05.02.2023 08:01

D.s. Laura NTJS.

Danska póst, farþega og flutningaskipið Laura var smíðað til Íslandsferða hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1882 fyrir Det Forenede Dampskibs Selskab (D.F.D.S) í Kaupmannahöfn. 1.068 brl, 689 nettó. 750 ha. 4 þennslu gufuvél. 223,0 x 26,6 x 14,1 ft (dönsk). Smíðanúmer 124. Skipinu var hleypt af stokkunum 15 júlí sama ár og tekið í notkun 6 nóvember. Laura kom fyrst hingað til Reykjavíkur þann 26 janúar 1883 og var síðan nær óslitið í ferðum hingað í 27 ár, eða þangað til skipið strandaði á skeri við Finnsstaðanes, rétt utan við Spákonufellshöfða við Skagaströnd í óveðri og hríðarbyl hinn 19 marz árið 1910 og eyðilagðist. Var skipið að koma frá Sauðárkróki og voru um 40 farþegar með því. Mannbjörg varð, og einhverju af farmi var bjargað. Lengi var Laura undir stjórn Christiansens skipstjóra, og þótti mörgum Reykvíkingum gaman á að horfa, er skipið sigldi hér út sundin á kyrrum haustkvöldum, en það var venja skipsmanna á Lauru að kveðja bæjarbúa með flugeldasýningu. Til gamans má geta þess, að reykskálinn, sem lengi var á þilfari Lauru, var augnayndi margra Reykvíkinga sem garðskáli við hús Thors Jensen hér áður fyrr, en hann mun hafa hreppt hann á uppboði á strandstaðnum nyrðra og flutt hingað suður.

Hér að neðan er grein sem Ludvig C Magnússon skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins 31 mars 1935 í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá þessum atburði. Ludvig var farþegi á Lauru ásamt móður sinni og systkinum. Þetta er greinarleg og góð lýsing á atburðum strandsins og aðdraganda þess. Greinin birtist einnig í bókinni Brim og boðar ll eftir Valdimar Jóhannsson sem kom út árið 1952.

Heimild að hluta: Guðmundur Sæmundsson.
 

Póstskipið Laura við stjóra á legunni í Klaksvík í Færeyjum. (C) Handel & Söfart museet.dk.
 
Laura á legunni í Stykkishólmi. Sér í Súgandisey til hægri. Mynd á gömlu póstkorti.



                                    „Laura“ strönduð

Klukkan hálf tólf á miðvikudaginn strandaði póstskipið Laura á skeri fyrir framan Hafnarhöfða rétt fyrir utan Skagaströnd. Mjög dimt hríðarveður var en stormur lítill, og björguðust farþegar og póstur í land, og eigi kvað vera nein bráð hætta á ferðum. Björgunarskipið Geir fór norður, og talið líklegt að hann nái Lauru út. Sagt er að maskínan í henni sé eitthvað biluð.

Þjóðólfur. 12 tbl. 18 mars 1910.
 

Laura á strandstað.                                                           (C) Evald Hemmert.



                                     „Lauru“ strandið

Björgunarskipið „Geir" kom hingað 26. f. m. og hafði eigi tekist að ná „Lauru" út, svo hún verður að algerðu strandi. Er hún brotin nokkuð og vörurnar skemdar. Geir flutti póstflutning „Lauru" og farþega, og var á meðal þeirra Sigurður bóndi Jónsson á Ystafelli og kona hans, er hingað kom til lækninga. Skipverjar komu og með Geir, nema Gottfredsen skipstjóri, er bíður eftir uppboðinu við annan mann.

Þjóðólfur. 14 tbl. 1 apríl 1910.
 

Laura á strandstað. Verið er að dæla sjó úr skipinu. Björgunarskipið Geir til vinstri. (C) Evald Hemmert.
 
Líkan af Lauru. Sjá má reykskálann aftur í skut sem Thor Jensen keypti á uppoðinu eftir strandið. (C) Handel & Söfart Museet.dk

 

                                           „Laura“ strandar
   25 ára minning eftir Ludvig C Magnússon

 

Í góðu veðri sigldi póstskipið „Laura“, eign Sameinaða danska gufuskipafjelagsins, inn Skagafjörð, þriðjudaginn 15. mars 1910, og varpaði akkerum á höfninni á Sauðárkróki. Hefði einhver látið svo um mælt daginn þann, að skjótlega myndi draga skugga fyrir heillastjörnu þessa fagra skips, og dagar þess brátt verða taldir, og þótt næsti dagur hefði ekki verið tilnefndur í því sambandi, er alveg víst, að sá, er þannig spáði, hefði vart verið talinn með öllum mjalla, því að svo var traustið á skipinu mikið, og var það síst að ófyrirsynju. Í öll þau tuttugu og átta ár, er ,,Laura“ hafði þá verið í förum hjer við land, hafði hún verið dæmalaust hepnisskip; aldrei hlekst neitt á, eða nokkurn tíma misst út mann. Geta þó allir gert sjer í hugarlund, að ósjaldan muni hafa blásið óbyrlega, er hún var hjer í vetrarferðum, og varðist áföllum í ofviðrum, með frosthörkum og blindhríðum, að ógleymdum ísnum, sem tíðara lagðist að ströndum landsins þau ár, er „Laura“ var í Íslandsferðum, heldur en hin síðari ár. Og hugdjarfir, vaskir, framúrskarandi gætnir og athugulir hafa þeir sjómenn verið, er stóðu á stjórnpalli skipsins um svo langt árabil, og stýrðu því jafnan heilu í höfn. Því var það að vonum, að margan setti hljóðan daginn eftir, er fregnin um það, að „Laura“ væri strönduð, barst út um landið. Enn einu sinni var fengin sönnun fyrir því, að allt er hverfulleikanum háð, og fáu er að fulltreysta. Er lokið var afgreiðslu „Laura“ á Sauðárkróki, var degi tekið að halla. Tilkynnt hafði verið, að þaðan mundi haldið af stað um kvöldið, og voru því allir farþegar komnir út á skipið, að afgreiðslu þess lokinni, en um það leyti fór að þykna í lofti, og mátti glögglega greina, að norðan garður var í aðsigi. Það varð því að ráði, að brottferð var frestað, og skyldi bíða birtu. Hinsvegar færði skipið sig um kvöldið af legunni, en þar hafði það legið frekar grunt, og lengra fram á fjörðinn. Margir farþegar voru með skipinu, er það kom til Sauðárkróks, og bættust þar nokkurir við í hópinn, þar á meðal var jeg, er þessar línur rita, ásamt móður minni og tveim systkinum. Var ferð okkar með skipinu heitið til Dýrafjarðar. Eins og títt hefir verið, er farþegaskip hafa legið lengi á höfnum hjer við land, var talsverður gleðskapur um borð í „Laura“ þetta kvöld.
Skröfuðu menn og skeggræddu hverir við aðra, ókunnugir jafnt sem kunnugir; aðrir settust að spilum og nokkrir tóku lagið. Flestir virtust hafa kastað af sjer hversdagslegum áhyggjum, og ekki vera kvíðafullir út af morgundeginum. Samt minnist jeg eins manns, nokkuð við aldur, er dró sig út úr gleðskapnum. Hafði hann, eftir því, sem hann skýrði frá, verið á sínum yngri árum í hákarlalegum, með Jörundi gamla í Hrísey, kunnum sjógarpi. Voru þær eigi fáar svaðilfarirnar, er maður þessi hafði lent í, en það þótti mjer merkilegast, að hann skyldi ekki vera orðinn örkumlamaður; svo oft hafði hann kalið og beinbrotnað. Vildi hann ekki að menn væru með galsa, er hann væri að hlaupa upp á norðan, því að ekki væri að vita, hvað morgundagurinn hefði að færa, og gæti þá farið svo, að kátínan færi af fólkinu. En engum datt í hug að taka mark á karli. Nokkru eftir miðnætti, var kyrrð komin á í skipinu, en þá mátti heyra, að vindinn var tekið að herða. Með birtu, miðvikudagsmorguninn 16. mars, var akkerum ljett, stefna tekin út Skagafjörð, og skyldi Höfðakaupstaður (Skagaströnd) vera næsti við komustaður. En nú var skollin á norðan stórhríð. Siglingin út fjörðinn er mjer enn vel minnisstæð, eins og raunar öll þessi för. Hélt jeg mig allmikið ofanþilja til þess að njóta þess fáa, sem sjeð varð í gegnum hríðina. Aldrei hefir mjer virst Drangey jafn stórskorin og hrikaleg og þegar jeg sá hana gnæfa út úr hríðarmökkvanum þennan óveðursmorgun. Undan Ketubjörgum færðust sjóarnir í aukana, og urðu þeir þó mestir, er farið var fyrir Skaga. Stóð vindur þá á hlið skipsins, og tók það miklar veltur, en vel varði ,,Laura“ sig þá fyrir sjóunum, eins og fyrr. Hélst jeg nú eigi lengur við á þiljum uppi, enda lítið að sjá frá skipinu, nema hríðarvegginn og freyðandi stórsjóa. Fór jeg því niður í klefa minn, en er jeg gekk í gegnum salinn, er nokkurir farþeganna lágu í, var heldur óvistlegt þar um að litast, vegna sjóveikinnar, er mjög ágerðist meðal farþeganna.
 

Spákonufellshöfði við Skagaströnd.                                                 (C) Einsi.


Eitthvað um ellefu leytið fór jeg aftur upp á þilfar. Var þá skipið á leið inn með Skaganum, vestanverðum. Veðrið hafði heldur lægt eftir því sem lengra var haldið inn með Skaga, en alltaf snjóaði jafnt og þjett. Rofaði samt til lands öðru hvoru. Fátt var af mönnum á þiljum uppi, og hypjaði jeg mig því fljótt niður aftur. Þegar jeg var staddur í miðjum stiga á niðurleið, tekur skipið allt í einu snöggan kipp; var hann svo harður, að þótt jeg þrifi um handriðið af alefli, slöngvaðist jeg niður allan stigann, eða öllu heldur rann á handriðinu niður á gólf, og hjelt mjer þar föstum. Á meðan tók skipið tvo eða þrjá aðra harða kippi, og var síðan kyrrt; lyftist aðeins öðru hvoru, hafið af heljarafli, og fjell síðan niður með öllum sínum mikla þunga, en varð þá fyrir hrottalegum árekstri, eins og það steytti á klöppum, og féll þá út á hliðina um leið. Er þessu fór fram, brakaði og brast í skipinu, ákafur titringur fór um það, og gat hver og einn ímyndað sjer, að slík feikna átök þyldi það ekki, heldur mætti eins búast við, að það liðaðist sundur þá og þegar. Eitt augnablik stóð jeg agndofa og vissi naumast hvað var að gerast. En eigi leið á löngu áður en stigagangurinn fyltist af hálfklæddu fólki, sem æddi fram og aftur, karlar, konur og börn, hvað innan um annað. Allstaðar heyrðust hróp og köll; uppsöluhljóðin breyttust í angistaróp og vein. Öllum varð nú ljóst, hvað um var að vera. „Laura“, skipið, sem aldrei hafði hlekst á, og enginn gat hugsað sjer, að gæti hlekst á, var strandað. Nú smeygðu þeir fáklæddustu sjer í einhverja leppa. Allir þyrptust að stiganum og upp á þiljur, eins og hleypt væri úr fjárrjett. Allir vildu fá vissu sína fyrir því, hvort hættan væri mikil eða lítil. Er upp á þiljur kom, blasti við geigvænleg sjón.
Allt í kring um skipið voru fossandi brimboðar, að framan voru þeir svo háir, að skvettur gengu yfir framstafninn, og teygðu sig aftur eftir borðstokkunum og þeyttu brimlöðrinu um þilfarið. Grár og drungalegur hríðarveggurinn luktist um skipið á alla vegu, nema öðru hvoru rofaði til lands. Hafnarhöfði gnæfði upp úr snjókafinu, dökkur og draugalegur, eins og illvættur, sem hefði seitt skipið til sín, og væri reiðubúinn að grípa það með klóm sínum. „Laura“ hafði steytt á flúð í víkinni innan við Finnsstaðanes, en það er spölkorn fyrir Utan Hafnarhöfða, sem Höfðakaupstaður er kenndur við. Var þá klukkan um 11.14 f. h. Strax og skipið kendi grunns, var vjelin látin taka fulla ferð aftur á bak, en ekki dugði það, „Laura“ stóð föst. Síðan var mælt dýpið í kringum skipið, við afturenda þess var nóg dýpi, en grynningar fyrir stafni. Þá var smábát skotið á flot, og lagði hann varpakkeri skamt fyrir aftan skipið. Vjelin var nú aftur látin taka fulla ferð aftur á bak, og samtímis var halað í varpakkerið á afturlestarspilinu, en ekki hjálpaði þetta, „Laura“ stóð enn föst. Var nú hætt við að reyna að ná henni af skerinu, enda var lækkandi sjór, en eimpípan þeytt um stund, ef ske kynni, að einhver á landi heyrði hljóðið, og þannig verða strandsins var. Er fyrsti felmturinn, sem gripið hafði farþega, var liðinn hjá, og allir höfðu áttað sig á því, er gerst hafði, færðist nokkur ró yfir menn, og virtist mjer sem farþegar þá yfirleitt tæki strandinu með mikilli stillingu. Munu og sumir skipverjar strax hafa reynt að frlða farþegana, og telja þeim trú um, að engin hætta væri á ferðum, og enginn þyrfti að óttast um líf og limu.
 

Finnstaðanes norðan við Skagaströnd. Þarna rétt út af víkinni gæti strandstaður Lauru hafa verið.   (C) Einsi.


Í þessu sambandi minnist jeg eins atviks. Eitt sinn, er mjer varð reikað fram hjá eldhúsinu, litlu eftir að strandið varð, rak jeg mig þar á skipstjóra og 1. vjelstjóra. Stóðu þeir við eldhúsdyrnar, drukku kaffi úr krúsum og sneiddu vænar brauðsneiðar í mestu makindum, að því er mjer virtist. Þótti mjer þetta kynlegt þá, en vel má vera að þeir hafi með þessu verið að sannfæra þá, er fram hjá fóru, um það, að ekki væri ástæða til að æðrast, og máske hafa þeir verið orðnir matarþurfi. Nú var ekkert aðhafst um stund, en ráð tekin saman um það, hvað gera skyldi. Veður hafði nokkuð lægt frá því er skipið strandaði, og einnig dregið úr briminu, er sjór lækkaði. Var og líka ekki eins dimmt af hríðinni og áður. Varð þetta strandmönnum til happs, því að ekki er að vita, hvað annars hefði skeð. Höfðu nú menn í landi orðið skipsins varir, og voru nokkrir komnir niður í víkina, skammt fyrir innan strandstaðinn, en ekki freistuðu þeir að brjótast út í skipið, enda hefði tilraun í þá átt vafalaust orðið að slysi. Er tímabært þótti að reyna að ná einhvers staðar landi, áður en náttmyrkrið færðist yfir, var fyrsta björgunarbát skipsins skotið á flot, en ekki gerði það aðstöðuna hægari, að nú var ,,Laura“ farin að hallast töfuvert, sökum sjávarútfallsins, og nokkuð var hún orðin yfirísuð. Voru nú allir komnir í skjólföt sín, og eins vel fataðir og hver og einn átti kost á. Allir voru rólegir, enginn nöldraði, heldur var auðsjeð, að hver og einn var tilbúinn að mæta því, er verða vildi. Það fór því allt mjög skipulega fram, og algjörlega slysalaust, að koma fólkinu niður í bátinn, þótt illa Ijeti hann við skipshliðlna. Meðal margra annara lenti jeg í þessum bát, móðir mín og systkini. Man jeg það enn, hvað móðir mín gladdist yfir því, að við skyldum öll fá að vera saman. Nú var lagt af stað frá skipinu, og stýrimaður skipsins tók við stjórn bátsins. Þegar báturinn var kominn spölkorn frá „Laura“, veifuðu bátsverjar í kveðjuskyni til þeirra, er eftir voru í skipinu, og guldu þeir í sömu mynt. Nú var tekinn barningur og róið djúpt af strandstaðnum, síðan stýrt fyrir Hafnarhöfða í áttina á Hólanes, því að þar skyldi reynt að ná landi.
Eins og að líkum lætur, sóttist róðurinn frekar seint, og þótt lítið gæfi á bátinn, sem fór ágætlega í sjó, þá sótti kuldi að þeim, er ekki gátu hitað sjer við árarnar. Sumum leið því sárilla, sjerstaklega þeim, er harðast höfðu verið leiknir af sjóveiki um nóttina, og voru því illa fyrir kallaðir í ofanálag að takast á hendur ferð á opnum smábát í slæmu veðri um hávetur, en aðdáunarvert var það, hvað þeir gerðu sjer far um að láta lítið á þjáningum sínum bera. Er komið var að Hólanesi, var dokað við um stund til þess að sjá, hvort gerlegt væri að lenda þar. Ókyrt var við ströndina, og varð því að sæta lagi. Var nú hamlað aftur á bak upp í kvikuna á meðan beðið var og snúið stefni að landi. Eftir drykklanga stund kallar stýrimaður: „Verið viðbúnir“. Og augnabliki síðar hrópar hann: „Róið fram“ Tóku nú ræðarar þjett í árarnar, og reru brimróðurinn þar til er báturinn stóð í fjörunni. En þá var líka lagið búið, fyrsta ólagið náði bátnum, er hann tók niðri, og kastaði honum flötum í flæðarmálinu, og þótt margar hendur væru viðbúnar í fjörunni til að taka á móti bátnum, er hann lenti, og veita strandmönnum alla aðstoð sína, blotnuðu samt flestir þeirra, er í bátnum voru, og rennvotir urðu þeir, er best gengu fram í því að varna þess, að báturinn hallaðist fram í kvikuna. Tókst það giftusamlega, og komust skipbrotsmenn óskaddaðir á land upp. Eftir atvikum má því segja, að ferðin til lands í björgunarbátnum hafi farið betur en áhorfðist í fyrstu, og svo varð einnig með alla bátana frá „Laura“. Lentu hinir bátarnir hjá Höfðakaupstað og skiluðu öllum heilum á land um kvöldið. Talið var, að farþegarnir hefðu verið alls um fjörutíu. Og er skipverjar voru meðtaldir, voru það eitthvað milli 60 og 70 manns, ,er bjargast höfðu á land.

Lesbók Morgunblaðsins. 31 mars 1935.
25 ára minning skráð af Ludvig C. Magnússyni
sem var farþegi með Lauru.

Flettingar í dag: 1853
Gestir í dag: 104
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743612
Samtals gestir: 56010
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:55:06