólmaborg

Mannbjörg varð þegar 275 tonna bátur, Eskfirðingur SU 9, sökk á Héraðsflóadjúpi um áttaleytið í gærmorgun. Leki hafði komið að skipinu um tveimur klukkustundum áður og kallaði Eskfirðingur þá á aðstoð frá Hólmaborg SU 11, sem var að veiðum þar nærri. Allir skipverjarnir sex fóru síðan um borð í gúmbát þegar Hólmaborg átti skammt eftir að slysstaðnum og sökk Eskfirðingur í þann mund sem skipbrotsmenn voru að stíga um borð í Hólmaborgina. Skýrslutaka fór fram hjá sýslumanninum á Eskifirði í gærdag, en ekki er ljóst hvað olli lekanum og slysinu. Sjópróf fara fram á morgun, laugardag. Eskfirðingur lagði af stað til rækjuveiða í fyrrakvöld og var rétt ókominn á miðin þegar vart varð við lekann. Skipstjórinn, Valdimar Aðalsteinsson, hafði samband við Hólmaborg rétt fyrir klukkan 6 og tilkynnti skipstjóranum þar, Jóhanni Kristjánssyni, um lekann. Hólmaborgin, sem er 950 tonna loðnuskip, áður Eldborg frá Hafnarfírði, var þá að veiðum um sjö mílur norður af Eskfirðingi. Aukadæla var um borð í Hólmaborg og ákvað skipstjórinn að hífa strax og koma Eskfirðingi til aðstoðar.
Stuttu síðar tilkynnti Valdimar Hólmaborg að lekinn hefði minnkað og hættan því ekki jafn mikil, en hann bað skipið samt að koma með dæluna. „Ég held í átt til hans á fullri ferð og stuttu eftir það kallar hann til mín og segir að það sé kominn sjór í vélarrúm," sagði Jóhann Kristjánsson á Hólmaborg. „Þegar ég sé skipið er kominn geysilegur bakborðshalli á það og Valdimar segir við mig að hann ætli að láta mannskapinn fara í flotgalla til öryggis. Eg segi við hann að hann skuli blása út björgunarbát og hafa hann tilbúinn ef skipið skyldi velta alveg. Þegar við eigum eftir mílu á staðinn sé ég hvar þeir yfírgefa skipið og fara í björgunarbátinn. Ég kemst að björgunarbátnum, sem var alveg við skipið, og næ að setja línu í hann og draga hann frá. Síðan þegar þeir eru að fara um borð í Hólmaborg steypist skipið niður að framan og sekkur á örskammri stund."  Jóhann sagði að aðstæður hefðu ekki getað verið betri þegar slysið varð. Það hefði verið bjartviðri og norðvestan 2-3 vindstig. Slysavarnarfélagið fékk tilkynningu frá Eskfirðingi í gegnum Nesradíó um klukkan 7:30 í gærmorgun og lét sveitir félagsins á Vopnafírði og Borgarfírði eystra strax vita. Rétt um það leyti sem menn þaðan voru að leggja af stað á bátum með slökkvidælur var þeim tilkynnt að Eskfirðingur væri þegar sokkinn. Aðalsteinn Valdimarsson, eigandi og útgerðarmaður Eskfirðings, sem er faðir Valdimars skipstjóra, sagði að tryggingarverðmæti skipsins væri í kringum 100 milljónir.
Eskfirðingur SU 9 var 275 brúttólesta skip, smíðað árið 1963, en var stækkað árið 1978. Skipið hét áður Sæberg, en þar áður var það í eigu Aðalsteins Jónssonar á Eskifírði og hét þá Guðrún Þorkelsdóttir. Þess má geta að Guðrún hefði orðið 100 ára í gær, daginn sem báturinn sem eitt sinn bar nafn hennar, sökk.

Morgunblaðið. 15 júlí 1988.

Flettingar í dag: 2004
Gestir í dag: 113
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743763
Samtals gestir: 56019
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 14:00:00